Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:48:48 (2402)

1996-12-18 21:48:48# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:48]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það verður að segja að mörg athyglisverð mál hafa komið fram í þessari umræðu um þau þrjú frumvörp sem eru til meðferðar og mér finnst satt að segja að hv. talsmenn stjórnarflokkanna í málinu, hæstv. samgrh. og hv. 1. þm. Vestf., hafi út af fyrir sig greitt úr mörgum þeim spurningum sem bornar hafa verið fram en þó ekki í rauninni nærri öllum. Mörg atriði eru með þeim hætti að mér finnst að þau standi nokkuð opin enn þá, því miður, og óhjákvæmilegt sé að inna frekar eftir þeim.

Mér fannst t.d. viðbrögð þeirra við ræðu hv. 6. þm. Suðurl. í dag vera óþarflega snefsin. Ég vek athygli á því að hv. 6. þm. Suðurl. er löglærður maður og veit hvað hann er að tala um í þessum málaflokki og þekkir vel til. Ég tel að ýmsar þær ábendingar sem hann kom fram með séu býsna alvarlegar og það sé í rauninni ekki hægt að hrista þær af sér eins og ómagaorð af neinu tagi heldur beri þvert á móti að fara yfir þær athugasemdir og ábendingar af mikilli alvöru.

Ég átti kost á því í gærkvöld, hæstv. forseti, að fara yfir fáein atriði í þessum málum. Meðal annars benti ég á að hugsanlega væri um að ræða framsal á skattlagningarvaldi í einu þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir og hv. 1. þm. Vestf. tók undir að ástæða væri til að kanna það mál og kvaðst mundi beita sér fyrir því að það verði gert á milli 2. og 3. umr. og ég tel ástæðu til að rifja það upp hér. En í framhaldi af því og í tengslum við þá umræðu sem hefur verið í kvöld og í dag hef ég aðeins farið yfir málin frekar. Það eru fjórar spurningar eða fjögur efnisatriði í viðbót sem ég hafði hugsað mér að inna hæstv. samgrh. eftir og hv. 1. þm. Vestf., formann samgn., til að flýta fyrir umræðunni og skýra málin örlítið frekar.

Ég ætla fyrst, hæstv. forseti, að víkja að einu ákvæði í frv. til laga um fjarskipti sem er í 6. gr. frv., stafliður b, þar sem fjallað er um skilyrði fyrir rekstrarleyfi. Upphaf greinarinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingu skv. 5. gr. Skulu skilyrði vera skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa.``

Allt er þetta rétt og skynsamlegt. Síðan segir: ,,Rekstrarleyfi skulu vera tímabundin. Skilyrði fyrir rekstrarleyfi geta verið eitt eða fleiri þar með talið:`` Síðan eru taldir upp stafliðir a til og með o og stafliður b hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,að rekstrarleyfishafi veiti þá þjónustu sem leyfið nær til á öllu landinu eða á tilteknum landsvæðum, og að hún nái til tiltekins hluta landsmanna innan tímamarka sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður.``

Ég hefði gaman af því að heyra hvernig hæstv. samgrh. sér fyrir sér að þetta verði tryggt, þ.e. í fyrsta lagi að þessi þjónusta verði veitt á öllu landinu þar sem það skilyrði er sett. Hvað telst allt landið? Það má auðvitað spyrja þeirrar spurningar. Það eru væntanlega ystu annes og innstu dalir eða hvað? Ég inni eftir því. Hvað telst vera ,,á öllu landinu`` í þessu sambandi? Ég spyr varðandi ,,tiltekið landsvæði`` með hvaða hætti þau eru afmörkuð sem reyndar kemur fram annars staðar í lögum. Og síðan segir ,,að hún nái til tiltekins hluta landsmanna innan tímamarka sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður``.

Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. samgrh. færi aðeins yfir þennan staflið því að það er talsvert undirstöðutriði fyrir afstöðu manna til þessa máls að tryggt sé að um sé að ræða þjónustu sem veitt er á Íslandi öllu. En það virðist vera meiri og meiri þörf fyrir það í seinni tíð að ganga úr skugga um að menn eigi við Ísland allt þegar þeir tala um landið. Stundum virðast menn bara eiga við ákveðinn part af landinu þegar talað er um landið en ekki landið allt. Þess vegna vil ég fara fram á það í fullri vinsemd við hæstv. samgrh. að hann útskýri aðeins fyrir mér og þingheimi að öðru leyti hvað er átt við í þessu efni og hvernig staðið verður að því að tryggja þjónustu á landinu öllu.

