1996-12-19 00:06:27# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[24:06]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hlýt í upphafi máls míns að hrósa hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir það að hann skuli nú hafa tekið að sér það verkefni að laga málfar og tungu einstakra þingmanna, sérstaklega þó ráðherra. Það er ærið verk og mætti segja mér að hann muni einhvern tíma svitna yfir því verkefni. Þeim mun athyglisverðara er að hann skuli taka þetta að sér sjálfviljugur.

Annars er það náttúrlega um íslenskuna að segja að hún er breytileg frá degi til dags, hvað þá frá einum áratug til annars, ekki síst kannski frá upphafi Íslandsbyggðar til dagsins í dag. Auðvitað er það laukrétt hjá hv. þm. að við lærðum það í skóla að orðið ,,þjónusta`` er fleirtala, þýddi vinnukona og þótti það svolítið fyndið þegar maður var á gelgjuskeiði. Hitt held ég að sé líka alveg laukrétt að það eru ýmis orð sem við vöndumst þá á að nota eingöngu í eintölu sem við erum farnir að nota í fleirtölu sem kannski tölum málið ekki nógu vel, eins og t.d. orðið keppni. Menn eru fyrir löngu hættir að amast við því að talað sé um margar keppnir, (Gripið fram í: Frelsin fjögur.) frelsin fjögur og eins er um orðið þjónusta. Við erum oft í vandræðum þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig við eigum að beita þessari gömlu tungu um ný hugtök þannig að hún verði skýr, gegnsæ, og við getum haft orðin sem fæst. Og þó að það meiði mann til að byrja með að orðið þjónusta skuli notað í fleirtölu með þessum hætti, þá er það tímanna tákn. Tungan er að breytast með siðvenjunum, með viðskiptaháttunum, með nýjum búnaði og tækni og þetta er eitt dæmið um það. Þess vegna get ég ekki tekið undir með hv. þm. Vestfirðinga að það sé ámælisvert þegar fólk er að reyna að notast við þessi gömlu orð okkar, kannski í pínulítið yfirfærðri merkingu má kannski líka skilja það t.d. ef viðkomandi hefði lesið pínulítið í Jónasi Hallgrímssyni, að hann hefði nokkurn skilning á því að tungan þurfi ekki endilega að vera eins og hún var áður notuð eða henni beitt. Ég get þess vegna ekki tekið undir þau áfellisorð sem hv. þm. hafði uppi, en ég tek undir með honum að það geti tekið nokkurn tíma að venjast því að tungunni sé öðruvísi beitt en áður.

Nú skulum við líka af því að mér finnst athyglisvert það sem hann segir um tunguna, velta fyrir okkur orðinu póstkassi. (SighB: Hugtakinu póstkassi.) Orðinu og hugtakinu póstkassi. Hvað er póstkassi? Það stendur hér. Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hlær að þessu líka og tekur þannig undir með formanni Alþfl. og þeir eru með því vona ég sammála um þessa túlkun að póstkassi sé ekki hugtak. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Ja, mér skilst að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé sammála því. Skyldi nú póstkassi ekki vera hugtak? Ef maður gengi hér um götur og sæi svona þrjá, fjóra kassa og einn af þeim væri póstkassi en hinir ekki. Ætli flestir mundu ekki láta bréfið í póstkassann. Ætli það sé ekki eitthvað í þessu orði póstkassi sem hefur skyldleika við hugtök? Það skyldi nú ekki vera að póstkassi sé einmitt hugtak um leið og póstkassi getur verið áþreifanlegur. Því að það er alger misskilningur að ímynda sér það að póstkassi sé venjulegur kassi. Þess vegna er það að minni hyggju að skilja ekki orðið hugtak að halda að það eigi ekki skylt við póstkassa og vil ég raunar biðja þá sem velta þvílíku fyrir sér að sofa á því til morguns og athuga hvort þeir komist þá ekki að þeirri niðurstöðu að það sé rétt með einhverjum hætti að skilgreina hugtakið póstkassi fyrir mönnum þannig að menn villist nú ekki á kössum. (SighB: En hugtakið Halldór Blöndal?) Hugtakið Halldór Blöndal er alveg lifandi með þjóðinni svo að það þarf ekki neitt að velkjast í vafa yfir því.

