Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:24:57 (2316)

1996-12-17 17:24:57# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:24]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mér heyrðist hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tala um ýmsar aðrar leiðir sem hefðu verið færar til þess að viðhalda norræna vegabréfasambandinu án þess að gerast aðilar eða taka þátt í Schengen-samstarfinu. Ég veit ekki hvaða leiðir þetta eru. Ég álít að þær séu ekki til. Ég lít á þetta mál út frá sjónarhóli norræns samstarfs sem er okkur gífurlega mikilvægt. Norræna vegabréfasambandið hefur þjónað okkur Íslendingum ákaflega vel í nokkra áratugi og ég vil taka svo mikið upp í mig að segja að það væri glapræði að skilja okkur frá hinum Norðurlöndunum með því að taka ekki þátt í samstarfinu um Schengen. Enda er ekkert sem mælir gegn því að við verðum með nema ef vera skyldi að það kostar einhverja fjármuni eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. dómsmrh.

Sá misskilningur hefur verið í umræðunni að hætta á aukinni glæpastarfsemi sé því samfara að taka þátt í Schengen-samstarfinu og innflutningur á fíkniefnum muni aukast o.s.frv. Þetta tel ég vera rangt miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér og kynnt mér, þar sem þetta samstarf gengur líka út á samstarf lögreglu og upplýsingakerfi sem hér hefur verið minnst á og hefur verið nefnt SIS. Það er nú ágætt að viðhalda því orði í íslensku máli. (Gripið fram í: Og hvernig fór fyrir því?) Tími minn er víst brátt á þrotum en ég vil bara segja að ef svo fer að Schengen-samstarfið rennur saman við Evrópusambandið eða það samstarf þá hlýtur að þurfa að semja á nýjan leik við Ísland og Noreg.