Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 18:16:03 (2327)

1996-12-17 18:16:03# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[18:16]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hirði ekki um að eyða mörgum orðum í fyrri hluta andsvars hæstv. samgrh. varðandi sögu þessa máls og hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Ég hygg að það eigi eftir að koma á daginn að þar hafi menn farið fram með slíku offorsi að það eigi eftir að hitta hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn alvarlega fyrir. Það væri fróðlegt að heyra viðbrögð Framsfl. í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, að þeir hafi verið léttir í taumi þegar kom að því að þeir settust í mjúka ráðherrastóla og fóru létt í vasa hæstv. samgrh. Ég veit ekki hvað varaformaður, hv. þm. Magnús Stefánsson, segir um slíkar fullyrðingar.

En mergur málsins er þessi: Hæstv. ráðherra þakkaði mér fyrir það að ég skyldi hafa á honum jafnmikla trú og ég hef þegar kemur að því að gæta mála hjá Pósti og síma, gæta þessa fyrirtækis sem telur 2.500 manns og veltir um 20, 30 eða 40 milljörðum á ári hverju. Það hef ég að vissu marki þó hann fari náttúrlega klaufalega að starfsmönnum sem hafa áhyggjur og eru með andvörp nú í jólamánuðinum.

En mín spurning var þessi: Hvernig í veröldinni ætlar hann að passa nú upp á þetta stóra og mikla fyrirtæki og gæta þess í hvívetna, en á sama tíma gæta þess að samkeppnisaðilar þessa sama fyrirtækis á markaði njóti hlutlægni, njóti þeirra almennu réttinda sem eru hér í almennum orðum og er grundvöllur þeirrar lagasetningar sem við erum hér að ræða? Það eru þessar mótsagnir, virðulegi forseti, sem ég gerði mjög rækilega að umtalsefni og sem ég held að hæstv. ráðherra eigi eftir að lenda í miklum erfiðleikum með. Þess vegna er frv. eins og það er hér á borð borið meingallað. Ég bauðst til þess að hjálpa til við það að koma hæstv. ráðherra út úr þessari krísu þannig að hann geti bara einbeitt sér að einu í einu. Ég held að það sé alveg nægilegt.