Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:08:16 (2415)

1996-12-19 10:08:16# 121. lþ. 50.1 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:08]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stofnunin sem hér er verið að koma á fót verður að teljast óhjákvæmileg afleiðing af umdeildri formbreytingu á rekstri Pósts og síma sem staðfest var á síðasta þingi. Þetta frv. er því miður sama marki brennt og frv. um Póst og síma. Það er ekki nógu vandlega unnið og þrátt fyrir umfjöllun hv. samgn. er enn þörf úrbóta og ýmsum spurningum ósvarað. Vald og umfang þessarar úthlutunar- og eftirlitsstofnunar er allmikið og mikilvægt að henni séu markaðar eðlilegar og skýrar starfsreglur. Á það skortir. Tímans vegna hefði verið ráðrúm til að fara ítarlegar yfir málið og skýra álitaefni þess betur en gert hefur verið, m.a. um skilyrði fyrir rekstrarleyfi, um framkvæmd eftirlits o.fl., en nánari ákvarðanir um slíkt eru meira og minna settar í hendur ráðherra. Stangast það á við markmiðið um sjálfstæði stofnunarinnar. Með tilliti til þessa mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins.