Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:16:33 (2401)

1996-12-18 21:16:33# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:16]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við munum eftir því sem vorum hér á síðasta þingi og það munu flestir vera sem sitja þetta þing, að harðar deilur voru uppi um stjfrv. sem þá var um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunarinnar. Það frv. var mikið rætt í þinginu og ekki síst sú ákefð og sá ásetningur ríkisstjórnar sem þá lá fyrir og var síðan lögfestur að breyta Pósti og síma úr því fyrirtæki sem það var sem ríkisfyrirtæki og færa það í hlutafélagsform með einu hlutabréfi sem hæstv. samgrh. geymir í sinni skúffu eða forvartar.

Annað atriði sem mikið var rætt í sambandi við það frv. varðaði aðstöðu starfsmanna fyrirtækisins í framhaldi af þessari breytingu og sem eðlilegt var höfðu menn miklar áhyggjur af því, bæði starfsmenn og þeir sem litu til þessa máls almennt séð hér á Alþingi og hlaut það mikla umræðu og mikla gagnrýni. Niðurstaðan varð hins vegar sú sem við vitum að ríkisstjórnin hafði sitt fram. Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag. Að vísu lágu þá fyrir yfirlýsingar frá hæstv. samgrh. um að hann mundi ekki beita sér fyrir því að hlutur ríkisins yrði seldur og við skulum ekkert fullyrða hvað verður um þá eiða eða hversu lengi þeir duga. Ljóst er að ekki vantar eggjanir úr baklandi hæstv. ríkisstjórnar í þá átt að selja ríkisfyrirtæki. Nú nýverið fengu þingmenn í hólf sín pappaspjald frá æskulýðssamtökum Sjálfstfl., Heimdalli, með eindreginni hvatningu um að standa sig í þessu hjartans máli ungra sjálfstæðismanna að selja ríkisfyrirtækin. Það var köld hönd og köld kveðja sem þar var á ferðinni en við skulum vona að hæstv. samgrh. standist þau frýjunarorð í bili a.m.k. að verða ekki við þeirri kröfu að því er snertir Póst og síma hf.

Við erum að ræða þrjú frumvörp sem snerta framhald málsins og boðuð voru sumpart í fyrra, frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, frv. til laga um póstþjónustu og frv. til laga um fjarskipti. Þessi mál varða afar þýðingarmikið svið hvert og eitt og til samans. Fjarskiptamálin eru að verða æ þýðingarmeira svið í daglegum samskiptum manna, daglegu lífi og það skiptir mjög miklu máli hvernig á þeim er haldið. Þar eru mörg sjónarmið sem hægt er að færa fram sem undirstöðuþætti. Það á auðvitað við um jafnræðissjónarmiðið að allir fái notið þeirrar þjónustu sem á annað borð er í boði og það er krafan um að gætt sé jafnræðis einnig varðandi gjaldtöku og þá á ég við þau sjónarmið sem minn flokkur hefur mælt fyrir lengi í sambandi við gjaldtöku fyrir símaþjónustu og fjarskiptaþjónustu. Það er ekki aðeins almenningur, sérhver einstaklingur sem þar á mikið undir í þeim efnum heldur einnig atvinnureksturinn í landinu sem byggir mikið á fjarskiptum og þarf mikið á fjarskiptum að halda, bæði innan lands og í samskiptum við útlönd og sú krafa er mjög eðlileg að þar sé ekki um mismunun að ræða.

Við afgreiðslu málsins í fyrra um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunarinnar, voru gefin um það fyrirheit að þess yrði gætt að jöfnuður næðist í gjaldtöku og það hafa ákveðin skref verið stigin í því efni og það er vissulega vel. En hitt veldur aftur áhyggjum að í tengslum við þau mál sem við ræðum hér sjáum við að það er ekki þannig um hnúta búið, því miður, að því megi treysta að slíkt jafnræði ríki til frambúðar vegna þess að hvað sem líður almennum orðum og yfirlýsingum, þá er þannig um hnútana búið t.d. í frv. til laga um fjarskipti að þar er margt óráðið í þessum efnum og opnað fyrir það að rekstraraðilum heimilist að þjóna tilteknum markaði, aðeins hluta markaðar, og segir það sig sjálft til hvers það mun leiða ef fyrir slíkt verður opnað. Ég er hér að vitna til 7. gr. í frv. til laga um fjarskipti og leyfi mér að vitna til hennar, virðulegur forseti, því þar er eitt af þeim atriðum sem miklu varða í þessu máli. Greinin er svohljóðandi undir fyrirsögninni: ,,Skylda til að veita alþjónustu``, en alþjónusta er skilgreind í frv. sem afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Nánar skal mælt fyrir um í reglugerð, sem samgönguráðherra setur, hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli undir alþjónustu. Greinin er síðan þannig orðuð:

