Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:38:28 (2373)

1996-12-18 13:38:28# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[13:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi samningur sem við ræðum er afskaplega mikilvægur fyrir hagsmuni Íslendinga. Því miður er það alveg rétt sem hæstv. utanrrh. segir, að þetta er samningur sem er algerlega sambærilegur við þann samning sem gerður var í fyrra og það er hið dapurlegasta við samninginn. Við hann hefur bæst að vísu að búið er að semja við Evrópusambandið sem fær núna 125 þús. tonna kvóta og er eiginlega meira en hálfdrættingur á við Ísland. Þó liggur það ljóslega fyrir að Evrópusambandið hefur nánast enga sögulega veiðireynslu og rökin fyrir þessum kvóta eru nánast engin. Ég verð hins vegar að segja að eins og staðan var orðin fyrir Íslendinga var búið að leika þá inn í slíka kastþröng að það kann vel að vera rétt hjá hæstv. utanrrh. að í stöðunni hafi ekki verið um annað að ræða en fallast á þennan fráleita kvóta til Evrópusambandsins. En það var komið fram áður, m.a. í umræðum í utanrmn. að Íslendingar og stjórnvöld á Íslandi voru í sjálfu sér búin að fallast á það í huganum að nauðsynlegt væri að rjúfa þennan 100 þús. tonna múr til að ná samningum við fjórlöndin og við Evrópusambandið. Það má hins vegar vera að í þeim samningi sem tekur til Evrópusambandsins felist líka sóknarmöguleikar fyrir Íslendinga á öðrum sviðum. Það kom mér satt að segja á óvart að hæstv. utanrrh. skyldi ekki benda á þá augljósu staðreynd sem kynni ef til vill að gagnast okkur í samningum um þorskveiðar í Smugunni, að það voru Norðmenn sem allra manna harðast beittu sér fyrir því að ná tökum á veiðum Evrópusambandsins. Til að gera það veittu þeir og stuðluðu að því að það fengi umtalsverðan kvóta án þess að nokkur söguleg veiðireynsla væri fyrir hendi. Í þessu hljóta að felast einhver rök sem við getum notað málstað okkar til framdráttar í deilunum við Norðmenn um þorskveiðar í Smugunni og það er satt að segja það eina ljósa sem ég sé við þetta.

Það er hins vegar svo að stóri og alvarlegi hluturinn við þennan samning er ekki sá kvóti sem Evrópusambandið fær, a.m.k. ekki að mínum dómi, heldur er búið að geirnegla þessa lágu hlutdeild sem Íslendingar féllust á með samningunum í fyrra. Eins og hæstv. utanrrh. man, þá var nánast hver einasti talsmaður stjórnarandstöðunnar í umræðunum í fyrra og í umræðunum þar áður, líka um síldarsamningana, sem lagðist mjög harkalega með sterkum rökum gegn því að Íslendingar féllust á þessa lágu hlutdeild. Eigi að síður varð það niðurstaðan að Íslendingar féllust á það að taka sér einungis 17,2% af heildarkvótanum, sem út af fyrir sig voru skelfileg tíðindi, vegna þess að út frá sögulegri veiðireynslu og út frá líffræðilegri dreifingu fullorðnu síldarinnar er ekki hægt annað en fallast á að það eru öll rök sem hníga að því að við ættum a.m.k. að fá þriðjung af fullorðnu síldinni, en við féllumst á 17,2%. Vörn hæstv. utanrrh. var fólgin í einu ákvæði samningsins þar sem sagði að þetta hefði ekkert fordæmisgildi. Hvenær hefur það gerst, herra forseti, að alþjóðlegur samningur hefði ekki fordæmisgildi inn í framtíðina? Auðvitað aldrei. Og nú hefur það komið í ljós sem við vöruðum við þá að auðvitað var verið að negla okkur í þessa lágu hlutdeild til framtíðar. Og það sem stendur upp úr þessum samningi er það, að við erum föst í því fari og það sem meira er að okkar hlutdeild hefur minnkað um einn tíunda frá því sem áður var. Hún er einungis 15,2% núna.

