Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 14:28:58 (2376)

1996-12-18 14:28:58# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:28]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um staðfestingu samninga um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1997. Enn eitt samkomulagið um síldveiðar er í höfn sem er sögulegt að því leyti að tekist hefur að koma heildarstjórn á veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Því miður virðist hafa verið ansi dýrkeypt að koma böndum á veiðar ESB sem samkvæmt samningnum fær 125 þúsund tonn nú eða 8,4% af heildaraflanum þótt færa megi rök fyrir því að því beri aðeins um fjórðungur þessa magns eða jafnvel minna.

[14:30]

Samkomulagið við ESB er pólitískt fyrst og fremst en með því er viðurkennd veiðigeta sambandsins og veiðar þess á undanförnum árum. Þó að samkomulagið við ESB gildi formlega aðeins í eitt ár, þá verður vafalaust erfitt að horfa fram hjá því við úthlutun úr stofninum í framtíðinni eins og reynslan sýnir. Um leið og hlutur ESB er samþykktur minnkar hlutdeild Íslands eins og annarra strandríkja, í okkar tilfelli úr 17,1% af heildinni árið 1996 í 15,7% árið 1997. Hið ánægjulega er þó að vegna aukins heildarkvóta eykst kvóti Íslands út 190 þúsund tonnum í 233 þúsund tonn og því stefnir í gott síldveiðiár á næsta ári ef kvótinn næst sem fer m.a. eftir því hvernig á stjórnun íslensku veiðanna verður haldið. Þessi niðurstaða staðfestir það sem smám saman hefur verið að koma í ljós að hin fyrri veiðireynsla Íslendinga á síld og fyrra göngumynstur síldarinnar eru lítils metin eftir að síldin flutti sig alfarið austar nær ströndum Noregs. Undangjöf okkar Íslendinga virðist enn byggja á þeirri forsendu að ef síldarstofninn stækkar þá aukist líkurnar á því að eldri árgangar gangi vestar og verði meira í námunda við Ísland sem styrkti okkar rétt á ný.

Þá er vert að minna á að það er einungis tilgáta að stærri stofn leiði til fyrra göngumynsturs og því miður er síldin mjög duttlungafullur fiskur og mikið vantar enn á að atferli hennar og hinar gríðarlegu sveiflur í viðkomu stofnsins lúti skiljanlegum lögmálum. Því ber að vara við tilslökunum sem byggja á forsendum sem ekki eru sannanlega nægilega traustar.

Þetta samkomulag er ekki eins hagstætt fyrir okkur Íslendinga og vonir stóðu til. Það er þó vafalítið framfaraspor að það tókst að koma heildarstjórn á veiðar úr þessum síldarstofni og að eftirlitsmálin eru komin í góðan farveg innan NEAFC. Skynsamleg nýting á síldarstofninum er öllum til hagsbóta. Norðmenn hafa lagt mikla áherslu á að ná heildarstjórnun á stofninum en þessi samningur nær einnig yfir veiðar í síldarsmugunni svokölluðu.

Því miður náðist ekki betra samkomulag en ljóst er að mjög erfitt hefði verið fyrir Ísland að standa utan við þennan samning og lýsa yfir einhliða kvóta eða einhvers konar síldarstríði. Orðspor okkar bæði í Smugunni og á Flæmingjagrunni er þannig að nauðsynlegt er að við styrkjum ímynd okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð. Að fara í síldveiðistríð nú væri að mínu mati mjög erfitt vegna stöðu okkar í samfélagi fiskveiðiþjóða eins og er. Þó að niðurstaðan bendi til að við séum á undanhaldi í þessu máli er verulega umhugsunarvert hvort það er vegna þess að rökstuðningur okkar, í samningum um fyrra göngumynstur síldarinnar og eldri veiðireynslu, á ekki lengur hljómgrunn meðal annarra samningsaðila eða hvort staðan er svona slæm vegna þess að okkar samningsaðilar hafa ekki haldið nógu vel á okkar málstað. Það er alla vega mjög mikið umhugsunarefni hvað nú er að gerast.

Ég held að mjög mikilvægt sé að við setjumst yfir þetta, hvað hafi gerst og veltum fyrir okkur hvort þurfi að breyta alfarið um taktík í málinu. Við kvennalistakonur munum ekki leggjast gegn því að Alþingi staðfesti þá samninga sem umrædd þáltill. kveður á um þó við séum alls ekki of ánægðar með þá niðurstöðu sem fékkst. En það er ástæða til að grandskoða okkar röksemdafærslu í samningunum og leita allra leiða til að rétta af okkar hlut á næstu árum.