Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 16:20:50 (2310)

1996-12-17 16:20:50# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[16:20]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Þau þrjú frumvörp sem hér eru til 2. umr. skarast að verulegu leyti að efni og innihaldi og einnig formi. Að því leytinu til er fullkomlega eðlilegt að þau séu hér rædd undir einum og sama hattinum. Hér er um geysilega viðurhlutamikil mál að ræða, fjölþætt og flókin, sem lúta að því landslagi sem við erum að búa okkur í þessum þætti samgöngumála sem eru fjarskiptamál og póstþjónusta. Raunar er skörunin á milli fjarskiptamála annars vegar og póstþjónustu hins vegar einnig umtalsverð. Það þekkja auðvitað notendur og nægir í því sambandi að nefna faxið annars vegar og tölvupóst hins vegar. Þar er það skilgreiningaratriði hvort um er að ræða póstsendingar í hefðbundnum skilningi þess orðs eða fjarskipti eins og þau eru skilgreind. En þetta er auðvitað aðeins örlítill hluti af þeim fjöldamörgu álitamálum sem uppi eru, ekki eingöngu hér á landi heldur hafa verið um síðari ár í allri Evrópu og eru enn.

Sannleikurinn er auðvitað sá að vandinn er ekki síst sá að fæstir telja sig til þess búna að geta spáð um þróun í framtíðinni í þessum efnum, þ.e. nýjungarnar nánast vakna á degi hverjum. Það sem var nýtt í gær er gamalt í dag. Það gerir það að verkum að löggjöf af þeim toga sem hér um ræðir hlýtur auðvitað að kalla á mjög vönduð vinnubrögð, þar sem menn reyna eins og kostur er að skyggnast inn í framtíð og reyna að búa þannig um hnúta að þessi löggjöf geti staðist tímans tönn. Þess vegna vil ég segja í upphafi þessarar umræðu að ég hef af því áhyggjur að þau frumvörp sem hér um ræðir geri það ekki. Ástæðan er af mörgum toga sem ég mun gera grein fyrir á eftir með nokkrum dæmum. En meginatriðið er það að ég hygg að bæði frumvarpshöfundar, hæstv. samgrh. sjálfur og einnig samgn., hefðu þurft að læra eilítið af mistökum sl. vors --- og þá gengur hæstv. samgrh. á dyr eðlilega --- þegar Póstur og sími var hlutafélagavæddur með miklum látum og þrátt fyrir skýr dæmi og skýrar röksemdir stjórnarandstæðinga um ýmis atriði sem þar hefðu betur mátt fara.

Þar hefur reynslan auðvitað sýnt okkur að hv. stjórnarandstæðingar höfðu rétt fyrir sér. Hæstv. samgrh. og menn hans í undirbúningsnefnd að hlutafélagavæðingu Pósts og síma, sem tekur formlega gildi núna 1. janúar, hafa lent í ýmsum hremmingum og erfiðleikum. Ég held að áður en við gerum formlega grein fyrir álitamálum sem uppi eru og áhersluatriðum sem minni hluti samgn. hefur uppi um þessi þrjú frumvörp sé óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um aðdraganda þessarar lagasetningar, þ.e. hlutafélagavæðingu Pósts og síma eins og hún var frá gengin sl. vor. Þá bentum við stjórnarandstæðingar á að að sumu leyti væri öfugt í málið farið og það væri fullkomlega óeðlilegt að taka sjálfstæða og einangraða ákvörðun um hlutafélagavæðingu Pósts og síma og hlutverk þess stóra fyrirtækis í fjarskiptaheiminum og í póstþjónustu hér á landi, þegar allir vissu, og viðurkennt var í þessum ræðustól af hálfu minnihluta- og merihlutamanna, að veigamiklar breytingar yrðu óhjákvæmilega á starfsemi þessa fyrirtækis sem ég sagði að hefði gegnt hér stóru hlutverki og veigamiklu í póstþjónustu og fjarskiptaþjónustu til margra áratuga en ekki síður vegna þess að hér er um að ræða eitt stærsta ríkisfyrirtæki í landinu og með stærri fyrirtækjum í landinu, fyrirtæki sem telur um það bil 2.500 starfsmenn. Þess vegna vil ég greina frá því hér, virðulegi forseti, að í framhaldi af orðaskiptum sem ég átti við hæstv. samgrh. á dögunum í utandagskrárumræðu um ýmsar kerfisbreytingar á því fyrirtæki, ýmsar breytingar á þjónustu þess, þá einkanlega úti á landi, boðaði ég að ég mundi fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann gerði þingheimi grein fyrir framgangi þeirra mála, undirbúningi að hlutafélagavæðingu, eins og hann hafði gefið fyrirheit um við umræðuna sl. vor og enn fremur hv. formaður samgn., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Hann hefur reynt að uppfylla það, sá síðarnefndi, með því að kalla til skrafs og ráðagerða fulltrúa starfsmanna og forsvarsmenn Póst- og símamálastofnunar og samgn. hefur átt gagnlegar og ítarlegar viðræður við þá aðila á nefndarfundum.

