Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 14:54:30 (2304)

1996-12-17 14:54:30# 121. lþ. 47.12 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[14:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend upp til þess að andmæla því sem hv. þm. sagði um 1. og 2. gr. frv. Hann gaf til kynna að Endurbótasjóð menningarbygginga mætti nota til að styrkja rekstur Þjóðarbókhlöðunnar. Þetta er alrangt. Lögum samkvæmt er ekki hægt að nota sjóðinn í þessum tilgangi. Við fjárlagagerð að þessu sinni var hins vegar lagt til að rekstrarframlag til Þjóðarbókhlöðu ykist um 15,6 millj. kr., en nú var samþykkt við 2. umr. fjárlaga á laugardaginn að auka fjárveitingar vegna ritakaupa Þjóðarbókhlöðunnar um 12 millj. kr. Ég held að með engu móti sé unnt að segja annað en að með þessu sé hugað vel að málum Þjóðarbókhlöðunnar.

Allt sem hv. þm. sagði um svonefndan fallskatt er alrangt. Það virðist sem svo að þingmaðurinn hafi ekki áttað sig á þeim brtt. sem ég kynnti eða voru sendar hv. efh.- og viðskn. þar sem fram kemur það sem áður lá raunar ljóst fyrir að hér er um endurinnritunargjald að ræða miðað við það að menn standist ekki ákveðna áfanga í námi eins og þeir hafa ætlað sér að gera. Það er því alrangt að leggja þetta upp eins og hv. þm. gerði og er raunar furðulegt að hann skuli hafa eytt jafnmiklu púðri á þetta mál miðað við þær röngu forsendur sem hann gaf sér. Og hann gaf sér meira að segja þær forsendur að lesa úr áliti minni hluta menntmn. sem var gefið áður en þær tillögur lágu fyrir sem nú eru í frv. og það er til marks um að hv. þm. var ekki vandur að virðingu sinni þegar hann ræddi um þetta mál, því að hér er ekki um það að ræða að ganga gegn þeim sem minna mega sín í skólakerfinu heldur er verið að koma á þessu skipulagi sem ég hef lýst til þess að auka hagræðingu og bæta skipulag í skólunum.