,,Við útgáfu rekstrarleyfa til þeirra sem veita fjarskiptaþjónustu á almennum fjarskiptanetum getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt svo fyrir að auk þess að uppfylla skilyrði skv. 6. gr. [en þau eru í stafliðum frá a--o] skuli rekstrarleyfishafa skylt að veita alþjónustu á starfssvæði sínu.

Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur vegna synjunar borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.``

Eins og menn sjá má út úr þessari grein lesa að ef yfirboðari fyrirtækisins ekki mælir þar gegn, þá er hægt að skipta upp markaðinum á þann hátt sem hér er opnað fyrir og segir sig sjálft að þá kemur upp mismunun í verðlagningu eða hættan á mismunun í verðlagningu sem rætt var um við afgreiðslu frv. um Póst- og símamálastofnun á síðasta þingi að ætti einmitt að vinna gegn og afnema. Enn þá er þó ríkisstjórnin bundin af því að þetta er fyrirtæki í eigu ríkisins og ríkið getur haft þar stjórn á málum og það skiptir mjög miklu í þessu sambandi á meðan svo er, þó að hætta sé auðvitað yfirvofandi á að meiri hluti skapist fyrir breytingu á þessu formi og þarna verði beinlínis opnað fyrir íhlutun annarra, rekstur annarra aðila eða fyrirtækja, réttara sagt, annarra heldur en Pósts og síma.

Það var mjög misráðið að hverfa að því ráði að breyta þessu fyrirtæki úr ríkisfyrirtæki í hlutafélag og vöruðum við alþýðubandalagsmenn mjög eindregið við því. Rökin fyrir þeirri breytingu og ég tala ekki nú um varðandi póstþjónustuna, voru vissulega veik og þeim var andmælt og það m.a. af þeim sem mjög gjörla þekkja til reksturs Pósts og síma, t.d. skrifaði Bergþór Halldórsson yfirverkfræðingur margar og góðar greinar um þetta efni í Morgunblaðið og deildi m.a. við ritstjórn blaðsins um þessi efni. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, aðeins að minna á sjónarmið sem hann færði fram, smákafla úr grein sem hann skrifaði um þetta efni í Morgunblaðið 15. júlí 1995 sem svar við leiðara sem hafði komið í Morgunblaðinu. Þar sagði Bergþór m.a., með leyfi forseta:

,,Undirritaður þekkir best til rekstrar fjarskiptahluta Pósts og síma en ætlar þó að drepa á nokkur atriði sem snerta einkavæðingu almennt, sérstaklega þar sem í áðurnefndum leiðara er eins og oft áður í slíkri umræðu ekki minnst á hagsmuni viðskiptavina þeirra fyrirtækja sem á að einkavæða.

Sala á þjónustufyrirtækjum í eigu opinberra aðila til að grynnka á skuldum eins og lagt er til, er óráðleg, þar sem söluverðið verður greitt með hærri þjónustugjöldum til neytenda, sem þegar hafa byggt upp fyrirtækið, því að sjálfsögðu vilja nýir eigendur fá kaupverðið til baka sem fyrst.

Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um einkarekstur og opinberan rekstur sést því sjónarmiði oft haldið fram að ríkið eigi ekki að skipta sér af hlutum sem aðrir geti séð um og opinber fyrirtæki eigi ekki að standa í samkeppni við einkaaðila. Með þessum fullyrðingum er ekki litið á aðalatriði málsins sem hlýtur að vera, á hvern hátt hægt sé að veita besta þjónustu á hagstæðasta verðinu.

