Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 14:21:40 (2375)

1996-12-18 14:21:40# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., GHH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:21]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess í upphafi að fagna því að samningar hafa nú tekist milli strandríkjanna fjögurra annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar að því er varðar skiptingu á síldarkvóta fyrir næsta ár. Mál þetta var kynnt utanrmn. eftir viðræðufundinn í London í síðasta mánuði og einnig á fundi sl. mánudagsmorgun strax eftir að samninganefndarmenn komu heim. Ég tel að það sé ekkert athugavert við þá kynningu eða upplýsingaskil utanrrn. og sjútvrn. gagnvart utanrmn.

Það sem menn standa frammi fyrir í þessu máli er annars vegar það að gera samning í líkingu við það sem gert hefur verið núna eða taka áhættu og fara út í óvissuna að því er varðar nokkra þætti ella. Menn gætu freistast til þess að sleppa Evrópusambandinu lausu, líkt og gert var á sl. ári, taka þá áhættuna af því að þeir veiði ekki 160 þús. tonn, ekki 188 þús. tonn, heldur jafnvel nokkur hundruð þúsund tonn upp á eigin spýtur, utan alls samkomulags, með þeim flota sem þeir hafa komið sér upp og sem þeir eflaust hæglega gætu ef þeir ákvæðu að fara í málið með þeim hætti. Ekki þjónar það hagsmunum Íslendinga.

Menn gátu líka tekið áhættuna af því að Íslendingar hefðu verið skildir út undan í þessum samningum og önnur lönd sem þarna koma að freistuðust til þess að semja án þess að Íslendingar væru með, ef Íslendingar hefðu tekið svo fasta, ákveðna og eindregna afstöðu og óhagganlega. Þá hefði mátt búast við því að önnur lönd hefðu ákveðið að semja engu að síður og þá hefðum við setið uppi án alls kvóta í lögsögum hinna landanna og þurft að freista þess að veiða okkar eingöngu í síldarsmugunni og að því litla marki sem síldin fer væntanlega innan okkar eigin lögsögu.

Við skulum ekki gleyma því að Evrópusambandið og aðrir sem þarna koma að hafa reynt og geta reynt að leggja ýmsar freistingar fyrir aðra samningsaðila þarna eins og t.d. vini okkar og frændur í Færeyjum. Það er því auðvitað að mörgu að hyggja þegar svona samningar eru gerðir og auðvitað eru það allra hagsmunir, allra ábyrgra aðila, að reyna að ná heildarsamkomulagi um stofn sem þennan sem skiptir svona gríðarlega miklu máli, ekki síst fyrir okkur Íslendinga, að hann haldi velli og nái að stækka til þess að hann geti gengið inn á sín gömlu mið og göngusvæði við Ísland.

Auðvitað er alltaf hægt að segja sem svo, eins og menn hafa gert í þessari umræðu: Þessir aðilar fengu of mikið eða hinn aðilinn fékk of mikið. Þessi fékk allt of mikið. Auðvitað geta menn tekið undir það að Evrópusambandið hafi kannski fengið miklu meira heldur en það hafi átt að fá út frá sögulegri reynslu þeirra og út frá rökum sem lúta að dreifingu stofnsins. Ég get alveg tekið undir það að auðvitað hefði verið miklu betra að Evrópusambandið hefði fengið minni kvóta. En menn standa frammi fyrir þessum raunveruleika sem ég var að lýsa hér áðan og þá verða menn að gera það upp við sig: Vilja menn taka þá áhættu sem í því felst að gera ekki samninga eða vilja menn standa föstum fótum í tilverunni að þessu leyti, með samning að vopni, sem er þá jafnframt fast land undir fótum að því er varðar frekari þróun og frekara samningsferli síðar meir, fótfesta gagnvart framtíðinni? Ég held að það sé ekkert vafamál að fyrir okkur Íslendinga er skynsamlegast að freista þess að ná samningum um þessi mál og það hefur verið gert og ég tel að beri að fagna því.

Ég er reyndar sammála því sem fram kom í máli hv. 15. þm. Reykv. og hv. síðasta ræðumanns, þeirra hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að vissulega skapar þessi samningur ákveðið fordæmi að því er varðar aðra samninga við Norðmenn um fiskveiðimál. Norðmenn hafa gefið fordæmi með þessu um það hvernig á að taka við nýjum aðila með litla veiðireynslu þegar gengið er til samninga um kvótaúthlutanir. Þeir hafa tekið Evrópusambandinu fagnandi hér má segja. Það kom okkur á óvart. (Gripið fram í: Þeir borga brúsann.) Það kom okkur á óvart. Skyldi ekki mega halda því fram gagnvart okkar veiðum í Smugunni að það beri sömuleiðis að taka okkur með sama hætti fagnandi þegar kemur að samningaborði þar? Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður hægt að heimfæra þessa samlíkingu upp á Norðmenn næst þegar menn hittast út af Smugudeilunni.

Ég held þegar öllu er á botninn hvolft, virðulegi forseti, að hér hafi verið skynsamlega að málum staðið. Ég leyfi mér að vitna líka til ummæla Jakobs Jakobssonar fiskifræðings sem mönnum er auðvitað skylt að taka mikið mark á. Ég bendi einnig á að formaður samninganefndar Íslands í þessu efni er einn af virtustu og þekktustu sérfræðingum landsins í sjávarútvegsmálum, í hvölum og í fleiru úr ríki náttúrunnar í sjónum, og ég tel að við höfum afskaplega góðu liði á að skipa í þessu efni í fiskifræðunum. (Gripið fram í: Að hann sé betri í lögfræði?) Ja, ætli það ekki bara í þessu efni. Það mætti segja mér það að við gætum sameinast um það hérna sem ekki erum lögfræðingar.

Virðulegi forseti. Ég vil að endingu segja frá því að ég hyggst boða til fundar í utanrmn. jafnskjótt og þessari tillögu hefur verið vísað til hennar. Ég mun óska eftir því þar að tillögunni verði vísað til umsagnar í sjútvn. Ég geri mér vonir um að hún fjalli um málið hratt og örugglega í þessari viku þannig að okkur auðnist að ljúka afgreiðslu þessa máls áður en þingmenn halda í jólahlé. Ég tel að það sé skynsamlegast að draga ekki afgreiðsluna heldur ljúka henni jafnskjótt og okkur er auðið.