Atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:10:45 (2367)

1996-12-18 13:10:45# 121. lþ. 48.1 fundur 224. mál: #A atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það leikur nú held ég enginn vafi á því að okkur takist að skapa hér 12 þúsund störf fram til aldamóta. En við þurfum hins vegar að fá að flytja til landsins töluvert vinnuafl til þess að gegna þessum störfum. Hér á landi eru starfandi með leyfi félmrn. um 1.200 einstaklingar en við þurfum sem kunnugt er ekki að veita atvinnuleyfi íbúum á EES-svæðinu þannig að talan er töluvert hærri.

Það er líka rétt að geta þess að inn í þessum atvinnuleysistölum er fólk sem er í hlutastörfum, svona upp undir 1.000. Obbinn af því eru konur og hér í Reykjavík voru t.d. fyrir skemmstu 704 konur á skrá, reyndar ekki allar í hlutastörfum, með börn innan sex ára aldurs, og það voru 42% allra atvinnulausra kvenna. Þannig að í sumum tilfellum mun það vera sjálfvalið að vera heima og vinna e.t.v. hluta dagsins. Þetta sker mjög í augun enda er reyndar launakerfi þannig háttað að það er ekki mikil hvatning að taka störf á lægstu laununum fremur en að vera á atvinnuleysisbótum.

Það er rétt að geta þess að til atvinnumála kvenna sérstaklega hefur verið varið verulegu fjármagni, 20 milljónum á ári undanfarið. Ég held að þeir peningar hafi nýst ákaflega vel. Þá er líka rétt að geta þess að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur afgreitt á þessu ári um 240 milljónir til átaksverkefna en það gerir 350--360 ársverk.