Hæstv. ráðherra hefur hins vegar ekki látið svo lítið að koma upplýsingapunktum á framfæri við þingheim, hv. þingmenn, um þróun þessara mála enda þótt í fjölmiðlum og annars staðar hafi komið mjög skýrt fram að óánægja er kraumandi undir niðri, áhyggjur sívaxandi af hálfu fjölmargra starfsmanna um það hvað í raun taki við um áramótin. Þess vegna hefur þingflokkur jafnaðarmanna, í samræmi við heimild í þingsköpum, lagt drög að því að óska eftir skýrslu samgrh. um þessi efni. Skýrslubeiðninni verður væntanlega dreift á næstu mínútum eða klukkustundum, þar sem þess er farið á leit við hæstv. ráðherra að hann geri þingheimi grein fyrir því hver þróun þessara mála hefur verið. Spurningar á borð við þær hvort öllum starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar hafi verið boðið starf hjá Pósti og síma hf. og ef ekki, þá hvers vegna og hversu margir fengu ekki slíkt tilboð. Spurningar á borð við þær hvort það hafi verið gerðir starfslokasamningar við marga starfsmenn Póst- og símamálastofnunar og ef svo er, við hvað marga, hverja og hvers vegna. Einnig hvert var innihald þessara samninga. Ég hef upplýsingar um það að samningar sem hafa verið gerðir við nokkra starfsmenn Póst- og símamálastofnunar af þessum toga hafa m.a. falið í sér að þessir aðilar voru knúnir til þess að lýsa því yfir í slíkum starfslokasamningum að þeir tækju ekki upp störf hjá væntanlegum samkeppnisaðilum innan tiltekins tíma. Ef svo er, þá munum við óska upplýsinga um það.

Þess verður líka farið á leit við hæstv. samgrh. að hann geri þingheimi grein fyrir því hversu margir starfsmenn hafi undirritað nýja ráðningarsamninga, með öðrum orðum hversu margir af þessum 2.500 starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar verða starfsmenn Pósts og síma hf. upp á punkt og prik þegar nýársdagur rennur upp. Einnig verður óskað upplýsinga um það hvort einhverjar breytingar hafi orðið á högum og kjörum þessara starfsmanna hlutafélagsins og þá einkanlega er kallað eftir því hvort undirbúningsnefndin, umboðsmenn hæstv. ráðherra hafi verið að gera breytingar á högum og kjörum yfirmanna fyrirtækisins. Um þetta er spurt vegna þess að reglan fremur en undantekningin erlendis þegar slíkar kerfisbreytingar eiga sér stað hefur leitt í ljós að hagur yfirmannanna batnar til mikilla muna, laun þeirra og önnur kjör snarhækka stundum, tvöfaldast og þrefaldast stundum. Það eru dæmi um slíkt. Og það er auðvitað ekki ástæða til að ætla annað í fljótu bragði en að sama þróun eigi sér stað hér og þess vegna er nauðsynlegt að fá þetta upp á borð líka.

[16:30]

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fara örlítið yfir þennan þátt mála því hann er undanfari þeirra frv. sem eru hér til umræðu og ég bið virðulegan forseta að hafa eilitla biðlund meðan ég fer yfir aðdraganda þessara stóru mála sem eru til umræðu. Við munum einnig leita eftir því hjá hæstv. ráðherra samgöngumála hvort fyrir liggi eða áform séu uppi um breytingar á stjórnskipan Pósts og síma hf. og hverjar þær eru. Það er opinbert og ekki hægt að neita því að fyrir liggur nú þegar að leggja af svokallaðar umdæmisskrifstofur. Það er óskað eftir því að hæstv. ráðherra geri þingheimi grein fyrir hugmyndafræðinni að baki þeirri breytingu. Þrjár þessara svokölluðu umdæmisskrifstofa eru staðsettar úti á landi, á Austfjörðum, Vestfjörðum og Norðurlandi og lokun þeirra mun hafa umtalsverð áhrif á hagi og möguleika þess starfsfólks sem þar hefur starfað.

