Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:43:58 (2426)

1996-12-19 10:43:58# 121. lþ. 50.4 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:43]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona sannarlega að það markmið náist sem hv. þm. gat um og ég held að stefnt verði í voða ef það á að skerða bráðaþjónustuhlutverk sjúkrahússins með t.d. sumarlokunum. Varðandi uppgjörið þá skil ég það ef heilbrrn. hefur ekki gert upp um málin og ætlar að doka við þess vegna, þ.e. að fá aukafjárveitingu vegna þess að ekki hafi verið gengið frá reikningum eða sem sagt að uppgjörið liggi ekki hreint fyrir. En þessi 40 millj. kr. tala er það sem hefur verið fram borið og það er alveg ljóst að ekki verður það brúað með einhverri hagræðingu á næsta ári sem mun verða erfitt að ná fram þó að vilji standi til þess að fá þar einhverju um þokað til lækkunar. Einhver skuld yfirfærð á næsta ár léttir því auðvitað ekki það markmið að hagræða í rekstrinum og þessi uppsafnaði halli eða það sem eftir stendur hverfur ekki. Þetta gerir hv. þm. sér vafalaust fulla grein fyrir og hefði verið affarasælast að þetta væri sléttað út núna með þessum fjáraukalögum þannig að þessi uppsafnaði halli hyrfi.