Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 22:11:01 (2403)

1996-12-18 22:11:01# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:11]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Umræða um þrjú viðamikil og mikilvæg frv. sem marka veginn til framtíðar á mjög mikilvægum þjónustusviðum hér á landi hefur nú staðið um alllangan tíma. Það er hins vegar athyglisvert í því sambandi að ekki virðist vera mikill vilji af hálfu hæstv. samgrh. eða forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar á hinu háa Alþingi til að reyna að flýta fyrir umræðunni og leiða hana skynsamlega til lykta. Ég lýsi ábyrgð, virðulegi forseti, á hendur hæstv. samgrh. og hv. þm., talsmönnum meirihlutaálits hér í þessum sal sem fóru fram með þetta mál jafnvanbúið og það í raun er. Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim vegna þess að þeir hafa ekki borið það við í þeirri umræðu sem hefur staðið klukkustundum saman að koma til þátttöku í umræðunum, að koma hér til að ræða málefnalega ýmis álitamál sem hafa verið vakin upp, að svara ýmsum þeim spurningum sem hafa verið fram bornar.

Ég viðurkenni fúslega, virðulegi forseti, að þeir örfáu talsmenn ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í málinu hafa endrum og sinnum á þeim tveimur dögum komið upp til andsvara, haldið tveggja mínútna ræður og reynt að drepa á einstök tiltölulega mjög afmörkuð atriði. Þannig hefur t.d. hæstv. samgrh. komið nokkrum sinnum upp í andsvörum með miklu írafári og látum og ausið úr skálum reiði sinnar fyrst og síðast, um mál sem lúta í sjálfu sér ekkert að þessu viðfangsefnum sem við erum að fást við, mál sem koma þessum frv. ekkert við. Hann hefur eytt veigamiklum mínútum af andsvaratíma sínum í að reyna að skilgreina nútímajafnaðarstefnu og varið sennilega fjórðungi af sínum tíma til slíkra orðræðna. En ekkert hefur borið á því, enda ekki furða. Hann hefur undir umræðum, sem hann hefur setið samviskusamlega, verið við lestur fagurbókmennta. En ég held að þetta sé stór og veigamikil ástæða fyrir því að við mjökumst ákaflega lítið í átt að nauðsynlegu markmiði umræðunnar, þeim markmiðum að hér sé skipst á rökum, skipst á sjónarmiðum og upplýsingum. Þessi skoðanaskipti hafa því miður ekki átt sér stað, virðulegi forseti. Það ber að harma mjög ákveðið að hér hafa stjórnarandstæðingar með mikilli samviskusemi komið á framfæri ýmsum gildum athugasemdum um útfærsluatriði, um tæknileg atriði, um pólitísk atriði sem liggja hjá garði algerlega ósvöruð.

[22:15]

Ég hlýt að kalla mjög ákveðið eftir því að hér hefjist hin eiginlegu skoðanaskipti, hin pólitísku skoðanaskipti um þetta mál og af því að ég sé hér í hliðarsal hv. þm. Magnús Stefánsson, þá get ég auðvitað ekki látið hjá líða að kalla mjög eindregið eftir því að hann komi inn í þessa umræðu, ekki síst vegna þess að margir þingmenn hafa með réttu fært í tal stöðu mála hjá Póst- og símamálastofnun, hjá þessari stofnun sem hefur verið í þjónustuhlutverki um langt árabil en lýkur því undir því heiti eftir tæpan hálfan mánuð. Það hefur gengið á ýmsu hjá þeirri stofnun á síðustu vikum og mánuðum eða allt frá því að hið háa Alþingi eða meiri hluti þess tók ákvörðun um að hlutafélagavæða þetta fyrirtæki. Gildistaka þeirra laga er núna 1. janúar nk. Það ber svo vel í veiði að hv. 3. þm. Vesturl., fulltrúi Framsfl. í samgn. og raunar varaformaður þeirrar nefndar, situr einnig í þeirri undirbúningsnefnd sem hæstv. samgrh. setti á fót fljótlega eftir að Alþingi gekk frá lagasetningu um hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Þessi undirbúningsnefnd hefur að sönnu talsvert vald samkvæmt ákvæðum laganna og í henni eru þrír menn. Einn af þeim er títtnefndur hv. þm. Magnús Stefánsson og ég held að það mundi stytta okkur mjög leiðina í þessum umræðum um stöðu fyrirtækisins, stöðu þessara hundruða og þúsunda starfsmanna sem eru þar margir hverjir, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í uppnámi vegna ákveðinnar óvissu um framtíð þeirra og starfsfélaga hjá Pósti og síma hf. á nýársdag. Það mundi skýra mjög þessa umræðu og gera hana markvissari, flýta fyrir henni og aukin heldur hygg ég róa vonandi margan starfsmanninn hjá Póst- og símamálastofnun ef hv. þm. gerði glögga grein fyrir því hver raunveruleg staða þessara starfsmanna væri, hver væri framtíðarsýnin hjá þessari undirbúningsnefnd hvað varðar hina nýju sýn sem birtist mönnun á næsta ári í þessari hlutafélagavæðingu.

Ekki dreg ég af mér þegar ég sé hv. þm. Stefán Guðmundsson að spjalli við flokksbróður sinn því að hann þekkir þennan málaflokk vel og hefur eftir því sem ég best veit setið um langt árabil í samgn. og þekkir mætavel aðdraganda þessa máls. Hann þekkir það eins vel og fingurna á sér hversu veigamiklu hlutverki Póstur og sími hefur gegnt í atvinnumálum í hinum dreifðari byggðum, m.a. í hans kjördæmi. Hann tók þess vegna myndarlega á og rösklega í utandagskrárumræðum um þessi mál og önnur skyld, þegar menn ræddu þá stöðu sem virðist blasa við og er þegar að koma í ljós, þ.e. að menn ætli sér að gjörbreyta í mörgum þáttum þeirri þjónustu sem þjóðin hefur átt að venjast af hálfu Póst- og símamálastofnunar. Hann sagði þá mjög heiðarlega, án þess að ég geti vitnað orðrétt í hans mæta innlegg í þessari utandagskrárumræðu sem laut að raunverulegri lokun ákveðinna þjónustustöðva víða um landið, póststöðva, strandstöðva, umdæmisskrifstofa, að ekkert slíkt hafi verið uppi á borðum af hans hálfu né stórs hluta stjórnarsinna þegar menn gengu frá málum um hlutafélagavæðingu Pósts og síma á vordögum sl. En það er allt annað að koma upp úr dúrnum, því er nú verr og miður. Og í því sambandi rakst ég fyrir tilviljun á það að ekki einasta eru upplýsingar varðandi ýmiss konar undirmál og leynimakk í samskiptum yfirstjórnenda Póst- og símamálastofnunar við starfsmenn sannar og réttar, heldur er fullyrt í blaði Bandalags háskólamanna að við tiltekna 100 háskólamenntaða starfsmenn fyrirtækisins hafi verið gerðir ,,persónulegir ráðningarsamningar``. Ég endurtek, virðulegi forseti: ,,persónulegir ráðningarsamningar``. Þessir samningar eru sagðir vera trúnaðarmál yfirmanna nýja hlutafélagsins og viðkomandi starfsmanna. Ég spyr bara hreint og beint hv. þm. Magnús Stefánsson sem hlýtur að vera þarna öllum hnútum kunnugur: Er rit Bandalags háskólamanna að segja satt og rétt frá? Er það þannig að undirbúningsnefndin undir forustu Péturs Reimarssonar með aðild hv. þm. Magnúsar Stefánssonar hafi beitt sér fyrir því að gerðir hafi verið leynisamningar við svo og svo stóran hóp starfsmanna Póst- og símamálastofnunar, væntanlegra starfsmanna Pósts og síma?

