Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:05:23 (2311)

1996-12-17 17:05:23# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:05]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil nefna hér þegar þessi utandagskrárumræða hefst að ég hafði óskað eftir því að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. yrðu viðstaddir umræðuna ef tök væru á fyrir utan hæstv. dómsmrh. sem fer með málið í ríkisstjórninni formlega séð og er hér viðstaddur. Ég vildi því biðja hæstv. forseta að kanna hvort þessir ráðherrar eru viðlátnir og geta verið viðstaddir umræðuna.

Hér er um að ræða mál sem vissulega er erfitt að taka til almennrar umræðu hér innan þeirra tímamarka sem liggja fyrir af hálfu forsn. varðandi umræðuna. En ég mun reyna að koma helstu sjónarmiðum á framfæri við hæstv. dómsmrh. og þingið af minni hálfu. Til að greiða fyrir því að menn átti sig á því sem ég hef hér fram að færa hef ég látið dreifa til hv. þm. fyrirspurnum mínum til hæstv. ráðherra sem ég kom á framfæri við ráðherrann í morgun og nokkrum ljósritum úr norrænum blöðum sem hafa fjallað mikið um þetta mál undanfarna daga. Þar á meðal er norska blaðið Aftenposten, sem ég tók með mér í morgun, frá í dag, sem er með heilsíðu undir þetta mál, sett fram býsna skilmerkilega þó ég skrifi ekki undir allt sem þar er sagt. Þetta er að finna í gögnum sem þingmenn hafa fengið. Þar er einnig að finna forsíðufréttir úr Politiken, dönsku blaði, og fleiri fréttir sem snerta málið og gera mönnum ljóst að þarna er um mál að ræða sem nýtur mikillar athygli nú um stundir í nágrannalöndum okkar og ekki að ástæðulausu. Hér hefur hins vegar minna farið fyrir umræðu um þetta en skyldi.

Ég beini fyrirspurnum í sex liðum til hæstv. dómsmrh.:

1. Hvenær munu liggja opinberlega fyrir á íslensku öll þau gögn er varða Scheng\-en-samninginn, m.a. viðaukar, reglugerðir og handbækur?

Mér er ekki kunnugt um að þetta sé enn þá komið til utanrmn. t.d., en það er auðvitað forsenda þess að hægt sé að meta málið að öll þessi gögn liggi fyrir aðgengilega á íslensku.

2. Hver er áætlaður kostnaður Íslands af Schengen-samstarfinu, flokkað í þrennt:

a. stofnkostnaður í flughöfnum og víðar,

b. stofnbúnaður af tölvum og öðru,

c. árlegur rekstrarkostnaður og þátttökugjöld vegna Schengen?

Þegar hæstv. dómsmrh. gaf þinginu skýrslu um þetta mál í apríl sl. þá vantaði þær upplýsingar, það voru að vísu ágiskanir um tilkostnað varðandi rekstur og stofnbúnað, en varðandi kostnað vegna breytinga og stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa margar sólir verið á lofti svo ekki sé meira sagt. Hæstv. utanrrh. var búinn að reikna þennan kostnað niður í 150 millj. kr. úr 1 milljarði kr. sem nefndur var hér í byrjun árs. Það færi fróðlegt að vita hvar þetta er statt núna.

3. Telur ráðherra rétt að binda Ísland við flókin ákvæði Schengen-samningsins um upplýsingakerfi og persónunjósnir þegar ekki er tryggð persónuvernd og lýðræðislegt eftirlit?

Þessi þáttur málsins er fyrirferðarmestur í umræðunni á Norðurlöndum núna. Hann tengist með vissum hætti þeim hneykslismálum sem hafa skekið norsku ríkisstjórnina að undanförnu sem varpar ljósi á það hvernig lögregluyfirvöld þar hafa unnið ólöglega að upplýsingasöfnun, en m.a. í tengslum við þá eftirgrennslan sem mest er talað um vegna afsagnar olíuráðherra, áður dómsmálaráðherra landsins, í gær var notaður farvegur þessa upplýsingakerfis kennt við Schengen.

4. Er að mati ríkisstjórnar viðunandi fyrir Ísland að bindast samningi eins og Schengen þar sem íslensk stjórnvöld verða að taka yfir allar ákvarðanir og breytingar sem önnur ríki ákveða að því er Schengen varðar en vera vísað á dyr ella?

Þannig er um hnútana búið. Fyrirmæli, og ef þeim er ekki lotið þá er okkur vísað á dyr.

5. Er íslenskum stjórnvöldum ljóst:

Að mörg ákvæði Schengen-samningsins geta innan skamms orðið hluti af reglum Evrópusambandsins og þar háð meirihlutaákvörðunum?

Að ólíklegt má telja, ef þetta gerist, að Noregur verði áfram þátttakandi í Schengen-samstarfinu og norræna vegabréfasambandið væri þá í uppnámi eða úr sögunni?

Þá væri nefnilega, virðulegur forseti, komin upp sú staða að þetta væri orðið stjórnarskrármál í Noregi og það er nægur meirihlutahópur á norska þinginu til að stöðva framgang slíkrar stjórnarskrárbreytingar. Það eru fimm þingflokkar á norska þinginu af sjö, að vísu ekki allir með marga þingmenn, sem eru andvígir þessum samningi.

6. Telur ráðherra ekki skynsamlegt að fresta a.m.k. fram yfir lok ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins að skuldbinda Ísland með undirritun sinni sem aðila að Schengen-samstarfinu?

Mín ráð til hæstv. ráðherra er að fara hvergi utan á morgun til að undirrita samning á fimmtudag og draga það a.m.k. þangað til að þingheimur hefur athugað málið og það hefur verið betur rætt hér innan lands en orðið er.