Atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:00:58 (2363)

1996-12-18 13:00:58# 121. lþ. 48.1 fundur 224. mál: #A atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi VH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:00]

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir):

Hæstv. forseti. Hér á landi eins og í nágrannalöndunum er atvinnuleysi, mismikið þó eftir landshlutum. Höfuðborgarsvæðið kemur ætíð hlutfallslega verst út hvað þetta varðar, þrátt fyrir mikla fjölgun starfa á því svæði. Á landinu öllu hefur störfum stórfjölgað. Fimm til sex þúsund störf hafa bæst við á undanförnum missirum. Því hlýt ég að álykta að atvinnuástand hafi batnað hér til muna og er það gleðilegt. Konur hafa yfirleitt verið fleiri á atvinnuleysisbótum en karlar á landinu öllu og er það umhugsunarefni. Í skýrslu um skráð atvinnuleysi í Reykjavík frá 30. nóvember sl. frá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar kemur fram að konur á aldrinum 21--40 ára eru langfjölmennasti hópur atvinnulausra, alls 1.075 eða 35% allra á atvinnuleysisskrá. Tæplega 60% kvenna á skrá eru mæður með börn undir 18 ára aldri á framfæri og rúmlega fjórðungur allra kvenna á atvinnuleysisskrá eða 27% eru einstæðar mæður. Um 200 ungmenni 20 ára og yngri voru atvinnulaus á sama tíma.

Hæstv. forseti. Í ljósi þessara upplýsinga leyfi ég mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félmrh.: Í fyrsta lagi. Hvert hefur skráð atvinnuleysi verið á landinu öllu undanfarin tvö ár? Í öðru lagi. Hver hefur verið þróun atvinnuleysis á höfuðborgarsvæðinu samanborið við skráð atvinnuleysi á landinu öllu sl. tvö ár, sundurliðað eftir kynjum og sundurliðað eftir aldri? Í þriðja lagi. Hefur verið gripið til sérstakra vinnumarkaðsaðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að rjúfa vítahring þeirra einstaklinga sem hafa orðið atvinnulausir?