Hér er rætt um 100 háskólamenntaða starfsmenn fyrirtækisins og það kemur skýrt fram í þessari frétt að enginn þvættingur eða vitleysa er á ferðinni því að hér er viðtal við mann að nafni Hörð Jónsson sem er formaður Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga. Hann hefur sagt af sér formennsku í því félagi og gerði það 29. nóvember sl. Og afsögnin, eins og blaðið segir hér frá, tengdist að nokkru leyti breytingu Pósts og síma í hlutafélag núna um næstu áramót. Það staðfesti Hörður í samtali við BHMR-tíðindin og Hörður Jónsson segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég tel að það fari ekki saman að vera í kjarabaráttu fyrir stéttarfélag eftir að hafa skrifað undir persónubundinn ráðningarsamning. Frumkvæðið er mitt. Ég var ekki skikkaður til að gera þetta, en ég met það svo sjálfur að mér sé best borgið svona.``

Hvað þýðir þetta í mæltu máli, virðulegi forseti? Þetta þýðir að þessir 100 háskólamenntuðu starfsmenn Pósts og síma voru knúnir til þess að gera, eins og það er hér orðað, persónulega samninga sem þeim er bannað að gera uppskátt um við vinnufélaga sína, við kollega sína í vinnunni. Það leiðir aftur til þess að menn missa hina félagslegu stöðu í stéttarfélögum sínum, því að eins og þessi maður segir hér ærlega: ,,Hvernig á ég að geta verið í forsvari í kjarabaráttu fyrir mitt stéttarfélag þegar ég bý sjálfur við þau skilyrði að mega ekki segja frá því hvað ég hef í laun, hvert er mitt kaup og kjör?``

Það kemur einnig fram í þessari frétt að formenn Póstmannafélagsins og Félags ísl. símamanna sem eru trúnaðarmenn langstærsta hluta starfsmanna Póst og síma, ekki þeirra 100 sem ég nefndi áðan, ekki háskólamennaðra starfsmanna, gagnrýndu líka þessa meintu leynisamninga harðlega í nóvemberblaði BHMR-tíðinda og sögðu að atvinnurekandinn þvingaði viðkomandi starfsmenn til að segja skilið við stéttarfélögin sín. Hér er náttúrlega um háalvarleg tíðindi að ræða, virðulegi forseti. Er svo komið málum, meira að segja áður en fyrirtækið verður að hlutafélagi, á meðan þetta fyrirtæki er venjubundið opinbert þjónustufyrirtæki, að starfsmenn þar sem eru í kringum 2.500 talsins, þ.e. einhver óskilgreindur hluti þeirra er píndur til þess að gangast inn á leynimakk og leynisamninga um kaup þeirra og kjör til að koma í veg fyrir að stéttarfélögin þeirra geti barist fyrir bættum kjörum þeim til handa?

Ég get út af fyrir sig ekki fullyrt um þetta. Ég hef heyrt þessu fleygt og mér hefur verið sagt þetta af hálfu starfsmanna. Ég hef það hins vegar svart á hvítu í þessu blaði sem ég hef áður nefnt og þykir brýnt og raunar nauðsynlegt að hæstv. samgrh. taki af öll tvímæli og svari því fyrir fullt og fast hvernig hans umboðsmenn í þessari svokölluðu undirbúningsnefnd hafi gengið frá málinu, þ.e. hvort þarna sé um að ræða stefnumörkun úr hinu háa ráðuneyti, hvort þarna sé um það að ræða að undirbúningsnefndin fái línu frá hinu háa ráðuneyti um að þannig skuli búa um hnúta þegar nýir samningar séu gerðir við starfsmenn hjá væntanlegu nýju hlutafélagi. Það er auðvitað alveg ný starfsmannastefna, alveg glæný starfsmannastefna og gengur ekki og er í fullkomnu ósamræmi við það sem menn segja nú mjög gjarnan, að ríkið og hinn almenni markaður þurfi að temja sér betri siði í þeim efnum og þurfi þvert á móti að fara að sópa undan teppinu og koma öllum kjaraatriðum upp á borð þannig að þeir séu gagnsæir eins og gjarnan er sagt á seinni tímum.

Nei, hér er algerlega farin hin leiðin, farið í hina áttina. Hér á að ganga veg leyndarinnar og gera samninga sem ekki skulu öllum sýnilegir. Það kemur því æ gleggra í ljós að full þörf er á því að hv. alþingismenn og ekki síður starfsmenn þessa fyrirtækis fái greinargóð svör við þeim spurningum m.a. sem festar hafa verið á blað á þskj. 403, beiðni um skýrslu, þar sem undirritaður ásamt öðrum þingmönnum jafnaðarmanna hefur farið þess á leit við samgrh. --- og Alþingi hefur heimilað það, gerði það á fundi í dag --- að hann gefi okkur skýrslu um starfsemi Póst- og símamálastofnunar og þær formbreytingar sem verða á stofnuninni um áramótin 1996/1997 þegar hún verður gerð að hlutafélagi í eigu ríkisins.

Hæstv. samgrh. hefur heilar tíu vikur til að tína þessar upplýsingar saman og ég hef alvarlegar áhyggjur af því hvað getur gerst á þessum tíu vikum. Hvaða skemmdarstarfsemi ekki er hægt að gera á öllum þessum tíma gagnvart þeim hundruðum og þúsundum starfsmanna sem þarna eiga hlut að máli og hafa verið knúnir til þess í mörgum tilfellum að ganga á vit leynisamninga, á vit lokaðra kjarasamninga og persónubundinna starfsmannasamninga? Og ég hef áhyggjur af því að of mikið vatn hafi runnið til sjávar þegar loksins fást upp úr undirdjúpunum svör við þeim spurningum sem sérstaklega er kallað eftir í þessari beiðni um skýrslu. Hér er m.a. spurt að því --- mörgum þótti ótrúlegt að þörf væri á því að spyrja um slíka hluti en ég sé á öllu af nýjustu tíðindum að það var meir en þörf á því, það var brýn nauðsyn á því að fá það upplýst --- hvort einhverjir hinna svonefndu starfslokasamninga sem hæstv. samgrh. þekkir nú býsna vel, hafi verið gerðir við fyrrum starfsmenn Póst- og símamálastofnunar og hafi jafnframt innifalið það að hætti þeir störfum nú þegar eða alveg á næstunni þá fái þeir borgaðan svo og svo langan uppsagnarfrest --- ekki veit ég hversu langan en hæstv. samgrh. getur væntanlega uppýst um það --- en jafnframt væri þeim gert að þeir mættu ekki vinna á sama vettvangi í svo og svo langan tíma.

Með öðrum orðum þá hefur ríkisstofnun núna þessa dagana að því mér er sagt gengið frá allnokkrum fjölda slíkra starfslokasamninga við starfsmenn sína. Án þess að ég geti þó fullyrt um það hafa veigamikil störf stöðvarstjóra sérstaklega verið nefnd í því samhengi. Ég get ekki fullyrt um það en mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti annaðhvort borið það til baka eða staðfest að það væri nokkur hreyfing einmitt á þeim mönnum sem sumir hverjir eru komnir eitthvað við aldur og það hafi verið vilji hæstv. ráðherra eða umboðsmönnum hans hjá Póst- og símamálastofnun að hnika þeim til og koma þeim heim og gera við þá starfslokasamninga.

[22:30]

Þess vegna mundi það hjálpa mjög mikið til í þessari umræðu að menn styttu sér leið í þessu og þyrftu ekki að bíða tíu vikur eftir því að hæstv. samgrh. tíndi saman svörin, heldur gæti hann hér í nokkrum lykilatriðum a.m.k. dregið úr eðlilegum ótta okkar sem berum hag starfsmanna fyrir brjósti og svarað því af eða á hvort þær fullyrðingar sem m.a. er að finna í tímariti háskólamanna, stéttarfélagi þeirra háskólamenntuðu starfsmanna sem hér eiga hlut að máli, 100 manna, og fulltrúar launamanna annarra hafa haft uppi. Eða er þetta allt tómur misskilningur? Sennilega gætum við verið búnir að afgreiða þetta mál frá okkur ef hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar, stjórnarþingmenn í þessum virðulega sal, hefðu haft uppi einhverja tilburði til þess að taka þátt í umræðum. Ég sé hér á öllu, virðulegi forseti, að það var ekki að ástæðulausu heldur bar brýna nauðsyn til þess að kalla eftir skýrslu samgrn. um stöðu starfsmanna hjá þessu fyrirtæki. Mig rekur ekki sérstaklega minni til þess að gert hafi verið ráð fyrir því að þeir traustu og góðu starfsmenn sem þar hafa sumir hverjir verið alla sína starfsævi þyrftu að verða fyrir því áður en félagið verður að hlutafélagi að vera kastað til og frá, að vera ýtt út um dyrnar, stundum með einhverjum starfslokasamningum, stundum með einhverju öðru. Menn gátu ekki einu sinni beðið eftir því að fyrirtækið yrði að hlutafélagi og farið þá að sópa úr öllum hornum eða taka á þessum ,,starfsmannavandamálum`` sem allt í einu virðast hafa skotið upp kollinum.

