Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:36:36 (2384)

1996-12-18 15:36:36# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:36]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var út af fyrir sig ánægjulegt að fylgjast með þessari málfundaæfingu hjá hv. 6. þm. Suðurl. og svo sem hressandi á vissan hátt á köldum degi að heyra ræðuæfingar af þessu taginu. Hins vegar verð ég nú að hryggja hv. þm. með því að allar hans dramatísku lýsingar á þessu ástandi voru náttúrlega mjög orðum auknar og lítt í samræmi við þann texta sem getur að líta í frv. Að minnsta kosti þegar hv. þm. fór á flug og reyndi að segja að hér væri um að ræða einstakar heimildir sem hvergi nokkurs staðar fyndust --- ja, mér lá við að skilja hans orð þannig --- ekki bara í íslenskum lögum heldur bara um hinn gervalla vestræna heim. En þannig er nú að í tiltölulega nýsettum lögum um Samkeppnisstofnun, í 40. gr., segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samkeppnisstofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.``

Þarna eru með öðrum orðum, virðulegi forseti, nákvæmlega sömu heimildirnar á ferðinni, þ.e. að eftirlitsaðili á borð við Póst- og fjarskiptastofnun og eftirlitsaðili á borð við Samkeppnisstofnun fær heimildir til þess að fara í fyrirtæki og leita eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að hægt sé að upplýsa mál ef ástæða þykir til. Þannig er nú með þetta mál. Nákvæmlega sama segir í 42. gr. sömu laga um Samkeppnisstofnun þar sem því er hnýtt við að Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hjá íslenskum aðilum á sama hátt og Samkeppnisstofnun. Og sama gildir um fulltrúa framkvæmdastjórnar EB sem geta með sama hætti farið hér inn í fyrirtækin og gert þessar vettvangsskoðanir alveg án frekara tilefnis eða án frekari heimilda. Það kemur glögglega fram í þessum lögum þannig að allur málatilbúnaður hv. þm. um það að þessi lög séu alveg sérstök, að hér væri verið að veita óeðlilegar heimildir, hrynur eins og spilaborg.