Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:44:42 (2325)

1996-12-17 17:44:42# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:44]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn þar sögu að ég var farinn að ræða eilítið nefndarálit minni hluta samgn. um annað af þremur frv. um þessi efni, þ.e. frv. um fjarskipti og nefndi þar með nokkrum orðum þann aðdraganda sem átt hefur sér stað að málinu annars staðar í Evrópu og þeirri tilskipun ESB sem tekur gildi hér sem annars staðar 1. janúar 1998.

Þetta frv. er eins og ég sagði þannig úr garði gert að allt er leyft sem ekki er bannað en ítarlegir skilmálar eru settir fram í frv. sem rekstrarleyfishafar þurfa að uppfylla séu þeir tækir til þess að inna þessa mikilvægu þjónustu af hendi. Þessi skilyrði eru af ýmsum toga og ekki færri en 15 þeirra eru tíunduð í frv. en því er hins vegar í raun ekkert svarað eftir sem áður hvort væntanlegir umsækjendur um rekstrarleyfi þurfi að uppfylla aðeins eitt af þessum 15, tvö af þessum 15, 10 af þessum 15 eða öll 15. Því er algerlega haldið opnu og er til túlkunar síðar meir. Enn og aftur rekur maður sig því á það að þrátt fyrir það að þessi frumvörp öll séu tiltölulega ítarleg í allri gerð, a.m.k. nógu margar blaðsíður, þá eru eftir sem áður skilin eftir lykilatriði og stórar spurningar á borð við það eftir hvaða leikreglum verður síðan farið þegar að framkvæmdinni kemur. Með öðrum orðum er það eitt skilyrði af þessum 15, öll 15 eða helmingurinn af þeim sem rekstrarleyfishafar og umsækjendur þurfa að uppfylla til að ganga inn í hið heilaga og njóta rekstrarleyfis. Eftir þessu kalla ég og minni hluti samgn.

Það sem meira er, í þessu frv. er að finna lykilatriði sem nefnist alþjónusta. Ég er mjög sammála þeirri hugsun sem þar kemur fram að einhverjir grundvallarþættir í þjónustu á vettvangi fjarskipta sem séu í lögum viðkomandi þjóðríkis séu þannig úr garði gerðir að allir geti notið þeirrar þjónustu. Þetta er skilgreint á eftirfarandi hátt í frv., með leyfi forseta:

,,Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Nánar skal mælt fyrir um í reglugerð, sem samgönguráðherra setur, hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli undir alþjónustu.``

Nú skyldi maður ætla að þetta væri allt býsna gott og á grundvelli þessa ákvæðis væri það tiltölulega skýrt að t.d. talsímaþjónustan félli undir þessa alþjónustu og að allir landsmenn sem njóta nú símans geti verið nokkuð öruggir um að þeir geti gert það áfram undir þessum breyttu formerkjum. Það er þó ekki svo því að þó að talsímaþjónustan sé nefnd í framhjáhlaupi sem einn mögulegur þáttur alþjónustu, þá eru ekki tekin af nein tvímæli í þeim efnum í frv. um það hvaða grundvallarþættir þjónustunnar eru svo veigamiklir að þeir eigi að falla undir þessa alþjónustu og vera tækir öllum alls staðar á viðráðanlegu verði. Nei, enn og aftur ætlar hið háa Alþingi að víkja sér undan því að svara þessu. Og hver skyldi nú eiga að svara þessu, virðulegi forseti? Jú, það er þessi maður þarna, hæstv. samgrh. Hann á að skilgreina það fyrir hið háa Alþingi hvað telst grundvallarþjónusta í þessu sambandi því að hið háa Alþingi, eða a.m.k. meiri hluti samgn., treystir sér ekki til þess. Þetta er auðvitað gagnrýni vert, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Enn og aftur hlýt ég líka að skjóta því hér inn í að það er hæstv. samgrh. sem á að skilgreina þessi grundvallarþjónustumarkmið og óhætt er að gefa sér það að eitt þeirra verði það að allir alls staðar geti fengið að tala í síma. En það er hann hins vegar sem á að ákvarða hvort og hversu margir geta komið inn á þennan markað og fallið undir tiltölulega stranga skilmála og afmarkaða um að veita alþjónustu. Með öðrum orðum eiga smærri fyrirtæki væntanlega erfitt með að undirgangast stífa skilmála um það að leyfa öllum að tala í síma alls staðar á landinu á sínu grunnneti eða samkvæmt sínum tilboðum, en látum vera með það.