Ég gef auðvitað ekkert fyrir það því að í fyrirtæki sem hefur í skilað jafngóðum árangri og raun ber vitni í gjaldskrármálum og margháttaðri þjónustu, þó að þetta fyrirtæki sé auðvitað ekki alhvítt frekar en önnur, hafi borið hitann og þungann af starfseminni og þjónustunni óhæfir starfsmenn sem brýna þörf bar til að koma úr starfi og eitthvert annað, helst heim til sín.

Ég vildi líka gjarnan við þessa umræðu nú og ég hygg að hæstv. ráðherra hafi það hér allt á hendi, spyrja hann hvort það hafi orðið miklar mannabreytingar núna á síðustu vikum og mánuðum í æðstu stjórn fyrirtækisins. Mér er auðvitað kunnugt um og það hefur verið gert opinbert í fjölmiðlum að póst- og símamálastjóri sjálfur hefur að eigin ósk leitað eftir því að losna um næstu áramót og ágætur aðstoðarpóst- og símamálastjóri, Guðmundur Björnsson, mun taka við því starfi um áramót og verða þá fyrsti forstöðumaður hins nýja hlutafélags. Ég geri ekki athugasemdir út af fyrir sig við þau skipti, en mér er einnig sagt að frekari breytingar séu í deiglu í æðstu stjórn fyrirtækisins, þar sé verið að hrista til menn og kippa í stóla og gera ýmsar breytingar sem menn kjósa að fari ekkert mjög hátt.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, í ljósi þess sem ég sagði áðan, hvort það þjónar nokkrum tilgangi að spyrja hæstv. ráðherra út úr. Ég sé að hann er upp tekinn við aðra iðju. Þess vegna má það alveg vera ljóst að ég geri svo sem ekkert með það hvort hann sitji við lestur fagurbókmennta í þessum sal eða heima hjá sér. Það er ekki að minni ósk sem hann er við þessa umræðu því hann er ekkert við hana. Ég vil hins vegar segja það að mér finnst þessi meðferð á starfsfólki, sem ég veit að sumu leyti með nokkuð öruggum heimildum, að öðru leyti í gegnum krókaleiðir og get því ekki fullyrt um hvort satt er eða rétt, en mér finnst öll umgjörðin og andinn vera allt öðruvísi en upp var lagt með, virðulegi forseti, þegar þetta fyrirtæki og þessi undirbúningsnefnd, væntanlega að undirlagi hæstv. ráðherra, dreifði hér litprentuðum bæklingi. Ég á bara svart/hvítt ljósrit af honum þar sem yfirskriftin er: Til móts við nýja tíma. Breytingar í ljósi nýrra laga, bæklingi sem dreift var meðal starfsmanna núna í sumar og í aðdraganda þessara ráðningarsamninga sem átti að leita eftir við starfsmenn Póst- og símamálastofnunar. Hér er allt málað mjög rósrauðum litum og ég hygg að enginn þeirra sem nú skjálfa og hafa áhyggjur af framtíð sinni hafi haft það þegar hann renndi fyrst augum yfir þennan rósrauða samning yfirmannanna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Áhersla er lögð á að allir fastir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar, sem taka boð um ráðningu hjá Pósti og síma, muni halda þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér.`` Það hefur sennilega enginn áttað sig á því að hér er ekki fullyrt að öllum verði þetta boðið, það er á milli línanna. En þeir hafa sennilega haldið það samt sem hafa verið beðnir um að ljúka sinni starfsævi með starfslokasamningi eða einhverju ámóta og ekki reiknað með því þegar þeir lásu eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Jákvætt viðhorf ásamt góðri samvinnu er undirstaða framfara. Þess er vænst að breytingin gangi vel og verði til farsældar bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólk.``

Vissulega væri hægt að taka undir þessi orð af heilum hug og það gerðum við auðvitað líka fulltrúar stjórnarandstöðunnar þegar þessi mál voru afgreidd sl. vor. Við óskuðum þess af heilum hug að þetta gæti gengið vel fram og að starfsfólk fyrirtækisins þyrfti ekki að óttast um hag sinn né kjör. Á hinn bóginn vöruðum við mjög alvarlega við því í ljósi þeirrar löggjafar sem meiri hluti þingsins staðfesti þá að þar væru slík göt og þar væru skildar eftir slíkar spurningar m.a. gagnvart réttindum starfsfólks að ekki væri við unað. Það var fussað og sveiað yfir þeim varnaðarorðum þá. Þó var það þannig að hv. talsmenn ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki undir forustu hæstv. samgrh. höfðu um það góð orð að halda nú upplýsingum að hinu háa Alþingi og þá einkanlega samgn. um framþróun þessara mála. Ég hef minnst af upplýsingum um þá þróun fengið frá hæstv. samgrh., satt að segja ekki neitt. Eitthvað lítils háttar hefur verið reynt að sönnu, og skal þakkað, af hálfu formanns samgn. sem að beiðni minni og fleiri í samgn. kallaði til fulltrúa stærstu stéttarfélaga sem hér eiga hlut að máli til skrafs og ráðagerða núna í haust. Ef satt skal segja, virðulegi forseti, juku þau tíðindi sem þar heyrðust ekki sérstaklega bjartsýni, því að ýmislegt og flest var óljóst og annað sem starfsmennirnir voru hreint ekkert mjög ánægðir með. Ég skildi og skil ósköp vel þeirra áhyggjur eftir að við í samgn. áttum orðastað við þá undirbúningsnefnd sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni, umbar hæstv. samgrh. til að undirbúa þessa formbreytingu sem á að eiga sér stað um næstu áramót, því að hugmyndir þar voru slíkar að mér brá dálítið satt að segja og gat ekki stillt mig á þeim fundi um að spyrja formann þeirrar nefndar, sérstakan umboðsmann hæstv. ráðherra, hvort honum fyndist ekki heldur hratt farið yfir sögu og hvort honum fyndist ekki að hann sem formaður undirbúningsnefndar sem hafði það meginhlutverk að undirbúa þessa formbreytingu á hlutafélaginu væri farinn að teygja sig býsna langt þegar hann var farinn að undirbúa það og leggja upp skipurit um það hvernig þetta fyrirtæki ætlaði sér að spara í rekstri á næsta ári, hagræða í rekstri á næsta ári og hvernig það ætlaði að takast á við þá samkeppni sem sennilega yrði. Mér fannst menn vera komnir eilítið fram úr sér og undirbúningsnefndin í raun orðin stjórn fyrirtækisins. En eins og kunnugt er, virðulegi forseti, þá tekur stjórn fyrirtækisins ekki við alveg strax. Hún gerir það, ef ég man rétt, 27. desember nk.

Vafalaust er hæstv. samgrh. búinn að undirbúa það mjög gaumgæfilega hvernig hann ætlar að standa að því að skipa í stjórn fyrirtækisins. Það skiptir mjög miklu máli og segir heilmikið um hug ráðherrans og stefnumið þegar kemur að því að skipa þessu stóra og viðamikla fyrirtæki stjórn. Hann skipar alla stjórnina og ég vil rifja það upp að í umræðum um þau mál sl. vor fóru menn mjög gaumgæfilega ofan í það og höfðu áhyggjur af því, margir spurðu beint um það, hvort þetta þýddi ekki að nú ætlaði hæstv. ráðherra að setja saman enn eina einlita stjórn, pólitískt skipaða stjórn, samsafn flokkssystkina, sem gæti dansað að vild eftir hans eigin hugmyndum. Hann neitaði því á þeim tíma og sagði engin áform uppi um það. Vissulega má með sanni segja að hann hafi staðið við þau áform sín þegar kom að skipan formanns þessarar undirbúningsnefndar. Mér vitanlega hefur sá maður ekki sérstaklega verið kenndur við flokk hæstv. samgrh. En nú reynir á við skipan þessarar stjórnar hvort þar gangi eftir hin góðu fyrirheit samgrh. um breiða og góða pólitíska dreifingu í þessari stjórn því að margir höfðu það á orði hér að það væri nauðsynlegt að hið háa Alþingi kysi stjórn fyrirtækisins til þess að tryggja að breið pólitísk dreifing væri í þessu stóra og mikilvæga fyrirtæki og ýmis sjónarmið fengju þar að njóta sín. Ég kalla mjög ákveðið eftir því við þessa umræðu, því að hér er um náskylt mál að ræða þeim frumvörpum sem við ræðum hér, hvort hæstv. ráðherra hafi enn þá sömu hugmyndir uppi og ætli sér í næstu eða þar næstu viku þegar hann skipar þessa stjórn að gæta þess mjög að hún verði skipuð fulltrúum sem flestra stjórnmálaflokka og pólitískra viðhorfa sem hér hafa gert sig gildandi á síðustu tímum.

