Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 23:30:05 (2404)

1996-12-18 23:30:05# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:30]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þar sem ég reikna með að þurfa að spyrja hæstv. samgrh. nokkurra spurninga, þá væri ákjósanlegra að hann væri viðstaddur svo hann gæti hlýtt á spurningarnar. Ella þyrfti ég að tvítaka ræðu mína og mér er verr við það. Það væri gott ef hæstv. forseti gerði nú tilraun til þess að ná hæstv. samgrh. í salinn. Ég er viss um að hann er ekki alveg búinn að lesa þær tvær bækur um kosningaúrslit sem hann hefur verið að lesa hér í kvöld. Hann gæti haldið því áfram.

(Forseti (RA): Ráðherrann gengur í salinn.)

Hann er kominn í salinn og það er mjög gott því það eru nokkrar spurningar sem mig langar til að leggja fyrir hæstv. ráðherra um frv. þau sem hér eru til umræðu.

Ég vakti athygli á því við 1. umr. málsins að þessi lagatexti væri stundum nokkuð kyndugur og ég væri þeirrar skoðunar að það þyrfti sums staðar og mjög víða raunar að bæta um betur svo að menn skildu hvað við væri átt. En það hefur því miður ekki verið gert og því bregð ég á það ráð að beina nokkrum spurningum til hæstv. samgrh. og formanns samgn. Alþingis um hvað menn eiga við í þeim lagatexta sem þeir eru að biðja hv. Alþingi um að samþykkja.

Það er í fyrsta lagi ákvæði sem er í 2. gr. frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Þar stendur í 2. mgr. 2. gr., með leyfi forseta:

,,Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með.`` Það er ekkert við því að segja, það er ekki nema sjálfsagt. Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.``

Þá spyr ég: Hvað eiga menn við? Eru það ekki fjárhagstengsl að vera í viðskiptum við slíkar stofnanir? Það hefði ég nú haldið. Og þýðir þetta t.d. að þeir sem eiga sæti í Póst- og fjarskiptastofnun og starfa þar megi ekki vera áskrifendur að síma eða þá að þeir megi ekki stunda nein slík þjónustuviðskipti eða hagsmunatengsl við þá aðila sem þeir eiga að hafa eftirlit með því að vissulega eru það fjárhagstengsl ef einn aðili stendur í viðskiptum við annan?

Nú þýðir þetta að sjálfsögðu ekki það eða menn ætlast ekki til þess að þetta ákvæði sé túlkað svona. En hvernig á þá að túlka það? Væri ekki ráð að menn reyndu að setjast niður og semja þennan texta þannig að ekki væri hægt að snúa út úr honum eða túlka hann eins og ég er hér að gefa færi á að gera. Þetta er óskýr texti og menn verða að orða betur hvað menn eiga við.

Í öðru lagi langar mig til þess að vekja enn athygli á ýmsum nýyrðum sem er að finna í þessari löggjöf sem mér finnst vera hálfgerðir hortittir. Hér er t.d. nýyrðið póstrekandi, þ.e. fyrirtæki sem stundar póstþjónustu. (SJS: Ekki maður sem rekur póst?) Nei, það er ekki maður sem rekur póst heldur maður sem rekur fyrirtæki. Hvaða þörf er á því að búa til svona orðskrípi, virðulegi forseti, hvað þá heldur að skilgreina það? Er ekki einfaldlega hægt að nota skiljanlegt mál og ræða um fyrirtæki sem stundar póstþjónustu eða rekur slíka starfsemi? Eru þá útgerðarfyrirtæki t.d. allt í einu orðin útrekendur? Og t.d. þingforsetadæmið á okkar háa Alþingi, eru þingforsetar orðnir þingrekendur (Gripið fram í: Atvinnurekendur.) o.s.frv. Ég vildi biðja menn um að staldra aðeins við og breyta svona hortittum sem er engin ástæða til að hafa.

Síðan kemur mér nokkuð á óvart ákvæðið í 5. gr. Þau eru raunar mörg sem koma þar á óvart. Í 1. mgr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að leyfishafar upplýsi um alla þætti starfsemi sinnar sem leyfið eða skráningin tekur til. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.``

Það er ekki oft sem tekið er svona til orða í lagatexta, að hægt sé að krefjast munnlegra eða skriflegra upplýsinga innan hæfilegs frests sem sá á að ákveða sem upplýsinganna krefst.

