Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:05:10 (2383)

1996-12-18 15:05:10# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, LB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:05]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að ræða um þrjú frumvörp sem hér eru til meðferðar og tekin fyrir öll í einu, þ.e. lög um Póst- og fjarskiptastofnun, lög um póstþjónustu og lög um fjarskipti.

Virðulegi forseti. Það sem er áberandi við þessi frumvörp er að þau eru sett í því skyni að samræma íslensk lög að þeim tilskipunum sem settar hafa verið í Evrópu og eru kannski sett í því sérstaka umhverfi að hæstv. samgrh., sem er yfirmaður þessara mála, er jafnframt handhafi eina hlutabréfs í því fyrirtæki sem ræður lögum og lofum á þessum markaði. Vitaskuld markast tilraunin mjög af því að það er erfitt að koma hér á einhverjum hlutlægum reglum sem eiga að skýra þennan markað og skapa honum eðlilegt umhverfi þegar yfirmaður og handhafi eina hlutabréfsins í stærsta fyrirtækinu er jafnframt yfirmaður eftirlitsins í þessum málaflokki.

Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er fyrst og fremst að ræða um frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, en það er ný stofnun sem á að setja á fót og hefur mjög víðfeðm verkefni. Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að hafa umsjón með framkvæmd fjarskipta og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir í lögum þessum og öðrum lögum sem um fjarskipti og póstmál fjalla. Póst- og fjarskiptastofnun er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir samgrh.

Það sem vekur fyrst athygli mína í því frv. er 2. mgr. 2. gr., en þar er kveðið á um að starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar megi ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með og þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra. Hér kemur enn og aftur að því umhverfi sem þessi lög eru sett í, að starfandi samgrh. sem heldur utan um þetta eina hlutabréf sem er að finna í fyrirtækinu Pósti og síma er vitaskuld í miklum hagsmunatengslum við hina ýmsu aðila í samfélaginu. Og ef hart er fram gengið og ákvæðið túlkað samkvæmt orðanna hljóðan, þá hlýtur að vera mjög erfitt að ráða sjálfstæðismenn í vinnu hjá þessari nýju stofnun, því það mætti jafnvel túlka það svo að þar sé um einhvers konar hagsmunatengsl að ræða við handhafa hins eina bréfs. Ég sé ekki alveg hvernig menn ætla að túlka þetta, en þetta er það vandamál sem við er að etja á meðan málum er þannig fyrir komið að hæstv. samgrh. situr á þessu eina bréfi. Væntanlega mun þetta mál ekki leysast fyrr en þetta bréf verður selt sem að mati þess sem hér stendur er alls ekki svo fráleit hugmynd en það er ekki á dagskrá hér.

Í öðru lagi eru verkefni stofnunarinnar talin upp í 3. gr. Þar er Póst- og fjarskiptastofnun í fyrsta lagi ætlað að gefa út leyfi og veita leyfi til fjarskipta- og póstþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu.

2. Að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli og virði þau skilyrði og aðrar kvaðir sem rekstrarleyfunum fylgja.

3. Að hafa eftirlit með því að ákvæði laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, séu virt.

4. Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála.

5. Að gera áætlanir um notkun tíðnirófsins í samræmi við alþjóðlegar reglur og úthluta tíðnum til einstakra leyfishafa og fyrir mismunandi þjónustu, þar með talið útvarpsþjónustu.

6. Að setja reglur um tæknilega eiginleika kapalkerfa og hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt.

7. Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við.

8. Að hafa umsjón með og ákvarða fjárframlög vegna alþjónustu og óarðbærrar þjónustu.

9. Að hafa eftirlit með fjarskiptabúnaði.

10. Að setja reglur um úthlutun notendanúmera.

11. Að hafa eftirlit með samtengingu fjarskiptaneta.

12. Að veita leyfi til að annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu við fjarskiptavirki.

13. Að framkvæma gerðarprófanir, gefa út gerðarsamþykki og hafa umsjón með innflutningi fjarskiptabúnaðar.

14. Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála.

