Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:03:29 (2393)

1996-12-18 21:03:29# 121. lþ. 49.95 fundur 146#B þingstörf fram að jólahléi# (um fundarstjórn), GL
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:03]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Hér á hinu háa Alþingi eru sett ýmis lög sem almenningi er gert að fara eftir, ekki bara almenningi heldur hinum ýmsu stofnunum víðs vegar um þjóðfélagið. En mér sýnist að á þessum ágæta vinnustað ætli forseti að brjóta lög nr. 46 frá 28. maí 1980, sem fjalla um hvíldartíma og frídaga. Hæstv. forseti hefur í mínum huga unnið gott starf í því að reyna að vekja áhuga almennings á störfum Alþingis og reyna að stuðla að því að almenningur í landinu beri virðingu fyrir þeim störfum sem unnin eru á hinu háa Alþingi. Þess vegna finnst mér það ekki tilheyra þeirri stefnu, sem hæstv. forseti hefur beitt sér fyrir, að auka virðingu Alþingis með því að Alþingi brjóti þau lög sem það hefur sett sjálft. Vil ég mælast til þess, herra forseti, að lög nr. 46 frá 28. maí 1980 séu haldin á hinu háa Alþingi eins og öðrum er ætlað að vinna eftir annars staðar í þjóðfélaginu.