Í grg. frv. segir reyndar að leyfi til fjarskiptareksturs skuli einungis veitt íslenskum aðilum eða aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta hlýtur þá að þýða að þær kvaðir sem um er að ræða megi einnig leggja á erlenda aðila sem hér kunna að starfa, eða hvað? Það er væntanlega alveg ljóst að ef hér væri um að ræða Ericsson eða Telecom eða hvað það nú er, þá mætti gera sömu kröfur til þeirra og íslenskra aðila. Það sé í raun alveg skýrt að allir þeir aðilar sem fái fjarskiptaleyfi verði að sæta þessum kröfum jafnvel þó um erlenda aðila sé að ræða. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að stjórnvöld yrðu að setja sömu kvaðir á þessa erlendu aðila 100% ef um jafnræði á að vera samkvæmt þeim reglum sem almennt gilda um viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá kem ég að hinni frægu 5. gr. frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, 6. þm. Suðurl., gerði að umtalsefni í dag í afskaplega greinargóðri ræðu sem fór pínulítið í skapið á þeim samgönguleiðtogum ríkisstjórnarinnar. Í þeirri grein, sem fjallar um eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög, og hv. þm. reyndar rakti rækilega í ræðu sinni í dag segir, með leyfi forseta:

,,Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum þessum er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa.``

Menn geta sem sagt gengið þar inn á skítugum skónum án þess að vera með sérstakar heimildir og fólk verður að taka því og allt sem heitir friðhelgi einkalífsins og þess háttar verður að víkja fyrir þessum eftirlitsmönnum sem hæstv. samgrh. ætlar að fara að senda inn á heimilin í landinu. Í þessum efnum er hann væntanlega einnig að taka á aðilum sem eru með þessa starfsemi og eru erlendir að uppruna, þ.e. starfa og geta starfað hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Og þá spyr ég hæstv. ráðherra samgöngumála að því hvort menn geri þá ráð fyrir að þeir aðilar sem stundi slíka eftirlitsstarfsemi geti farið eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa hvar sem þau eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Er með öðrum orðum gert ráð fyrir að sendinefnd Póst- og fjarskiptastofnunarinnar geti verið í ferðalögum að taka hús á British Telecom og Ericsson? Vegna þess að það er auðvitað alveg ljóst að húsakynni leyfishafa, ef þau eru ekki skilgreind nánar, geta verið hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Það á væntanlega ekki að mismuna mönnum að neinu leyti og m.a. hljóta menn að þurfa að sæta sömu kröfu um eftirlitsaðila hvar sem þeir eru á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þetta atriði láðist hv. 6. þm. Suðurl. að nefna sérstaklega í ítarlegri ræðu sinni í dag og er auðvitað ástæða til að gagnrýna hann fyrir það. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu máli, hæstv. forseti, og ég vona að hv. 1. þm. Vestf. blandi sér líka í umræðuna því ég sé að hann er að undirbúa viðamikil fjarskipti í tilefni jólanna eins og fleiri í þessum sal.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hefði viljað nefna, hæstv. forseti, og vildi fá nánari útskýringar á miðað við þá umræðu sem fram hefur farið um hið ótrúlega lögregluríkisákvæði í 5. gr. sem þeir samgönguleiðtogar Sjálfstfl. ætla að fara að innleiða í löggjöf á Íslandi.

Þá vil ég víkja að 8. gr. þessa sama frv. sem fjallar um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Ég tók eftir því að alveg ótrúleg orðaskipti urðu á milli hæstv. samgrh. um það mál og hv. 9. þm. Reykn. í gær, en hv. 9. þm. Reykn., hæstv. forseti sem hér situr sem slíkur, gerði nokkrar athugasemdir við þessa úrskurðarnefnd en um hana segir svo í 8. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgrh. og jafnmargir til vara. Formaður og varaformaður skulu skipaðir eftir tilnefningu Hæstaréttar. Einn nefndarmaður ásamt varamanni skal skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands. Samgrh. skipar einn nefndarmann ásamt varamanni án tilnefningar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara, en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu eða reynslu á sviði fjarskipta- og póstmála. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.``

[22:00]