Þá er í næstu mgr. talað um heimild til þess að krefjast upplýsinga um fjárhagstöðu og þar er m.a. gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist þess að leyfishafar láti stofnuninni í té milliuppgjör. Ég spyr hæstv. ráðherra og formenn samgn.: Hvað eiga menn við með þessu? Þarna er ekki verið að ræða um ársfjórðungsuppgjör. Eru menn að gera því skóna að Póst- og fjarskiptastofnun geti t.d. krafist þess af leyfisaðila að hann láti henni í té mánaðarlegt uppgjör? Hvað eiga menn við með þessu? Er ekki eðlilegt að skýra það þá, t.d. með því að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist hálfsársuppgjörs eða ársfjórðungsuppgjörs, en ekki að veita henni heimild til þess að krefjast einhvers konar milliuppgjörs sem enginn veit hvað þýðir og hún á sjálf að túlka hvað átt er við með? Við skulum átta okkur á því að gert er ráð fyrir því annars staðar í þessum lagatexta að þessi sama stofnun geti krafist þess að viðkomandi fyrirtæki greiði allan kostnað af eftirliti sérstaklega. Það er þá orðið nokkuð mikið eftirlitsvald ef hægt er að gera ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist hverra þeirra upplýsinga úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækis, undir heitinu milliuppgjör sem enginn veit hvað átt er við með, eftir því sem henni þykir hlýða. Síðan er sagt í sömu grein: ,,yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar.`` Hvað er átt við með því? Hvaða aðrar sambærilegar upplýsingar eiga menn við, aðrar en ársreikninga, ársfjórðungs- eða hálfsársuppgjör og yfirlýsingar endurskoðanda? Ég vildi fá að vita það frá hv. nefndarformanni hvaða aðrar upplýsingar teljist vera sambærilegar og Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist frá viðkomandi fyrirtækjum.

Þá segir í 3. mgr. að Póst- og fjarskiptastofnun sé heimilt án dómsúrskurðar að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa, þ.e. það er verið að veita stofnuninni þá heimild að láta fara fram húsrannsókn án undangengins dómsúrskurðar. Hvað mörg tilvik eru í íslenskri löggjöf þar sem opinberri stofnun eða eftirlitsstofnun er heimiluð slík aðgerð án fyrir fram dómsúrskurðar? Ekki hefur löggæslan heimild til slíkrar húsrannsóknar, ekki einu sinni þó að ætla megi að alvarlegt afbrot kunni að hafa átt sér stað í viðkomandi húsnæði, án undangengis dómsúrskurðar. Lögreglan verður að fá húsleitarheimild til þess að geta beitt þeim úrræðum. Hvað er það sem veldur því að gerð er undanþága í þessu efni um að Póst- og fjarskiptastofnun þurfi ekki að leita dómsúrskurðar til þess að láta framkvæma húsrannsókn hjá fyrirtæki sem hún á að hafa eftirlit með? Þetta hljóta menn að hafa skoðað og eiga svar við þessari spurningu.

Ég vil spyrja formann samgn. annarrar spurningar: Hvar annars staðar er sambærilegt ákvæði að finna í íslenskum lögum, þ.e. að eftirlitsaðila sé fært að framkvæma húsleit eða húsrannsókn hjá aðila sem hann á að hafa eftirlit með, án dómsúrskurðar, án heimildar dómstóla til slíks?

Þá segir í 6. mgr. 5. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Vanræki viðkomandi að veita umbeðnar upplýsingar eða ef ætla má að grunur sé á rökum reistur getur stofnunin krafist opinberrar rannsóknar og saksóknar samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.``

Er þarna verið að veita Póst- og fjarskiptastofnun saksóknaravald? Hefur verið leitað álits ríkissaksóknara á þessu ákvæði? Hefur hann einhverja skoðun á því að með lögum sé verið að veita Póst- og fjarskiptastofnuninni vald til saksóknar eins og mætti ætla ef þessi orð eru lesin eins og þau standa í greininni? Eða er það eitthvað annað sem vakir fyrir mönnum? Vakir það einungis fyrir mönnum að Póst- og fjarskiptastofnunin geti óskað eftir því við ríkissaksóknara að hann höfði opinbert mál? Ef það er það sem menn eiga við, þá eiga menn að orða greinina þannig. Eins og hún stendur í frv. mætti ætla að það sé verið að gefa Póst- og fjarskiptastofnun saksóknaravald sem engin önnur stofnun hins opinbera hefur með höndum að ríkissaksóknaraembættinu einu frátöldu.