Nákvæmlega sömu lögmál gilda um rekstur fjarskipta. Þó að menn komist að því að samkeppni gæti skilað árangri í Þýskalandi þar sem 80 milljónir búa á landsvæði, sem er rúmlega þrefalt stærra en Ísland, er alls ekki sjálfgefið að sami árangur náist í dreifbýlinu hérlendis.``

Við afgreiðslu þessa frv. á síðasta þingi, frv. um stofnun hlutafélags, þá andmælti minni hluti samgn. eindregið því hversu langt var seilst í hlutafélagavæðingu og sagði í nefndaráliti sínu um þetta efni m.a., með leyfi forseta:

,,Um það er ekki deilt að þróun fjarskiptamála hefur verið ákaflega hröð hin síðari ár. Þá eru fyrirsjáanlegar veigamiklar breytingar í Evrópu í fjarskiptamálum og snerta þær breytingar Ísland eins og önnur ríki. 1. janúar 1998 skulu afnumin öll sérréttindi símastofnana og opnað verður fyrir fulla samkeppni á grunnnetinu. Í því ljósi er nauðsynlegt að skoða stöðu Póst- og símamálastofnunar. Þær breytingar hafa hins vegar ekkert að gera með stöðu póstþjónustunnar í landinu né heldur kalla þær sjálfkrafa á það að stofnuninni verði breytt í hlutafélag. Því til viðbótar svarar frumvarpið heldur engu um það hvernig hlutafélagið Póstur og sími ætlar að mæta og laga sig að breyttum veruleika í upphafi ársins 1998. Boðuð hefur verið ný heildarlöggjöf um fjarskiptamál sem væntanlega mun að einhverju leyti taka á þeim málum. Frumvarpið um Póst og síma hf. gerir það ekki.``

Virðulegur forseti. Þetta var úr áliti minni hluta samgn. varðandi hlutafélagafrv. sem varð að lögum á síðasta þingi. Nú erum við að fjalla um framhaldið. En það er rétt eins og sagði í áliti minni hluta samgn. á fyrra þingi að það er langt frá því að skorið sé úr öllum atriðum eða sviðið sé lýst upp í þessu frv. sem við ræðum hér um fjarskipti. Það sést m.a. á þeirri grein sem ég vitnaði til um þær opnu heimildir sem þar eru fyrir þann aðila sem veitir rekstrarleyfi, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun sem getur heimilað aðilum aðgang aðeins að hluta af markaði og að sleppa undan þeim almennu kröfum sem annars eru settar. Þetta vil ég átelja harðlega sem mjög viðsjárvert atriði í þessu frv. sem við erum að ræða, virðulegur forseti. Vissulega er fjölmargt annað sem ástæða er til að taka á í þessu sambandi en það hefur verið gert ágætlega hér af mörgum ræðumönnum þannig að ég ætla ekki að fara langt út í einstök efnistriði þessa frv.

[21:30]

Ég vil vekja athygli á því hins vegar að margir þeir sem hafa gagnrýnt þessi frv. af hálfu stjórnarandstöðunnar, og hafa gert það með réttu, voru á sínum tíma stuðningsmenn þess að Ísland gerðist aðili að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Þar á ég sérstaklega auðvitað við þingmenn Alþfl. sem studdu þann samning og leiddu það mál í þinginu undir forustu þáv. utanrrh. Það er vissulega ánægjuefni að menn eru farnir að veita því athygli hvaða áhrif sú binding sem menn þar undirgengust hefur í lagasetningu sem þeirri sem við erum hér að ræða, þó að viðkomandi hafi ekki beitt geiri sínum með beinum hætti að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði heldur að afleiðingum hans.

Það er vissulega svo, virðulegur forseti, að við erum að reyna það hér á löggjafarsamkomunni þing eftir þing og mánuð eftir mánuð, hvaða áhrif þessi samningur hefur, hvernig menn þurfa að beygja sig undir það eða telja sig þurfa að beygja sig undir kröfurnar um það að breyta hér lögum í samræmi við settar réttarreglur í Brussel og það oft nauðugir. Það má jafnvel heyra það á stjórnarliðum sem bera þessi mál fram að þeir kveinka sér. Það á t.d. við um hæstv. félmrh. sem hefur verið að koma með frumvörp inn í þingið eins og varðandi reglur um vinnutíma. Og þó að menn geti metið sumar af þeim tilskipunum sem settar eru í Brussel þannig að þær séu ekki að öllu leyti afleitar, því þar flýtur auðvitað sitthvað með sem hægt er að taka undir, þá er það samt svo að það er auðvitað alveg fráleitt að menn séu að gangast undir svo víðtækar skuldbindingar sem leiða til þess að menn þurfa hér að vera að breyta lögum og reglum í landinu, í rauninni þvert á þær aðstæður sem hér eru og án þess að nokkur skýr rök séu fyrir því eða það lúti að því að styrkja íslenska hagsmuni eða hagsmuni þeirra sem þar er um að ræða.

Svo ég nefni nánar þetta dæmi um styttingu vinnutíma eða ákveðnar reglur um vinnutímalengd, vinnu barna o.s.frv., að það megi taka undir margt í þeirri almennu stefnu, þá ættu Íslendingar auðvitað sjálfir að geta ákveðið þau atriði en ekki að þurfa að breyta þeirri löggjöf vegna þess að kommissörum, um 20 talsins, í framkvæmdastjórninni í Brussel hefur dottið í hug að setja um þetta reglugerð. Og þetta á alveg eins við um ákvæði sem varða einstök atriði í sambandi við fjarskiptamálefni að þar er það auðvitað öfugsnúið, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að við þurfum að breyta löggjöf okkar að öllu leyti eftir kröfum sem eru settar erlendis, sem við fáum engu um þokað hvernig mótaðar eru og hvernig ákveðnar eru a.m.k. Þannig eru menn smám saman að átta sig á afleiðingum aðildar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og hvernig hann virkar inn í löggjafarstarfið hér hjá okkur.

Það hefur, virðulegi forseti, verið réttilega á það bent að í frv. um Póst- og fjarskiptastofnun er að finna mörg gagnrýniverð ákvæði. M.a. hafa menn bent á 5. gr. þess frv. sem varðar eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög. Það er dæmi um það hvernig farið er offari í löggjöf, að manni sýnist, þar sem segir, með leyfi forseta, í 5. gr. 3. mgr., eins og það er kallað hér á lagamáli þingsins:

,,Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum þessum er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa.``

Þannig að hv. þingmenn, þar á meðal hv. formaður samgn. sem hér situr og hv. þm. Egill Jónsson, mega eiga von á því að sendimenn frá hæstv. samgrh. eða stofnun sem undir hann heyrir komi og beiti þeim ákvæðum sem hér um ræðir. Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni er þeim heimilt án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar að fara eftirlitsferð í húsakynni leyfishafa. Það gildir kannski ekki um einstaka símnotendur heldur þá sem hafa rekstrarleyfi í krafti Póst- og fjarskiptastofnunar. En þetta er mjög krefjandi atriði sem hér er að finna og eðlilegt að á það hefur verið bent og það hefur verið gagnrýnt.

Virðulegur forseti. Það er farið að glitta í ýmislegt sem snertir útfærslu á þeim hörðu hagræðingarkröfum sem gera á til þessa fyrirtækis, Pósts og síma hf. Við þingmenn Austurl. höfum m.a. fengið erindi ekki alls fyrir löngu, dags. 9. desember 1996, sem varðar það atriði og ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna til þessa erindis. Það er reyndar ekki langt þannig að það er rétt að það komi hér í heild. Stílað á samgrn., hr. Halldór Blöndal ráðherra, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík:

,,Á fundi framkvæmdaráðs Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi 6. desember 1996 var m.a. fjallað um þá ákvörðun að leggja niður umdæmisskrifstofur Pósts og síma frá og með 1. janúar 1997. Fyrir fundinum lá svarbréf Pósts og síma, dags. 30. nóvember 1996, við fyrirspurn bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar um málið. Er ekki hægt að túlka það á annan veg en þann að um leið og ,,háeffið`` kemur fyrir aftan nafn Pósts og síma í byrjun næsta árs skuli blásið í herlúðra og liði fylkt við Austurvöll og víðar í herbúðum stofnunarinnar svo að hægt verði að verjast innrásarsveitum harðsnúinna samkeppnisaðila og jafnharðan unnt að fylla í skörðin verði mannfall tilfinnanlegt.`` Þetta er erindi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem ég er að lesa, virðulegur forseti.