Það er einnig spurt, eins og upplýsingar hafa borist um frá undirbúningsnefnd ráðherra sem hefur hitt samgn. að máli, hvort og hvers vegna verið er að loka strandstöðvum og hvort ætlunin sé að loka fleiri póststöðvum á næsta ári en nú þegar hefur verið gert uppskátt. Hvaða póststöðvar eru það? Hvað hefur það áhrif á marga starfsmenn? Og samkvæmt hvaða kerfi og fyrirkomulagi eru slíkar lokanir eða breytingar á þjónustu Pósts og síma ráðgerðar? Hver eru markmiðin með þeim og hugmyndafræðin að öðru leyti? Það er líka spurt: Hvað verður um starfsfólk þeirra stofnana sem starfa við þessar póststöðvar sem verða þessum þegar orðnu og væntanlegu breytingum umboðsmanna hæstv. ráðherra að bráð? Það er líka spurt um það hvort til standi að skipta fyrirtækinu Pósti og síma hf. upp í tvö aðskilin fyrirtæki á næsta ári, þ.e. tvö eða fleiri jafnvel. Það er ekkert launungarmál að umboðsmenn hæstv. ráðherra í svokallaðri undirbúningsnefnd höfðu það á orði að að forminu til yrði gerður fullkominn aðskilnaður þar í verki. Er það hugmynd hæstv. ráðherra, umboðsmanns bréfsins eina, forsjármanns ríkissjóðs í þessu hlutafélagi, að ganga alla leið og skipta þessu fyrirtæki upp með lagabreytingu á hinu háa Alþingi?

Það var einnig spurt um það hvaða meginmarkmið verða höfð að leiðarljósi þegar fram gengur sú ákvörðun samgrh. að bjóða út aðrar rásir fyrir GSM-símkerfið. Það snertir út af fyrir sig þau álitamál sem við erum að ræða í þeim frv. sem fyrir liggja um Fjarskiptastofnun annars vegar og lög um fjarskipti hins vegar. Þess vegna er óskað hreinlega eftir útboðsskilmálum vegna þess. Það væri nefnilega í þessu samhengi mjög lærdómsríkt, held ég, og snertir þá umræðu sem hér á sér stað að fá hugmyndir ráðherra og þann ramma sem hann leggur upp með um þetta fyrsta útboð þeirrar tegundar, þ.e. hvort að meginmarkmiðin verða í útboðinu á upphæðir, þ.e. að þau fyrirtæki sem sýna þessu áhuga eigi að bjóða eins hátt verð og nokkur kostur er til samneyslunnar. Hvort megináherslan verði lögð á að þessi fyrirtæki geti sýnt fram á það nú þegar að þau ætli að reyna að bjóða eins lágt verð til notenda og kostur er og megináherslan verði lögð á það, virðulegi forseti, að þau fyrirtæki sem ætla sér að sækja um og bjóða í aðra rás fyrir GSM-kerfið ætli sér eða geti þjónustað lítil svæði eða landið allt. Þetta eru meðal þeirra álitamála sem uppi eru nú þegar um GSM-kerfið og ganga síðan aftur í þeim frv. sem ég nefndi áðan. En því miður er það svo að þótt yfir þessi álitamál sé farið nokkuð ítarlega í frv. þá svara þau ekki þeim álitamálum sem ég nefndi áðan. Þau svara í rauninni engu um það hvort viðmiðin eigi að vera gæði þjónustunnar, umfang hennar, þ.e. hvort umsækjendur um rekstrarleyfi eigi að geta þjónustað landið allt eða hvort meginástæðan sé lögð á að þeir geti borgað sem hæst verð fyrir rekstrarleyfið eða hvort hugsanlega þessir umsækjendur um rekstrarleyfi verði fýsilegur valkostur vegna þess að þeir geti lofað lágu verði fyrir neytendur. Þetta er algjörlega skilið eftir í annars þessum ítarlegu frv. sem við erum að fjalla um. Og hvernig er það skilið eftir, virðulegi forseti? Jú, það er skilið eftir með þeim hætti að hæstv. samgrh. á að leggja línur um þetta í reglugerð. Þetta er auðvitað ekki viðunandi frágangur af hálfu löggjafarsamkundunnar, hins háa Alþingis. Þetta er ekki viðunandi, ekki síst í ljósi þess sem ég mun fara nánar yfir á eftir, að hæstv. samgrh. er nú kominn í þá stöðu og verður kominn í þá stöðu raunar frá og með næstu áramótum að hann er hagsmunagæsluaðili fyrir langstærsta fyrirtækið á hinum nýja samkeppnismarkaði, nefnilega Póst og síma hf. Með öðrum orðum að hæfi hans til að úrskurða eða leggja upp línur varðandi leikreglur á samkeppnismarkaðnum eru takmörkunum háð og það er bókstaflega fyrirskrifað í frv. og í athugasemdum með því. En eftir sem áður er frumvarpstextinn þannig, þrátt fyrir að það eigi að forðast að hæstv. ráðherra lendi í þessum hagsmunaárekstrum, þ.e. hvort hann eigi að hugsa fyrst um hag Pósts og síma hf. þegar hann leggur upp þessar leikreglur í stóru og smáu eða hvort hann eigi að hugsa um það að meginandi laganna um jafnræðið eigi að vega þyngra.