Það er líka vert að rifja upp að þessi ríkisstjórn hóf feril sinn heldur glaðhlakkaleg að því er varðaði samninga við aðrar þjóðir um fiskveiðar á úthöfunum. Það var látið að því liggja að það væri einungis þvergirðingur fyrrv. utanrrh., hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem gerði það að verkum að ekki næðust samningar. Hæstv. utanrrh. lét að því liggja að hann hefði góð sambönd í Noregi og við minnumst þess að það voru sýndar sjónvarpsmyndir af honum að skokka með norskum ráðherrum í fjörunni. Hæstv. sjútvrh. taldi líka að nú væri allt annað uppi. Nú kæmi það í ljós að Íslendingar gætu samið og eins og hæstv. utanrrh. sagði í 1. umr. um síldveiðar: ,,Ísland verður að sýna að það getur samið``. Það hefur heldur betur komið í ljós að Íslendingar semja. En í þessum efnum, herra forseti, er niðurstaða mín sú að þeir hafa einungis sýnt að þeir geti samið af sér.

Ég get ekki sagt annað en að öll þessi saga hafi verið harmsaga. Hún hefur verið undanhald samkvæmt áætlun og þetta niðurlag sem við sjáum núna er í góðum stíl við það sem áður hefur gerst. Við verðlaunuðum Norðmenn á sínum tíma fyrir að hafa drepið niður stofninn fyrir okkur með því að fallast á miklu hærri hlutdeild en þeir áttu nokkurn sögulegan rétt á. Við verðlaunum Rússa líka fyrir að taka ekki upp fullkomlega siðlausar veiðar á ungsíld innan þeirra lögsögu með því að veita þeim fordæmalausan einhliða aðgang að íslenskri lögsögu án þess að við fengjum nokkurn gagnkvæman aðgang að þeirra miðum. Þetta er algerlega óskiljanlegt verð ég að segja, herra forseti. Og þegar við á sínum tíma tókum okkur einhliða kvóta ásamt Færeyingum sem flestum þótti allt of lítill miðað við sögulega reynslu, þá sáu þessir ágætu herramenn til þess að til að ná samningum við Norðmenn á þeim tíma, voru það bara Íslendingar sem gáfu eftir, nánast bara Íslendingar og Færeyingar sem gáfu eftir á milli fimmtungs og fjórðungs af þeim kvóta sem þeir höfðu þá tekið sér sem þó var allt of lítill. Norðmenn gáfu eftir aðeins 4% til þess að auka hlut Rússa.

Hvers vegna er verið að greiða Rússum fyrir að veiða ekki ungsíld innan sinnar lögsögu? Við verðum að horfa til þess, herra forseti, að allur kvóti Rússa er veiddur annaðhvort í íslenskri lögsögu eða norskri lögsögu. Þeir veiða ekki eitt kíló innan sinnan eigin lögsögu vegna þess að þar er ekki að finna neinar hrygningarstöðvar, þar er ekki að finna neina fullorðna síld og stundum er þar að finna afskaplega lítið af ungsíld.

Það er vissulega staðreynd að þegar koma upp mjög stórir árgangar þá heldur talsverður hluti af ungviðinu til innan rússneskrar lögsögu. Á árunum eftir 1971 hefur þetta verið um það bil 10% samkvæmt mati sérfræðinga en Rússar fá miklu, miklu meiri hlutdeild en þessu nemur. Þegar ég og aðrir talsmenn stjórnarandstöðunnar í þessu máli hafa gagnrýnt linkind íslenskra stjórnvalda, þá er vísað til módela, þá er vísað til nafnkunnra erlendra vísindamanna sem hafa komist að því að dreifing eða skipting kvótans ætti að vera eftir einhverjum tilteknum formúlum sem byggjast á líffræðilegri dreifingu og sögulegri veiðireynslu. Hverjir eru það sem veiða út frá þessu? Ekki eru það Rússar, því þeir fá langt umfram það sem niðurstaðan af öllum mögulegum mötum á þeirra hlut ætti að vera. Þeir fá miklu meira, Norðmenn frá miklu meira og núna fær Evrópusambandið miklu meira en því ber. Samkvæmt útreikningum okkar eigin fræðimanna ættu þeir ekki að fá nema 22 þús. tonn en þeir fá 192 þús. tonn. Hvaða þjóð er það sem nánast ein hlítir niðurstöðum þessa mats? Það er Ísland sem ætti að vera með a.m.k. kringum þriðjung af fullorðna stofninum að mínu mati en er komin niður í 15,2%. Þetta skiptir gríðarmiklu máli fyrir framtíðina.

