Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:01:54 (2437)

1996-12-19 12:01:54# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, LMR
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:01]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að ræða nokkur atriði í kaflanum um heilbrigðis- og tryggingamál. Ég hef, bæði í þingflokki mínum og í heilbr.- og trn., gert nokkrar athugasemdir og fyrirvara við ráðstafanir í heilbrigðismálum. Þá ber fyrst að nefna fyrirvara við þá tilhögun sem lögð er til, að í stað fjögurra stjórna heilsugæsluumdæma í Reykjavík komi ein stjórn. Ég tel þar vera kominn möguleika á útboði á þjónustu frá einum aðila sem þjónar nærri helmingi landsmanna. Þar með yrði að sjálfsögðu einnig tilvísunarskyldan enn einu sinni komin til umræðu en hún er, eins og mörgum er kunnugt, algjörlega andstæð skoðunum mínum og leiðir að mínu mati eingöngu til verri og dýrari þjónustu og minni skilvirkni. Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að setja saman eina stjórn vegna þess að skýringarnar á því að setja saman eina stjórn hafa verið þær að kvartanir frá aðilum í heilbrigðisþjónustunni um að þessar fjórar stjórnir væru frekar slappar og berðust ekki jafnharkalega fyrir málefnum hvers heilsugæslusvæðis fyrir sig þannig að það væri allt eins gott að setja þetta í eina stjórn. Ég tel að við svona stóra einingu sem er verið að skapa sem þjóna skal nær helmingi landsmanna þá muni samtímis því að hætta á útboði leiði til tilvísunarskyldu þar að auki verða hætta á því þegar ákveðnir aðilar fá fastan samning við svona útboð séu þessir aðilar jafnvel ekki þeir bestu til þess að sinna þessum störfum þar sem líklegast yrðu það þeir sem byðu lægst sem fengju starfið.

Hugsanlega mundi svona fyrirkomulag minnka stórlega gæði og jafnvel afköst heilbrigðisþjónustunnar og ekki síst endurnýjun og framþróun í þessum þætti heilbrigðisþjónustu sem og öðrum þáttum hennar eins og þegar er farið að bera á. Ég er þá að tala um endurnýjun á starfskrafti og framþróun, þ.e. nýtt blóð inn í heilbrigðisþjónustuna. Mér er vel kunnugt um það að læknar, heimilislæknar t.d. og jafnvel sérfræðingar sem hafa komið hingað til landsins, en mér er kunnugt sérstaklega dæmi um heimilislækna, sem hafa ekki fengið leyfi til þess að praktísera sem heimilislæknar. Þar með er komin á þessi stöðnun í heilbrigðisþjónustu sem ég hef verið að ræða um. Þar að auki tel ég að með svona útboðum skapist hætta á broti á samkeppnisreglum. Nú veit ég að það er nokkur hópur aðila sem eru í einkapraxís, eins og kallað er, í heimilislækningum og það mun að sjálfsögðu rétta við eitthvað þennan halla sem ég tel verða á heilbrigðisþjónustunni, faglega og í þróun.

Samt sem áður tel ég afar varasamt að hafa eina framkvæmdastjórn, eina stjórn yfir öllu heilsugæslubatteríinu. Það eru sérstakar stjórnir í öðrum og mun minni kjördæmum úti á landi sem ráða sínum ráðum en hér í Reykjavík, með okkar rúmlega 100 þús. manns, eigum við að hafa eina stjórn yfir allri heilsugæslunni. Ég tel það mjög varasamt og vil vekja athygli þingmanna á þessu máli því það verður erfitt að snúa til baka þegar svona mál er einu sinni komið á koppinn.

Í öðru lagi var beðið um umsögn um það að taka af allan vafa um hvað átt sé við með sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru ef ríkinu. Sendi heilbrrh. minnisblað til heilbr.- og trn. því til skýringar. Þetta minnisblað fylgir þó ekki sem fylgiskjal í þingskjölum frá efh.- og viðskn. en ég er þeirrar skoðunar að minnisblaðið sem ég hef séð sé ekki fullnægjandi og þar að auki loðið. Í minnisblaðinu eru ríkisrekin sjúkrahús talin upp og bent á að það séu Ríkisspítalar og flest sjúkrahús utan Reykjavíkur svo sem Fjórðungssjúkrahús Akureyrar, Sjúkrahús Húsavíkur, Suðurnesja, Akraness o.fl. Síðan eru tiltekin nokkur sjúkrahús sem eru rekin af sveitarfélögum. Þar eru tiltekin Sjúkrahús Reykjavíkur, einkasjúkrahús og sjálfseignarstofnanir.