Ég hef, virðulegi forseti, áhyggjur af því og ber fyrir því kvíðboga. Satt að segja vorkenni ég hæstv. samgrh. að lenda í þessum innanmeinum því auðvitað getur hann ekki með nokkru móti sýnt hlutlægni þegar kemur að því að hagsmunir togast á með jafnskýlausum hætti og hér um ræðir. Það gefur auga leið og þess vegna er það hlutverk Alþingis að losa hæstv. ráðherra úr þessari klemmu og gera það skýrt hér og nú við frágang málsins í þingsölum hvernig menn vilja sjá þessar leikreglur útfærðar í smáu og stóru.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða þrjú frv. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hluta samgn. er bakgrunnur þeirra slíkur að um er að ræða nánast byltingu í fjarskiptamálum hérlendis. Breytingarnar eru að sönnu minni hvað varðar póstþjónustuna og þar eru að mestu leyti kyrr kjör frá núgildandi lögum. Í grg. meiri hluta nefndarinnar er vísað til þess að þar sem tilskipanir eða áreiti að utan, frá Evrópusambandinu í þessum efnum geri ekki sérstakar kröfur til þess að samkeppni verði þar að veruleika, a.m.k. ekki að svo komnu máli, þá hefur ríkisstjórnin og meiri hluti nefndarinnar farið í þann farveg að breyta sem minnstu. Það er hins vegar vitaskuld í hrópandi ósamræmi við þær almennu yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra hefur gefið og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður nefndarinnar, um að frv. miði öll að því að auka hér samkeppni á þessum vettvangi. Þannig að þarna rekst hvað á annars horn í almennum málflutningi um málið.

Þessum nýju kringumstæðum verður ekki komið á nema gera á þessu verulegar stjórnkerfisbreytingar og þess vegna er hér frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem hefur tvíþættu hlutverki að gegna raunar. Annars vegar eftirlitsstofnun og tekur að sumu leyti þar við hlutverki annarrar stofnunar sem hefur haft þau mál með höndum. En þrátt fyrir það er eftirlitið langtum mun víðfeðmara og veigameira að breyttu breytanda og völd og áhrif þessarar fjarskiptastofnunar feikimikil þegar kemur að þessu eftirlitshlutverki. Ekki síður eru völd og áhrif þessarar nýju Póst- og fjarskiptastofnunar feikimikil þegar kemur að því að deila og drottna þegar margir eru kallaðir en fáir eru útvaldir. Með öðrum orðum að veita rekstrarleyfi til þeirra lysthafenda sem gera vart við sig. Nú vitum við ekki gjörla hversu margir þeir verða. En það er rétt að minna á að hér er ekki eingöngu um það að ræða að íslenskir aðilar sækist eftir að fara í samkeppni við Póst og síma í talsímanum, í internetinu eða hvarvetna sem menn fýsir að bera niður heldur getur líka hver einasti lögaðili á Evrópska efnahagssvæðinu og í Evrópu allri komið hér inn á markað og farið í bullandi samkeppni við hið stóra fyrirtæki Póst og síma og önnur þau fyrirtæki sem þarna munu hasla sér völl.

Það er tilskipun frá Evrópusambandinu sem mun taka gildi 1. janúar 1998 sem í raun kallar á allar þessar breytingar. Og maður verður auðvitað sannarlega var við það að menn ganga misjafnlega viljugir til þess verks að laga sig að þessum breytta tíðaranda. Ég sé fyrir mitt leyti ýmsa möguleika í þessari auknu samkeppni en segi jafnframt að þarna verður að vanda mjög vel til allrar lagasetningar og gæta þess mjög að við missum ekki tök á þessari þróun og göngum hægt um gleðinnar dyr. Það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum.

