Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:46:56 (2428)

1996-12-19 10:46:56# 121. lþ. 50.4 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:46]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Minni hluti fjárln. sá ekki ástæðu til að leggja fram sérstakt framhaldsnefndarálit enda allt komið fram í áliti okkar á þskj. 288 fyrir 2. umr. sem við töldum rétt að leggja áherslu á. Þar var að vísu fyrst og fremst fjallað um helstu atriði varðandi útgjaldahliðina. En nú höfum við fengið nýjustu tölur á tekjuhliðina og þær eru að sjálfsögðu allrar athygli verðar þótt ekki komi þær beinlínis á óvart. Sannast það sem fyrr var ljóst jafnvel við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári, og þó enn frekar eftir því sem liðið hefur á árið, að tekjurnar voru verulega vanáætlaðar ekki síður en útgjöldin. Það er eins og fyrri daginn eitthvað annað en raunveruleikinn sem ræður við fjárhagsáætlun ríkisins hvort sem við köllum það óraunsæi, óskhyggju eða svartsýni eftir því hvað um er að ræða hverju sinni. Hækkun tekna frá fjárlögum er þannig nú talin nema 6,3 milljörðum kr. og ætti að vera nokkuð áreiðanleg tala þar sem inn eru komnar tekjur ellefu mánaða ársins og tiltölulega auðvelt að sjá fyrir heildarniðurstöðutölur ársins.

Tekjupóstarnir breytast mismunandi mikið og þar vekur einna mesta athygli mikil hækkun tekjuskatta eða tæplega 3,6 milljarðar í allt og þá ekki síður að fyrst og fremst einstaklingar standa undir þeim auknu sköttum en fyrirtækin síður. Ástæður þessa eru svo sem ekki flóknar. Aðstæður í atvinnulífinu hafa farið batnandi. Það hefur dregið úr atvinnuleysinu og tekjur einstaklinga hafa hækkað á heildina litið. Sú hækkun hefur síðan að stórum hluta skilað sér í ríkiskassann vegna þess að persónufrádrátturinn er fastsettur til alls ársins en hækkar ekki hlutfallslega í takt við launaþróun eins og áður var.

Hvað fyrirtækin varðar er alltaf nokkuð um að þau skili ekki skattframtölum og fái þess vegna á sig áætlun sem oftast er höfð nokkuð rúm og kemur reyndar að lokum fram sem óinnheimtar skattaskuldir það sem út af stendur. En hvað sem um það má segja, sem er sérmál út af fyrir sig, þá virðist nú sem fyrirtækin hafi staðið óvenjuvel í skilum með sín framtöl og því auðveldara en oft áður að átta sig á lokatölum úr þeirri áttinni.

Liðurinn, Skattar á vörur og þjónustu, hækkar einnig mikið eða um rúmlega 1,5 milljarða. Þó er virðisaukaskatturinn þarna inni sem lækkar í raun um hálfan milljarð frá því sem áætlað var. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að umtalsverð aukning fjárfestingar varð á árinu eða um 25% og virðisaukaskattur af þeim sökum skilar sér ekki fyrr en síðar. En vörugjöldin skila hins vegar liðlega 1 milljarði í viðbótartekjur frá því sem áætlað var og þar vegur þyngst bifreiðainnflutningur og sömuleiðis tekjur af almennu bensíngjaldi. Að auki er margvíslegur annar innflutningur sem skilar meiru en búist var við. Til viðbótar eru svo auknar tekjur af bifreiðagjaldi og eru þá stærstu málin upptalin.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. meiri hlutans á útgjaldahlið frv. Þær eru skýrðar í nál. meiri hlutans og ég styð þær allar. Mér finnst þær eðlilegar og við tókum fullan þátt í afgreiðslu þessara liða. Það má kannski segja um þann lið sem fjallar um aukningu framlaga til félagsmála, ýmis starfsemi, að það er svo sannarlega sjálfsagt framlag af ríkisins hálfu því þetta er vegna ákvörðunar um að bjóða 25 flóttamönnum frá Bosníu hæli á Íslandi og er ætlað til að standa straum af útgjöldum vegna komu flóttamannanna. En rétt er að taka fram að sú ákvörðun var tekin fyrir síðustu áramót, í nóvember eða desember það ár. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvenær ákvörðunin var tekin en alla vega var hún tekin fyrir löngu og því hefði átt að vera löngu búið að ganga frá því af hvaða lið fjárlaga þetta fjármagn er tekið.

Um aðra liði er það eitt að segja að upp koma að venju óhjákvæmileg atriði í sambandi við rekstur sjúkrahúsa. Hér er enn verið að taka á vanda sjúkrahúsa úti á landi og þarf ekki að bæta við það sem fram fór hér á milli hv. síðustu ræðumanna um það efni. Ég hefði reyndar óskað þess að meiri hlutinn tæki upp brtt. minni hlutans við 2. umr. að minnsta kosti að einhverjum hluta og kæmu til móts við rekstrarvanda heilsugæslunnar í Reykjavík, sem eins og kunnugt er stafar fyrst og fremst af aðhaldsaðgerðum á sjúkrahúsunum í Reykjavík sem valda því að biðlistar lengjast, fólk fer veikara inn á sjúkrahús, fólk er sent fyrr heim en áður var og það kallar á aukna heimahjúkrun sem veldur vaxandi halla hjá heilsugæslustofnunum. Því miður var ekki fallist á að taka þyrfti á þeim vanda núna og hann mun halda áfram að vaxa að mínu mati og einhvern tímann kemur að skuldadögunum í þessu efni.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það sem hér er til umfjöllunar. Ég reikna með að minni hlutinn styðji allur þessar brtt. meiri hlutans en að öðru leyti munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins sem er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans.