Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:27:14 (2317)

1996-12-17 17:27:14# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:27]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé vonum seinna að þetta mál kemur til rækilegrar umræðu í þessari virðulegu stofnun. Ég hlýt í tilefni af umræðunni að spyrja að því hvort þetta mál hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og hvort það hefur verið samþykkt að fara nákvæmlega í málið eins og verið er að tala um núna. Og hvort menn hafa þar ekki áhyggjur af því hvaða kostnað Schengen-aðildin gæti haft í för með sér. Ég hefði t.d. getað hugsað mér að spyrja hæstv. samgrh. um þetta mál. Hefur málið verið skoðað út frá forsendum samgangna og ferðamannastefnu, ferðamálastefnu, hér á landi? Hefur hv. samgn. verið beðin um að fjalla um þetta mál? Ég spyr. Nei, ég held að hún hafi ekki verið beðin um að fjalla um það sérstaklega. Ég hlýt þess vegna að spyrja: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar sem heildar? Og hver er afstaða hæstv. samgrh. sérstaklega? Ég held að það væri einnig mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að það kæmi fram hver er kostnaður annarra af því að Ísland gerðist aðili að Schengen-samstarfinu, t.d. kostnaður Flugleiða. Ég tel að það skipti máli í þessu dæmi, þar sem um er að ræða aðila sem veltir á milli 20 og 30 milljörðum íslenskra kr. þegar allt er talið og því eigi að ræða við aðila af þessu tagi. Og ég spyr: Hefur það verið gert? Hver er skoðun Flugleiða á þessu máli sem er í rauninni aðalþjónustuaðili einkaaðila á þessu svæði? Ég spyr: Hefur það verið kannað hæstv. ráðherra? Og ég segi að lokum líka þetta: Málið hefði auðvitað átt að ræða hér fyrr og áður en ráðherrann fer utan til að skrifa undir pappírana. Ég hefði talið að um málið hefði átt að fjalla í þessari stofnun og leita afstöðu Alþingis. Af hverju er það ekki gert, hæstv. forseti, fyrr en eftir langan tíma, þ.e. nærri ár héðan í frá? Loksins eftir eitt ár á að sýna Alþingi þá virðingu að spyrja það um málið. Þetta er virðingarleysi við Alþingi sem það lætur aftur og aftur bjóða sér, því miður, í stórum málum eins og þessu.