Ég sagði að þessi nýja stofnun, Póst og fjarskiptastofnun, væri feikilega valdamikil. Ég sagði líka áðan að nú væri úr vöndu að ráða fyrir hæstv. samgrh. því þessi stofnun lögum samkvæmt á að njóta sjálfræðis. Það má að sumu leyti líkja henni við Ríkisendurskoðun. Hún á að vera eftirlitsaðili yfir öllum þeim aðilum sem starfa á þessum markaði og þar á meðal fyrirtækinu hans Halldórs, fyrirtæki hæstv. samgrh. Og hvernig ætlar þá hæstv. samgrh. að ganga hinn gullna meðalveg og draga ekki taum fyrirtækis síns sem hann á að gera, og land og lýður og hið háa Alþingi gerir kröfu til, að hann passi upp á þessa eign almennings og verndi og varðveiti og láti vaxa með ráðum og dáð? Hvernig ætlar hann að gera það á sama tíma og hann á að gæta þess að aðrir samkeppnisaðilar fyrirtækis hans eigi að njóta jafnræðis? Það segir orðrétt í athugasemdum með þessu frv. um hina gjörbreyttu stöðu samgrh., með leyfi forseta:

,,Með því móti er ætlunin að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar m.a. með tilliti til þess að samgrh. fer með eignaraðild ríkisins að Pósti og síma hf., sem kann að eiga í samkeppni við aðra aðila á umræddum sviðum, en með lögum nr. 103/96 var Póst- og símamálastofnun breytt í hlutafélag og tekur sú formbreyting gildi þann 1. janúar 1997. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna fer samgrh. með eignaraðild ríkisins að Pósti og síma hf.``

Síðar í þessum sömu athugasemdum kveður við eilítið annan tón og segir, með leyfi forseta:

,,Póst- og fjarskiptastofnun er samkvæmt frv. sjálfstæð stofnun, en undir yfirstjórn samgrh. Þannig heyrir stofnunin undir samgrh. í skilningi stjórnsýsluréttar án þess þó að hann hafi boðvald yfir stofnuninni eða starfsmönnum hennar, í þeim skilningi að hann geti haft áhrif á einstakar ákvarðanir þeirra.``

[16:45]

Þegar maður les þessar athugasemdir og síðan frv. í ljósi þeirra þá rekur maður sig fljótlega á nokkra þröskulda. Hvernig á það að fara saman að hæstv. samgrh., sem á í miklum vanda í þessum efnum og lendir í mótsögn við sjálfan sig, sé afskiptalaus um þróun þessarar stofnunar þegar hann á að byrja á því að ráða forstöðumann hennar? Hvar liggur húsbóndavaldið þar? Er það ekki fullkomlega ljóst? Það liggur í höndum þessa sama ráðherra sem á að vera afskiptalaus um stofnunina.

Reglugerðarvald ráðherra, eins og ég gat um í inngangi, er mjög víðtækt í frv. um þessa sömu stofnun sem hæstv. ráðherra á að vera fullkomlega afskiptalaus um því hún á að njóta sjálfstæðis. Hann á að setja reglugerð um nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar. En þar eru heimildir mjög víðtækar og má jafna við skattstofur og innheimtumenn ríkissjóðs. Þar er eftirlitsaðilum nýju Póst- og símamálastofnunar heimilt að ganga inn í fyrirtæki fyrirvaralaust og gera þar athuganir og skoðanir sem þeim lystir. Þeir hafa með öðrum orðum ígildi lögregluvalds. Þeir hafa heimildir til að loka með litlum sem engum fyrirvara. Þeir hafa heimildir til að leggja á dagsektir upp á 50--500 þús. kr. á dag ef þeim líst ekki á blikuna og eitthvað er það í rekstri einstakra rekstrarleyfishafa sem þeim finnst ekki ganga. Heimildir og áhrif þessarar fjarskiptastofnunar, sem hæstv. ráðherra má ekki skipta sér af, eru þannig feikiviðamiklar. Svo á hins vegar ráðherrann sjálfur að setja þessari sömu stofnun reglugerðir um útfærslu verkefnisins. Einnig er þessi almenna opna reglugerðarheimild, sem er oft að finna í lagasetningum af þessum toga, samgrh. setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna. Það er sem sagt opin reglugerðarheimild um það sem honum þykir nauðsynlegt að taka á og fylla út.

Við hljótum að gera umtalsverðar og alvarlegar athugasemdir við lagasetningu af þessum toga. Menn þurfa a.m.k. að vera alveg skýrir á því í hvaða siglingu við erum að fara.