Það eru hér ýmis atriði og ég hef kosið að svara þessu eftir því sem ég hef séð það í öllum þessum frumvörpum. Ég var spurður að því í sambandi við útgáfu rekstrarleyfa hvað við væri átt þegar sagt væri að samgrh. væri heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu skyldu undanþegnir rekstrarleyfi. Eins og sést í orðskýringum er með grunnþjónustu átt við póstmeðferð bréfa og annarra sendinga með utanáskrift sem vega allt að 20 kg á þyngd. Nú má auðvitað velta því fyrir sér hvernig með slík bréf skuli farið. Samkvæmt þessari grein er heimilt að slík bréf skuli send með jafnvel flutningsaðila sem hefur ýmislegt annað meðferðis, kannski vegna fjarlægðar ef við hefðum í huga Hveravelli og þá sem þar hafa vetursetu. Það má líka hugsa sér að póstur sé fluttur milli staða og færður frá einu pósthúsi til annars þannig að nauðsynlegt er að hafa þarna nokkurt svigrúm sem ég veit að hv. þingmönnum er raunar ljóst.

Ég var spurður um útskýringu á því hvað fælist í 14. gr. frv. til laga um póstþjónustu, hvort ég ætlaði að nýta mér þá heimild sem þar er til þess að greiða niður ákveðna póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða o.s.frv. Hugmynd mín stendur ekki til að gera það.

Ég var einnig spurður um það, að ég hygg af hv. þm. Svavari Gestssyni, hversu oft póstsendingar bærust viðtakendum. Um það er það að segja að í þéttbýli eru bréf borin út fimm daga vikunnar. Þó oftast séu bréf borin út þrisvar í viku í dreifbýli er dæmi um í sumum sveitum að það sé tvisvar.

Hv. þm. Einar Guðfinnsson skýrði fyrir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni hvað átt væri við með niðurlagsorðum 2. gr. frv. um Póst- og fjarskiptastofnun og er ekki neinu við það að bæta sem þar var sagt þar sem skýring formanns samgn. var fullnægjandi.

5. gr. frv. um Póst- og fjarskiptastofnun, þar sem talað er um eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar, hefur verið rædd af mörgum þingmönnum og að því fundið hversu ítarleg greinin sé. Sumum þingmönnum hefur raunar þótt óþarft að nokkur eftirlitsúrræði skuli vera í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar. Talað hefur verið um að þessi grein brjóti í bága við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða eitthvað þvílíkt og ýmsar aðrar ábendingar glöggar komið fram í ræðum manna.

[24:15]

Nú er það svo að póstþjónusta og fjarskiptaþjónusta er mjög umfangsmikil, mjög breytileg og reynir mjög á trúnað þeirra sem um slíkt sýsla. Augljóst er það í sambandi við póstþjónustuna þar sem þeim sem leyfi hafa til slíks rekstrar er gefið í rauninni opinbert vottorð um að þeim sé treystandi til að koma sendingum til skila innan ákveðins tíma og án þess að við þeim sé hróflað og jafnframt eru mjög skýr ákvæði um það að fullur trúnaður og full þagnarskylda skuli gilda um útburð á póstinum. Eins og ég gat um við 1. umr. málsins er meira að segja komið svo í Bandaríkjunum að pósturinn þar, sem er opinber stofnun, hefur tekið sér internetsþjónustu í hendur til að koma bréfum eða tilkynningum áleiðis til viðtakenda þannig að sá sem sendir geti treyst að rétt sé með farið og hinn viðskiptavinurinn sem við tekur fengið það staðfest af póstþjónustunni að dagsetningin sé rétt.

