Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 14:29:21 (2303)

1996-12-17 14:29:21# 121. lþ. 47.12 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[14:29]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (frh.):

Herra forseti. Í gær byrjaði ég að fjalla um og gerði grein fyrir minnihlutaáliti efh.- og viðskn. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallað bandormsfrv. Að þessu áliti standa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. en auk mín undirrita nál. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir, sem sat þá á þingi, og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Að okkar mati eru meginþættir í frv. sem marka efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar rangir. Ég fjallaði í gær nokkuð um þætti sem tengdust menntamálum og gagnrýndi þá skerðingu sem hefur átt sér stað á framlögum til Þjóðarbókhlöðu. Einnig gerði ég ítarlega að umtalsefni svokallaðan fallskatt hæstv. menntmrh., Björns Bjarnasonar, en við í stjórnarandstöðunni leggjumst mjög harkalega gegn þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í þessu frv. Við teljum að menntastefna ríkisstjórnarinnar sé röng í grundvallaratriðum og það hefði þurft að efla mjög bæði stefnumörkun og framlög til menntamála en það er ekki gert í þessu frv. né öðrum sem hafa verið lögð fyrir á hinu háa Alþingi. Þetta er eitt alvarlegasta ágreiningsefni milli stjórnar og stjórnarandstöðu á þessu þingi, það er afstaðan til menntamála. Við höfum séð minnkun á framlögum til þessa málaflokks, bæði á sl. ári og þessu ári og sá hlutur sem nokkur aukning verður á er tiltölulega lítill. Benda má einmitt á í sambandi við þennan málaflokk þær fréttir sem voru í blöðunum um handrit sem liggja undir skemmdum vegna fjárskorts að mati þeirra manna sem til þekkja. Þetta er vitaskuld alvarlegt og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að reyna að taka á því máli þannig að samstaða gæti þá skapast um að gera viðgerð á handritum og öðrum fornum skjölum þannig úr garði að þau geymist vel til framtíðar og sé sýnd sú virðing sem þeim ber.

Ég gerði einnig aðeins að umtalsefni í gær þann málaflokk sem tengist félmrn., þ.e. skerðingu á framlögum til málefna fatlaðra. Þar er mikill niðurskurður til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, eyrnamerktur tekjustofn, skertur verulega og jafnframt er skert til málefna geðfatlaðra.

Nú erum við svo lánsamir, herra forseti, að hæstv. fjmrh. er hér í salnum því komið var að því í ræðu minni í gær að ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um tiltekið efni sem kemur fram í minnihlutaáliti félmn. og er tekið upp í nál. minni hluta efh.- og viðskn. Í minnihlutaáliti félmn. segir:

,,Minni hlutinn bendir jafnframt á að samkvæmt 39. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, er fimm ára átak í gangi varðandi byggingu sambýla fyrir geðfatlaða. Engar upplýsingar er að finna um fimmtu og síðustu greiðslu til þessarar uppbyggingar fyrir geðfatlaða sem Alþingi ákvað fyrir fimm árum. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 var sérstaklega tilgreind 20 millj. kr. fjárveiting úr ríkissjóði og að hún væri sú fjórða af fimm.``

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig standi á þessu því svo virðist vera að skert séu framlög sem búið var að lofa til málefna fatlaðra. Eins og ég skil minnihlutaálit félmn. hefur verið unnið eftir sérstakri áætlun, fimm ára áætlun og úr því að fjórða greiðsla af fimm var tilgreind við síðustu fjárlög, þá sé ég ekki hvernig hægt er að komast hjá að inna af hendi lokagreiðsluna varðandi þennan málaflokk. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra skýri þetta, því ég átta mig ekki á hvort hér sé um að ræða hefðbundin niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar eða hvort eitthvað annað er á ferðinni. Alla vega kveður minni hluti félmn. mjög fast að orði um þennan málaflokk og ég sé enga ástæðu til annars en að taka undir þær röksemdir sem þar eru.