Þá spyr ég, virðulegi forseti, um hvernig túlka beri ákvæði 6. gr. um þagnarskyldu. Ákvæði 6. gr. koma fram í tveimur málsgreinum. Fyrri málsgreinin er algerlega afdráttarlaus um þagnarskyldu. Í síðasta málslið þeirrar greinar má segja að þagnarskyldan teygi sig út yfir gröf og dauða eða allt að því, því að þar stendur: ,,Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.`` En síðan kemur 2. mgr. og hvað segir í henni? Í henni segir að með gögn og aðrar upplýsingar skuli að jafnaði fara sem trúnaðarmál, þ.e. þar eru menn að draga í land frá því sem segir í 1. gr. því að í 1. gr. eru skýlaus ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur. En síðan segir í 2. mgr. að með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við framkvæmd eftirlits eða af öðrum ástæðum, skuli að jafnaði fara sem trúnaðarmál. Ég verð að segja, herra forseti, að þessar tvær málsgreinar ríma ekki saman því annaðhvort er um að ræða þagnarskyldu og trúnaðarskyldu eða ekki og menn geta ekki á einum stað sagt að þagnar- og trúnaðarskylda skuli vera fortakslaus en svo í næstu málsgrein á eftir að trúnaðarskyldan skuli ríkja að jafnaði, því þá eru menn að gefa undir fót með að það sé þó í ákveðnum ótilteknum undantekningartilvikum sem trúnaðarskyldan eigi ekki að ríkja. Og ég segi enn, virðulegi forseti, að þarna hljóta höfundar frv. og þeir sem um málið hafa fjallað að verða að skera úr um hvað menn eiga við og verða að gera það með gleggri hætti en kemur fram í þessari grein.

Þá kemur mér líka spánskt fyrir sjónir ákvæði 9. gr. en í 2. mgr. 9. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Rekstrarleyfishafar skulu árlega greiða rekstrargjald sem nemur 0,25% af bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi.``

Fyrst er rætt um veltu sem er almennt viðtekið hugtak í íslenskum atvinnurekstri og síðan er það nánar skýrt að með veltu sér hér átt við rekstrartekjur og þá spyr ég: Af hverju eru menn að hafa þetta óþarflega flókna orðalag? Af hverju segja menn ekki einfaldlega eitthvað á þá leið að rekstrarleyfishafar skuli greiða árlega rekstrargjald sem nemur 0,25% af rekstrartekjum sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi og vera ekkert að blanda veltu fyrirtækisins inn í þetta, þar sem í ljós kemur að það á aðeins að hafa mið af veltu í þeim skilningi að átt er við rekstrartekjur af leyfisbundinni starfsemi. Þetta er enn eitt dæmið af mörgum um að frv. þetta er mjög illa unnið. Það er kastað til þess höndunum þegar það er samið og hv. samgn. hefur því miður ekki lagt sig fram um að lesa frv. þannig að það sé orðað á skiljanlegu máli.

Víðar í þessari grein er erfitt að skilja hvað fyrir höfundum vakir. Í næstsíðustu mgr. 9. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

[23:45]

