1996-12-19 00:29:03# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[24:29]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún var stutt í annan endann, ræða hæstv. ráðherra þegar svo brá við að hér tæmdist þingsalur. Hann hefur svo sem gott af því að venjast því eilítið hvernig er fyrir stjórnarandstæðinga að koma með röksemdir og sjónarmið og ná ekki eyrum hv. þingmanna þannig að þarna fann hann smjörþefinn af því og hætti þá ræðu sinni með það sama. En ég lagði vitaskuld við eyru og því miður var það svo, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra nefndi ekki einu orði nokkur þau álitamál sem ég hafði gengið mjög ákveðið eftir. Þau lúta m.a. að hæfi hans sjálfs. Ég óska mjög eindregið eftir því að hann fari um það nokkrum orðum í andsvari --- virðulegur forseti hefur kannski gleymt að setja á klukkuna hjá ræðumanni. Ekki það að ég sé að kalla eftir því.

(Forseti (RA): Ræðumaður á eftir eina mínútu.)

Með öðrum orðum, ég vildi mjög gjarnan ganga eftir því hvernig hann lítur á stöðu sjálfs sín gagnvart þessari óháðu eftirlitsstofnun, einkum og sér í lagi það sem ég gerði að umtalsefni, þessa þrjá mánuði sem munu líða frá því að frelsið tekur gildi, frá því að lög um fjarskipti taka gildi og þar til Póst- og fjarskiptastofnun tekur til starfa.

Einnig vil ég spyrja hann hvort hann hafi lagt drög að þeim reglugerðum og þeim leikreglum öðrum sem ekki er að finna í þessu frv. en eiga að vera tilbúnar þann 1. janúar nk. þegar þeir storma að, lysthafendur og umsækjendur rekstrarleyfis sem vilja taka þátt í þessari samkeppni. Er hann með það á hreinu m.a. þetta lykilatriði um hvernig skilgreina skuli þessa grunnþjónustu? Það er hans mál. Hann á að fara með þau mál algerlega sjálfur.

Ég hef ekki tíma til þess að nefna öll þau atriði sem hann skautaði yfir og nefndi ekkert í sinni ræðu. Ég vil bara nefna að lokum að nú er það í lögum um Póst og síma hf. að þar skuli efna til aðalfundar fyrir 27. desember nk. og þá skuli leggja þar ákveðnar línur. Hefur hann boðað til þess fundar og hefur hann tekið ákvörðun um hvernig stjórnin skuli skipuð?