Dagsetning getur skipt máli í sambandi við póstþjónustu og af þeim sökum er auðvitað mjög mikilvægt að góð regla sé á öllum hlutum. Eins og ég sagði áðan eiga viðskiptamenn póstsins, margir hverjir, mikla fjármuni undir því að sendingar komist til skila. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að slík fyrirtæki hafi góðar reiður á öllum hlutum, fjárhagur slíkra fyrirtækja sé í lagi þannig að þau freistist ekki til að draga úr árvekni sinni og nákvæmni við póstburðinn. Það er talið eðlilegt hér eins og það er talið eðlilegt í öðrum löndum á hinu Evrópska efnahagssvæði að mjög ströng eftirlitsúrræði séu fyrir hendi til að fylgja slíkri starfsemi eftir og hafa eftirlit með henni.

Hið sama er raunar að segja um fjarskiptaþátt Pósts og síma. Þar reynir líka mikið á að rétt sé að málum staðið, reksturinn sé heilbrigður og þeir sem bera ábyrgð á honum standi við sitt. Það er t.d. hægt að hlera símtöl. Það er hægt að breyta texta í skeytum. Það er hægt að gera ýmislegt. Ég hef ekki hugmyndaflug til að skýra það sem hugsanlega getur misfarist í svo umsvifamiklum rekstri.

Það sem stendur í 5. gr. er sambærilegt við það sem er innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Reglur Evrópusambandsins gera ráð fyrir óháðum sjálfstæðum stjórnsýsluaðila er hafi eftirlit með póst- og fjarskiptastarfsemi. Til þess að eftirlit sé virkt verður stofnunin að geta beitt tilteknum úrræðum. Eru því eftirlitsúrræði sem nefnd eru í 5. gr. í samræmi við reglur Evrópusambandsins. Sams konar reglur um eftirlitsúrræði eru einnig í löggjöf nágrannaþjóða okkar, t.d. í 25. gr. danskra laga um póststarfsemi. Víðtæk eftirlitsúrræði líkt og þau sem fram koma í 5. gr. frv. er einnig að finna í íslenskri löggjöf. Má þar m.a. nefna V. kafla laga nr. 60/1994, um vátryggingarstarfsemi, þar sem eru ákvæði um víðtæk eftirlitsúrræði vátryggingareftirlits. Hvað eftirlit með fjárhagsstöðu áhrærir eru þær reglur sem fram koma í 5. gr. í samræmi við þær reglur sem gilda um eftirlit með flugrekstraraðilum og ég man ekki betur en eftir að ég varð samgrh. hafi á það reynt að endurskoðendur flugmálaeftirlitsins óskuðu eftir sérstöku milliuppgjöri þar sem vafi lék á því að flugrekstraraðilinn hefði það fjárhagslega sjálfstæði eða fjárhagslegt bolmagn sem krafist var, en ýmsir óttast að ef á slíkt skortir þá dragi úr eftirliti með flugvélum og öryggi verði minna.

Heimild til dagsekta líkt og sú sem fram kemur í 5. gr. frv. er einnig alþekkt í íslenskri löggjöf. Má þar m.a. nefna 51. gr. laga nr. 87/1993, þar sem gert er ráð fyrir heimild samkeppnisráðs til að leggja á dagsektir til að framfylgja boðum ráðsins. Það er því alveg ljóst að sambærileg ákvæði þessum eru í íslenskum lögum og í sambærilegum lögum sem gilda um póst- og fjarskiptastarfsemi á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Ég held að ástæðulaust sé að gera það tortryggilegt þegar sagt er að stofnunin geti krafist upplýsinga innan hæfilegs frests sem hún ákveður og reyna að gera slíkt orðalag tortryggilegt. Ég held að það sé alveg óþarfi.

