Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:55:34 (2429)

1996-12-19 10:55:34# 121. lþ. 50.4 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:55]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til hafa langa umræðu um það sem fyrir liggur í sambandi við fjáraukalög nema að ítreka að óhætt er, eins og minni hluti fjárln. hefur margoft komið inn á með vísan til ábendingar Ríkisendurskoðunar, að um uppsöfnun óráðstafaðra heimilda er að ræða hjá ráðuneytunum. Það er eðlilegt að leita heimilda þegar útgjaldatilefni er til staðar og menn ætla að hefja fjárheimild.

Það kom fram í ræðu minni hlutans við 2. umr. að nokkur atriði yrðu til umfjöllunar milli umræðna í fjárln. og gerði talsmaður minni hlutans grein fyrir þeim. Þá var líka ljóst að niðurstöður vantaði varðandi tekjuaukningu en það er ljóst nú að miðað við síðustu niðurstöðu við endurskoðun aukast tekjur ríkissjóðs enn um 1,2 milljarða kr. og verða 127,2 milljarðar kr. á móti því að gert var ráð fyrir tekjum upp á tæpa 120 milljarða kr. á sl. hausti. Ber þá allt að sama brunni. Tekjur voru vægast sagt mjög varlega áætlaðar og útgjöld verulega vanáætluð miðað við það sem minni hluti fjárln. gerði ráð fyrir á sl. ári. Þessi atriði, herra forseti, tel ég að hljóti að vera skoðunarverð. Ég virði að sjálfsögðu varfærni en menn hljóta að vilja skoða raunsæjar athugasemdir. Heildarfrávik tekjuáætlunar fjmrn. vegna ársins 1996 er 6,3 milljarðar og það sama ætlar að verða upp á teningnum hjá hæstv. ríkisstjórn núna. Tekjuspáin er reiknuð eftir vafasömum forsendum og þensluaðgerðir ríkisstjórnarinnar miðast við það sem ekki er tekið til greina í tekjuforsendum. Það eru mjög undarleg vinnubrögð, herra forseti, eða réttara sagt að mjög vafasamt er að taka við slíkum vinnubrögðum eins og viðhöfð eru.

Það er rétt að benda mönnum á og það má vera ljóst að vandi mun koma upp á árinu 1997 vegna rekstrarvanda Sjúkrahúss Reykjavíkur, því stofnunin mun verða með 190 millj. kr. skuld frá árinu 1996. Rekstrarvandi mun verða að lágmarki 150 millj. kr., þannig að skuldir Sjúkrahúss Reykjavíkur verða a.m.k. 341 millj. kr. í lok ársins. Ég held að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þeim vaxtakostnaði sem verður til út af þessum vanda. Ef farið er yfir málin varðandi Ríkisspítala á sama hátt, þá stendur dæmið þannig, að skuld frá fyrra ári er um 260 millj. kr. Rekstrarvandi 1997 verður um 227 millj. kr. Skuld Ríkisspítalanna í árslok verður því um 487 millj. kr.

Herra forseti. Ég benti á það við fjárlagaumræðuna í fyrra að fyrirsjáanleg væri vöntun upp á 450--500 millj. kr. á fjárlögum vegna þessara stofnana. Það kemur nú fram sem framlag á fjáraukalögum. Ég bendi núna á þá staðreynd að fyrirsjáanlega vantar 828 millj. sem ættu að vera í fjárlögum ársins 1997. Það er einnig ljóst að þó svo stofnunum sé gert að dragast með skuldir upp á 300 millj. á milli mánaða, þá vantar samt fyrirsjáanlega 500 millj. kr. inn á fjárlög vegna ársins 1997. Það mun koma í ljós við fjárlagagerð næsta árs. Ég spyr: Hvers konar leikfimi er hér á ferðinni? Hvaða markmiðum eru menn að reyna að ná? Ef til vill á hv. formaður fjárln. örðugt með svör annað en að segja að svona ætli þeir að gera þetta.

Ég hef haft uppi áróður fyrir breyttum vinnubrögðum varðandi fárreiður ríkisins, þ.e. að fjárlagatillögur verði raunhæfar og fyrirsjáanleg útgjaldatilefni séu afgreidd inn í fjárlagafrv. í hvert sinn. Það geri ég enn athugasemd um nú varðandi árið 1997. Ég lýsi óánægju yfir þeim vinnubrögðum að fyrirsjáanleg útgjaldatilefni séu ekki tekin inn í fjárlög.

Herra forseti. Að öðru leyti vísa ég til nál. minni hlutans við 2. umr. og síðan umsagnar hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur varðandi atkvæðagreiðslu um brtt. meiri hlutans.