Ekki tekur betra við, virðulegi forseti, þegar kemur að því að notendur eða rekstrarleyfishafar taka ákvörðun um að kæra úrskurði þessarar stofnunar. Hvert kæra þeir? Jú, þeir kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar. Hver er það sem skipar þessa úrskurðarnefnd? Jú, það er maðurinn í símanum, það er hæstv. samgrh. Hann skipar þessa úrskurðarnefnd. Þetta er engin venjuleg úrskurðarnefnd. Þetta er úrskurðarnefnd sem hefur endanlegan úrskurð í sínum höndum. Það eru eingöngu dómstólar sem geta tekið upp ... (Samgrh.: Það væri alveg ný lögfræði ef úrskurður væri endanlegur.) Þetta er endanlegur úrskurður á þessu stigi. (Samgrh.: Þessu stigi, já.) Það er rétt. Nú er hæstv. ráðherra farinn að skilja þetta. En hann skilur það líka að hann sem hinn óháði hlutlægi aðili sem á að gæta jafnræðis og jafnréttis í reynd á þessum samkeppnismarkaði ætli sér að skipa þessa úrskurðarnefnd. Hverjir halda þingmenn að verði fyrst fyrir því að fá kæru á sig? Það skyldi þó aldrei verða að það yrði fyrirtæki Halldórs hæstv. samgrh., þ.e. Póstur og sími hf. Þess eru nefnilega dæmi á undanförnum missirum að smærri samkeppnisaðilar á þessum vettvangi hafa verið að kæra fyrirtæki og þá til Samkeppnisstofnunar. Nú munu þessar kærur fara til Póst- og fjarskiptastofnunar og síðan til úrskurðarnefndarinnar sem hæstv. ráðherra ætlar sjálfur að skipa.

Hins vegar er það vissulega þannig að formaður þeirrar nefndar á að vera skipaður af Hæstarétti. Hann á að vera tilnefndur af Hæstarétti. Annar aðilinn í nefndinni á að koma frá Félagi verkfræðinga, ef ég man rétt. En þriðji aðilinn á að vera umboðsmaður hæstv. ráðherra sjálfs. Það er sem ég sjái hversu virkur sá þriðji aðili að minnsta kosti verður við að úrskurða um ýmis álitaefni sem lúta að fyrirtækinu hans Halldórs, hæstv. samgrh., Pósti og síma. Mér finnst það kýrskýrt í þessum efnum að það skuli vera hið háa Alþingi sem skipi a.m.k. þessa úrskurðarnefnd þannig að það sé algjörlega klárt og kvitt að úrskurðarnefndin hafi ekkert saman að sælda við hæstv. samgrh., skipti sér bara ekkert af honum, viti ekki af honum og hlusti ekki á hann. Það er algjörlega fráleitt í mínum huga að skipunarvaldið í þessari úrskurðarnefnd skuli vera á hendi hæstv. samgrh. sem á að passa upp á fyrirtæki okkar allra skattgreiðenda, Póst og síma hf. Það kanna að vera að mörgum finnist þetta ekki stórvægilegt eða skipta miklu máli. En ég er hræddur um að hið háa Alþingi þurfi að gaumgæfa og gæta mjög vel að atriðum af þessum toga. Það getur ekki verið vilji löggjafans að við séum að setja hér á eilíf leiðindi og eilífar uppákomur undir nýjum anda og nýju landslagi í samkeppni á þessum vettvangi árið 1998, að hér logi allt í kærumálum, undirmálum og grunsemdum af öllum toga.

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra líti þannig á að hann verði hættur þá og honum komi þetta ekkert við. Ég get út af fyrir sig deilt þeirri ósk með honum ef hann vill hafa það þannig. En það er of léttilega sloppið og sennilega verður það þannig, virðulegur forseti, að við búum við hann enn á árinu 1998. Það verði ekki fyrr en á vordögum 1999 sem við getum skipt og gerum það. En þetta er ekki boðleg lagasetning. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Ég trúi ekki að vandaðir hv. þm. á borð við 1. þm. Vestf. og formann nefndarinnar sjái ekki að athuguðu máli þegar hann gaumgæfir það að svona er í pottinn búið að þetta eru hlutir sem ganga ekki upp þegar til framkvæmdanna kemur.

Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar, sem ég hef eilítið drepið á, eru margþætt. Við það er miðað að stofnunin sjálf standi undir eigin rekstri. Við það geri ég út af fyrir sig engar athugasemdir og tel það að mörgu leyti skynsamlegt að eftirlitsstofnanir af þessum toga geti notið tekna frá rekstraraðilum á sama sviði. Þetta hafa menn verið að feta sig hægt og bítandi inn í í sjávarútveginum og þurfa að ganga lengra í þeim efnum á þeim vettvangi. Þetta er gert með ýmsum hætti í þessu frv. Bæði er um að ræða fasta árlega greiðslu sem hlutfall af bókfærðri veltu þeirra fyrirtækja sem leyfis njóta. Einnig er um að ræða sérstök eyrnamerkt framlög til svokallaðs Jöfnunarsjóðs. Í þriðja lagi, sem er nýmæli og kannski getur vegið býsna þungt í afmörkuðum tilvikum, er uppboðsleiðin. Þá kemur aftur að því sem ég gerði að umtalsefni varðandi nútímann, GSM-útboðið. Hvernig ætla menn að láta leikreglur líta út þar í ,,grund og bund``? Hvaða meginatriði eru það sem eiga þar að ráða ferðinni? Þetta er skilið eftir í höndum hæstv. samgrh., sem á að passa upp á Póst og síma fyrir okkur. Það verður að vera alveg skýrt á þessu stigi máls, hér í sölum Alþingis, hvort meginatriðið eigi að vera það að Póst- og fjarskiptastofnun, ergó ríkissjóður, fái sem hæst verð fyrir þessi takmörkuðu réttindi sem á að meta til fjár, hvort það sé markmið þessara bjóðenda að geta boðið sem lægst verð fyrir notendur eða hvort það séu gæði þjónustunnar eða umfang þjónustunnar sem eigi að ráða ríkjum. Við þessu verða að fást skýr svör. Ef hv. alþm. ætla sér að hlaupa undan því á þessu stigi málsins að svara þessu þá hljótum við að neyðast til að kalla eftir svörum frá hæstv. samgrh. um það hvernig hann ætli að fara með þetta reglugerðarvald sitt. Enn og aftur eru ákveðnir lykilþættir í þessum efnum settir í hans hendur. Þykir mönnum það þá mjög trúverðugt þegar samkeppnisaðilar Pósts og síma, fyrritækið hans Halldórs, hæstv. samgrh., er að keppa um rekstrarleyfi að handhafi hlutabréfanna í einu fyrirtækinu leggi leikreglur á þessum almenna markaði? Ég bara spyr. Ég tek það mjög skýrt fram og það kom mjög rækilega í ljós í umræðunni í vor og einnig í mínum upphafsorðum að ég ber mjög hlýjar tilfinningar til þessa ágæta fyrirtækis, Pósts og síma. (Gripið fram í.) Svo ég tali nú ekki um hann. Ég vil mjög vanda til þess að það ágæta starfsfólk, hundruðum eða þúsundum saman sem hefur starfað margt hvert um langt árabil, verði ekki skilið eftir á köldum klaka og þess vegna gerði ég í upphafi grein fyrir beiðni okkar jafnaðarmanna um skýrslu um framgang þeirra mála. En það breytir því ekki að þegar við erum komin með þetta rekstrarumhverfi þá verður auðvitað rétt að vera rétt. Þá verður að ganga frá löggjöfinni með þeim hætti að hægt sé að vinna eftir henni.

Að þessu öllu sögðu er það skoðun minni hluta nefndarinnar að ekki sé nokkur forsenda til þess að unnt sé að afgreiða þetta frv. um þessa nýju mikilvægu og valdamiklu eftirlits- og úthlutunarstofnun á þeim örfáu dögum sem eftir lifa fram að jólahléi í þinginu. Það er enginn bragur á slíkri lagasetningu og í ljósi þeirra dæma sem ég hef hér rakið og bent á þá hygg ég að flestir geri sér ljóst í hjarta sínu að svona er ekki hægt að skilja við þetta mál um þessa nýju, mikilvægu stofnun. Menn hafa verið að gefa sér það hversu stór þessi stofnun eigi að vera og hafa ýmsar tölur verið nefndar í því sambandi, 80 manns, 120 manns. Mér er nær að halda að við værum fljótlega komin upp í 150 manns. Það liggur heldur ekkert fyrir um það. Þótt að fjmrn. hafi reynt að nálgast það eitthvað í sínum vangaveltum með þessu frv. til laga um það hverjar tekjurnar verði og hver kostnaðurinn verði þá liggur ekkert um það hvernig verðlagningin verði á réttindum á borð við GSM, á réttindum á borð við talsímaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í samkeppni við Póst og síma, hvaða verð er þar verið að tala um. Við gætum fljótlega verið að tala um hundruð millj. kr. hygg ég. Kannski verður þessi eftirlitsstofnun orðin aflögufær, getur skilað einhverju í ríkissjóð jafnvel. En ég sé fyrir mér að þessi stofnun verði að minnsta kosti 100 manna stofnun og fljótlega 150 manna stofnun. Hér er ekki um lítið mál að ræða, hér er um stórmál að ræða, líka í þessu tilliti.