Meginatriðið er það gagnvart viðskiptavinum, þ.e. gagnvart fólki í landinu, hvort almenningur eigi að eiga það alfarið undir hæstv. samgrh. hvaða þættir eru svo veigamiklir að þá skuli tryggja í þessari alþjónustuskilgreiningu. Við eigum að vera fólk til þess, hv. þingmenn, að búa tryggilega um þá hnúta þannig að enginn velkist í vafa um það í þéttbýli og dreifbýli hvaða grundvallarþjónusta verði á borð borin fyrir almenning í landinu að samþykktu þessu frv. Það er allsendis óviðunandi að skilja við málið eftir jafnopið og hér er gert í þessum efnum.

Síðan hins vegar kemur að því þegar þessi alþjónustumarkmið, hver sem þau verða, eru skilgreind að tillögu hæstv. samgrh., að rekstrarleyfishafar geta fengið afslátt frá þessum altæku skilmálum, geta með öðrum orðum komið til fjarskiptastofnunar og sagt: Það er nú svo óarðbært og erfitt að halda úti talsímaþjónustu til Bolungarvíkur --- svo ég nefni það bara eins og að draga kanínu upp úr hatti, ég nefni það af því að mér datt það í hug af algerri tilviljun --- að ég vil fá styrk úr svonefndum Jöfnunarsjóði sem Póst- og fjarskiptastofnunin hefur yfir að ráða. Og það sem meira er að þessi almenni styrkur dugir mér ekki. Ég ætla að sýna ykkur í bókhaldi hjá mér að það kostar mig allt of mikla peninga að halda úti þessari talsímaþjónustu til hinna dreifðari byggða. Frv. gerir sannarlega ráð fyrir því að óarðbæran rekstur megi styrkja með einhverjum óskilgreindum hætti. Enn og aftur er það alfarið á valdi þessarar stofnunar og fyrir atbeina hæstv. samgrh. hvernig eigi að standa að verki þegar þar að kemur.

Auðvitað fer maður að hugsa með sjálfum sér þegar maður horfir á þennan markað eins og hann blasir við okkur í dag, hvernig svo sem hann verður í raun þegar fram líða stundir, að það verði Póstur og sími hf., hið stóra og mikilvæga þjónustufyrirtæki sem hér eftir eins og hingað til muni sinna þjónustu um landið allt, en smærri aðilar muni gera annað af tvennu, muni í fyrsta lagi bera því við að þeir hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess né heldur séu markaðsaðstæður þannig að þau sjái nokkurn tilgang í því að bjóða upp á þessa alþjónustu, þessa talsímaþjónustu, vítt og breitt um landið. Þau munu þess vegna væntanlega sækja um undir þeim formerkjum að þau ætli aðeins að sinna þessari talsímaþjónustu hér --- ég vil ekki segja í miðbæ Reykjavíkur en hér á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, hér á suðvesturhorninu þar sem flestir notendur eru og væntanlega minnstur tilkostnaður að koma netinu í viðunandi horf og rekstur þess sömuleiðis verði minni heldur en þegar kemur til hinna dreifðari byggða.