Ég hvet hann mjög eindregið til þess. Hér er um að ræða mikilvægt próf á hendur honum, próf um það hvernig hann sér þetta stóra og mikilvæga þjónustufyrirtæki í samkeppni, hvernig hann sér það geta notið sín. Þetta er líka próf í þá veruna hvort hann vilji yfirleitt eiga samtöl við okkur hin sem erum honum ekki sammála um ýmis smá og stór atriði, erum hér í stjórnarandstöðu, erum m.a. að eiga við hann orðræður um mikilvæg frumvörp sem hér eru til umræðu. Vill hann ekkert hlusta á þetta hjal? Vill hann ekkert hafa með þetta fólk að gera? Vill hann bara sína jábræður og -systur í kringum sig eða er hann nógu stór til þess að stíga aðeins upp fyrir það og sýna það í verki núna skömmu eftir jól þegar skipun fyrstu stjórnar nýs hlutafélags verður að veruleika með því að hafa þar dálitla breidd í manna- og kvennavali?

Ég hef í andsvörum, gerði það m.a. við hv. þm. Kristján Pálsson sem að sönnu lagði hér orð í belg og ber að þakka fyrir það alveg sérstaklega að hann hafi séð ástæðu til þess að taka þátt í orðræðum og rökræðum um þessi mál. Ég kastað því fram að gefnu tilefni hvers vegna hann sæi á því brýna nauðsyn endilega núna að lögfesta þessi frumvörp. Raunar hafði ég áður spurt um það ítrekað í nefndinni og við þessa umræðu í upphafi, hvers vegna það væri endilega svo brýnt og nauðsynlegt að ljúka þessari umfjöllun og festa þessi frumvörp í lög með gildistíma 1. janúar nk. Hvað væri það í raun sem kallaði á það? (Gripið fram í.) 1. janúar er það, virðulegi þingmaður. 1. janúar hvað varðar fjarskiptin og póstþjónustuna. Það er hins vegar Póst- og fjarskiptastofnunin sem á að taka til starfa 1. apríl af því að menn telja, með réttu, að þeir hafi ekki tíma til þess að hlaða öllum þeim fjölda þar á jötu sem verður nauðsynlegt. Það bara er ekki tími til þess vegna allra helgidaga og þess vegna verða menn að hafa einhverjar vikur eða mánuði til þess að koma þeirri stóru og miklu stofnun á fót.

[22:45]

Eftir sem áður stendur þessi lykilspurning: Hvers vegna núna um áramót? Af hverju liggur svona lífið á? Frelsið í Evrópu, samkvæmt tilskipun ESB, brestur ekki á fyrr en eftir rúmt ár. Það verður ekki fyrr en á nýjársdag 1998. Ég gerði mér það til gamans að fletta upp í ágætri samantekt sem gerð var í kjölfar ágætrar ferðar þingmanna til Noregs og Danmerkur, sem að stærstum hluta til voru úr samgn., þar sem þeim voru kynnt málefni póst- og símastofnana. Það er líka rétt að geta þess og ítreka enn og aftur þakkir til hæstv. samgrh. að það var í boði hans og Póst- og símamálastofnunar því þá var það hans vilji að menn mundu vanda þessa lagasetningu og alla þessa gjörð. Það var á þeim tíma.

Þar kom fram einmitt, sem er veigamikill þáttur í tengslum við þessa tímasetningu og ekkert hefur breyst í því frá þeim tíma, að fjarskiptaráðið sem er í raun ráðherraráð ESB, fjarskiptaráðið samanstendur af samgönguráðherrum landanna í ESB, hefur fjallað um þennan málaflokk og það var að þess undirlagi sem þetta frelsi og þessi tilskipun var samþykkt. Þar kemur fram að margir í framkvæmdastjórn ESB hafa verið þess fýsandi að gera þetta miklum mun fyrr en aðildarríkin mörg hver töldu ekki forsendu til þess að ráðast í þetta frelsi og þær óhjákvæmilegu breytingar sem því fylgdu fyrr en í fyrsta lagi árið 1998. Í rauninni hafa ýmis aðildarlönd farið fram á það að fá frest, virðulegi forseti, frá þessum áskilnaði og nokkur lönd hafa óskað eftir því og fengið umþóttunartíma varðandi það að stuðla að samkeppni í innviðum og talsíma á þeim grundvelli að fjarskiptakerfi þeirra séu annaðhvort lítil eða vanmáttug og muni því ekki geta staðist samkeppni þegar á árinu 1998. Við skulum muna það, virðulegi forseti, að við erum að tala um samkeppni á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, í allri Evrópu. Það er ekki verið að tala um það eitt að risinn Póstur og sími fái vaxandi samkeppni frá Friði 2000 eða frá þeim litlu fyrirtækjum sem hér eru á markaði. Nei, það gæti farið svo að það yrði Telenor, það yrði Posttele, það yrði Tele-Danmark og það yrði Postverket þegar pósturinn fer inn í samkeppnisumhverfið. Það eru aðildarlönd Evrópusambandsins sem hafa farið fram á það og fengið gulgrænt ljós á það að fresta því að takast á við þessar gerbreyttu aðstæður.

Kannski er það svo að hæstv. ráðherra og meiri hluti samgn. gefi sér það að enn og aftur muni fjarlægðin tryggja að erlendir samkeppnisaðilar komi ekki hér á markað. En það held ég að sé hjóm eitt og engar forsendur til að ætla það því að óvíða eru vegalengdirnar styttri en einmitt á þessum vettvangi. Hér eru vegalengdirnar ekki til. Þær eru alls ekki til á fjarskiptasviðinu. Enda gera frumvarpshöfundar sér fullkomlega grein fyrir því að vegalengdir eru ekki til þegar kemur að samkeppni á vettvangi fjarskipta.

Af því að ég nefni þetta sérstaklega, þá er athyglisvert í þessu samhengi að skoða eitt af skilyrðunum 15 sem umsækjendur og leyfishafar þurfa að uppfylla til þess að njóta náðarinnar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Þetta er stafliður k og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,að erlendur rekstrarleyfishafi setji upp starfsstöð hér á landi eða hafi hér á landi fulltrúa sem umboð hefur til að koma fram fyrir hönd rekstrarleyfishafa gagnvart notendum hér á landi.``

