Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 14:59:13 (2306)

1996-12-17 14:59:13# 121. lþ. 47.12 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[14:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Öll ráðstöfun á fé úr Endurbótasjóði rennur til menningarstarfsemi. Hún rennur til uppbyggingar á menningarmannvirkjum og til þess að styrkja menningarstofnanir en samkvæmt lögum um sjóðinn er ekki unnt að veita fé úr honum til rekstrar.

Breytingin varðandi endurinnritunargjaldið tekur mið af þeirri útfærslu sem að mati menntmrn. stuðlar að aðhaldi við skipulagningu í kennslu á hverjum tíma í skólanum. Þannig er gert ráð fyrir að framkvæmd innheimtu og eftirlits verði eins einföld og greið og kostur er um leið og tekið er tillit til nemenda sem eiga við námsörðugleika að stríða með því að ákveðinn fjöldi eininga verði undanþeginn gjaldskyldu að teknu tilliti til mismunandi möguleika nemenda til að hafa áhrif á umfang náms á hverri önn eftir því hvort þeir stunda nám í skólum sem starfa eftir áfangakerfi eða bekkjakerfisskólum. Ráðuneytinu þykir eðlilegt að miða við 12 einingar í skólum sem starfa eftir áfangakerfi og 15 einingar í bekkjakerfisskólum. Í skólum sem starfa eftir áfangakerfi miðist gjaldstofn við fjölda ólokinna eininga á síðustu önn en fjöldi ólokinna eininga er samanlagður einingafjöldi þeirra áfanga sem nemandi hefur skráð sig í að frádregnum samanlögðum einingafjölda þeirra áfanga sem nemandi hefur staðist. En áður en þetta er reiknað er gert ráð fyrir því að 12 einingar verði dregnar frá samanlögðum einingafjölda sem kemur þá til móts við á sem eiga undir högg að sækja í námi ef þannig má að orði komast. Það er því með engu móti hægt að halda því fram að með þessari gjaldtöku sé verið að vega að þeim sem eru minni máttar í skólakerfinu eða að skapa þeim sérstaka erfiðleika sem eiga erfitt með nám, því er um að ræða sanngjarna kröfu til nemenda um að þeir skipuleggi nám sitt vel. Og geri þeir það ekki þá bera þeir nokkuð af þeim kostnaði sem af því hlýst að námið fer úrskeiðis.