Þá kemur væntanlega að því að hinn stóri Póstur og sími hf., sem telur sig hafa þjóðfélagslegum skyldum að gegna fyrir atbeina og undir stjórn hæstv. samgrh., sæki þá um það gagnvart Póst- og fjarskiptastofnun að fá úr þessum jöfnunarsjóði, leggur sennilega líka fram reikning um það hversu óarðbært það er og dýrt að halda úti talsímaþjónustu í Bolungarvík, af því að ég nefndi það áðan. Þá kemur til þess að fara eftir reglum fjarskiptastofnunar, sem til verða fyrir atbeina hæstv. samgrh., undir hvaða formerkjum eigi að borga til baka þennan tilkostnað sem væntanlega í þessu tilfelli Póstur og sími verður fyrir við það eitt að halda úti óbreyttu þjónustuumfangi eins og verið hefur um langt árabil.

Þetta rek ég hér, virðulegi forseti, til þess að reyna að gera hv. þingmönnum einhverja grein fyrir því hvers konar landslag, hvers konar flækjur það eru, hvers konar milliliðaverslun það er í raun sem við erum að fara inn í með þessu frv. Ég er ekki að halda því fram að hugsunin í þessa veru sé fjarri öllu lagi. Ég tel þvert á móti að margt mæli með því og út í slíka millifærslupólitík sé brýnt og nauðsynlegt að fara til þess einmitt að tryggja þessa grundvallarþjónustu víða úti um land. En vissulega fer maður að hugsa um það hvað út úr þessari millifærslupóltík kemur, þ.e. hvert verður þetta verð sem á að vera jafnaðarverð á landinu öllu vegna tillögu sem er fram komin við 2. umr. um sama verð allt í kringum landið í talsímanum og langlínuálag er forboðið, en þá veltir maður því fyrir sér hvað út úr þessu komi innan sama fyrirtækis, hver verði samkeppnisfærni þeirra fyrirtækja sem ætla sér að þjónusta allt landið, njóta styrks úr jönunarsjóðum, njóta styrks vegna óarðbærra þátta í þjónustu við landsbyggðina, á móti hinum sem fá hugsanlega til þess heimild, af því að það er opnað fyrir það að þjónusta aðeins höfuðborgarsvæðið. Hver verður eiginlega niðurstaðan í þessari samkeppni þegar allt er talið? Er það þessi stofnun undir atbeina hæstv. ráðherra sem ætlar að tryggja það að stóra fyrirtækið, sem ætlar að þjónusta allt landið, gjaldi þess ekki og geti farið jafnlangt niður með verðið og hugsanlegir samkeppnisaðilar sem eru smærri í sniðum með ódýrari og einfaldari rekstur og ætla sér að bjóða upp á tiltölulega lág símgjöld á höfuðborgarsvæðinu?

