Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 21:00:13 (2332)

1996-12-17 21:00:13# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. 2. minni hluta RA
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[21:00]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Málefni Pósts og síma voru mjög til umræðu á Alþingi á síðastliðnu vori en þá var ákveðið að stofnað yrði hlutafélag um rekstur Pósts og síma. Við alþýðubandalagsmenn létum þá í ljósi miklar efasemdir um stefnu, markmið og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og gagnrýndum ríkisstjórnina fyrir það að ekki hefði verið gengið frá réttindamálum starfsmanna áður en ákvarðanir um breytingu og umbyltingu Pósts og síma voru ákveðnar. Einnig drógum við í efa að þessi breyting hefði í för með sér mikinn ávinning fyrir land og þjóð. Við bentum á það að mjög ótryggt væri, að ekki væri nú meira sagt, að neytendur póst- og símaþjónustu mundu hagnast á þeirri stefnu sem nú væri mörkuð á þessu sviði.

Við minntum á að víða er símkostnaður almennings verulega miklu hærri en hann er hér á landi. Staðreyndin er sú að t.d. í Bretlandi er þriggja mínútna staðarsamtal um það bil 100% dýrara en það er á Íslandi. Þó höfðu þar verið stigin skref í átt til aukinnar samkeppni fyrir allmörgum árum síðan sem áttu að leiða til lægri kostnaðar fyrir neytendur, en reyndin varð allt önnur. Reyndin þar varð sú að símkostnaður almennings jókst hröðum skrefum í kjölfar einkavæðingar og reynslan erlendis hefur alls ekki verið sú að stefnubreyting í átt til einkavæðingar hafi orðið almenningi til hagsbóta.

Það er mín skoðun að hér á Íslandi séu enn minni líkur á að einkavæðing verði neytendum til hagsbóta heldur en er þó í ríki þar sem eru kannski 50--100 millj. neytendur. Það á enn frekar við í litlu landi eins og á Íslandi að gott er að hafa sterk ríkisfyrirtæki á sviði þar sem samkeppni á mjög erfitt með að njóta sín. Það er líka mjög óljóst að ríkið hagnist mikið á þessari stefnubreytingu sem verið er að gera. Fyrirtækið hefur skilað miklum fjármunum í ríkissjóð á liðnum árum og er þar ekki um neinar smáupphæðir að ræða því að á liðnu ári var upphæðin um 800 millj. kr. og hafði stundum farið í upp undir milljarð, þ.e. sá arður sem fyrirtækið hafði skilað til ríkisins. En ég er ekki viss um að reynslan eigi eftir að sýna að skattar af hlutafélaginu muni nema jafnháum upphæðum í þágu ríkisins og arðurinn hefur verið á undanförnum árum þannig að það er margt sem bendir til þess að einnig ríkið muni bera skarðan hlut frá borði við þessa breytingu.

Ég er líka mjög efins um að þessi stefnubreyting muni hafa mikinn efnahagslegan búhnykk í för með sér fyrir íslenskt þjóðarbú vegna þess að ég held að samkeppni á þessu sviði sé afar erfið og viðleitnin til þess að skapa samkeppnisskilyrði mun verða þjóðarbúinu talsvert dýr. Þannig liggur t.d. fyrir þinginu nú til afgreiðslu frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nýja ríkisstofnun sem eingöngu er ætluð til þess að stjórna þeirri samkeppni sem á að verða á þessu sviði. Og bara reksturinn á þessari nýju ríkisstofnun mun kosta skattgreiðendur um 100 millj. kr. á hverju ári. Sumir segja að sú upphæð eigi síðan hugsanlega eftir að margfaldast og þarna geti orðið um miklu dýrari rekstur að ræða en í fyrstu eru horfur á eins og oft vill verða.