,,Er ámælisvert að samgönguráðherra, æðsti yfirmaður stofnunarinnar, skuli ekki hafa betri yfirsýn en raun ber vitni um framkvæmd þessa þáttar einkavæðingaráforma ríkisstjórnarinnar og jafnvel mæla henni bót. Og mönnum hlýtur að vera spurn hvað nú dvelji svonefnda landsbyggðarþingmenn sem varla hafa æmt né skræmt og a.m.k. ekki snúið bökum saman til að reyna að koma í veg fyrir þessar hremmingar. Verður því ekki trúað að óreyndu að enn skuli baráttulaust höggvið í þann knérunn að fækka stöðugildum á landsbyggðinni á misskildum forsendum um hagkvæmni stærðarinnar. Einnig er þunglega átalið sinnuleysi yfirmanna Pósts og síma að enn skuli fólki sem af þessum sökum mun missa fyrri störf sín haldið í algjörri óvissu um aðra starfsmöguleika innan stofnunarinnar.

Ofangreindum áformum er hér með harðlega mótmælt og þess krafist að leitað verði allra leiða til að koma í veg fyrir að þau nái fram að ganga.

Stöðvarfirði, 9. desember 1996.

Björn Hafþór Guðmundsson.``

Afrit af þessu bréfi, sem stílað er á hæstv. samgrh., var sent ýmsum, þar á meðal formönnum þingflokka og þingmönnum Austurl.

Ég minni á það sem viðtakandi afrits af þessu bréfi að við alþýðubandalagsmenn beittum okkur hart gegn því að fyrirtækinu Pósti og síma yrði breytt í hlutafélag og það sett undir þann harða mælikvarða sem birtist m.a. í því sem hér er verið að mótmæla. Og fleiri sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta þingi beittu sér gegn því. Ég man ekki betur en þingmenn Kvennalistans hafi einnig verið í þeim hópi og Alþfl. a.m.k. greiddi þessu ekki atkvæði en ég held að hann hafi setið hjá við lokaatkvæðagreiðslu um málið, kannski undir áhrifum samningsins sem flokkurinn hafði átt drjúgan þátt í að koma í gegnum þingið á árinu 1993. En það er önnur saga sem ég ætla ekki að fara að rifja upp frekar.

Það er vissulega áhyggjuefni, virðulegur forseti, að þess er farið að sjást merki að það eigi að grípa til aðgerða í þessu hlutafélagi, sem hæstv. samgrh. fer með fyrir hönd ríkisvaldsins, m.a. með því að fækka störfum hjá stofnuninni úti um land. Menn óttast að farið verði að fækka póstafgreiðslustöðvum, þær jafnvel lagðar niður á stöðum sem liggja nokkuð afskekktir frá meginstraumi umferðar í landinu og þar sem póstþjónustan og afgreiðslustöðvar Pósts og síma hafa verið verulega þýðingarmikið tákn um það að þessari þjónustu sé sinnt við fólk á slíkum stöðum, oft ekki margmennum. Þetta eru atriði sem ég hlýt að nefna hér í sambandi við þessi mál þegar við ræðum um ný lög um póstþjónustu og Póst- og fjarskiptastofnun. Það er alveg greinilegt að þessari stofnun er ætlað að starfa með allt öðrum hætti út frá markaðssjónarmiðum, allt öðrum og harðari heldur en áður giltu og þá er ekki að spyrja að afleiðingunum. Það var ekki svo að Póstur og sími væri einhver þurfalingur eða baggi á ríkissjóði á árum áður. Þessi stofnun skilaði háum upphæðum í tekjuafgang oft á tíðum og sumt af því gekk beint í ríkissjóð en annað til fjárfestinga á vegum stofnunarinnar sem gengu býsna greitt, þannig að við Íslendingar náðum á margan hátt lengra og hraðar í uppbyggingu m.a. á ljósleiðarakerfi heldur en gerðist í öðrum löndum. Þannig að það er ekki það sem rak á eftir í þessu máli heldur voru það boðin frá Brussel, krafan um það að koma á samkeppni, opna fyrir samkeppni frá árinu 1998 að telja. Og undir þá kröfu var gengið með vísan til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði.