Þetta veit ekki nokkur maður. Það getur enginn svarað þessum vangaveltum fyrir fullt og fast. Mér er það fullkomlega ljóst. En á móti kemur hins vegar að þetta frv. gerir að sönnu sáralitlar tilraunir til þess að nálgast þetta svar. Við stöndum eiginlega eftir í nákvæmlega sömu sporum eftir að hafa lesið í gegnum ítarlegt frv., ítarlegar athugasemdir og raunar líka eftir að hafa átt ágætissamtöl við höfunda þess og fengið síðan athugasemdir frá ýmsum aðilum sem til málsins þekkja. Þetta veldur mér áhyggjum og ég held að þetta hljóti að valda miklu fleirum áhyggjum þegar við erum að reyna að mjaka okkur inn í nýjan veruleika, nýjan tíma í þessum efnum. Enn og aftur segi ég, virðulegur forseti, að þarna þurfum við að gera miklum mun skýrar, eins skýrt og nokkur möguleiki er, hvernig við ætlum að láta þessi mál ganga fram í raunveruleikanum, í praktíkinni þegar þetta á allt að verða að veruleika. Ef ekki þá skapar þetta óróleika, ekki aðeins meðal þeirra aðila sem eru að sinna þessari þjónustu og veita hana hingað og þangað, heldur skapar þetta ekki síður óróleika hjá notendum þjónustunnar. Mikið skelfing færi það nú fyrir lítið, virðulegur forseti, ef gamalt baráttumál, sem ég er mjög sammála að gangi fram, um að kostnaður við símaþjónustu verði hinn sami hvar sem er á landinu, skyldi allt í einu birtast í þeim veruleika um mitt ár 1998 að smærri fyrirtæki, sem sinna eingöngu þjónustu á suðvesturhorninu, gætu allt í einu boðið fólkinu á suðvesturhorninu langtum lægri taxta á símgjöld en stóra fyrirtækið sem ætlar að þjónusta allt landið. Það er möguleiki sem er fullkomlega til staðar og frv. tekur langt í frá fyrir að geti blasað við okkur. Þá verður þetta gamla baráttumál um jafnan rétt þéttbýlis og dreifbýlis til að borga þjónustugjöld af þessum toga orðið býsna veigalítið og fara þá fyrir lítið stóru loforðin sem ýmsir hv. þingmenn og pólitíkusar hafa nú farið fram með um tiltölulega langt árabil. Þess vegna var það m.a. að hv. þm. Ragnar Arnalds, sá sem hér stendur, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir o.fl. ef ég man rétt, lögðu það til sl. vor að til þess að tryggja jafnræði þéttbýlisbúa og dreifbýlisbúa, a.m.k. þetta eina og hálfa ár sem eftir lifir fram að þeim tíma að frelsið heldur innreið sína, að lækka þetta og gera þennan jöfnuð að veruleika strax þá, því það eru óneitanlega uppi ýmis álitamál sem engin svör eru gefin við hvað tekur við eins og ég hef gert hér allítarlega að umtalsefni.

[18:00]

Vangaveltur mínar hafa einnig farið nokkuð í þá veru hvort og hvernig þessi jöfnuður geti farið saman við þau samkeppnissjónarmið sem eru jafnofarlega á baugi og raun ber vitni í þessu frv. Álit Samkeppnisstofnunar, sem ég tek auðvitað ekki sem hið eina sanna og rétta, veldur engu að síður áhyggjum í þessu samhengi. Álit hennar er fskj. I en þar eru ýmis varnaðarorð látin falla og frumvarpshöfundar og þeir sem bera á því pólitíska ábyrgð eru varaðir mjög við.

Ég hafði einnig á orði sl. vor í þessu samhengi að ýmislegt væri nú á kreiki í Brussel sem gerði það að verkum að hugsanlega yrði erfitt að koma því við í framkvæmd að láta ákvæði sem þetta ganga upp í ljósi þeirrar meginstefnumörkunar ESB-tilskipunarinnar um þetta frelsi og þessa samkeppni. Fræðimenn eru ósammála um það. Fræðimenn ráðuneytisins hafa haldið því fram að þetta sé hægt. Hv. frsm., formaður samgn., hefur gert hið sama. Ég vona svo sannarlega að svo sé og vil auðvitað taka það skýrt fram að aðrir fulltrúar í minni hluta samgn. hafa ekki skipt um skoðun í þessu máli og styðja jafnmikið og kröftuglega og fyrr þetta spor í réttindaátt, þ.e. að gera landið allt að einu kjördæmi þegar kemur að kostnaði við símaþjónustu. Þannig að viðvörunarorð mín og annarra nefndarmanna má alls ekki túlka á þann veg að við viljum bregða fæti fyrir hina pólitísku markmiðssetningu. Það vil ég gera algerlega skýrt og í því ljósi munum við styðja þetta ákvæði og setja fingurna í kross og vona hið besta að þetta sé mögulegt þegar til kastanna kemur. Hins vegar er ástæða til í þessu samhengi að vona hið besta en vera viðbúinn hinu versta.