Ég held líka að það sé mikill misskilningur að íslensk símastarfsemi verði betur í stakk búin til að mæta erlendri samkeppni með einkavæðingu á Pósti og síma og aukinni samkeppni. Ég held að við þurfum einmitt á að halda að eiga sterkt, gott og vel skipulagt fyrirtæki með ríkið að bakhjarli til þess að geta háð árangursríka samkeppni við erlenda aðila á þessu sviði.

Mín fyrstu orð við 2. umr. um Póst- og fjarskiptastofnunina hljóta því fyrst og fremst að fela í sér vantrú á þeirri stefnubreytingu sem nú á sér stað í póst- og símamálum á Íslandi. Ég dreg það í efa að þessi stefnubreyting verði neytendum til hagsbóta. Ég er sannfærður um að ríkið og ríkissjóður mun tapa á þessari breytingu og ég óttast að þessar skipulagsbreytingar verði nokkuð dýru verði keyptar og muni kosta í eftirliti býsna mikið.

Það sem ég hef nú sagt lýtur auðvitað meira að liðinni tíð. Ríkisstjórnarflokkarnir tóku sínar ákvarðanir á sl. vori og það stefnir í að Póst- og símamálastofnunin heyri sögunni til og Póstur og sími hf. yfirtaki þá starfsemi sem hin aldna ríkisstofnun hefur sinnt þannig að við stöndum frammi fyrir gerðum hlut og verðum að skoða málin í ljósi þess sem orðið er. Og ég get út af fyrir sig játað það að Póst- og fjarskiptastofnunin, sú eftirlitsstofnun sem þetta frv. fjallar um, er í eðli sínu rökrétt framhald af þeirri stefnu sem hæstv. samgrh. hefur mótað og er nauðsynlegur hlekkur í þeirri nýu keðju sem verið er að koma upp, því ef ákveðið er að skapa samkeppni á þessu sviði, þá verður að sjálfsögðu að vera eitthvert eftirlit með því að sú samkeppni eigi sér stað á heiðarlegum jafnréttisgrundvelli. Ég hef því ekki uppi bein andmæli við því að þessi stofnun sé sett á fót úr því að sú ákvörðun var tekin á sl. vori að stofna hlutafélag um rekstur Pósts og síma.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég hef þegar sagt að ég tel að það hefði verið skynsamlegra að Póstur og sími hefði áfram verið ríkisstofnun, ekki í hlutafélagsformi heldur sjálfstæð stofnun líkt og Landsbankinn og margar aðrar stofnanir sem ríkið rekur og á. Ég tel að við séum með þetta mál allt á miklu meira flugi en nokkur ástæða er til þar sem við sjáum ekki fyrir endann á hvað getur orðið og þar sem mörg slys gætu átt eftir að eiga sér stað.

Í þessu sambandi legg ég að sjálfsögðu áherslu á að Alþb. hefur aldrei verið neinn þjóðnýtingarflokkur. Við höfum ekki lagt áherslu á að ríkið væri að reka fyrirtækin í þjóðfélaginu í stórauknum mæli, það höfum við aldrei boðað og það er hvergi hægt að finna í stefnuskrá Alþb. Við höfum aldrei verið þjóðnýtingarflokkur. Þótt kannski ýmsir aðrir sósíalískir flokkar fyrr og síðar hafi alið þann draum, þá hefur það ekki verið á stefnuskrá Alþb. Við höfum aðhyllst blandað hagkerfi. En við höfum hins vegar talið að í blönduðu hagkerfi ætti heilbrigður ríkisrekstur fullan rétt á sér í vissum tilvikum. Um það geta allir verið sammála að við losnum aldrei við ríkisrekstur að öllu leyti. Ég býst við að það verði seint farið að þjóðnýta Vegagerð ríkisins svo ég nefni eitt dæmi. En þannig mætti nefna mörg dæmi um ríkisrekstur sem hlýtur að eiga framtíð fyrir sér og er óhjákvæmilegur í nútímaþjóðfélagi. Ég tel að fullkomin síma- og póstþjónusta á vegum ríkisins sé í þeim hópi fyrirtækja eða rekstrar sem sé fulkomlega eðlilegt að sé í hverju þjóðfélagi og að við séum komin út á hættulega braut þegar slík fjarskipti eru einkavædd.

Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt á það áherslu í þessari umræðu að reyna að koma í veg fyrir að stórslys verði með þeim breytingum sem hér eru að gerast og t.d. lögðum við það til á sl. vori, sem eins konar varatillögu, að þótt samþykkt yrði að gera Póst- og símamálastofnunina að hlutafélagi, yrði grunnnetið í fjarskiptaþjónustunni áfram í eigu ríkisins. Þannig hljómaði tillagan sem ég var 1. flm. að þegar málið var afgreitt á sl. vori og ég er enn þessarar skoðunar. Ég tel það vera algera lágmarkskröfu að grunnnetið í fjarskiptaþjónustunni verði í eigu ríkisins og í eigu landsmanna allra, rétt eins og vegakerfið. Rétt eins og vatnsveitukerfið er yfirleitt í eigu sveitarfélaga og hitaveiturnar eru það líka og vegirnir eru þjóðareign og hafnirnar eru að sjálfsögðu í eigu sveitarfélaganna, þá ætti það sama að gilda á fjarskiptasviðinu, þ.e. að grunnnetið væri í eigu samfélagsins alls sem reyndi síðan að tryggja að allir ættu þar aðgang. Og á þetta legg ég sérstaka áherslu vegna þess að ég sé ekki betur en að í því frv. til laga um fjarskipti sem hér liggur fyrir sé þetta enn síður tryggt en áður var og að bersýnilegt sé að það eigi að slíta grunnnetið í sundur og dreifa því til margra aðila með tíð og tíma og það tel ég vera þróun af hinu vonda.

[21:15]

Ég vil þó alveg sérstaklega vara við því að þegar samkeppni hefst á þessu sviði verði fyrirtækjum heimilt að tína bestu bitana úr í fjarskiptaþjónustu en skilja þá erfiðustu eftir. Það er t.d. alveg ljóst að sá aðili sem vill bjóða upp á fjarskiptaþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu mun verða í sterkari stöðu til þess en aðili sem býður öllum landsmönnum þjónustu sína. Það er dýrara að þjóna dreifbýlinu en höfuðborgarsvæðinu og ég tel það ágalla á þeirri lagasetningu sem hér er gerð tillaga um að þetta skuli ekki tryggt. Það er einmitt nauðsynlegt að reyna að tryggja það að sérhvert það fyrirtæki sem fer út í beina samkeppni við hið nýja hlutafélag Póst og síma bjóði þjónustu sína örugglega um allt land. Mér finnst að þessir endar séu ekki nægilega hnýttir í frv.

Ég beitti mér fyrir því þegar málið var til meðferðar á Alþingi í fyrravor að sett yrði í lög að Póst- og símamálastofnuninni og arftaka hennar og öllum öðrum sem fengjust við póst- og símaþjónustu yrði gert að hafa eina gjaldskrá fyrir allt landið, að landið yrði gert að einu gjaldsvæði hvað símaþjónustu varðar. Um þetta fluttum við nokkrir stjórnarandstæðingar tillögu í þinginu sem ég var 1. flm. að. Það var eftir að sú tillaga hafði verið flutt sem hv. meiri hluti nefndarinnar, stjórnarliðarnir í samgn., tóku málið upp í samvinnu við hæstv. samgrh. og hafa nú komið þessu ágæta máli í höfn. Þessum aðilum vil ég þakka fyrir þeirra hlut að málinu og er auðvitað mjög ánægður með að þessi árangur hefur náðst og er að því stefnt að landið allt verði eitt gjaldsvæði. Það er mjög merkur árangur sem unnið hefur verið að í tvo áratugi og ekki fyrr en nú að fullur sigur vinnst. Þeir sem að því hafa komið eiga þakkir skildar. En þá megum við einmitt gæta okkar á því að það atriði, sem ég var að enda við að nefna rétt áðan og varðar það hvort nýir aðilar bjóða þjónustu sína um allt land, verði þá ekki til þess að hinu markmiðinu um sama gjaldsvæðið sé hnekkt. Á því er viss hætta. Maður sér það í umsögnum ýmissa aðila sem komið hafa að þessu máli og sent hv. samgn. álit sín að menn draga í efa að markmiðunum um landið allt sem eitt gjaldsvæði verði haldið til streitu jafnhliða því sem gerð er krafa um að aðilar sinni öllu landinu sem einu þjónustusvæði. Það væri þokkalegt ef við glötuðum þessu markmiði okkar vegna þess að við værum að reyna að tryggja sem mesta samkeppni. Þetta þarf að fara saman og ég skora á hæstv. samgrh. að tryggja það þegar þessi lög verða komin til framkvæmda að á því verði ekki neinn misbrestur.

