Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:22:05 (2315)

1996-12-17 17:22:05# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það er ekki vanþörf á. Það er satt best að segja furðulegt hversu hljótt hefur verið um þetta stóra mál í umræðum á Íslandi. Ef maður ber það saman við þá miklu umræðu sem er á hinum Norðurlöndunum nú og ekki síst í Noregi, þá vekur það furðu hversu skeytingarlítil við virðumst vera um þetta mikla mál. Það er óhjákvæmilegt að gagnrýna einnig sérstaklega þátt íslenskra stjórnvalda í því að upplýsa almenning og þar á meðal þingheim um hvað hér er á ferðinni. Af ummælum ráðamanna hefur stundum mátt ætla að þetta mál snerist eingöngu um það að framlengja eða bjarga norræna vegabréfasambandinu en það er auðvitað fjarri öllu lagi og til þess voru ýmsar aðrar leiðir færar en þessi. Staðreyndin er sú að við erum með þessu samkomulagi að gerast hluti af landamærum Evrópusambandsins og verðum ytri landamæri þess með stórhertu eftirliti út á við en afnámi landamæraeftirlits inn á við. Ég held að hv. þm. Kristján Pálsson hafi nú verið sérlega óheppinn að nefna eftirlit með eiturlyfjum sem jákvæðan þátt í samhengi við þetta mál. Staðreyndin er sú að það er akkúrat eitt af því sem mjög margir út um alla Evrópu hafa miklar áhyggjur af og veldur m.a. tregðu Frakka við að staðfesta Schengen fyrir sitt leyti, að þeir óttast að þá muni eiturlyfin flæða um landamæralausa Evrópu sem aldrei fyrr. (Gripið fram í: Það eru tollyfirvöld ...)

Í sambandi við svör hæstv. utanrrh. við þriðju spurningunni, um leyndina, þá liggur það fyrir nú að einum alvarlegasta hluta þessa máls hefur verið haldið leyndum þangað til að það tókst að draga hann fram í dagsljósið á danska þinginu, þ.e. leynisamkomulagi, leyniplöggum leyniþjónustu Evrópuríkjanna um að leyniþjónusturnar geri með sér sérstakt samkomulag til hliðar við það eftirlitskerfi sem lögreglu- og tollyfirvöld reka til þess að skiptast á upplýsingum um einstaklinga sem er njósnað um, sem eru undir sérstöku eftirliti leyniþjónustunnar. Þetta plagg var allt stimplað sem trúnaðarmál og því átti að halda leyndu þangað til það tókst á danska þinginu að draga það fram. Og hæstv. dómsmrh. svaraði hér eins og hann hefði ekki hugmynd um að það væri til. Annaðhvort hefur hann ekki hugmynd um að það sé til eða hann tekur þátt í því með kollegum sínum annars staðar í Evrópu að reyna að halda þessu leyndu. Hvað segir hæstv. dómsmrh. um þær upplýsingar sem nú hafa verið dregnar fram á danska og norska þinginu um leynihluta þessa máls?