15. Að gefa út öryggisvottorð fyrir fjarskiptabúnað þar sem þess er krafist samkvæmt lögum og reglugerðum.

16. Að annast skráningu og halda skrá yfir póstrekendur.

17. Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi.

Þetta eru vægast sagt víðfeðm verkefni. Og þó þau komi ekki fram í frv. eða greinargerð með lögunum má reikna með að þarna séu kannski komin 100 störf eða svo, 150 kannski ef menn ætla að sinna öllum þeim verkefnum sem þarna er að finna. Kannski er þetta innlegg í kosningaloforð framsóknarmanna um --- var það ekki 12--13 þúsund störf held ég, (Gripið fram í: 12 þúsund.) 12 þúsund já, þannig að þá eru 11.850 eftir. (Gripið fram í: Svo tekur það verðlagsbreytingum.) Já, hv. þm. heldur að þetta sé verðtryggt eða hvað, þessi loforð? (Samgrh.: Þetta á nú ekki að vera kratastofnun. Hún verður ekki svona stór.)

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að koma að þessu máli því að það getur reynst þrautin þyngri að ráða mannskap í þessa stofnun. Samkvæmt 3. gr. verður mjög erfitt að ráða a.m.k. flokksbundna sjálfstæðismenn því að hagsmunatengslin eru slík. Þannig að það er aldrei að vita nema þarna sé hægt að finna stofnun þar sem krötum verður vel tekið. Ég vænti þess (Samgrh.: ... formann Alþfl. þegar einhver störf eru á lausu.)

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég fór vel yfir þau verkefni sem þessari stofnun er ætlað að sinna er einkum sú að 5. gr. frv. er líklega merkasti hluti þessarar lagasetningar, því þar er að finna eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög sem sennilega eiga engan líka í íslenskri löggjöf, hæstv. samgrh. En þar segir í 1. mgr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að leyfishafar upplýsi um alla þætti starfsemi sinnar sem leyfið eða skráningin tekur til. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.``

Hver skyldi nú vera þessi hæfilegi frestur, virðulegi forseti? Er það klukkutími, eru það tveir dagar eða eru það einhverjar vikur eða mánuðir? Hver skyldi vera þessi hæfilegi frestur? Það getur skipt verulegu máli fyrir þá sem þurfa að svara að þessi frestur sé a.m.k. þannig að þeir geti svarað svo að vel fari.

Í 2. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilað eftirlit með fjárhagsstöðu, að krefjast þess að leyfishafi láti stofnuninni í té ársreikninga, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Telji Póst- og fjarskiptastofnun að fjárhagsstaða leyfishafa sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi getur stofnunin krafist þess að bætt sé úr. Og ekkert frekar. Engin frekari skilgreining á því við hvað þessi stofnun á að miða. Ég hlýt að spyrja hæstv. samgrh., til þessarar stofnunar verður að ráða endurskoðendur, viðskiptafræðinga, lögfræðinga og alla vega mikið af háskólamenntuðu fólki til þess að það sé hægt að sinna þessu eftirliti. Og það gæti orðið þrautin þyngri a.m.k. á meðan kjörin á opinbera markaðnum eru eins og þau eru. Þannig að það er augljóst að þessari stofnun er ætlað að sinna miklum verkefnum.

[15:15]

Virðulegi forseti. Sennilega er 3. mgr. 5. gr. frv. það sem slær nú flest út sem hægt er að slá út en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum þessum er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa.`` Það er ekkert minna. Menn geta bara dúkkað upp ef þeir vilja svo við hafa. Kíkt þar ofan í skúffur og skoðað það sem þeim sýnist þrátt fyrir meginreglur um friðhelgi einkalífsins og að mál séu ekki rannsökuð nema að undangengnum dómsúrskurði. Að menn æði ekki inn á annarra manna eignir nema að undangengnum dómsúrskurði. Það er meginreglan hvar sem er í heiminum. Það er meira að segja í mannréttindasamningnum að slíkt sé gert. En þessari stofnun er ekki einu sinni ætlað að óska eftir dómsúrskurði. Henni er ætlað að vaða inn á leyfishafa hvenær sem vera vill og þarf ekki að tilkynna um eitt eða neitt og fara í eftirlitsferðir um húsakynni leyfishafa. --- Gengur þá í salinn hv. form. samgn.

