Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:45:35 (2427)

1996-12-19 10:45:35# 121. lþ. 50.4 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:45]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður hefur ekki verið hægt að ganga þannig frá málum varðandi sjúkrahúsin almennt að halli þeirra hafi verið jafnaður til fulls og það verður vafalaust svo í þessu tilfelli einnig að það verður ekki hægt með þessari fjárveitingu að jafna til fulls þessa reikninga. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ekki var til fulls gengið frá þessum málum vegna þess að samningur milli ráðuneytisins eða endanleg niðurstaða í þessum málum lá ekki fyrir. Ég vil aðeins segja það hér að þessi ákvörðun eins og hún liggur fyrir felur ekki í sér ákvörðun um að leggja niður bráðavaktir á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Ég vil að það komi fram að þær ákvarðanir sem hér eru teknar fela það ekki í sér.