Einnig er í þessu frv. kveðið á um breytingar í starfsmenntun í atvinnulífinu og þar eru gerðar mjög varhugaverðar breytingar að mati minni hluta efh.- og viðskn. Starfsmenntun í atvinnulífinu er mjög merk umsýsla á vegum hins opinbera í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, bæði vinnuveitendur og verkalýðsfélög. Þetta hefur verið í ágætum farvegi að mörgu leyti en nú er þetta allt sett í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er merkilegt við þá útfærslu vegna þess að starfsmenntun útheimtir mjög mikla samvinnu bæði vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. Ég hef ekkert á móti því að gerðar séu breytingar á þessum málaflokki ef hlutir mega betur fara, en þegar báðir aðilar vinnumarkaðarins, bæði Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið leggjast mjög hatrammlega gegn þessari breytingu á starfsmenntun í atvinnulífinu, þá finnst mér að ríkisstjórnin sé komin út í ógöngur hvað þennan mikilvæga málaflokk snertir. Það kemur fram í áliti minni hluta félmn. hörð gagnrýni á þennan þátt, sem minni hluti efh.- og viðskn. tekur undir. Við bendum á nauðsyn samráðs varðandi þennan málaflokk, en einnig drögum við í minnihlutaáliti okkar mjög skýrt fram einn þátt sem veldur okkur áhyggjum. Það er atvinnuþátttaka kvenna sem hefur hingað til verið styrkt m.a. í gegnum sjóð innan félmrn. og sú útfærsla hefur reynst vel að mati þeirra sem að því máli hafa komið. Nú er þetta fellt undir Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að því verði gerð skil að þessum mikilvæga málaflokki verði sýndur sá sómi sem nauðsyn ber. Við leggjumst mjög harkalega gegn þessu og við viljum benda á, herra forseti, að einmitt atvinnuþátttaka kvenna er mjög mikilvæg í hagvexti framtíðarinnar. Rannsóknir hafa sýnt að bæði í Evrópu og Bandaríkjunum --- þetta er einkum áberandi fyrir Bandaríkin --- að smærri fyrirtæki, stjórnuð af konum, hafa sýnt mesta aukningu undanfarin missiri. Sóknin er mest á þessu sviði, þ.e. smáfyrirtæki sem konur stýra. Hér á landi hefur þessum málum ekki verið gefinn nægjanlegur gaumur hvorki með framlögum eða stuðningi, og í umræðu ekki nema að litlu leyti. Við gagnrýnum þá aðkomu að málinu.

Við teljum í minni hlutanum að leggja þurfi miklu meiri áherslu af opinberri hálfu til að stuðla að framgangi smærri fyrirtækja. Það er hægt að gera með ýmsu móti, bæði með skattaráðstöfunum, með stuðningi við rannsóknir og á mörgum öðrum sviðum. Það eru fjölmörg nágrannalönd okkar sem gera það. En í stað þess einblínir ríkisstjórnin alltaf á hagsmuni hinna stærri fyrirtækja við útfærslu á stefnu sinni. Þetta höfum við gagnrýnt og bendum sérstaklega á að þetta er að koma niður á frumkvæði kvenna í atvinnulífinu. Það er ekki gott mál.

Aukin þátttaka kvenna í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu er mjög veigamikið skref til jafnréttis. Og þegar verið er að tala um ,,undir stjórn kvenna`` þá er það ekki einungis að konur stjórni þessum minni fyrirtækjum í Bandaríkjunum, eins og ég lýsti áðan, heldur eru þær eigendur. Í nágrannalöndunum er því mjög merkileg þróun að eiga sér stað, sem við eigum að styðja en við gerum þvert á móti, þ.e. ríkisstjórnin fer þveröfuga leið. Hún stefnir í hættu þeim stuðningi, sem þessi málaflokkur þó hefur og rífur málið úr þeim farvegi sem það er í og er það mjög ámælisvert að okkar mati.

Það er fjallað nokkuð mikið um heilbrigðismál í bandorminum. Sú útfærsla hefur mikla sérstöðu vegna þess að þær lagagreinar sem settar voru inn í bandorminn hafa nánast ekkert eða mjög lítið með tekjuöflun fyrir fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar að gera. Hér er enn og aftur verið að smygla inn í bandormsfrv. við afgreiðslu fjárlaga ákvæðum sem eiga heima í sérstöku frv. og varða stefnumörkun til langs tíma. Þetta kemur mjög skýrt fram um þær auknu heimildir sem á að lögfesta til heilbrrh. í frv. Þannig er gert ráð fyrir að heimilað verði að sameina stofnanir, breyta skiptingu heilsugæsluumdæma og starfssvæði heilsugæslustöðva. Ráðherra verður einnig heimilt með reglugerð að setja ákvæði um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu og hann getur einnig ákveðið sameiningu sjúkrastofnana. Og það er augljóst af þessari upptalningu að hér er um að ræða mjög rúmar heimildir til hæstv. ráðherra hvað þennan málaflokk snertir. Það er ekki gert ráð fyrir neinu sérstöku samráði við beitingu þessara víðtæku heimilda. Það á að hafa samráð við Samband sveitarfélaga en það er ekki gert ráð fyrir t.d. samráði við stéttarfélög eða starfsfólk. Nei, hér er heilbrrh. og ríkisstjórnin að ná sér í viðamiklar heimildir til endurskipulagningar á heilbrigðiskerfinu eftir sínu höfði án þess að koma fram með þá stefnumörkun á þinginu og mæta stjórnarandstöðunni þá í pólitískri umræðu um það efni.

