Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 22:21:41 (2342)

1996-12-17 22:21:41# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[22:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka orð forseta þar sem hann ber stjórnarandstöðunni gott orð og það kemur mér ekkert á óvart því ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að stjórnarandstaðan hefur tamið sér ný vinnubrögð á þessu hausti og við höfum átt afar gott samstarf við forseta. Og með öllum þeim breytingum sem við höfum gert á vinnubrögðum og skipulagi höfum við verið að stíga skref í þá átt að taka upp ný og bætt vinnubrögð um störf þingsins. En það dugir skammt að hrósa stjórnarandstöðunni ef meiri hlutinn á Alþingi sýnir fullkominn hroka í samskiptunum.

Reyndar ætla ég með því að koma aftur hér í ræðustól að benda forseta á að ef hann hyggst halda áfram með dagskrána umfram það að taka 9., 10. og 11. mál sem hér eru til umræðu, þá sýnist mér að það sé sjálfhætt vegna þess að hæstv. forsrh., sem hefur forræði á 12. máli, er ekki hér í húsinu og ómakar sig reyndar ekki mjög til að vera viðstaddur þau stóru mál sem hafa verið á dagskrá undangengna daga. Og það er alveg ljóst að ef það verða hafðir uppi einhverjir burðir með að taka fyrir ráðstafanir í ríkisfjármálum hér í kvöld upp á það að halda áfram inn í nóttina, þá verður kallað eftir því að sá ráðherra sem hefur forræði málsins birtist hér vegna þess að það er búið að vera óþolandi t.d. í fjárlagaumræðunni að við stjórnarandstæðingarnir höfum talað meira eða minna hver við annan á meðan fulltrúar stjórnarliðanna hafa varla sést hér í stólum umfram það sem fjmrh. hefur setið hér stutt í senn svona eins og fugl á priki.