,,Gjöld samkvæmt þessari grein má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.`` Og nú spyr ég: Hvað eiga menn við? Hver er stofn rekstrarárs? Það er ekki hægt að lesa setninguna öðruvísi en svo að verið sé að vísa til rekstrarársins þegar talað er um einhvern stofn sem myndast hafi. Hver er stofn rekstrarárs? Er það árið þegar rekstur upphaflega hófst, þ.e. þegar til rekstursins var stofnað eða er það ár sem tímatal okkar tekur mið af, þ.e. árið eitt, fæðingarár frelsarans, en fæðingarhátíð hans er nú á næstu grösum eins og menn vita. Hvað er átt við með þessu orðalagi? Hvert eru menn að vísa? Eða eiga menn kannski við að það sé heimilt að draga gjöld samkvæmt þessari grein frá tekjum rekstrarársins sem gjöldin eiga við um? Ef menn eiga við það, þá verða menn að breyta orðalagi þessa ákvæðis því eins og það er fram sett hér er það gersamlega óskiljanlegt. Ég spyr: Ef það er réttur skilningur sem ég var að lýsa, hvaða þörf er þá fyrir slíka lagasetningu? Hvaða þörf er fyrir lagasetningu sem segir einfaldlega að gjöld megi draga frá tekjum? Þarf að taka sérstaklega fram í lögum að verði fyrirtækið fyrir gjöldum, þá megi fyrirtækið draga viðkomandi gjöld frá tekjum sínum? Ég hélt að það væri eitt meginatriðið í öllum rekstri að menn hefðu það leyfi og þyrftu ekki sérstaka lagastoð til þess að draga gjöld frá tekjum. En alltént, eins og setningin er orðuð, næstsíðasta mgr. 9. gr., er hún gersamlega óskiljanleg og það nær ekki nokkurri átt, virðulegi forseti, að Alþingi sendi frá sér slíkan lagatexta. Þarna hefur samgn. orðið illilega á. Hún hefur ekki unnið þá einföldu heimavinnu að yfirlesa texta frv. sem hún fékk í hendur og snúa honum yfir á mælt og skiljanlegt mál.

En það er víðar, virðulegi forseti, sem ég tel ástæðu til að gera athugasemdir við það sem kemur frá hv. samgrn. Ég minntist á það þegar rætt var um þessi mál við 1. umr. þar sem kemur fram í texta samgrn. orðalagið ,,hugtakið póstkassi`` sem ég hef hvorki fyrr né síðar séð skilgreint þannig að kalla póstkassa hugtak. En það hefur bæst í þetta fjólusafn úr hv. samgrn. ýmislegt nokkuð kyndugt eins og kemur fram t.d. í fskj. II með nefndaráliti minni hluta samgn. þar sem birt er bréf frá samgrn. Þar er gerð tilraun til að skilgreina alþjónustu. Þar segir m.a. svo, með leyfi forseta, í þessu bréfi frá samgrn.:

,,Hugtakið alþjónusta`` --- og kemur þá enn hugtakið. Síðast var það hugtakið póstkassi, nú er það hugtakið alþjónusta. ,,Hugtakið alþjónusta og ákvörðun á því hvaða þjónusta skuli teljast alþjónusta er hápólitísk.`` Með öðrum orðum hugtakið alþjónusta er hápólitískt. Undir hvaða flokksstefnu skyldi það hugtak falla? Er það hægra hápólitískt hugtak? Er það vinstra hápólitískt hugtak? Er það úr hugtakasafni Sjálfstfl. eða einhvers annars flokks? Hvernig verður hugtakið alþjónusta hápólitískt? Það get ég ekki skilið. Síðan segir svo orðrétt í síðustu málsgrein þessa sama bréfs frá samgrn., með leyfi forseta:

,,Af þeim orsökum var ekki talið rétt að telja upp í frv. þær þjónustur sem skulu falla undir alþjónustu.`` (Gripið fram í.) Já, já. Skuli telja upp í frv. þær þjónustur sem skuli falla undir alþjónustu. Þetta er hv. samgrn., þetta er bréf þaðan. (SJS: Ekki hefur ráðherra skrifað það.) Ráðherra hefur örugglega ekki skrifað það því að hann er nú málvandari maður en svo að hann sendi svona texta frá sér. En það eru tilvik þar sem þetta orð er notað í fleirtölu, virðulegi forseti. Það er hægt að tala um þjónusturnar, en þá eiga menn við talsvert annað heldur en hv. samgrn. á við hér. En svo háttaði til á svipuðum tíma og gefið var út matreiðslukver fyrir heldri manna húsfreyjur að þá voru í slíkum húsum gjarnan stúlkur, sem kallaðar voru þjónustur. Það er eina tilvikið sem ég veit um að þetta orð, þjónusta, hafi verið notað í fleirtölu. Ég veit ekki hvort átt sé við kvenkyns starfsmenn póstrekanda með því orðalagi sem hv. samgrn. notar hér þegar það telur ekki rétt að telja upp í frv. þær þjónustur sem skulu falla undir alþjónustu. Þá verður þetta náttúrlega skiljanlegt því að það er vissulega algerlega ástæðulaust að fara að telja upp í frv. allt það kvenskyns starfsfólk sem e.t.v. á að starfa á þessum vettvangi, enda yrði ekki auðvelt um vik fyrir hæstv. ráðherra að gera það áður en starfsemin er sett af stað. En sé ekki átt við þjónustur í þessum skilningi, þá veit ég ekki hvað samgrn. á við, en ég held að það væri vissulega tímabært, herra forseti, að hæstv. samgrh. sendi frumvarpasmiði sína á námskeið í íslensku máli því það er málvöndunarmanni eins og honum til skammar að láta orða svona lagatexta og svona bréf fara frá því ráðuneyti sem hann á að stjórna. Þetta er ekki vansalaust, virðulegi forseti, að senda frá sér lagatexta sem eru óskiljanlegir eða sem eru svo klúðurslega orðaðir að með fádæmum má telja. Það er heldur ekki vansalaust að láta í bréfum til hins háa Alþingis taka til orða eins og samgrn. gerir í því bréfi sem birt er sem fskj. II með nefndaráliti minni hluta samgn.

Það getur vel verið að þessar athugasemdir mínar flokkist ekki undir efnislegar athugasemdir um efni frv., ekki sú síðasta. Engu að síður er það áhyggjuefni þegar æðstu stjórnsýslustofnanir íslenska ríkisins senda frá sér svona texta.

Þá er ein spurning í viðbót sem ég vildi leyfa mér að beina til hæstv. ráðherra. Hún varðar 6. mgr. 13. gr. frv. til laga um fjarskipti þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð bókhaldslegan aðskilnað eða aðgreiningu einstakra rekstrarþátta þannig að unnt sé að fylgjast með stofnkostnaði og kostnaði af rekstri samtengdra fjarskiptaneta.``

Þar sem hann er nú handhafi hins eina hlutabréfs í Pósti og síma hf. (Samgrh.: Ég bið afsökunar en hvaða grein er þetta?) Þetta er síðasta mgr. í 13. gr. frv. til laga um fjarskipti. Þar sem hæstv. ráðherra er nú eini handhafi hins eina hlutabréfs í Pósti og síma hf., þá langar mig til að spyrja hann þessarar einföldu spurningar: Hyggst hann beita þessu valdi sem þarna er verið að fela honum til þess að greina rekstur Pósts og síma þannig í sundur að Samkeppnisstofnun verði ekki hleypt að nema hluta af þeim rekstri eins og hann verður í höndum stofnunarinnar? --- Ég vil endurtaka þessa spurningu til þess að þetta sé alveg skýrt: Hyggst hann beita þessu valdi sem þarna er verið að fela honum til þess með einhverjum hætti að greina rekstur Pósts og síma hf. þannig í sundur að ekki sé hægt að hafa það eftirlit sem Samkeppnisstofnun er ætlað að veita gagnvart þeim rekstri öllum? Hyggst hann beita þessu valdi sínu með einhverjum þeim hætti að undanþiggja einhverja ákveðna þætti í starfsemi stofnunarinnar undan eftirliti samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar?

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara miklu fleiri orðum um þau frumvörp sem hér liggja frammi. Ég vil taka það fram, eins og kom fram hjá mér við 1. umr. málsins, að ég er samþykkur meginefni þessara frumvarpa, þeirri meginstefnumörkun sem þar fer fram, en ítreka þær athugasemdir mínar að menn verða að vinna sína heimavinnu þannig að það sé ljóst og skýrt hvað fyrir mönnum vakir í lagasetningu og enginn vafi á því hvernig eigi að túlka og hvernig eigi að framkvæma þær lagagreinar sem verið er að samþykkja á hinu háa Alþingi.