[13:45]

Hæstv. ráðherra hefur ýmsar varnir í málinu. Þeir nefna það t.d. að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að sjá til þess að stofninn stækki og það er vissulega rétt að söguleg reynsla sýnir að það eru fyrst og fremst eldri árgangarnir sem halda vestur á bóginn, sem hafa vetursetu innan íslenskrar lögsögu, og sem gætu leitt til þess ef stofninn nær að eldast nógu mikið, að dreifingin mundi breytast okkur í hag. Það er alveg hárrétt að ef árgangarnir fá að eldast eru líkur á að þetta gerist. En við höfum það hins vegar frammi fyrir okkur að samkvæmt niðurstöðum á athugunum Alþjóðahafrannsóknaráðsins er mjög líklegt að strax eftir næsta ár þá fari stofninn að minnka. Hann er í góðu ástandi núna vegna þess að árgangarnir frá 1991 og 1992 eru sterkir en árgangarnir 1993, 1994 og 1995 eru ekki sterkir og mér skilst að árgangurinn frá 1996 sé í meðallagi. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Að okkur mun ekki, þrátt fyrir þessar fórnir, takast að stækka stofninn. Þvert á móti munum við á næstu árum þurfa að minnka kvótann, ekki bara okkar, heldur mun heildarkvótinn minnka. Halda menn þá, jafnvel þó að eitthvað verði komið af eldri síldinni inn í íslenska lögsögu að okkur gangi eitthvað í krafti þessa veika endurmatsákvæðis sem hæstv. sjútvrh. og aðrir ráðherrar vitna í, að ná fram endurmati á aflaskiptingunni þegar búið er að taka þennan stóra kúf ofan af óskiptum kvóta handa Evrópusambandinu? Ég held að það verði gríðarlega erfitt. Og sú vörn sem felst í þessu endurmatsákvæði er mjög veik. Ég minnist þess að hæstv. sjútvrh. kom hér og sagði: ,,Við höfum fengið það klárt fram að ef dreifing síldarinnar breytist þá verður hægt að taka málið upp aftur og við munum fá meira í okkar hlut.`` Þannig skildi ég hans mál í fyrra. En þegar menn skoða þetta ákvæði, hvernig er það þá á frummálinu, á enskunni? Það er talað um possible adjustments. Það er talað um hugsanlegar breytingar, bara hugsanlegar. Og þegar líður að aldamótum þegar stofninn er örugglega orðinn talsvert minni en hann er nú og þegar ESB er búið að fá þennan kúf, halda menn þá að okkur gangi vel að fá endurmat á okkar hlut?

Hæstv. ráðherrar hafa líka sagt það að partur af þeim samningi sem gerður var í fyrra feli í sér mikla breytingu okkur í hag vegna þess að við getum fengið að veiða í lögsögu Jan Mayen. Og hvað létum við á móti? Við leyfðum á móti að Norðmenn máttu veiða í lögsögu okkar Íslendinga, innan okkar eigin lögsögu, allt að 2/3 sem nam okkar eigin kvóta. Með öðrum orðum 150 eða 160 þúsund tonn innan okkar lögsögu. Hvað fengum við á móti? Jú, við megum veiða í lögsögu Jan Mayen.

Herra forseti. Ég get ekki annað en sagt að ég mótmæli þessum málflutningi. Það er alveg ljóst að samkvæmt Jan Mayen samningnum frá 1980 þá eigum við heimtingu á því, þegar samningur er kominn á, að veiða tegundir eins og síld eins og þar segir: ,,í sanngjörnum mæli``. Það er því með engu móti hægt að skipta á þessu tvennu. Og það er ekki fyrr en núna með þessum samningi að við fáum möguleika á því að veiða 10 þúsund tonn innan hinnar raunverulegu lögsögu Noregs.

Ég verð líka að lýsa eftir skýringum á því hvernig stendur á því að Rússar fá að veiða hérna 6.500 tonn innan okkar lögsögu. Hvers vegna fáum við ekki á móti ívilnanir innan þeirra lögsögu? Og hvernig er eftirliti háttað með þessu, herra forseti? Og hvað kemur í veg fyrir að sjötta landið kæmi e.t.v. líka í síldarsmuguna og reyndi að ná sér í kvóta? Ætlum við þá líka að fara að minnka hlutdeild Íslendinga aftur?