Hvað segir þetta okkur, virðulegi forseti? Þetta segir okkur að tæknin í þessum efnum er orðin svo mikil að það verður væntanlega ekki þörf fyrir það, í sumum tilvikum a.m.k., að erlendir rekstrarleyfishafar sjái ástæðu til þess út af fyrir sig að setja hér upp starfsstöðvar heldur stýri öllum þessum málum frá útlöndum, frá Danmörku, Noregi eða Mið-Evrópu og eigi hér hugsanlega eingöngu fulltrúa sem sé ábyrgur fyrir fyrirtækinu og gæti réttar þess eftir efnum og ástæðum. Það var kannski ekkert grín þegar allt kemur til alls sem hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan þegar kom að þeim víðtæka rétti sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur um innra eftirlit og athuganir á starfsstöðvum leyfishafa á fjarskiptasviðinu. Það gæti, og er kannski meira en fræðilegt, það er kannski raunverulegur möguleiki, það gæti svo farið þegar um það er að ræða að viðkomandi erlend fyrirtæki ætli sér ekki að hafa hér neinar starfsstöðvar, ætli sér að hafa þetta allt í útlöndum, að þessi póst- og fjarskiptamiðstöð þyrfti að hleypa heimdraganum og skoða málin á erlendri grund og hræddur er ég þá um að lítið dugi ítarleg löggjöf á hinu háa Alþingi þegar kemur að því að ryðjast inn um dyr erlendra fyrirtækja til að skoða bókhaldsgögn og annað það sem nauðsynlegt er talið. Þá dugir heldur ekki að vísa til hliðstæðrar löggjafar í tryggingamálum. Ég spyr því enn og aftur fyrst ég er að ræða þetta í þessu samhengi: Það verður auðvitað létt verk og löðurmannlegt ef þetta er svona alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, alls staðar í Evrópusambandinu því að hæstv. ráðherra nefndi það í andsvari fyrr í dag að þetta þyrfti allt að gerast svona vegna þess að Evrópusambandið krefðist þess, að Evrópusambandið gerði kröfu um það að slíkt vægi og slík völd væru falin Póst- og fjarskiptastofnuninni m.a. um þetta atriði sem ýmsir hafa gert hér að umtalsefni áður, með öðrum orðum að það væri tilskipun frá ESB. Hann var krafinn um þessa einu tilskipun, þessa tilskipun sem gerði það að verkum að hér værum við að setja á eins konar lögregluríki þegar kemur að eftirliti með væntanlegum leyfishöfum á vettvangi fjarskiptanna. En auðvitað hefur hæstv. ráðherra ekki getað sýnt þessa tilskipun. Hún er ekki til. Hér er fabrikasjón í gangi. Hér er um íslenska uppfinningu að ræða, alíslenska, og kemur Evrópusambandinu og kröfugerð þaðan ekkert við, kannski aldrei þessu vant.

Ég var að ræða um tímann, virðulegi forseti. Ég var að tala um það hvers vegna mönnum liggur svona lífið á. Frelsið brestur ekki á fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 1998. Út af fyrir sig gerist ekkert hér á markaði, það verða engar kollsteypur á þessum markaði í sjálfu sér þó að Póstur og sími verði hlutafélagavæddur. Það gerir ekkert. Það er þessi löggjöf sem við erum að ræða núna sem gerir þessa samkeppni mögulega.

Ég vil vekja á því athygli sérstaklega, virðulegi forseti, að það er einn stór galli hér á. Það er ekki hægt miðað við anda laganna og hæfi ráðherrans sjálfs að lögfesta frv. um fjarskipti og lögfesta frv. um póstþjónustu en gildistími fjarskiptastofnunar verði þremur mánuðum síðar. Hvers vegna er það ekki hægt? Vegna þess að í bráðabirgðaákvæði með frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun er gert ráð fyrir því að samgrn. annist þau verkefni sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið með lögum þessum. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson leggi nú við hlustir. Ég er að nefna það hér, virðulegi forseti og hv. þm., að gildistími laga um fjarskipti og póstþjónustu er 1. janúar. Gildistími laga um Póst- og fjarskiptastofnun er 1. apríl 1997. Hver á að hafa þessa umsýslu með frelsinu með höndum þá þrjá mánuði sem líða frá 1. janúar til 1. apríl? Jú, í bráðabirgðaákvæði er rætt um það að samgrn. skuli annast þau verkefni sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið í lögum þessum. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir bara það að þessi óháða stofnun, með þetta víðtæka vald til eftirlits, til þess að veita leyfi, er í höndum samgrn. Það verður ekki klipptara og skornara en þetta. Ætla menn sér að byrja frelsið, hið hlutlæga frelsi, og fara af stað með þessar víðtæku heimildir þessarar stofnunar sem byggjast á lögum um fjarskipti og póstþjónustu með þeim hætti að hæstv. ráðherra sjálfur sjái bara um þetta allt saman? Auðvitað verður gildistími beggja þessara laga að fara saman. Það er alveg lágmarkið í málinu. Ég ætla ekki að fara aftur með þau viðlög sem ég hef áður gripið á um það að þessi stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, þarf að vera sem lausust frá framkvæmdarvaldinu, a.m.k. svo lengi sem hæstv. ráðherra passar upp á bréfið eina. Hér er ekkert verið að fela það í þessu bráðabirgðaákvæði. Það er bara einfaldlega sagt að vegna þess að það tekur svo langan tíma að koma þessari Póst- og fjarskiptastofnun á fót, þá verði það kontóristarnir í samgrn. sem sjái um þetta allt saman, sjái um að fara í útboð á rekstrarleyfum, sjái um að kanna og gaumgæfa fjárreiður væntanlegra rekstrarleyfishafa, eftir efnum og ástæðum ganga þar um dyr og ganga eftir því sem þeir vilja og skoða þar plögg. Samgrn., sem á sama tíma á að gæta að því að Póstur og sími hf. græði sem mest, skili sem mestum arði þannig að ríkissjóður njóti.

Er einhver glóra í lagasetningu af þessum toga, virðulegi forseti? Er eitthvert vit í þessu? Þetta helgast auðvitað af því að mönnum liggur svona lífið á og misræmi af þessum toga blasir við í bráðabirgðaákvæði af því að einhverra hluta vegna verður þetta að gerast 1. janúar. En það er ekki hægt tæknilega vegna þess að það tekur svo langan tíma að ráða fólk að gera þetta varðandi Póst- og fjarskiptastofnun og þá er þessari mikilvægu og óháðu eftirlits- og úthlutunarstofnun bara skákað inn í ráðuneytið, inn á kontórinn hjá hæstv. ráðherra eða einhverjum þar. Þeir munu bara sjá um að veita leyfi til fjarskipta og póstþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Þeir munu hafa eftirlit með því fyrstu mánuðina. Þá má vænta þess að fjölmargir bregðist mjög hratt við og séu nú í startholunum með það að fara inn á þennan samkeppnismarkað. En þá er engin stofnun til. Þá er ekki til nein sérhæfð stofnun sem er gerð tillaga um í frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun því að menn þurfa svo að flýta sér að lögfesta frv. til laga um fjarskipti og frv. til laga um póstþjónustu að það næst ekki að ráða menn til þessarar nýju stofnunar.

[23:00]

Er nokkur glóra í þessu? Ég spyr hv. þm., það þýðir ekkert að spyrja hæstv. ráðherra um þetta því að hann veit ekkert um þetta. Ég spyr hv. þm. Einar K. Guðfinnsson: Hvernig ætlar hann að skýra út þetta misræmi? Hvernig ætlar hann að láta það ganga upp í ljósi þess anda um sjálfstæði og hlutlægni, í ljósi þess vilja að þessi stofnun sé eins óháð og yfir gagnrýni hafin og nokkur kostur er, að skáka þessu bara inn í ráðuneyti nú í fjóra mánuði. Að láta þá bara sjá um þetta þar. Og hverjir skyldu sjá um það þar? Væntanlega hefur hæstv. ráðherra ekki mikinn tíma aflögu til þess. Það skyldi þó aldrei vera sá sem samdi þetta frv. sem auðvitað veit að sönnu langmest um málið? Með öðrum orðum við erum komin hringinn. Hin óháða eftirlits- og leyfisstofnun er sennilega komin í hendur þess sem samdi þessi ítarlegu frumvörp og þetta segir nú allt um stjórnkerfi okkar hér heima á Íslandi. Það verður ekki mikið meira sagt um það. Þetta segir allt um það.

Ég fer nú þess mjög á leit, ekki síst í ljósi þessa, að menn hugsi þetta dálítið upp á nýtt og velti því fyrir sér hvort nokkur glóra sé í því að fara fram með slíkum flumbrugangi í jafnviðamiklum og viðkvæmum málaflokki og hér um ræðir. Við erum að stíga alveg glæný skref. Hér blasir við okkur glænýtt viðskiptaumhverfi og kannski er það rétt að sumu leyti að við höfum lagt of mikla áherlsu á þetta viðskiptalega umhverfi og hvernig við munum geta tryggt að þeir sem ætla sér að starfa á þessum vettvangi geti gert það eftir ýmsum flóknum fyrirséðum og ófyrirséðum leikreglum. Það er kannski allt of lítið talað um það, hvernig þetta kemur til með að virka á hinn almenna notanda, hvert einasta heimili hér á landi sem notar símann til að mynda, sem er þessi einfalda mynd af fjarskiptum sem flestir þekkja.

