Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:02:12 (2382)

1996-12-18 15:02:12# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um það hvað er leiksýning og hvað er ekki leiksýning. Mér heyrist að hann telji að stjórnmál almennt séu einhvers konar leikrit en ég lít ekki þannig á. Þetta voru mjög alvarlegir fundir og hann getur leitað sér upplýsinga um það hjá ýmsum mönnum sem tóku þátt í þessu ef hann trúir ekki mínum orðum í því sambandi.

Ég vil hins vegar mótmæla þeirri miklu svartsýni sem kemur fram hjá stjórnarandstöðunni í sambandi við framtíð þessara mála. Þeir ganga út frá því að þarna geti ekkert breyst og þeir túlka þessi ákvæði á versta veg. Það er rétt að það stendur possible adjustments, eins og það var þýtt hugsanlegar breytingar. Við túlkum það hins vegar þannig að þessar breytingar verði örugglega. Þó að það standi að þær séu hugsanlegar, þá teljum við að þær muni verða og ef þær verði, þá eigi að eiga sér stað þarna breytingar. Norðmenn túlka það með sama hætti. Þannig að þetta er ekki túlkað sem veikt orðalag vegna þess að þetta er ekki leikrit, þetta er ekki reyfari, þetta er alvarleg samningsgerð.