Virðulegi forseti. Ég var að fara yfir þessa stórkostlegu 3. mgr. 5. gr. og bar upp fyrirspurnir um það hvernig á því stæði að þessi tiltekna stofnun þurfi svona sérstakar heimildir. Heimildir til að vaða inn í hús og híbýli manna án nokkurs úrskurðar, án þess að nokkur fari yfir þær heimildir eða þær kröfur sem viðkomandi stofnun hefur. Ég nefndi áðan að ef á að sinna þessum verkefnum sem henni er ætlað að sinna, þá verður að fylla þessa stofnun af háskólamenntuðu fólki hvaðanæva að. Ég fæ ekki betur séð ef vel á að fara, en að þarna sé kominn nýr vettvangur fyrir lögreglumenn. Það held ég hljóti að vera. Ekki verða menn sendir inn í eftirlitsferðir án þess að þeir hafi nokkurt vit á rannsóknum eða meðferð opinberra mála. Ég get ekki ímyndað mér annað. Þarna eru kannski tíu stöðugildi fyrir lögreglumenn. (Gripið fram í: Eða Securitas?) Já, að ekki sé nú minnst á Securitas.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að formaður nefndarinnar skýri þá nauðsyn að við séum að ganga gegn --- ja, mannréttindasamningnum, það er ekkert minna. Að við séum að ganga gegn meginreglunni sem er í stjórnarskránni um friðhelgi heimilisins sem hefur verið túlkuð þannig að jafnan þurfi dómsúrskurð til að fara inn í híbýli manna. Ég get ekki látið hjá líða að vitna til laga um meðferð opinberra mála, því þessa heimild er ekki einu sinni að finna þar. Þessa heimild er ekki einu sinni að finna í lögum um meðferð opinberra mála. Hvað knýr svo sterklega á að Póst- og fjarskiptastofnun hafi ríkari úrræði eða heimildir en lögreglan? Hverjum á að fara að veita leyfi? --- Einhverjum stórkrimmum? Það er von að spurt sé. Af hverju þarf að ganga lengra í heimildum til eftirlitsstofnana en lögreglunnar? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um leyniþjónustuna --- ég þakka nú fyrir að hún er ekki hér. Þetta eru kannski drög að leyniþjónustu. Það skyldi þó ekki vera. (Gripið fram í: Gæti verið dulbúningur.) Það gæti verið dulbúin leyniþjónusta. Menn hljóta að spyrja: Af hverju þarf ríkari heimildir fyrir þessa stofnun en lögregluna? Von að spurt sé. Ég vænti þess að formaður samgn. geri grein fyrir því. Þeir hljóta að óttast mjög að inn á þennan markað komist einhver óþjóðalýður. Reyndar er í lögum um meðferð opinberra mála heimild til að fara inn í húsnæði án þess að dómsúrskurður liggi fyrir en heimildin er bundin við það, virðulegur forseti, að þar venji komur sínar lausungarlýður og brotamenn. Þá þarf ekki dómsúrskurð. Þá geta menn bara vaðið þar inn, svo vitnað sé til orða laganna. Ég held að það sé þá alveg ljóst, virðulegur forseti, að þeir sem að frv. standa reikna með að lausungarlýð og brotamönnum verði veitt leyfi til að sinna pósterindum eða fjarskipta- og póstþjónustu. Alla vega er það eina samlíkingin sem ég finn í lögum um að hægt sé að fara inn án þess að óska eftir dómsúrskurði. Það er þar sem lausungarlýður og brotamenn venja komur sínar. Það er eina sambærilega heimildin í íslenskum lögum við þetta. (Gripið fram í.) Ja, það skyldi þó ekki vera. Þeir hljóta að hafa heimild til þess. En ég hlýt að spyrja, virðulegi forseti, af hverju er gengið svona langt í þessu tilviki?