Ég er hræddur um að það sé ansi margt í þessu máli sem á eftir að minna á sig nú á næstunni þegar menn fara að sjá hagræðingarkröfurnar, arðsemiskröfurnar sem þetta hlutafélag hæstv. samgrh. og ríkisvaldsins verður farið að setja fram og þær aðgerðir sem þar á bæ verður talið nauðsynlegt að grípa til. Ég minnist þess að það mátti merkja hik hjá sumum þingmönnum Framsfl. þegar þetta mál var til meðferðar á síðasta þingi. Ég er ekki viss sum að þar hafi allir gengið glaðir til leiks í sambandi við breytingar á þessu fyrirtæki. Og þar á bæ eins og víðar áttuðu menn sig á því sumir hverjir að það væri ekki víst að eiðarnir stæðust allt of lengi, sem gefnir voru í tengslum við afgreiðslu þess máls um það að þetta hlutafélag skyldi vera í eigu ríkisins um langa hríð. Ég hef hér fyrir framan mig frá útmánuðum á síðasta vetri leiðara úr vikublaðinu Austra sem gefið er út á Egilsstöðum. Ritstjóri þess og ábyrgðarmaður er hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., sem skrifar leiðara í blað sitt undir fyrirsögninni ,,Síðasta skrefið?`` Þar er hann að reyna að berja í brestina í sambandi við stuðning framsóknarmanna við stjfrv., en það má vel lesa það á milli línanna í þessum leiðara sem ég ætla ekki, virðulegur forseti, tímans vegna að fara að lesa upp í heild, því að við erum hér að reyna að greiða fyrir þingstörfum svo mest við megum sem skipum stjórnarandstöðu og erum því ekki að fara yfir langar blaðagreinar nema sérstaklega séu efni til, en það væri vissulega ástæða til að hafa yfir leiðara hv. þm. En ég ætla aðeins, með leyfi forseta, að fara með niðurlagið:

[21:45]

,,Sú þjónusta sem Póst- og símamálastofnun veitir er afar mikilvæg fyrir landsbyggðina og það er ástæða til þess fyrir landsbyggðarfólk og fulltrúa þeirra á Alþingi og í sveitarstjórnum að fylgjast grannt með þróun þessara mála og breytingar verði ekki til þess að veikja þá þjónustu. Eins og frv. er mun ekki ástæða til að óttast það, en allur er varinn góður.`` (SvG: Nú. Það er þokkalegt.) Og það skyldi nú vera að það sé ekki ástæða fyrir hv. þingmenn Framsfl. að hafa áhyggjur eins og hv. þm. Jón Kristjánsson hafði á síðasta þingi þegar fjallað var um Póst- og símamálastofnunina hf. Það er farið að minna aðeins á þetta í orðsendingum að austan, eins og ég las upp áðan þar sem sagði svo, --- ég tengi það við þennan leiðara og það er tilvitnun í annað sinn, ein málsgrein, virðulegur forseti:

,,Og mönnum hlýtur að vera spurn hvað nú dvelji svonefnda langsbyggðarþingmenn sem varla hafa æmt né skræmt og a.m.k. ekki snúið bökum saman til að reyna að koma í veg fyrir þessar hremmingar.``

Afleiðingarnar af hagræðingarkröfunni á hið nýja hlutafélag sem hæstv. samgrh. fer með fyrir hönd ríkisins.

Virðulegur forseti. Það eru fjölmörg önnur atriði í þessum frumvörpum sem ástæða væri til að ræða frekar en með vísan til þess sem ég sagði áðan, ætla ég ekki að gera það að þessu sinni en áskil mér rétt til að taka til máls síðar eftir því sem ástæða er til.