Ég fór aðeins yfir það, virðulegi forseti, og það er kannski ástæða til þess að velta aðeins vöngum yfir því, hvaða breytingar þetta mun hafa í för með sér fyrir allan almenning. Mun hann hafa einhvern ágóða af þessu í því formi að símgjöld lækki? Mun hann njóta þess að þjónustan verði miklum mun betri? Ég veit það ekki. Ég vona svo sannarlega að þannig verði þessi þróun. En samkvæmt þessum frumvörpum um leikreglur á markaðnum, þessum frjálsa markaði, þá er auðvitað ekkert hægt að fullyrða um það, því að enda þótt sérstaklega sé nefnd talsímaþjónusta þegar svokölluð skilgreining á alþjónustu er hér rædd og reifuð, þá er auðvitað ekkert í hendi um það að talsíminn frekar en eitthvað annað teljist til þessarar grunnþjónustu. En gott og vel, gefum okkur það. Látum hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn njóta vafans og gefum okkur það að síminn, telefonen, verði nú skilgreindur þannig að allir eigi rétt á honum og hann verði skilgreindur sem grunnþjónusta. Veltum því þá aðeins fyrir okkur áfram. Er þess að vænta að það verði mörg fyrirtæki sem fari í samkeppni eftir hálfan mánuð eða þrjár vikur við risann á markaðnum, Póst og síma hf.? Eru margir í startholunum og hvernig eiga þeir að undirbúa sig? Hvað er það sem þeir þurfa nú að leggjast í á þessum síðustu vikum yfirstandandi árs? Jú, þeir geta átt von á því að það fari fram útboð, almennt útboð. Gott og vel. Þeir búa sig undir það, gefa sér einhver arðsemissjónarmið, reikna út einhvers konar rekstrarkostnað og fara yfir sviðið miðað við ólíkar forsendur. Þeir lenda hins vegar fljótlega í því að spyrja sjálfa sig: Hvert á markaðssvæðið að vera? Eru einhverjir skilmálar um það að ég verði að þjónusta allt Ísland? Nei, því er ekki beinlínis svarað fyrir fullt og fast hvort þessir aðilar þurfi að þjónusta allt Ísland. Að vísu er gefið til kynna að það væri ekki verra og til þess sé horft, þ.e. að rekstrarleyfishafi væntanlegur veiti þá þjónustu sem leyfið nær til á öllu landinu. En svo er líka tekið fram: eða á tilteknum landsvæðum, þannig að þessu er gersamlega haldið opnu og raunar síðar sérstaklega tekið fram að sjái einhver rekstrarleyfishafi, væntanlegur umsækjandi, sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu, og nú er ég að tala um símaþjónustu, svo sem vegna fjarlægðar, sjái einhver vandkvæði á því til að mynda að koma símanum í sæmilegu horfi til Bolungarvíkur, af því að ég hef nefnt það dæmi áður, eða vegna þess að það er svo dýrt og kostar svo mikið eða vegna bara annars óhagræðis, þá getur hann leitað til Póst- og fjarskiptastofnunar og óskað úrskurðar þess efnis að hann megi verða undanskilinn. Að vísu er þetta ekki þannig fyrstu þrjá mánuði ársins, virðulegi forseti, því að þá ætlar hæstv. ráðherra sjálfur að ákvarða, því að hann kemur í staðinn fyrir Póst- og fjarskiptastofnun í janúar, febrúar og mars. Hann ætlar að sjá um þetta sjálfur, þessa fyrstu þrjá mánuði, þessa veigamiklu þrjá mánuði þegar við ætlum að fara að móta þessi fyrstu skref í hinu nýja viðskipta- og þjónustuumhverfi í fjarskiptamálunum á Íslandi. Hann ætlar bara að hafa þetta á kontórnum hjá sér.

Og enginn veit hvað átt er við með fjarlægð hér. Enginn veit hvað átt er við með kostnaði eða öðru óhagræði. Svo geta þessir umsækjendur haldið áfram og velt fyrir sér: Já, en kannski væri skynsamlegra að þjónusta bara Bolungarvík líka og láta sig hafa það, og þjónusta með öðrum orðum allt landið, því að þá á þessi umsækjandi líka kost á því að fara í sjóði Póst- og fjarskiptastofnunar og fá til baka peninga vegna þess að hann ætlar að sýna fram á að það kosti svo mikið, sé svo óhagkvæmt og hann tapi svo miklum peningum á því að þjónusta hinar dreifðari byggðir. Þá á hann möguleika á sérstökum niðurgreiðslum frá þessari fjarskiptastofnun, frá þessum kontór hæstv. ráðherra. Væntanlega verður hann mestan part tekinn úr þessum svokallaða jöfnunarsjóði. Það verður sem sagt gætt jöfnuðar. Ég sé fyrir mér að væntanlegur umsækjandi um rekstrarleyfi þarf að velta fyrir sér mörgum valkostum. Og það verður auðvitað ákaflega erfitt fyrir hann að kveða upp úr með það hvað sé nú skynsamlegt og hvað óskynsamlegt fyrir hann þegar hann ætlar að ríða á þetta vað, því að það vantar auðvitað allar skilgreiningar á því hvað er átt við með þessu. Hvað er átt við með fjarlægðarhugtakinu, kostnaðarhugtakinu og öðru slíku? En án þess að það hafi nokkurs staðar verið fullyrt hér og hæstv. ráðherra eða hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi kveðið upp úr með það, þá skulum við gefa okkur að þessi samkeppni, þrátt fyrir vankantana, verði að veruleika og það verði einhverjir aðilar sem ætli sér að keppa um hylli notenda hér á landi um talsímaþjónustu. Þá skyldi maður ætla að markmiðið með öllu þessu írafári og fimbulfambi væri að verðið lækkaði, að notendurnir, viðskiptavinirnir, hefðu einhverja valkosti um verðið, um gæðin, um þjónustuna o.s.frv. því að annars væri ákaflega lítill tilgangur í því að standa í þessu öllu saman ef við gæfum okkur ekki að það væri einhver verðmismunur og einhver mismunur á þessari þjónustu. Og flestir þeir sem eitthvað þekkja til sjá það nú fyrir sér fyrst og fremst að það væri fólgið í því að minni fyrirtæki teldu sig ekki hafa bolmagn til þess að leggja í þann ,,fórnarkostnað`` að fara að þjónusta Bolungarvík, Raufarhöfn eða fjarlægari byggðir. Það væri of mikill kostnaður, a.m.k. í upphafi, til þess að það borgaði sig og þau mundu auðvitað freista þess að fara þess á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að fá undanþágu frá þessu ákvæði alþjónustunnar um að þjónusta allt landið og væntanlega byrja á því að gera þetta sem einfaldast og ódýrast, þ.e. þjónusta höfuðborgarsvæðið, þjónusta þær 150 eða 170 þúsund manneskjur sem hér búa og er sannarlega auðveldast að komast í samband við í þessu samhengi.

Þá kemur auðvitað að mjög flóknum útreikningi. Ef þetta litla fyrirtæki með litlum tilkostnaði getur sökum hagræðis þjónustað aðeins lítið svæði þar sem margt fólk býr, getur boðið lægra verð heldur en stóri aðilinn, Póstur og sími hf., sem ætlar sannarlega að þjónusta allt landið eins og hann hefur gert, getur bara hreinlega boðið langtum lægra verð, við skulum segja að það muni 30% á verði og það er ekkert óeðlilegt að ætla það. Það þarf ekkert að jafna út kostnaði við langlínusamtöl eða innan bæjar, þetta er allt innan bæjar. Það er ósköp einfalt mál. Í hvaða klemmu lendir þá hæstv. ráðherra og þessi margnefnda Póst- og fjarskiptastofnun? Hún verður náttúrlega fyrir þeim þrýstingi að fara að skilgreina þetta jöfnunargjald, að fara að skilgreina hvað það á að kosta þetta litla fyrirtæki, sem ætlar bara að þjónusta höfuðborgarsvæðið, að losna við að þjónusta allt landið, og hvað þurfi að koma upp sameiginlegum sjóðum til þess að Póstur og sími geti staðist samkeppni við litla fyrirtækið. Þá kem ég að vangaveltum Samkeppnisstofnunar um niðurgreiðslur á síma um dreifðar byggðir. Er það fyrirkomulagið sem við viljum sjá í þessu samhengi? Ég er ekki sérlega spenntur fyrir því satt að segja. Og ekki er það í neinu samhengi við þá annars ágætu brtt. meiri hluta samgn. þar sem það er áréttað sem samþykkt var sl. vor að það væri óheimilt að leggja álag á langlínusamtöl. En vandinn er bara þessi: Það verða hugsanlega sum fyrirtæki sem ætla ekkert að bjóða upp á langlínusamtöl þannig að það reynir bara hreinlega ekkert á það gagnvart þeim fyrirtækjum. En stóra fyrirtækinu, núverandi ríkisfyrirtæki sem hefur sinnt öllu landinu og gerir það væntanlega áfram og mikill þrýstingur á það og vænti ég þess að þeir geri það, því verður bannað að vera með álag á langlínusamtöl og þarf þá væntanlega að færa niður verð úti á landi og hækka það hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að eftir sem áður erum við farin að búa til ólíkt verð á höfuðborgarsvæði og í dreifbýli.