Virðulegi forseti. Víkur þá sögunni að þriðja frv. sem er í blaðsíðum talið jafnþykkt og hin tvö fyrri en sumpart dálítið stílbrot í þessari trílógíu því að þá bregður allt í einu svo við að meginatriðin um frelsi og samkeppni eru ekki í hávegum höfð heldur fyrst og fremst reynt að stilla mál þannig af að halda kyrrum kjörum, að breyta ekki í stóru sambýli Pósts og síma sem einkaleyfishafa að verulegu leyti og annarra sem á markaði eru á þeim vettvangi sem slíkt er heimilt. Þetta gerist náttúrlega fyrst og síðast vegna þess að Evrópa er ekki jafnlangt komin á þessum vettvangi en er hins vegar dálítið stílbrot á stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. á þeirri stefnu sem menn halda mjög á lofti og hafa nú gert í umræðunni almennt um að það sé allra meina bót að fara í mikla samkeppni og einkavæða og ég veit ekki hvað og hvað.

En nú kippa menn allt í einu að sér höndum þegar kemur að póstþjónustunni og þá á að hreyfa við sem minnstu. Raunar var það þannig, eins og frv. var í sinni fyrstu gerð, að frekar var þessi réttur einkaleyfishafans aukinn á kostnað samkeppnisaðila heldur en hitt. Umsagnaraðilar sem til nefndarinnar komu kvörtuðu mjög yfir því að þetta væri skref í þá átt að minnka samkeppni og, eins og ég segi, auka rétt einkaleyfishafans. Það kemur m.a. fram í fskj. með 1. minni hluta samgn., þess sem hér stendur og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þar er á ferðinni umsögn Póstdreifingar ehf. Að vísu hefur verið gerð á því smávægileg bragarbót með brtt. meiri hlutans sem lýtur að því að þrengja ekki hag þeirra örfáu sem þó hafa verið í samkeppni á tilteknum afmörkuðum sviðum í póstþjónustunni. Þannig að í grófum dráttum held ég að óhætt sé að fullyrða að þessi viðskiptarammi verður mjög svipaður því sem verið hefur. Ég tek fram, virðulegi forseti, að ég geri engar athugasemdir við það og finnst það í sjálfu sér óvitlaus pólitísk stefnumörkun miðað við það sem gerist og gengur. Segi sem svo að nóg sé nú samt í ljósi þeirra umfangsmiklu breytinga sem verða á vettvangi fjarskiptanna og alveg óhætt sé fyrir Íslendinga að taka eitt skref í einu í þessu sambandi. Að setja nú ekki allt á annan endann bæði á vettvangi fjarskipta og pósts þannig að hyggilega sé að verki staðið. En það breytir auðvitað ekki því að ríkisstjórnin og hv. stjórnarþingmenn tala dálítið austur og vestur í þessu samhengi og eru samhengislausir ef svo má segja. Þeir tala um nauðsyn á samkeppni í fjarskiptamálunum en síðan tala þeir um nauðsyn þess að halda kyrrum kjörum og óbreyttri stefnu í póstmálunum og er svo sem fróðlegt að fá þá til að leggja þetta saman og fá út úr þessu einhverja heildstæða stefnumörkun í póst- og fjarskiptamálum yfirleitt. Og ég kalla eftir því. Ég held að ástæðulaust sé að spyrja hæstv. ráðherra um það. Hann getur vafalaust ekki svarað mér. Ég spyr því hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hverju það sæti að stefnumörkunin gengur svona á misvíxl. En ég undirstrika þó enn og aftur að þarna held ég að skynsamlega sé að verki staðið.