Ég held að ekki sé ástæða til að veita heimildir af þessu tagi í lýðræðislegu þjóðfélagi nema um þjóðaröryggi sé að ræða, þegar undanskilinn er lausungarlýður og brotamenn. Þá sé það grundvallarregla að þjóðaröryggi sé í hættu eða þetta sé fyrir almannaheill. Er það í þágu almannaheilla að menn geti bara vaðið inn, kíkt ofan í skúffur og kannað hvað sé að gerast? Þetta skyldi þó ekki tengjast því að hæstv. samgrh. er náttúrlega yfirmaður Pósts og síma sem er væntanlega þá á sama samkeppnismarkaði? Ég skal ekki segja. Ekki er það efnaleg farsæld þjóðarinnar sem ætti að hvetja til nauðsynjar á ákvæði sem þessu.

En svo vitnað sé til 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er þar að finna ákvæði í þá veru að þetta sé í lagi í því skyni að firra glundroða eða glæpum til verndar heilsu manna, siðgæði, réttindum og frelsi annarra. Þetta eru einu hugsanlegu tilvikin að undanskildum lausungarlýð og brotamönnum þar sem þetta er heimilað. En að nauðsynlegt sé að þessi heimild sé til staðar til að skoða þá sem fá fjarskipta- og póstþjónustuleyfi til að reka fjarskiptastarfsemi og póstþjónustu, ja, ég veit ekki hvers konar fólki á að fara að veita leyfi, virðulegi forseti. Það skyldi þó ekki vera að lögreglan eða Rannsóknarlögregla ríkisins eða væntanlegur ríkislögreglustjóri muni leita á náðir þessarar stofnunar til þess að þurfa ekki að leita dómsúrskurðar. Hann muni fara til Póst- og fjarskiptastofnunar því hún getur bara vaðið um á skítugum skónum eins og henni sýnist. Það er ekki amalegt að hafa svona stofnun. Enda af verkefnaupptalningunni að dæma sýnist mér að henni sé ekkert heilagt í þessum efnum, ekki nokkuð. Ég held að verulegar útskýringar vanti á þessu ákvæði.

Virðulegi forseti. Það er hvergi í lögum að finna heimild eins og þessa, hvergi nokkurs staðar. Jafnvel Samkeppnisstofnun, sem ég veit að hæstv. samgrh. hefur einstakt dálæti á, þarf að fara eftir lögum um meðferð opinberra mála. Hún þarf að leita dómsúrskurðar (Samgrh.: Þurfa ekki allar stofnanir að fara út í það?) Ekki þessi, hún bara bankar upp á og segist vera mætt í bæinn. Sé bara að fara að skoða hjá strákunum. Virðulegi forseti. Það er nú lágmark að færð séu fram rök fyrir því sem hér er verið að setja fram.

Ef áfram er haldið í þessari dómadags 5. gr., sem er hreint með ólíkindum og ég hvet formann samgn. að taka þessa grein til endurskoðunar vegna þess að hvað sem öðru líður þá er nú að finna í þessum þremur frv. víða talsverða viðleitni til að koma á þokkalegum markaði, koma hér á samkeppnismarkaði þó vitaskuld sé það gert í skugga þess að hæstv. samgrh. er handhafi þess eina bréfs, þá er víða að finna viðleitni í að gera þetta þokkalega úr garði. En þessi 5. gr. gerir það að verkum að kannski fer lítið fyrir þeim góðu tilraunum. 4. mgr. er náttúrlega ekki síðri á þessu sviði. Þar er stofnuninni heimilt að leggja á dagsektir sem geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. og eru slíkar sektir aðfararhæfar og kannski lítið um það að segja í sjálfu sér. En síðan kemur enn eitt ákvæðið, virðulegi forseti, sem vert er að staldra við. Það er 6. mgr. þessarar greinar en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ef grunur vaknar um að aðili reki leyfis- eða skráningarskylda póst- eða fjarskiptastarfsemi án þess að hafa til þess rekstrarleyfi skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að viðkomandi upplýsi um starfsemi sína.``

