Skipulag miðhálendis Íslands

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:13:17 (2368)

1996-12-18 13:13:17# 121. lþ. 48.2 fundur 231. mál: #A skipulag miðhálendis Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi VH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:13]

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir):

Hæstv. forseti. Smátt og smátt er Íslendingum að verða ljóst að miðhálendi Íslands er ein dýrmætasta perla landsins. Erlendir ferðamenn hafa orð á því að við eigum í miðhálendinu ósnortinn og einn sérstakasta stað í Evrópu sem í vaxandi mæli dregur til sín náttúruunnendur og ferðamenn. Því er mikilvægt að við sjálf skynjum að öll mistök geta ofboðið augum ferðamannsins. Öræfakyrrðin, auðnin, jöklarnir og landslagið gerir svona svæði mjög eftirsóknarvert og dýrmætt. Því er ekkert mikilvægara en að sem fyrst liggi fyrir hverjir fara með stjórnsýslu á miðhálendinu og fyrir liggi svæðisskipulag. Við verðum að fara varlega með alla mannvirkjagerð á þessu svæði. Að sökkva náttúruperlum í þágu virkjana eða dreifa lúpínu um alla mela gæti skapað fordóma í okkar garð og skaðað okkur sem ferðamannaland sé horft til framtíðar.

Hæstv. forseti. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. umhvrh.: Hvað líður gerð svæðisskipulags miðhálendis Íslands? Hverjir taka þátt í gerð skipulagsins og við hverja hafa þeir haft samráð? Hver er áætlaður kostnaður við gerð skipulagsins og hvaða áform eru uppi um stjórnsýslu á miðhálendinu?