Herra forseti. Ég get ekki annað að lokum en farið aðeins yfir þau rök sem menn hafa haft fyrir þessari skrýtnu skiptingu á heildarkvótanum. Mér hefur alltaf fundist að Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafi ekki skilið forsögu málsins. Ég vísa til þess að hæstv. sjútvrh. sagði í umræðum síðasta vor um síldarsamninginn að niðurstaðan væri vel viðunandi vegna þess að á því sem hann nefndi hinu klassíska síldveiðitímabili Íslands þá hefðum við verið að veiða að meðaltali 250 þúsund tonn.

Herra forseti. Í svona málflutningi felst ekkert annað en undanhald sem aðrar þjóðir hljóta auðvitað að horfa til. Það er með engu móti hægt að fallast á ummæli af hálfu íslenskra ráðherra af þessu tagi vegna þess að það er ekki hægt að lesa út úr þessu annað en að menn ætli sér að fallast á magn sem því næmi, sem er algjörlega út í hött. Það voru ekki Íslendingar sem eyddu stofninum. En mér fannst þegar við hófum þessar umræður hér fyrst að hæstv. ráðherrar gerðu sér ekki grein fyrir því að sökin var að engu leyti Íslendinga eða þeirra sem voru að veiða hina fullorðnu síld. Sökin var alfarið þeirra sem höfðu áratugum saman stundað rányrkju á ungsíld og það virtist algjörlega hafa farið fram hjá hæstv. ráðherrum íslensku ríkisstjórnarinnar að það voru norskir vísindamenn sem lýstu því yfir opinberlega í vísindagrein árið 1980 að sektarlömbin í þessu dæmi voru Norðmenn sjálfir. Þessir sérfræðingar sem oft hefur verið vitnað til, a.m.k. tveggja, af hálfu íslenskra stjórnvalda voru t.d. Ulltang og hinn frægi Johannes Hamre, sem hæstv. sjútvrh. vísar oft til. Þeir sögðu sjálfir í grein árið 1980 að eina takmörkunin sem þurfti til að koma í veg fyrir eyðingu stofnsins hefði verið að setja á árunum fyrir 1970 reglur um lágmarksstærð síldar í afla sem vernduðu núll til eins árs árganginn. Það er því alveg ljóst að Norðmenn sjálfir gera sér grein fyrir því að það voru þeir sem eyðilögðu þennan stofn. Hvað þýddi það fyrir Íslendinga á sínum tíma? Í hvaða siðferðilegu skuld standa Norðmenn við Íslendinga vegna þess að þeir fóru offari í þessum efnum?

Á þeim tíma þegar síldarstofninn hrundi var þriðjungur af útflutningstekjum Íslendinga vegna síldarafurða. Þá var hér í gangi mikil uppbygging víða um land sem í einu vetfangi, næstum því á einu ári, var öllum stoðum kippt undan. Hvað þýddi þetta? Þetta leiddi hörmungar yfir Ísland, mikla kreppu. Fjöldi Íslendinga neyddist til þess að flytja búferlum frá landinu vegna þess að þessi meginstoð sjávarútvegsins hrundi svo að segja á einni nóttu. Og það voru Norðmenn sem ýttu henni um koll. Þetta verðum við að hafa í huga. Við hefðum í upphafi þurft að fara miklu harðar fram í þessum samningum á þessum grundvelli. En nú stendur það upp úr að búið er að geirnegla þessa lágu hlutdeild Íslands. Það stendur upp úr sem stjórnarandstaðan sagði í fyrra, að þessi samningur væri fordæmisgefandi. Það er rétt. Þessi 17% sem við vorum með á borðunum fyrir framan okkur í fyrra eru minni í dag. Við höfum 1/10 hluta minna af hlutdeildinni heldur en þá. Ég verð að segja að þetta er lakleg niðurstaða. Og mér finnst það líka slæmt að í þessum ósigrum sem við höfum beðið að skuli hæstv. ráðherrar a.m.k. ekki sjá smáar vinningsleiðir og sjá þó það góða sem í þessu felst vegna þess að það kom ekki fram í máli hæstv. ráðherra hérna áðan.