Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 21:45:19 (2336)

1996-12-17 21:45:19# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[21:45]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri á öllu að hv. þm. er tæpast læs en eitthvað skortir nú líka á heyrnina, því ef hann hefur skynjað það svo við hlustun að hér væri ekkert að málum og yfirleitt væri þetta allt í hinu besta lagi þá er eitthvað mikið að. Og hv. þm. þarf auðvitað að fara að gæta að skilningarvitum. Hér eru ítarlegar grg. minni hluta nefndarinnar upp á sex blaðsíður og ég hvet þingmanninn mjög eindregið, til þess að hann sé tækur í umræðu á málefnalegum grunni, að setjast nú við lestur og fara yfir öll frv. þrjú og lesa álit minni hlutans þannig að hægt sé að ræða við hann á málefnalegum grunni. Hins vegar er líka brýnt og ég ætla ekki að fara að endurtaka ræðu mína frá því fyrr í dag nema á því sé brýn þörf. (Gripið fram í: Nú!) Það kann að vera að ég geri það við betra tækifæri en ég geri það ekki á einni mínútu. Ég vil hins vegar árétta að 1. janúar nk. gerist í sjálfu sér ekkert og ekkert sem kallar á að við breytum um löggjöf í fjarskipta- og póstmálum. Það eina sem gerist þá er að ríkisfyrirtæki breytist í hlutafélag. Það er ekki fyrr en 1. janúar 1998 sem gerð er krafa um það samkvæmt alþjóðasamningum sem við höfum undirgengist að hér skuli þetta frelsi bresta á í fjarskiptamálum. Þá er þessi tímapunktur runninn upp. Með öðrum orðum, það er ekkert um þessi áramót sem knýr á um að þessi frv. séu lögfest. Ég minni líka á að það eru þrír eða fjórir mánuðir sem líða frá því að við festum samkeppnina í sessi þar til þessi fjarskiptastofnun verður að veruleika. Þar er misræmi til fjögurra mánaða þar sem samgrh. í myljandi hagsmunagæslu á að sjá svo um og feta þessi fyrstu skref til hlutlægrar og heiðarlegrar samkeppni á þessum markaði. Hér rekst auðvitað hvað á annars horn, virðulegi forseti.