Í grg. frv. er fjallað ítarlega um þetta mál á hálfri blaðsíðu, bls. 8 á þingskjalinu og ætla ég ekki að fara að níðast á þolinmæði þingheims með því að lesa þær útskýringar yfir í heilu lagi. Það er greinilegt að um er að ræða allviðamikla og allmerkilega nefnd, úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Ég verð að segja að það er til fyrirmyndar hjá hæstv. samgrh. og ríkisstjórninni að hugsa fyrir því að svona úrskurðarnefnd skuli vera til vegna þess að einhver getur þurft að bera sig upp undan ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar hverjar svo sem þær kunna að vera og út af fyrir sig getur vel verið að líka sé eðlilegt að sérstök nefnd hafi með það að gera. En þá kemur þessi spurning, hæstv. forseti: Er eðlilegt að sú nefnd starfi einnig undir boðvaldi hæstv. samgrh.? (Gripið fram í: Sem á bréfið.) Það er afar sérkennilegt. Það er sá sem á bréfið. Það er margt bréfið, sagði Jón Hreggviðsson og þeir félagarnir sem voru að höggva niður klukkuna, hina einu sameign þjóðarinnar á Þingvöllum forðum, og segir frá í Íslandsklukkunni. Sagt er að það sé eitthvert frægasta bréf sem talað hefur verið um nokkurn tíma í Íslandssögunni en það fer nú bráðum að blikna fyrir þeim ótrúlega pappír sem hæstv. samgrh. eignast bráðum, sem er hlutabréfið eina í þessari stofnun. En hvað um það, hæstv. forseti.

Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir að þessi úrskurðarnefnd starfi algerlega á vegum ráðherra. Nú er það út af fyrir sig skynsamlegt hjá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra að þeir menn eru tilnefndir af Hæstarétti. Það er að vísu almennt séð umdeilanlegt að mínu mati, hversu langt á að seilast í því að láta Hæstarétt vera að tilnefna menn í ráð og nefndir. Það er mikið álitamál en látum það vera. Hér er gerð tillaga um það. Síðan er gert ráð fyrir að einn nefndarmaður ásamt varamanni verði skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands. Allt um það. En svo kemur samgrh. sem skipar einn nefndarmann ásamt varamanni án tilnefningar. Ég held að þetta sé óeðlilegt. Ég held að enginn ætti að vera í þeirri nefnd frá samgrh., enginn. Ég held að þessir nefndarmenn ættu ef til vill að vera þessir tveir frá Hæstarétti sem þarna er gert ráð fyrir. Einn nefndarmaður ætti ef til vill að vera frá stjórn Verkfræðingafélags Íslands en síðan ætti samgrh. alls ekki að eiga einn einasta mann í þessari nefnd. Mér fyndist langeðlilegast að það væru aðrir en samgrh. sem tilnefndu menn í þessa nefnd.

Nú er það flókið úrlausnarefni að hafa skoðun á því í sjálfu sér hvaða ráðherra ætti að tilnefna menn í nefndina. Ég skal út af fyrir sig ekki segja um það, hæstv. forseti. En ég velti því fyrir mér hvort það mætti hugsa sér að nefndin væri algerlega á boðvaldssviði einhvers annars ráðherra eða a.m.k. að hæstv. samgrh. tilnefni engan mann í nefndina.

Ég vildi gjarnan inna hæstv. samgrh. eftir því hvort hann hefur ekki áhyggjur af því að úrskurðarnefndinni verði vantreyst af því að hún er á hans valdi, hans eins. Og til þess að um sé að ræða algerlega hlutlægan aðila, þá held ég að að mörgu leyti væri eðlilegast að nefndin væri á vegum einhvers allt annars ráðherra eða, sem er lágmark, að samgrh. tilnefni engan mann í nefndina heldur komi hún algerlega og sé sett á laggirnar samkvæmt tilnefningum frá öðrum ráðherrum.

Það kann að vera að einhverjir menn hér í salnum hafi hugmyndir um hvernig væri best að skipa svona nefnd og gætu upplýst okkur jafnframt um það hvernig venjan er að skipa nefndir af þessum toga við svipaðar aðstæður í öðrum löndum. Ég þekki það ekki. Þessar vangaveltur af minni hálfu koma auðvitað til af því m.a. að við erum á Íslandi með ótrúlega frumstæða neytendalöggjöf. Í flestum öðrum löndum er um að ræða almennar úrskurðarnefndir sem geta tekið á málum sem valdastofnanir eins og Póst- og fjarskiptastofnunin verður að taka á. En mér fyndist lágmark að kanna hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um að t.d. dómsmrh. skipi þennan eina nefndarmann í stað samgrh. þannig að nefndin sé ekki með nokkurn mann frá samgrh. vegna þess að hann er í margfaldri rullu allt í kringum þetta borð og það getur ekki talist eðlilegt.

