Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:11:33 (2397)

1996-12-18 21:11:33# 121. lþ. 49.95 fundur 146#B þingstörf fram að jólahléi# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég staðfesti það sem kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar. Það hefur legið fyrir að við viljum standa vel að málum og ljúka þeim málum sem nauðsynlegt er og hefðbundin eru fyrir jól.

Ég vil gjarnan minna á að sú umræða er sífellt áleitnari úti í þjóðfélaginu að þegar einhver lagasetning er gagnrýnd er gjarnan rifjað upp að þingmenn taki þetta í gegn í æsingnum og stressinu rétt fyrir jól. Það er ekki gott þó að það hafi viðgengist árum saman að lagasetning sem á að og getur farið fram á öðrum tímum en í sömu vikunni og við erum undirlögð --- ég leyfi mér að taka þannig til orða, af störfum við hin hefðbundnu fjárlagamál og mál tengd fjárlagagerðinni og ríkisfjármálum, þá sé verið að taka ýmsa lagabálka í gegn og vinna við þá og keyra þá hratt í gegnum þingið.

Ég er alveg sannfærð um það, hæstv. forseti, að hver einasti nefndarformaður er tilbúinn að staðfesta að stjórnarandstaðan hefur ekki tafið mál í nefndum. Hún hefur lagt sig fram um samvinnu og góð vinnubrögð í nefndunum en á þessum tíma er þannig háttað að stjórnarandstöðunni finnst að ekki eigi að keyra mál í gegn fyrir jólin sem unnt er að geyma þangað til fyrstu dagana í febrúar. Fram hefur komið að við erum tilbúin til að leggja okkar af mörkum til að mál sem ekki hefur verið unnt að ljúka komi til umræðu strax á fyrstu dögum í febrúar og festa dagsetningar í því. Mér finnst afar mikilvægt að forseti taki það upp við félaga sína í stjórnarflokkunum að við tökum höndum saman og bætum þessi vinnubrögð. Það á ekki að þurfa að vera þannig að við séum að fjalla um mál í stressi síðustu þrjá dagana fyrir jólahlé umfram það sem er tengt fjárlögunum. Og, virðulegi forseti, það er líka að verða spurning hvort fjárlagaumræðan, mál tengd fjárlögum, ríkisfjármálum, þurfi að vera á ferðinni svo seint sem raun ber vitni og að við 3. umr. fjárlaga séum við að taka stórar og miklar grundvallarákvarðanir sem ekki hafa fengið nema takmarkaða umræðu.