Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 14:58:06 (2380)

1996-12-18 14:58:06# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að flestir skilji það að þegar verið er að semja í máli sem þessu, þá sé alveg útilokað að segja nákvæmlega fyrir um hvað gerist, að því gefnu að þetta og hitt gerist eftir lengri tíma. Slíkur fiskveiðisamningur hefur aldrei verið gerður. Hins vegar er sett upp ákveðin formúla hvernig skuli unnið að málum, hvernig skuli staðið að samningum sem menn munu að sjálfsögðu vitna til. Menn vitna í loðnusamninginn í þessu sambandi og það er e.t.v. það sem er skemmtilegt í þessum erfiðu samningum báðum, hvort sem það eru loðnusamningarnir eða síldarsamningarnir, að rökin sem við notuðum í loðnusamningnum í sínum tíma eru rök Norðmanna í síldarviðræðunum vegna þess að það vill svo til að loðnan hrygnir við Ísland, en síldin hrygnir við Noreg þannig að rökin snúast nokkuð við í höndum samninganefndanna þegar þær eru að tala um þessa stofna sitt á hvað.

En auðvitað er það ákveðin sanngirni sem ræður að lokum, sanngirni sem byggir á því hvernig síldin dreifist, hvernig veiðin hafi verið, hvað þjóðirnar eru háðar þessum veiðum. Slík rök verða alltaf uppi á borðinu og það er engin leið þó að hv. þm. óski sér þess að gera slíkan samning, að semja um alla hluti og hvernig þetta skuli nákvæmlega gerast. Það er eins og ætla að semja um lífið fyrir fram áður en maður lifir því.