Þetta vildi ég nefna í þriðja lagi, hæstv. forseti, í máli mínu í kvöld 11. gr. frv. til laga um póstþjónustu þar sem fjallað er um útgáfu rekstrarleyfa. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Öðrum en þeim sem fengið hafa til þess rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar er óheimilt að annast grunnpóstþjónustu. Í rekstrarleyfi skal tilgreina til hvaða þátta grunnpóstþjónustu rekstrarleyfið nær og þær kvaðir og skilyrði sem leyfinu fylgja.

Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu skuli undanþegnir rekstrarleyfi.``

Það væri fróðlegt að átta sig á því, hæstv. forseti, hvernig ætlunin er að framkvæma þessa grein í einstökum atriðum. Ég hef tekið eftir því og las greinargerðarákvæðin um greinina þar sem allítarlega er fjallað um hana í hinu fróðlega þingskjali þar sem eru afskaplega skemmtilegar sögulegar staðreyndir um þróun póstmála í Evrópu og einstökum löndum á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það er t.d. ítarlega fjallað um þetta mál í grg. um 11. gr. og ætla ég í sjálfu sér ekki að fara yfir hana í einstökum atriðum en þar segir þó, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

,,Í rekstrarleyfinu sjálfu skal tilgreina nánar til hvaða þátta grunnpóstþjónustu rekstrarleyfið nær, þ.e. til hvaða framangreindra þjónustuþátta það tekur, hvort það er bundið við ákveðin svæði o.s.frv. Í leyfinu skulu einnig tilgreindar nákvæmlega þær kvaðir og þau skilyrði sem leyfinu fylgja.

Samgönguráðherra getur mælt fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu séu undanþegnir rekstrarleyfi. Þannig getur samgönguráðherra mælt fyrir um að ekki sé þörf á sérstöku leyfi vegna tiltekinnar starfsemi sem að öllu jöfnu telst þó til grunnpóstþjónustu. Sem dæmi má nefna aðila sem einungis annast flutning á póstsendingum á milli staða, eftir atvikum með annars konar sendingum. Er ráðherra heimilt að undanþiggja slíkan aðila skyldu til rekstrarleyfis, enda hlýtur að teljast óþarflega viðurhlutamikið að krefjast sérstaks rekstrarleyfis fyrir slíka starfsemi. Hann telst þó póstrekandi, ... og er því skráningarskyldur skv. 20. gr. Með því móti hefur Póst- og fjarskiptastofnun eftir sem áður eftirlit með slíkri starfsemi.``

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgrh. fyrir þessa greinargerð. Mér finnst hún vera ágæt og glögg um það sem skiptir máli. En þó verð ég að segja að ég átta mig ekki alveg á því hvað hér er verið að fara. Hvaða tegund af grunnþjónustu er um að ræða? Sending á milli staða sem ekki flokkast undir venjulegar póstsendingar? Hvaða dæmi eru það eiginlega sem menn eru með í huga? Auðvitað mega menn ekki ganga svo langt í þessu leyfisveitingafargani að menn geti ekki boðsent bréf á milli bæja eða húsa án þess að biðja um leyfi í samgrn. Auðvitað er alveg ljóst að menn eiga að geta hlaupið með pappíra á milli húsa, hverfa eða landshluta eftir atvikum án þess að þurfa að spyrja kóng eða prest að því máli, þ.e. ráðherra eða póst- og símamálastjóra. Þess vegna fagna ég því út af fyrir sig að opnað er fyrir það að ýmsir þættir grunnþjónustu geti verið utan við þessi svokölluðu rekstrarleyfi. En ég hefði viljað biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins betur yfir það með okkur í þessari virðulegu stofnun, hvað það er sem nákvæmlega er átt við.

Herra forseti. Ég hef í ræðu minni nefnt nokkur atriði. Í fyrsta lagi 6. gr. frv. um fjarskipti sem lýtur að skyldum rekstrarleyfishafa við að veita þjónustu á landinu öllu. Ég hef aðeins vikið að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sérstaklega í frv. um Póst- og fjarskiptastofnun, 8. gr. þess frv., og ég hef vikið líka lítillega að útgáfu rekstrarleyfa samkvæmt 11. gr. frv. til laga um póstþjónustu. Í tengslum við þessa umfjöllun hef ég síðan lagt fyrir hæstv. samgrh. nokkrar spurningar og þætti vænt um ef hann gæti svarað þeim við fyrsta hentugt tækifæri.