Þannig að ef stofnunin hefur einhvern grun um að einhvers konar fjarskipta- eða póststarfsemi sé á starfstöð viðkomandi þá skuli þeir upplýsa þessa eftirlitsstofnun eða leyniþjónustu. Ég veit ekki alveg hvað á að kalla þetta. Það er kannski nær að kalla þetta leyniþjónustu. Ef einhver minnsti grunur leikur á að þarna sé kannski sími og faxtæki að þá geti stofnunin krafist upplýsinga um aðra starfsemi í húsinu. Það er von að menn brosi. Þetta er náttúrlega dálítið broslegt.

Síðan kemur kannski það stórkostlega í þessu ef ég held áfram, með leyfi forseta, að lesa upp úr frv.: ,,Vanræki viðkomandi að veita umbeðnar upplýsingar eða ef ætla má að grunur sé á rökum reistur getur stofnunin krafist opinberrar rannsóknar ...`` sem er hið eðlilegasta mál en framhaldið: ,,... og saksóknar ...``. Þá getur stofnunin bara krafist saksóknar. Er með þessu verið að færa ákæruvaldið til leyniþjónustunnar? Ég spyr, virðulegi forseti, það er von að spurt sé. Þetta er algert einsdæmi í íslenskum lögum. Hvað á að gera við Hallvarð? (Gripið fram í: Hvað með Hallvarð?) Já, hvað með Hallvarð? Hann verður að fá vinnu þarna. Ég spyr hv. formann samgn. Er ekki eitthvert grín í gangi? Eru menn ekki eitthvað að gantast með þetta? Ætla menn ekki að ræða saman á milli 2. og 3. umr. og reyna að sníða af þessu helstu hnökrana? Þessi löggjöf er náttúrlega ekki bjóðandi.

Já, maður getur krafist saksóknar. Ég veit ekki hvort þeir eiga að undirrita þá ákæru. Það er ekki gott um það að segja. Þetta er nýtt. Veit hæstv. dómsmrh. um þetta? Er hann alveg með það á hreinu að þessi nýja eftirlitsstofnun eigi að gefa út ákæru? Hann er ekki staddur í salnum en það væri nú gaman að heyra af því hvort hæstv. dómsmrh. viti að þessi nýja eftirlitsstofnun eigi að fara með saksókn í landinu. Það er von að spurt sé. Hún getur bankað upp á, kíkt í skúffur og spurt hvað sé að frétta. Ef faxtæki og sími er í húsinu þá getur hún spurt um aðra starfsemi. Og ef menn eru ekki almennilegir er gefin út ákæra. Það er ekkert minna, virðulegi forseti. Ja, það er ekki í lítið ráðist. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þetta væri grín þegar ég las þetta yfir. Ég hélt að menn væru að gantast með þetta.

[15:30]