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir þeim helstu álitamálum sem uppi eru um þessi efni. Ég hef ekki, til þess að spara tíma, lesið þessi nál. minni hluta samgn. staf fyrir staf. Þau tala að vissu leyti fyrir sig sjálf og eru ítarleg að gerð og ástæðulaust að tefja tíma þingsins með því að lesa þau upp frá a til ö. Þess vegna hef ég fremur kosið að fara í grófum dráttum yfir aðeins örfá af þeim fjölmörgu álitamálum sem vissulega vakna við þessa yfirferð og vil undirstrika það mjög rækilega að minni hluti samgn. hefur við undirbúning og yfirferð þessa máls reynt að haga málum þannig að vinna í góðu samstarfi við meiri hluta nefndarinnar. Minni hluti nefndarinnar er meðvitaður um það að þegar ákvörðun um hlutafélagavæðingu Pósts og síma varð að veruleika þá var ekkert undan því vikist að fara í endurmat á gildandi lögum um fjarskipti og póstþjónustu. Ég tel því brýnt að löggjöf af þessum toga sé frágengin fyrr en síðar. Það er hins vegar ekkert, nákvæmlega ekki nokkur skapaður hlutur, sem kallar á það að þessi frv. þurfi að afgreiða í þessari viku eða með öðrum orðum fyrir næstu áramót. Það er engin brýn þörf á því og engin rök hafa svo sem verið færð fyrir því. Í lagatextanum um Póst- og fjarskiptastofnun er raunar gert ráð fyrir að hún taki ekki til starfa fyrr en 1. apríl 1997. Það gerist ekkert stórt þó að byrjun þeirrar starfsemi yrði frestað til hausts 1997. Það mundi ekkert gerast. Það mundi heldur ekki gerast nokkur skapaður hrærandi hlutur þó að þessum frv. um fjarskipti og póstþjónustu yrði frestað fram á næsta ár, þ.e. að nefndin tæki sér þann tíma sem hún þyrfti til að fylla upp í sannanleg göt í frv. Mótsagnir sem í þeim er að finna, m.a. um hlutverk hæstv. samgrh., m.a. um grunnþjónustu sem þessi löggjöf á að tryggja landsmönnum öllum en er ekki sagt fyrir fullt og fast í hverju á að vera fólgin, svo aðeins séu nú tekin tvö dæmi. Með öðrum orðum, það gerist út af fyrir sig ekkert í sjálfu sér í meginatriðum með hlutafélagavæðingunni um áramótin sem kallar á að þessi löggjöf verði afgreidd laugardaginn fyrir jól eða á Þorláksmessu eftir efnum og ástæðum, sem taki síðan gildi viku síðar. Þess vegna undirstrika ég þá tillögu minni hluta nefndarinnar að stjórnarþingmenn og meiri hluti nefndarinnar taki það mjög til gaumgæfilegrar athugunar og velvilja að setjast nú yfir þetta frv. eilítið lengur og eiga um það gott samkomulag að sníða af því verstu agnúana á vorþingi og ljúka því verki með afgreiðslu þeirra á vorþingi. Ég nefni í því samhengi póstlögin. Það hefur verið yfirlýst af hálfu stjórnarþingmanna að ekki sé verið að gera neinar breytingar sem breyti þessu rekstrarumhverfi og þá hlýtur maður auðvitað að spyrja hvers vegna í veröldinni er þá jafnbrýnt og haldið er fram að klára þetta núna, helst í gær.

Ég fer þess mjög eindregið á leit, virðulegi forseti, fyrir hönd minni hluta nefndarinnar að menn hlusti á þessar ábendingar og óskir minni hluta nefndarinnar um að taka sér þann tíma sem nauðsynlegur er til að ljúka lagagerðinni. Að minnsta kosti er það alveg skýrt í mínum huga og ég vil að það komi klárt fram að ég mun eindregið óska eftir því að nefndin yfirfari nokkur þau álitamál sem hér hafa vaknað við 2. umr. málsins, milli 2. og 3. umr. þ.e. að nefndin komi saman og ræði nokkur þau álitamál sem uppi eru. Það er þó lágmarkskrafa þegar um er að ræða jafnumfangsmikla lagasetningu og hér um ræðir, doðranta sem telja samtals um 100 síður. Lagasetning sem mun hafa varanleg áhrif á rekstrarumhverfi í þeim sívaxandi málaflokki og ekki síður á neytendurna í þessu landi sem er auðvitað hver og einn lifandi þegn. Það skal vanda sem lengi skal standa, virðulegi forseti.