Ég vil líka segja að þegar sagt er hér í niðurlagi: ,,Vanræki viðkomandi að veita umbeðnar upplýsingar eða ef ætla má að grunur sé á rökum reistur getur stofnunin krafist opinberrar rannsóknar og saksóknar samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.`` Þetta er ekkert annað en venjulegt orðalag. Það hefur komið fyrir t.d. í sambandi við Flugmálastjórn eftir að ég varð samgrh. að krafist hefur verið opinberrar rannsóknar sem stundum hefur leitt til málssóknar en ég veit líka dæmi þess að það hafi ekki gerst. Opinber rannsókn leiðir ekki alltaf til saksóknar. Það er ríkissaksóknari sem slíkt ákveður á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fram fer. Ég held að þetta sé alveg ljóst. Það er ekki verið að dæma fyrir fram. Opinbera rannsóknin er einn liður í þeirri keðju og eins og er hér í niðurlaginu --- samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinbera mála. Það er því alveg ljóst að ekki er verið að tala um að hér eigi að gilda einhverjar aðrar reglur en þar er kveðið á um, að saksókn ef úr verður, ákæra ef úr verður, skuli vera samkvæmt þeim lögum og af því leiðir að augljóst er hverjum manni sem vanur er að lesa lög að það er ekki verið að tala um að breyta Póst- og fjarskiptastofnun í ríkissaksóknara.

Í sambandi við úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála vil ég segja það eitt, að auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur úr því að Póstur og sími hf., stærsta fjarskiptafyrirtækið og raunar það eina sem nægt er að kalla því nafni nú, fyrirtæki sem hefur jafnmikil umsvif og jafnsterka eiginfjárstöðu, jafnfyrirferðarmikið á markaðnum, er í ríkiseign, þá er eðlilegt að síðara stjórnsýslustigið sem að öðru jöfnu er í höndum ráðherra sé fært til sérstakrar úrskurðarnefndar, eins og gert er í 8. gr. Þetta er raunar ekki eina dæmið um að slíkt sé gert. Það má t.d. benda á loftferðalögin í því sambandi. Eins og fram kemur og öllum má vera ljóst er ekki gert ráð fyrir að meiri hluti úrskurðarnefndar sé skipaður fulltrúum sem ráðherra velur heldur er meiri hlutinn annars vegar formaður skipaður af Hæstarétti og einn samkvæmt tilnefningu Verkfræðingafélags Íslands. Skipan þessarar nefndar er í samræmi við þær reglur sem gilda innan Evrópusambandsins og fullnægir þeim skilyrðum sem þar hafa verið sett.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vakti athygli á því að orðalag 6. gr. frv. þar sem komið er að þagnarskyldu væri kannski óþarflega óhnitmiðað þar sem stendur: ,,Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við framkvæmd eftirlits eða af öðrum ástæðum skal að jafnaði fara sem trúnaðarmál.`` Hann telur að hér sé ekki nógu fast að orði kveðið. Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á að þagnarskylda hefur verið í lögum fram að þessu og nauðsynlegt að halda þeim ákvæðum inni. Á hinn bóginn eru viðskipti stofnana eins og fjarskiptastofnana og póststofnana orðin mjög flókin og margvísleg og má kannski segja að erfitt sé að slá því föstu að svo skuli endilega ævinlega vera, að allt sem fram komi skuli til eilífðar vera trúnaðarmál. Mér finnst sjálfsagt úr því að samgn. kemur saman milli 2. og 3. umr. að orðalag 2. mgr. 6. gr. sé athugað sérstaklega og yfir það farið með lögfræðingum samgrn.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði að sérstöku umtalsefni 7. mgr. 9. gr. þar sem stendur: ,,Gjöld samkvæmt þessari grein má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.`` Þetta ákvæði er fullkomlega eðlilegt eftir að menn hafa glöggvað sig á við hvað átt er. Þannig getur staðið á að Póst- og fjarskiptastofnun sjái ástæðu til að gera sérstakar kannanir sem komi ekki öllum leyfishöfum til góða og snerta ekki alla leyfishafa og er þá auðvitað eðlilegt að kostnaður af þeim komi ekki á heildina heldur einungis á þá sem í hlut eiga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég hygg að málið sé fullskýrt. Þeir sem hafa beint til mín fyrirspurnum hafa greinilega fengið skýringar annars staðar svo að ég læt máli mínu lokið.