Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:04:59 (2394)

1996-12-18 21:04:59# 121. lþ. 49.95 fundur 146#B þingstörf fram að jólahléi# (um fundarstjórn), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:04]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti mun reyna að svara þeim spurningum sem beint hefur verið til hans. Í fyrsta lagi hvort fyrir liggi starfsáætlun frá forseta um hvernig megi ljúka þingstörfum fyrir jól, með sóma eins og hv. 5. þm. Reykn. nefndi. Jú, forseti hafði reynt að gera sér í hugarlund hvernig þetta mætti gerast í góðu samstarfi við formenn þingflokka og þingmenn yfirleitt. Því miður hefur það ekki gengið eftir sem forseti hafði hugsað sér og hv. þingflokksformönnum er kunnugt hvers vegna. Forseti deilir áhyggjum með öðrum af því hvernig við megum ljúka hinum mikilvægu verkefnum sem bíða okkar á þeim nauma tíma sem eftir lifir til jóla. Honum er alveg ljóst að það tekst ekki að ljúka hinum mikilvægustu frumvörpum nema í samstarfi við hv. alþingismenn og þá ekki síst stjórnarandstöðuna. Forseti vill taka skýrt fram að afgreiðsla þingmála hefur gengið óvenjulega vel allt fram til þessa og sér ástæðu til að þakka einmitt hér og nú fyrir hið góða samstarf. Forseti vonar að málin skýrist að einhverju leyti í kvöld. Við sjáum hvernig okkur gengur á eftir. Við gerum ráð fyrir að fundur gæti staðið eitthvað fram að miðnætti.

Þá er komið að lögum nr. 46/1980. Það er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem þau ber á góma í þinginu og minnt á að þingið sjálft fari ekki eftir þeim og það er ekki nýtt. Segja má þó að menn skiptist kannski nokkuð á um störfin og það eru fæstir sem sitja hér allan tímann þannig að ástæða er til að ætla að hinir einstöku þingmenn taki sér hvíld á fundatímanum þannig að það þarfnast frekari athugunar hvort raunverulega sé verið að brjóta lögin. En þetta er út af fyrir sig þörf ábending.

Meira getur forseti ekki sagt um framhald þingstarfa á þessari stundu.