Nú efa ég ekki, herra forseti, að mjög mörgu mætti breyta til batnaðar í heilbrigðiskerfinu. Ég held að skýr ákvæði um forgangsröðun sé e.t.v. það brýnasta og langt mál mætti hafa um þennan þátt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stefnan undanfarin ár hafi verið fyrst og fremst fólgin í því að skera niður í heilbrigðisþjónustunni án þess að minnka þjónustuna og án þess að forgangsraða. Þessi stefna er búin að ganga sér gersamlega til húðar og er svo komið að menn vita ekki sitt rjúkandi ráð varðandi þessa þætti. Það er hægt að vitna m.a. í viðtal við hjúkrunarforstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur í Morgunblaðinu í dag þar sem hann hefur verulegar áhyggjur af lokun deilda nú yfir hátíðarnar og segir einmitt lítinn sparnað felast í þessu.

Það er hægt að nefna annað dæmi, lokun aðstöðu eða hluta af aðstöðu í Arnarholti á Kjalarnesi sem er ámælisverð framkoma gagnvart þeim einstaklingum sem þar eiga hlut að máli, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Þetta hefur í reynd ekki í för með sér neinn sparnað. Ríkisstjórnin er komin út í ógöngur í heilbrigðismálunum. Þá er það algerlega röng stefna, herra forseti, að mæta því þannig að ríkisstjórnin eða heilbrrh. fái svo víðtækar heimildir, óútfyllta ávísun eða blankótékka til að fara með allan þennan málaflokk. Þá ætti heilbrrh. að leggja fyrir sína stefnu og ef hún er vel grunduð er vel hugsanlegt að stjórnarandstaðan --- ég hef ekki nokkra trú á öðru --- mundi styðja þá þætti sem hún teldi horfa til bóta. Þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur og það má ekki gera það á þann hátt sem hér er lagt til. Og mig langar, herra forseti, að vitna til minnihlutaálits heilbr.- og trn. en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Vinnuaðferð ríkisstjórnarinnar endurspegla því augljóslega að hún óttast umræðu um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Það segir sína sögu um eðli þeirra.

Sérstök athygli er vakin á því að heilbrigðisþjónustukaflinn sker sig úr að því leyti að ekki er að finna annars staðar viðlíka efnisbreytingar á gildandi lögum í frv. Þá er hér um víðtækt framsal að ræða til ráðherra.``

Af þessum orðum minni hluta heilbr.- og trn. má vera ljóst að þessi ákvæði í bandorminum eiga ekki við fjárlagaafgreiðsu á þessu þingi og hefði þurft aðra aðkomu að því máli. Við höfum líka óskað eftir því að sjá hvernig niðurskurður á spítölunum verður útfærður, en gert er ráð fyrir að spara um 160 millj. kr. á næsta ári á þessum lið, og hvaða sjúkrastofnanir komi til með að lenda undir. Við höfum líka óskað eftir að fá að vita hvernig ráðherra ætlar að fara með það aukna vald sem honum er ætlað með þessu frv. en það hefur orðið lítið um svör.

Það hefur hins vegar verið upplýst að niðurskurður hvað varðar spítalana, eða ég hef skilið það þannig, muni liggja fyrir áður en 3. umr. málsins fer fram, en það má geta þess að efh.- og viðskn. hefur ákveðið að taka frv. aftur inn í nefndina milli 2. og 3. umr. sem er ekki algilt um afgreiðslu mála.