Hvaða rök knýja á um að í þessum lögum sé gengið lengra en í lögum um meðferð opinberra mála? Og í þessum lögum er gengið lengra en kveðið er á um í mannréttindasamningum. Hvaða óþjóðalýð á að veita leyfi? Hvaða rummungalýð á að veita leyfi sem krefst þess að slíkar heimildir séu í lögum? Ég bara spyr og von að spurt sé. Ég sé að hv. varaformaður samgn. er hérna líka. Það væri gaman að heyra hvort hann gæti útskýrt þetta. Það er alveg ljóst að það þarf að ráða til þessarar stofnunar, miðað við verkefni, fjöldann allan af háskólamönnum, lögreglumönnum og Hallvarð. Ætli núverandi ríkissaksóknari verði ekki ráðinn til starfa líka. (Gripið fram í: Á kvöldin.) Í eftirvinnu kannski, ég veit það ekki. Hér fer nú ýmislegt í gegnum þingið en það eru takmörk. Hv. form. samgn., það hljóta að vera einhvers staðar takmörk. Svo tekur nú steininn úr hér í restina. Ég þarf nú að lesa það, virðulegi forseti: ,,Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.`` Þegar þetta allt saman hefur yfir okkur gengið þá kemur hæstv. samgrh. og setur frekari reglur um málið. Ætli það varði kannski vopnaburð? Það er nú kannski það fyrsta sem manni dettur í hug. Það er kannski rétt að þessir menn hafi vopn ef þeir ætla að framfylgja öllum þessum heimildum eða nýta þær. Ég held að menn hafi reyndar ekki alveg hugsað þetta svona en hér er einfaldlega gengið lengra heldur en tíðkast í löggjöf og gengið lengra en nokkurs staðar annars staðar tíðkast í löggjöf. Það er ekkert annað. Ég held að hefði verið mun eðlilegra að hér væri einfaldlega kveðið svo á um að menn skyldu útvega sér dómsúrskurð ef svo mikið liggur við að það þurfi að fara í eftirlitsferðir hjá þeim aðilum sem hafa leyfi. Ég held að sé alveg ástæðulaust að ganga svona langt.

Ég vil síðan víkja aðeins að 8. gr. Ég get ekki að því gert að ég vil fá að hæla form. samgn. og samgn. fyrir þá tilraun til þess að draga úr valdi samgrh. ef svo má að orði komast. En þar er kveðið á um að ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar skuli sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varaformaður skulu skipaðir eftir tilnefningu Hæstaréttar. Einn nefndarmaður ásamt varamanni skal skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands. Samgönguráðherra skipar einn nefndarmann ásamt varamanni án tilnefningar. Að undanskildu þessu tilnefningarvaldi samgrh. þá er þarna að finna a.m.k. nokkuð virðingarverða tilraun til að koma skikki á þetta umhverfi, einkanlega í ljósi stöðu hæstv. samgrh. sem handhafa að þessu fræga hlutabréfi.

Annars var erindi mitt fyrst og fremst hingað upp að ræða þessa stórkostlegu 5. gr. Ég held að mönnum hafi orðið örlítið á í messunni. Ég held að menn hljóti að taka þessa grein til endurskoðunar. Ég held að við það vinnuálag sem nú er og í þeim hraða sem er í þessum málum þá hafi mönnum orðið örlítið á, menn hafi svona aðeins farið fram úr sjálfum sér og ég vænti þess að þetta verði skoðað á milli umræðna. Ég get þó ekki nema að lokum aðeins nefnt 11. grein en þar er að finna þann hefðbundna ófögnuð, ef svo má að orði komast, í íslenskri löggjöf um að það sem ekki er kveðið á um setji samgrh. reglugerð, nánari fyrirmæli o.s.frv. Því miður er það orðin hefð í íslenskri löggjöf að svona ákvæði er þar að finna. Þau eru ekki til fyrirmyndar og oftar en ekki hafa dómstólar talið að framkvæmdarvaldið hafi gengið fulllangt í að notfæra sér þessar heimildir. En þetta er eins og ég segi langt frá því vera einsdæmi og miklu frekar hefð fyrir þessu þó hún sé ekki góð.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá var megintilgangur minn hingað upp að ræða þessa stórkostlegu 5. gr. og ég vænti þess að form. samgn. komi upp og útskýri fyrir mér og þeim sem ekki alveg átta sig á nauðsyn þess að stofnunin hafi jafn gríðarlega mikið eftirlitsvald og jafnmiklar heimildir og raun ber vitni, af hverju þarna þurfi að ganga lengra en tíðkast almennt í rannsóknum brotamála. Ég vænti þess að formaður nefndarinnar komi upp og upplýsi mig og aðra sem hér eru um þetta mál.