Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:11:47 (2312)

1996-12-17 17:11:47# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu fyrirspurn hv. þm. er það að segja að gert er ráð fyrir að þær upplýsingar sem hér er spurt um verði tilbúnar næsta haust, í september eða október, áður en Alþingi fær samninginn til staðfestingar og fullgildingar.

Varðandi aðra spurningu um kostnaðinn þá er það svo að það liggja ekki fyrir nýjar upplýsingar varðandi mat á honum frá því ég gerði þinginu grein fyrir þeim kostnaðaráætlunum sem fyrir lágu í apríl sl. Þar kom fram að áætlað hefur verið að kostnaður vegna stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé um 650 millj. kr. en þar af um 150 millj. sérstaklega vegna Schengen-samstarfsins og að kostnaður vegna uppsetningar upplýsingakerfisins muni vera um 20 millj. kr. Þar var gert ráð fyrir að aukinn kostnaður vegna reksturs gæti orðið á bilinu 40--60 millj. kr. Þessar áætlanir hafa ekki verið endurmetnar varðandi uppsetningu á upplýsingakerfinu og reksturskostnaðinum. Þær geta tekið breytingum við endurmat þegar þar að kemur. Árgjald vegna þátttöku okkar á þessu ári var 4,5 millj. kr., verður 5,5 millj. á næsta ári en gert er ráð fyrir að nýtt fyrirkomulag varðandi kostnaðarskiptingu taki gildi á árinu 1998 og liggur ekki enn fyrir hvaða þýðingu það mun hafa fyrir okkur.

Varðandi þriðju spurninguna er það að segja að þar er í forsendum hallað verulega réttu máli. Það stenst ekki að verið sé að koma upp persónunjósnum þar sem eðlileg persónuvernd er ekki tryggð. Eins og hv. þm. muna frá fyrri umræðu um þessi málefni er sérstök óháð eftirlitsnefnd með miðlæga upplýsingakerfinu. Þar að auki er gert ráð fyrir sérstakri innlendri eftirlitsnefnd sem fylgist með kerfinu. Þar er gert ráð fyrir að menn fullnægi a.m.k. Evrópuráðssamningum um persónuvernd í þessu efni. Hér er því tryggt svo sem nokkur kostur er að fullnægjandi eftirlit sé með þeim upplýsingum sem þarna eru á ferðinni.

[17:15]

Hitt er annað mál að hér er um að ræða nýjan þátt í lögreglusamvinnu landanna sem er afar mikilvæg og þýðingarmikil eins og reyndar hefur komið fram í umræðum um þessi efni, ekki síst í baráttu gegn eiturlyfjum. Upplýsingarnar sem hér liggja fyrir eru veigamikill þáttur í því samstarfi sem óhjákvæmilegt er að taka upp þegar persónueftirlit á landamærum fellur niður en á hinn bóginn eins og hv. þingmönnum er kunnugt verður haldið áfram af okkar hálfu venjulegu tolleftirliti.

Um fjórðu fyrirspurnina er það að segja að í þessum samningum hafa samningsmarkmið Íslands náðst. Við stefndum að því að tryggja og varðveita norræna vegabréfasamstarfið á þennan hátt og Ísland tekur sjálfstæðar ákvarðanir um nýjar ákvarðanir innan Schengen en fari svo að það geti ekki á þær fallist þá lýkur þessu samstarfi.

Um fimmtu spurninguna er það að segja að það er rétt að umræður hafa farið fram innan ESB um það hvort þar eigi að taka ákvarðanir sem feli það í sér að Schengen-reglurnar verði yfirteknar af Evrópusambandinu. Það er sjálfstætt ákvörðunaratriði þegar þar að kemur að taka um það ákvörðun hvort við óskum eftir viðræðum um að gerast aðilar þar að eða ekki og eðlilegt að taka afstöðu til þess. Enginn veit hver niðurstaðan verður innan Evrópusambandsins á þessu stigi og við hljótum að taka afstöðu til þess þegar þar að kemur.

Svar mitt við sjöttu spurningunni er: Nei. Ég tel eðlilegt að við fylgjum hinum Norðurlandaþjóðunum eftir og það væri rangt af okkur að taka ákvörðun um það á þessu stigi að rjúfa sameiginlega vegferð Norðurlandaþjóðanna varðandi norræna vegabréfasamstarfið.