[14:45]

Stjórnarandstaðan og reyndar aðrir aðilar náðu þó fram einum þætti varðandi þetta bandormsfrv. Í upprunalega frv. var gert ráð fyrir að menn þyrftu að greiða sérstakt áfrýjunargjald við málarekstur við Samkeppnisstofnun eða samkeppnisráð. Ef menn áfrýjuðu úrskurði samkeppnisráðs hefðu menn þurft að greiða 120 þús. kr. áfrýjunargjald. Þetta töldum við strax við 1. umr. orka mjög tvímælis. Þetta er vitaskuld há upphæð og einnig töldum við að hér væri e.t.v. verið að hindra möguleika einstaklinga og fyrirtækja í að fá fullnaðarúrskurð í sínu máli og það væri hægt að líta á þetta sem hindrun á eðlilegri málsmeðferð. Þessar athugasemdir komu reyndar fram hjá fleirum en stjórnarandstöðunni og niðurstaðan varð að þarna sá meiri hlutinn ljósið og ákvað að fella niður þessa grein. Að vísu náði hún inn þeim tekjum annars staðar með smávægilegri hlutfallsbreytingu á öðrum lögum þannig að þessi breyting þýðir ekki tekjutap fyrir ríkissjóð vegna þess að í öðru frv. sem við höfum þegar afgreitt, var prósentuhlutfall hækkað upp þannig að það komu inn aðeins meiri tekjur í ríkissjóð. Þetta átti nú ekki að skila miklum tekjum.

Mikilvægt ákvæði í hugum mjög margra, sérstaklega þó þingmanna á landsbyggðinni, var sú fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að ríkið hætti að greiða fyrir eyðingu refs. Ríkið tekur þátt í því með sveitarfélögunum að greiða fyrir eyðingu refs eftir tilteknum reglum. Ríkið hugsaði sér að hætta afskiptum af því máli og láta sveitarfélögin alveg um það. Þetta var rætt töluvert við 1. umr. og fyrir liggja umsagnir umhvn. varðandi þann þátt að menn telja að þetta þurfi að skoðast aðeins betur, t.d út frá líffræðilegum ástæðum fyrir þessum ofsóknum á hendur rebba. Sumir telja að hann sé orðinn slíkur vargur að það beri að leggja sérstaka áherslu á útrýmingu hans. Aðrir segja og færa fyrir því rök að þessar veiðar hafi ekkert að segja varðandi stofnstærð refsins. Ég treysti mér ekki til þess að fella dóm um þetta. Það eru fjölmargir refasérfræðingar í þingsölum og þeir geta tjáð sig betur um þann þátt málsins. En niðurstaðan varð sú að við skildum meiri hlutann þannig að hann mundi leggja fram sérstakar tillögur varðandi þennan lið við 3. umr. Við drögum hins vegar sérstaklega fram að það þarf að kanna þetta mál betur, bæði hvað viðvíkur rannsóknum og ekki hvað síst samvinnu við sveitarfélögin við útfærslu málsins. Þetta hefði þurft að vinna betur og stefnumörkun hefði þurft að liggja skýrar fyrir.

Það er rétt að upplýsa, herra forseti, að bandormurinn sem tekur á breytingum á mjög mörgum lögum dugði ríkisstjórninni ekki því að núna er í undirbúningi nýtt lagafrv. sem varðar breytingar á nokkrum lögum til viðbótar sem tengjast afgreiðslu fjárlaga. Þetta frv. sem er í smíðum gengur undir vinnuheitinu skröltormur. Það er orðin lenska hjá þessari ríkisstjórn að leggja bæði fram bandorm og skröltorm á haustþingum. Hún gerði þetta í fyrravetur og gerir þetta aftur núna. Auðvitað er það ekki dæmi um annað en slök vinnubrögð að menn geti ekki komið fram með vönduð lagafrumörp um breytingar á einstökum lagagreinum heldur þurfi að skella saman í eitt frv. brtt. við fjölmörg lög við afgreiðslu fjárlaga. Þetta eru ekki góð vinnubrögð gagnvart löggjafarvaldinu. Þau hafa tíðkast nokkuð lengi en eru jafngagnrýniverð fyrir því.

