Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:44:27 (2388)

1996-12-18 15:44:27# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:44]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. Alþfl. er mikið niðri fyrir. Það er kannski vegna þess að þetta eftirlitshlutverk eins og það er hér skilgreint er í samræmi við það eftirlitshlutverk sem gert er ráð fyrir hjá Evrópusambandinu og í þeim reglum og gerðum sem þaðan koma og eru þær leiðbeiningar sem okkur Íslendingum eru ætlaðar. Og hélt ég raunar að þessi mikli talsmaður þess að við gengjum í Evrópusambandið mundi koma upp annarra erinda en að segja að slíkar gerðir frá höfuðstöðvum þess ágæta bandalags stönguðust á við almenn mannréttindi hér á landi. Ég hygg að honum hafi orðið á einhver mismæli eða a.m.k. hefur hann eitthvað ruglast í textanum, gleymt sér sem nútímalegur jafnaðarmaður þegar hann hefur farið að tala hér á öðrum nótum en Evrópusambandið. Ég vona að það komi ekki oftar fyrir hv. þm.

[15:45]

Í annan stað vil ég segja að ef hv. þm. læsi t.d. um Tryggingareftirlitið, lög nr. 50 16. maí 1978, þá gæti hann uppgötvað að sambærileg ákvæði eru þar um réttindi eftirlitsaðila. Það er spurningin hvort eitthvað lítið er í húfi. Við erum að ræða um hvort við eigum að hafa náið eftirlit með þeim sem aðrir aðilar fela að flytja t.d. póst fyrir sig. Það geta verið mikilvægar orðsendingar sem á miklu veltu að komist til skila á réttum tíma. Þannig að við erum að tala um mikla persónulega og viðskiptalega hagsmuni sem hér eru í húfi og þess vegna er það sem eftirlitshlutverkið er svo vel skilgreint og þess vegna er það sem gert er ráð fyrir því að aðilar fái fyllstu möguleika til að rækja eftirlitshlutverk sitt.

Herra forseti. Ég hef ekki tíma í þessu andsvari til að víkja frekar að ræðu hv. þm.