Ég er ekki að segja, virðulegi forseti, að þetta verði sú mynd sem við okkur blasir á næsta eða þar næsta ári. En eftir að maður fer yfir þær forsendur sem þetta frv. gerir ráð fyrir og reynir sjálfur að fylla upp í ýmis þau göt sem eru hér og ég hef margsinnis farið yfir, þá er þetta mynd sem er ekki óhugsandi að verði hér til. Og ég hugsa að margir velti því fyrir sér hvort frelsið og samkeppnin sé ekki býsna dýru verði keypt ef þetta verður niðurstaðan, að það þýði í raun að fyrirtæki sem ætlar að sinna landsbyggðinni verði að halda uppi hærra verði á öllu landinu en þeir sem ætla að fleyta rjómann ofan af geti verið með lægra verð sem passar vel fyrir þéttbýlisbúana. Ég vona svo sannarlega að þannig fari það ekki. En ef það fer ekki svona og ef menn ætla að jafna samkeppnina, þá fer maður að velta fyrir sér í hvaða form hún sé komin ef einhver stofnun úti í bæ ætlar að fara að taka ákvörðun um það hvað eigi að borga mikið úr jöfnunarsjóði, hvað eigi að borga hátt verð fyrir það að menn fari í slíkan fórnarkostnað. Þetta er ekkert auðvelt púsluspil. Þetta er ákaflega margflókið púsluspil og ég hef stundum sagt það áður að ég held að við hefðum mikið gagn af því að fara nú enn og aftur í smiðju til þeirra sem hafa verið að feta sig af stað í þessari vegferð og fá það nánar upp hvar þeir hafa rekist á horn og hvar þeir hafa rekist á þröskulda, hvernig þetta hefur gengið hjá þeim.

Þegar við fórum í þessa ágætu ferð til Danmerkur og Noregs, stór hluti samgn., og kynntum okkur mál þar, þá voru þeir auðvitað mjög tvístígandi um margt og sögðu: Tíminn á eftir að leiða í ljós hvernig til tekst, hver þróun þessara mála verður. Maður hefur svo sem heyrt af ýmsum erfiðleikum sem átt hafa sér stað í þessum löndum og ekki útséð um allt enn þá þannig að ég sé ekki brýna þörf á því að við förum að þessu leytinu til fram úr ýmsum Evrópusambandslöndum með að innleiða þessa nýju háttu og gerumst frumkvöðlar í þeim efnum. Ég held að hyggilegra væri í þessu sambandi að við yrðum þarna sporgöngumenn og reyndum að læra af mistökum annarra en það er greinilega lítill vilji til þess. Hér á að láta vaða á súðum eins og stundum áður.

[23:15]

Virðulegi forseti. Menn hafa eðlilega staldrað við Póst- og fjarskiptastofnun og hafa haft ýmis sjónarmið uppi um það hversu stór hún skuli verða. Í fjárlagaskrifstofu fjmrn. er eiginlega gengið út frá því mestan part að þessi stofnun verði í raun aðeins framhald eða framlenging af fjarskiptaeftirliti ríkisins sem mun hafa kostað 58 millj. kr. og starfsmenn þar eru tíu talsins. Fjmrn. gerir ráð fyrir að sennilega verði aukin útgjöld upp á 15--16 millj. kr. vegna fleira starfsfólks sem miðast við fjóra háskólamenntaða starfsmenn. Ég segi og skrifa fjóra háskólamenntaða starfsmenn. Er það virkilega ætlunin og trúir því nokkur maður, sem hefur rennt yfir og hugsað eilítið um þessi mál, að allt hið nýja hlutverk sem Póst- og fjarskiptastofnun á að hafa umfram þau verkefni sem fjarskiptastofnun ríkisins hefur haft með höndum kalli ekki á nema fjóra háskólamenntaða starfsmenn? Einn, tvo, þrjá, fjóra. Þetta er auðvitað þvílík fjarstæða að ekki tekur nokkru tali. Þessi stofnun er í fyrsta lagi hagdeild. Það gefur auga leið að hún þarf sérfræðing á sviði útboða. Þessi stofnun þarf að hafa yfir bókhaldsfróðum starfsmönnum að ráða til þess að maður geti farið inn í fyrirtækin, skoðað rekstrarforsendur, rekstraráætlanir, til að reikna út hvað er arðbært og hvað er óarðbært og búið til einhverjar línulögn varðandi það hvernig á að jafna aðstöðu þessara rekstrarleyfishafa. Það gefur auga leið og þegar ég er að tala um hagdeild, þá er ég ekki að tala um einn eða tvo menn. Ég er að tala um a.m.k. fjóra til fimm menn, fyrsta flokks menn. Sama um bókhaldsdeildina. Og stofnunin þarf að hafa löglærða menn í stórum flokkum. Hún þarf auðvitað að hafa menn sem geta farið á milli og skoðað, þ.e. bókhaldið og það sem hv. 6. þm. Suðurl. gerði mjög rækilega að umtalsefni. Einnig þarf að fylgjast með því sem fjarskiptaeftirlit ríkisins hefur haft með höndum en hefur verið tiltölulega einfalt í allri gerð eða fram undir það síðasta því að lengi vel og lengst af hefur fjarskiptaeftirlit ríkisins verið í nánum skipulagslegum tengslum við einkaleyfishafann, Póst- og símamálastofnun og margháttuð vinna sem þessi Póst- og fjarskiptastofnun á að hafa með höndum hefur verið unnin meðal þeirra 2.500 starfsmanna sem hafa starfað í Póst- og símamálastofnun. Það gefur því auga leið, án þess að ég geti nokkuð fullyrt um það, í þessu samhengi að menn eru ekkert að tala um 15 manna stofnun í allt. Ég hygg að menn séu a.m..k. mjög fljótlega að tala um 50--100 og kannski ekki innan margra ára 150. Hér eru menn að tala um feykilegt eftirlits- og úthlutunarapparat ef vel á að standa að verki og ef raunveruleg samkeppni á að ríkja og ef hér verður eftirspurn eftir því að halda úti þjónustu til símnotenda á Íslandi og annarra þeirra sem njóta þjónustu á vettvangi fjarskipta. Hér er ekki um lítinn vettvang að ræða og það er satt að segja hlægilegt að fjmrn. og fjárlagaskrifstofa skuli ganga þannig til verka og skila frá sér áliti af þessari tegund. Ég held meira að segja að hæstv. samgrh. og þeir í samgrn. hefðu með einföldum skilaboðum getað komið fjárlagaskrifstofunni í skilning um það að menn eru ekki að tala um neina fjóra nýja starfsmenn. Menn eru kannski öllu heldur að tala um 40 nýja starfsmenn. (Gripið fram í: Eða 80.) Já, 80 er alveg eins góð tala. En fjórir er náttúrlega alveg fjarri öllu lagi og ég vil leita sérstaklega eftir því hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni hvert hans mat er í þessu samhengi, hvernig hann sér umfang þessarar ríkisstofnunar fyrir sér.

Hann lét sér koma til hugar og það er kannski ekki óklókt í þessu samhengi að þessi stofnun gæti vel átt sér heimastöð einhvers staðar úti á landi, fyrir vestan eða austan eða hvarvetna og væri síðan með útibú í Reykjavík. Kannski var hugsun hans sú í því samhengi að draga úr því að þessi stofnun bólgnaði um of út. Ég veit það ekki. Það getur verið. En ég spyr hann samt og bið hann að velta því fyrir sér hvernig hann sjái umfang þessarar stofnunar hvað varðar mannahald, fjölda og annað því um líkt í ljósi þeirra viðamiklu verkefna sem er um að ræða.