Það er líka rétt í því samhengi að minna á að hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar hefur undir öðrum kringumstæðum nefnt að þessi Póst- og fjarskiptastofnun væri alveg klæðskerasaumuð til þess að setja niður úti á landi, t.d. í Bolungavík eða á Akureyri eða hvar sem er, hugsanlega með deildum eða útibúi í Reykjavík. Það er að sumu leyti rétt hjá hv. þm. að sumpart er þessi eftirlits- og úthlutunarstofnun þannig hugsuð að hún gæti mjög auðveldlega verið t.d. í Hafnarfirði, svo ég nefni það. En hugsanlega líka í Bolungarvík. Ég veit ekki um Akureyri, það er ekki óhugsandi, eða á Grenivík, svo við tölum nú ekki um það. Þess eru dæmi við lagasetningu fyrri tíma að menn hafa bókstaflega sagt það í lagatexta að þessi eða hin stofnunin eigi að eiga heima hér eða þar og oftast er það nú í Reykjavík.

[17:00]

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði þetta að umtalsefni undir öðrum kringumstæðum þegar hann mælti fyrir þáltill. sinni þess efnis að nota möguleikann þegar nýjar ríkisstofnanir yrðu til, að skáka þeim út á land þannig að menn væru ekki alltaf að eltast við drauga fortíðar eins þegar verið er að flytja gróna starfsemi út á land og starfsfólkið með. Þetta hlægir greinilega hæstv. samgrh. Hann brosir út í bæði og hefur sennilega engan áhuga á því þegar allt kemur til alls að skoða slíka möguleika. Ég held hins vegar að það sé sjálfsagt að ræða það við þessa umræðu hvort þetta sé stofnun af því tagi sem menn geti að hluta til eða að mestu leyti flutt út á land. Ég vil a.m.k. fyrir mína parta ekki útiloka neitt í því sambandi. Ég veit um húsnæði í Hafnarfirði ef því er að skipta. Þetta er hins vegar aukaatriði málsins í frv. en samt sem áður til umhugsunar.

Víkur þá sögunni að frv. til laga um fjarskipti sem er að mörgu leyti skylt hinu fyrra áliti eins og skeggið er skylt hökunni. Það frv. er hvað mest að vöxtum í þessari trílógíu og er að mörgu leyti ekki síður flókið og snúið úrlausnar heldur en það að koma heim og saman nothæfum lagatexta um Póst- og fjarskiptastofnun. Aðdragandi þessa máls og grunnþáttur er sá að lagt er til að einkabundinn réttur ríkisins verði afnuminn og að þeir sem fullnægja ákveðnum skilyrðum fái leyfi til að veita fjarskiptaþjónustu. Þetta segir með öðrum orðum að það er eiginlega allt leyft sem ekki er bannað. Frelsið samkvæmt þessu frv. hefur haldið innreið sína enda þótt þegar textinn er skoðaður þá séu því settar mjög umfangsmiklar og viðamiklar tálmanir. Ég geri enga athugasemd við það og brýnt og nauðsynlegt að það sé gert. Ég er ekki slíkur trúmaður að ég hafi nokkurn tímann talið frelsið í sinni frjálsustu mynd vera hið besta fyrirkomulag hvort heldur er á samkeppnismarkaði eða í samfélagslegri þjónustu og finnst það ekki trúaratriði, langt í frá.

Hér erum við hins vegar að bregðast við því að Evrópa er öll að frelsisvæðast, ef svo mætti segja. Það er þegar orðin samkeppni í einstökum Evrópuríkjum. Í öðrum hefur þetta ekki gerst enn þá en er í undirbúningi. Ef satt skal segja þá veit ég til þess að þjóðþing víða annars staðar hafa lent í vandamálum og erfiðleikum við að marka þann lagaramma í viðkomandi þjóðlandi sem nauðsynlegur er til þess í fyrsta lagi að menn tapi ekki þræðinum og missi frelsið út um allar áttir með ófyrirséðum afleiðingum á borð við þær að þjónustustigið hrapi, t.d. í dreifðari byggðum, fyrri einkaleyfastofnanir á borð við Póst og síma víða annars staðar hrynji til grunna á tiltölulega stuttum tíma með óhjákvæmilegum afleiðingum.

(Forseti (RA): Eins og tilkynnt hefur verið er ætlunin að hér fari fram utandagskrárumræða og var hún tímasett kl. fimm. Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort heldur hann kýs að ljúka ræðu sinni á næstu fimm mínútum eða halda henni áfram síðar.)

Ég kýs að halda henni áfram síðar, virðulegi forseti.