Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 23:09:54 (2349)

1996-12-17 23:09:54# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[23:09]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að svara nokkrum þeim spurningum sem hv. 8. þm. Reykv. beindi til mín. Það er í fyrsta lagi varðandi jöfnunargjaldið og sú spurning hvort þar væri verið að framselja skattlagningarvald. Svo er alls ekki. Ef við skoðum frumvarpsgreinina þá er gert ráð fyrir því í 3. mgr. að jöfnunargjaldið samkvæmt þessum lögum skuli ákveðið árlega í upphafi hvers árs, í fyrsta skipti 1. janúar 1998. Ef menn síðan skoða þær brtt. sem liggja fyrir frá meiri hluta samgn. er einmitt gert ráð fyrir því varðandi fjarskiptalögin að nákvæmlega sams konar ákvæði sé þar inni. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að þetta skuli ákveðið árlega, í upphafi hvers árs. (Gripið fram í: Af ráðherra?) Af fagráðherra, já. Ég tel að þar með sé fyrir því séð að það sé ekki verið að afhenda þetta vald.

Í öðru lagi var spurningin um einkaréttinn. Það kom fram í frammíkalli okkar hæstv. samgrh. að meiri hluti samgn. hefði þegar lagt til að það yrði hætt við að útvíkka einkaréttinn eins og gert var ráð fyrir í þessu frv. og þeim málum verður komið fyrir með mjög sambærilegum hætti og er núna í gildandi lögum.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í frv. að póstrekendur sem annast póstmeðferð tiltekinna blaða og tímarita, eins og segir í 14. gr., skuli fá uppbættan kostnað við það að dreifa þessum blöðum og það sé gert af Póst- og fjarskiptastofnun.

Að lokum, vegna þess að hv. þm. nefndi 25. gr. um bréfarifurnar, vil ég einungis geta þess að hér er um að ræða ákvæði allt frá árinu 1986 hið minnsta og ég held að ég verði að beina spurningunni til hv. þm. Svavars Gestssonar sem sat á þingi þann tíma og hefur væntanlega komið að málinu með einhverjum hætti. En það var engin sérstök ástæða talin til að breyta þessu. Þetta er gamalt ákvæði, eins og ég segi, og í athugasemdum var ekki sérstaklega fundið að þessu máli.