Ég vil rifja það upp enn og aftur, virðulegi forseti, að þessi stofnun getur ekki leitað í smiðju hjá Pósti og síma. Það er bara harðbannað, það má ekki. Þessi stofnun getur ekki leitað í smiðju hjá samgrn. þó að þar sé til einhver þekking, því báðir þessir aðilar eru vanhæfir, mega strangt til tekið ekki, þó að lögin séu mótsagnakennd í því efni, koma nálægt beinum rekstri þessarar óháðu eftirlits- og úthlutunarskrifstofu. Þetta er líka þannig úr garði gert að maður hefur áhyggjur af því að höfundar og talsmenn ríkisstjórnarinnar geri sér ekki sjálfir nokkra grein fyrir því út í hvers konar rekstrarumhverfi okkur miðar og út í hvað við erum að fara, ekki einhvern tíma á næsta ári. Nei, nei. Bara eftir 13 daga, núna 1. janúar. Þá ætlum við að vinda okkur í þetta en að vísu verður ekki hægt að ná í þessa fjóra nýju starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar fyrr en 1. apríl nk. Það er vandamálið sem menn sjá helst í praktíkinni. En hann Halldór í samgrn., hæstv. ráðherra, ætlar að sjá um þetta á meðan. Hann ætlar bara að gera þeim grein fyrir því, umsækjendunum, þegar þeir koma til hans í löngum bunum frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og alls staðar að, þá ætlar hann að fara yfir og skýrgreina fyrir þeim þessi 15 skilyrði sem þeir þurfa að uppfylla. Að vísu vitum við ekki hvort þeir þurfa að uppfylla öll skilyrðin eða bara eitt eða bara tvö eða öll 15, en hann ætlar að sjá um þetta á meðan og starta þessari samkeppni með vinstri hendinni, ætlar að ýta úr vör. 2. janúar. Þá áætlar hæstv. ráðherra að setja í gang, klippa á borðann. Hann fer létt með það. Þá ætlar hann kannski með aðstoð þeirra meirihlutamanna í samgn. að setja í gang samkeppni í fjarskiptum á Íslandi. Skítt með það þó að það vanti einhverja smástofnun, Póst- og fjarskiptastofnun sem gefst ekki tími til að setja á stofn fyrr en einhverjum mánuðum seinna, sem er auðvitað lykillinn að því að fylgjast með því að reglurnar séu haldnar og passað sé upp á þetta allt saman. En það er engin þörf á því.

Sá sem á eina bréfið í Pósti og síma hf. ætlar líka að sjá um að samkeppnisaðilarnir hafi þetta eins og þeir best vilja og græja þessi mál, einn, tveir og þrír. Að vísu gæti einhverjum dottið í hug að efast um það í ljósi þessara laga og þeirra forsendna sem að baki eru og farið hugsanlega til úrskurðarnefndarinnar og sagt: Þetta gengur ekki. Það gengur ekki að hæstv. samgrh. Halldór Blöndal sé að sýsla með þessi mál. Hann má það ekki. Hvernig í veröldinni á ég að treysta honum? Hann var að koma af hlutafélagafundi í Pósti og síma hf. og var að skipa þar stjórn, flokksfélaga sína og vini. Ætlar hann svo að sjá um að ég njóti jafnræðis og réttar í samkeppni við Póst og síma? Það gæti vel farið að einhverjir mundu gera svona athugasemdir. Þeir munu þá væntanlega kæra til úrskurðarnefndarinnar, sem hæstv. ráðherra verður þá búinn að koma á laggirnar 2. janúar nk., skipaða þremur mönnum. Þeir verða þá byrjaðir strax þann 3. janúar, einn frá Hæstarétti, einn frá Verkfræðingafélaginu og svo einn fulltrúi hæstv. ráðherra. Þeir verða auðvitað í standi, klárir í slaginn, tilbúnir í allt. Það mun ekki standa á því. En kannski getur verið að menn verði ekkert sáttir við þennan framgang mála og finnist þetta að sumu leyti eins og í bananalýðveldi og finnist það engin rök þegar hæstv. ráðherra segir þeim: Er það ekki þannig að dómsmrh. skipar dómarann, hæstaréttardómarann? Þeir verða sennilega mjög glaðir og kátir þá og segja: Jú, jú, þetta er sennilega alveg hárrétt hjá þér og þetta á bara að vera svona.

Auðvitað á þetta ekkert að vera svona. Auðvitað er þetta ekki eins og hjá mönnum og að ímynda sér það að menn geti tekist á við þetta vandasama verk með þessum hætti núna eftir 13 daga er auðvitað fjarri öllu lagi. Og ég höfða nú til skynsemi, sem ég veit að sumir hv. þingmenn stjórnarliðanna, a.m.k. þeir menn sem eru í forsvari fyrir þessu máli hafa til að bera í ríkum mæli, að þeir gaumgæfi nú og kanni hvort nokkurt vit sé í lagasetningu af þeim toga. Hvort ekki sé ráð, eins og við höfum verið að benda á, að menn gefi sér tíma og gaumgæfi, andi nú með þessu og gaumgæfi hvort ekki séu ýmis göt sem þurfi að fylla í og ýmis útfærsluatriði sem sé réttara að hafa á þurru og kláru áður en menn hleypa heimdraganum, áður en látið er slag standa.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur að beiðni okkar minnihlutamanna brugðist mjög drengilega við því að nefndin eigi orðastað um þessi efni í fyrramálið svo fremi sem umræðu um málið lýkur á þessum kvöldfundi að vísu. Þar getum við tekið á nokkrum þeim álitamálum og m.a. þeim hvort nokkur glóra sé í að fara fram með málið í þessu hasti og á þessu harða stökki.

Það er svo, virðulegi forseti, að þetta mál er svo viðamikið að hægt er að bera nánast endalaust niður í því. Ég hef sagt áður að um margt eru greinargerðir og allur umbúnaður frv. með ágætum ef frá eru talin þau göt um hina tæknilegu og hina raunverulegu útfærslu sem er auðvitað lykilatriði í málinu. Það er grátlegt í sjálfu sér þegar menn gera þrátt fyrir allt heiðarlega tilraun til þess að leggja einhverjar leikreglur um samkeppni í fjarskiptum upp á 40 greinar og síðan, eins og hæstv. ráðherra veit og hefur væntanlega lesið alveg orð fyrir orð, eru athugasemdir upp á 20 blaðsíður þéttritaðar, þar sem er rakin saga þessara mála og yfirleitt nokkuð vel útfærðar athugasemdir með einstökum greinum. En vandamálið er bara ekki það. Vandamálið er það sem ekki stendur í þessu þrátt fyrir allt. Það eru þau atriði sem ég hef gert að umtalsefni í alllöngu máli. Ég hefði auðvitað getað haft þetta miklum mun styttra og hnitmiðaðra hefðum við átt orðaskipti og skipst á sjónarmiðum eins og eðlilegt hefði verið, stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar, og þeir hefðu reynt að gera okkur glögga grein fyrir hvernig þeir sæju þetta landslag samkeppninnar birtast okkur á nýju ári en þeir hafa ekki reynt það eitt aukatekið andartak, virðulegi forseti. Ef ekki verður breyting þar á þegar nær dregur lyktum umræðunnar og við fáum ekki nein tilsvör með viti eða ræðu frá hæstv. samgrh. um þessi mál á málefnalegum grunni, hvernig hann sér þessa framtíðarsýn, þetta nýja viðskiptaumhverfi blasa við sér, hvernig hann hefur hugsað sér að útfæra þessa reglugerð, þessar leikreglur í smáatriðum, ef hann gerir það ekki og ef hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lætur ekki svo lítið að fara yfir málin á grundvelli þeirra orðræðna sem hafa átt sér stað sl. tvo daga og ef hv. þm. Magnús Stefánsson telur ekki ástæðu til þess einu sinni að anda að okkur í þessari umræðu, ekki hósta hér í þessum ræðustóli, þá sé ég auðvitað engan annan kost í þessu samhengi, virðulegi forseti, heldur en að fara enn og aftur yfir málið mjög ítarlega í minni þriðju ræðu. En ég vona svo sannarlega að til þess komi ekki.