Þess má geta að minni hlutinn óskaði eftir að vita nánar um áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð til að mæta þenslu í þjóðélaginu vegna álvers og virkjunarframkvæmda. Við höfum ekki fengið nánari upplýsingar um hvar ríkisstjórnin hyggst skera niður á næsta ári. Mér skilst að meiri hluta efh.- og viðskn. og stjórnarmeirihlutinn hafi ekki náð niðurstöðu um útfærslu þess efnis. Ef svo er þá gæti verið gott að upplýsa nákvæmlega um það. Fyrir liggja nokkrar ákvarðanir eins og t.d. frestun á framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli við Leifsstöð og frestun á uppstokkun fjármála tengdri flugstöðinni, en mér skilst að það sé meira í farvatninu sem á líka að kalla á samdrátt hjá sveitarfélögum, sérstaklega á suðvesturhorninu. Mér er ekki kunnugt um að nauðynlegt samráð hafi átt sér stað við forsvarsmenn sveitarfélaganna hér, hvorki við Reykjavíkurborg né aðra á suðvesturhorninu varðandi þennan þátt málsins. Óska ég nú eftir því að stjórnarliðar upplýstu betur um þann þátt málsins, en ég vil ekki dæma um þetta hér vegna þess að stefna ríkisstjórnarinnar varðandi þann þátt liggur ekki fyrir.

Við teljum eitt vera mjög ámælisvert, bæði við afgreiðslu bandormsins og fjárlagafrv. sem er eitt af aðalatriðunum í tekjustefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. hækkun atvinnuleysisbóta, ellilífeyris og bóta úr almenna tryggingakerfinu, örorkubóta og fleiri þátta, um 2%. Þeir eru ákveðnir núna í fjárlögum og taka samkvæmt fjárlögum núna 2% hækkun. Þetta var áður þannig að miðað var við breytingar á launum innan ársins. Tekist var á um þetta fyrir ári síðan. Þá lagði ríkisstjórnin til að gera þessar breytingar í fjárögum hverju sinni, lofaði því þá statt og stöðugt að ekki yrði um að ræða skerðingu á hlut ellilífeyrisþega og örorkuþega, heldur væru það eðlilegar viðmiðanir að hætta að miða við sjálfvirkar breytingar sem ættu sér stað í þjóðfélaginu. Nú kemur hins vegar í ljós að með þessari 2% hækkun er búið að festa hækkunina fyrir næsta ár og það er ekki ólíklegt að launahækkanir eigi eftir að verða meiri en 2% á næsta ári og þá sitja ellilífeyrisþegar og örorkuþegar eftir með sárt ennið. Þetta finnst okkur óhæfa og vera mjög gagnrýnisvert í stefnu ríkisstjórnarinnar. Við munum flytja tillögu um breytingu þessa, reyndar ekki við þetta frv. heldur við skröltorminn sem ég sagði frá áðan vegna þess að þar verða gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar og breytingartillagan varðar þann málaflokk. Við leggjum þunga áherslu á að þessi mál verði færð aftur til fyrra horfs, þ.e. að miða bætur úr almannatrygingkerfinu við launabreytingar. Það er eðlilegt og sanngjarnt gagnvart fólki sem fær bætur úr þessu kerfi.

Frv. gerir ráð fyrir sparnaði í útgjöldum ríkisins um 1,6 milljarða kr. Okkur finnst eins og ég hef rakið hér, að mjög mörg af þessum sparnaðaráformum ríkisstjórnarinnr orki tvímælis. Það er mikill niðurskurður í samgöngumálum í frv., en það eru einkum málaflokkar á sviði heilbrigðis-, mennta- og félagsmála sem verða fyrir barðinu á ríkisstjórninni. Við í minni hlutanum erum andvíg þessari stefnu ríkisstjórnarinnar í grundvallaratriðum. Við höfum tekist á í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, en 2. umr. fjárlaga er lokið. Við tökumst á varðandi þetta bandormsfrv. og munum gera það í lánsfjárlögum sem koma til umræðu væntanlega síðar í dag. Við höfum verið sjálfum okkur samkvæm varðandi það að sumt sem ríkisstjórnin leggur til í einstökum þáttum er vitaskuld til bóta og við höfum stutt sumt af því sem kemur fram bæði í fjárlögum og í öðrum frv. ríkisstjórnarinnar. En meginþætti stefnu hennar teljum við vera fjandsamlega einstaklingum í landinu, ekki horfa til framtíðar og koma harkalega niður á þeim landsmönnum sem minna mega sín. Við erum andvíg þessari stefnu ríkisstjórnarinnar í grundvallaratriðum.