Herra forseti. Ég ætla að láta þessi orð nægja að sinni um þau frumvörp sem hér liggja fyrir. Það er skoðun okkar sem skipum minni hluta samgn. að ýmislegt í þeim þarfnist nánari skoðunar og að það væri affarasælla að frumvörpin fengju nákvæmari skoðun í nefnd áður en þau yrðu afgreidd frá Alþingi. Það er margt í þessum málum sem er óljóst og ég held að umsagnir sem borist hafa beri þess nokkurn vott að margt þarf að skoða áður en málið er afgreitt. Það er því tillaga okkar að frumvörpin verði ekki afgreidd á þessu hausti en betri tími gefist í vetur til þess að fara yfir málin í nefnd.

Ég er aðili að áliti minni hluta samgn. um lögin um fjarskipti og um lögin um Póst- og fjarskiptastofnun en ég átti ekki samleið með 1. minni hluta samgn. varðandi nefndarálit um póstþjónustu. Mér fannst að í því nefndaráliti gætti um of hugleiðinga um frekari hugsanlega einkavæðingu á sviði póstmála sem ég er algerlega mótfallinn. Að vísu má kannski segja að það komi ekki fram í nefndaráliti 1. minni hluta samgn. að það sé beinlínis ætlun þeirra sem undir það nefndarálit skrifa að stuðla að því, en samt hefði ég viljað orða þær hugleiðingar á allt annan og skýrari hátt en þar er gert. En þar sem okkur nefndarmönnum var skammtaður svo lítill tími til að undirbúa okkar nefndarálit, og ég t.d. fjallaði ekki um þessi nefndarálit nema í hálfa stund rétt áður en fundur var að hefjast í dag vegna þess hraða sem var á málinu, þá gafst okkur ekki tími til þess að samræma sjónarmið okkar og úr varð að ég skilaði sérstöku nefndaráliti um þennan þátt málsins.

Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt. Ég tel að póstþjónusta og símaþjónusta hér á landi sé einna sambærilegust við vegakerfið í landinu, vatnsveiturnar og hitaveiturnar og annað það sem á að vera á vegum landsmanna allra og stofnana sem eru í eigu landsmanna allra. Við eigum ekki að gera okkur leik að því að veikja þær ágætu stofnanir sem við þegar höfum, sem hafa staðið sig vel, hafa skilað miklum arði í ríkissjóð, hafa boðið þjónustu hér á landi, eins og Póst- og símamálastofnunin sannarlega hefur gert, sem er ódýrari og betri en í mörgum nálægum löndum. Við eigum ekki að setja þennan ávinning í hættu með því að vera að búta slíkar stofnanir niður eða siga á þær villtri samkeppni heldur eigum við einmitt að ætlast til þess að þarna sé um að ræða sterkar stofnanir ríkisvaldsins sem geta háð árangursríka samkeppni við erlenda aðila. Ég ítreka: Þetta er ekki þjóðnýtingarstefna. Þetta er stefna sem menn ættu að geta tekið undir hvar í flokki sem þeir standa.