Þetta orðalag nægir mér engan veginn þar sem þessar stofnanir eru að langmestu eða öllu leyti fjármagnaðar af ríkinu og er þá ekki orðinn mikill vandi að snúa skilgreiningu um sjúkrahús rekin af sveitarfélagi við í það og skilgreina þau sem ríkisrekin vegna fyrirkomulags fjármögnunarinnar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það liði ekki á löngu þar til að sjúkrahús sem rekin eru af sveitarfélögum væru komin undir allt aðra skilgreiningu. Þess vegna tel ég að það þurfi að bæta og skýra textann þannig að enginn vafi leiki á hvað meint er með skilgreiningu á sjúkrahúsum sem rekin eru af sveitarfélögum og sú skilgreining verði varanleg þangað til Alþingi viðurkenni annað.

Þetta tel ég ekki síst mikilvægt vegna þrýstings ákveðinna afla til þess að sameina Ríkisspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur. Ég hef, eins og þekkt er, iðulega varað við slíkri sameiningu vegna hættu á því að metnaður manna til að halda uppi gæðum og framförum í heilbrigðisþjónustu hér á landi minnki. Það er nefnilega þannig að framfarir í heilbrigðisþjónustu, þó að okkur finnist þær stundum dýrar og það séu stundum keypt tvöföld tæki --- þó ekki dýrustu tækin heldur ódýr tæki, að þessi tvöföldun hefur oft skapað ákveðinn metnað milli sjúkrahúsanna og bætt þjónustuna fyrir sjúklingana. Við verðum að hugsa um það fyrir hverja við erum að vinna. Við erum að vinna fyrir borgarana, við erum að vinna fyrir sjúklingana sem koma á sjúkrahúsin og þeirra ættingja og við verðum fyrst og fremst að hugsa um það hvernig við getum veitt sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan máta. En ég tel að sú sameining sem rætt hefur verið um í mörg herrans ár muni ekki til lengdar skapa neina hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni og alls ekki bæta gæðin. Enn fremur höfum við haft reynslu af sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala og vitum að það er hægara sagt en gert að standa í slíkri sameiningu, ekki síst þar sem starfsemin byggist á mannafla og mannleg samskipti skipta sköpum.

Ég vil í þessu sambandi líka nefna að þeir sem hafa talað fyrir sameiningunni hafa sagt að erlendir ráðgjafar hafi sagt sem svo að íslensk hátæknisjúkrahús ættu að verða eitt og við ættum að bera okkur saman við sjúkrahús erlendis. Það er gott og blessað fyrir það fólk sem er að vinna á sjúkrahúsunum, hefur aðgang að fagritum og þekkir hvernig mæla skal þjónustu, gæði og framþróun í heilbrigðisþjónustunni. Þetta getur almenningur ekki. Almenningur hefur ekki neina möguleika á því að velja, skoða og meta hver gæðin eru þegar ekki er nema um einn valkost að ræða. Ég efast um það að við þingmenn mundum ef við þyrftum á hjartaaðgerð að halda eða öðru slíku, reyna að meta í bak og fyrir hvert ætti að fara ef bera ætti saman gæði þjónustu eins hátæknisjúkrahúss í Reykjavík og svo hins vegar kannski í Edinborg eða annars staðar, hvað þá heldur almenningur, og hvað þá heldur ef um minni aðgerðir er að ræða, t.d. botnlangaskurð sem margir telja lítið hættulegan en getur orðið stórhættulegur við ýmis tilvik.

Ég vil einnig segja það í þessu sambandi að ég ber kvíðboga fyrir þeirri þróun sem hefur orðið á viðhorfum heilbrigðisstétta til starfa sinna eftir þær miklu breytingar og átök sem við höfum orðið að fara í gegnum á undanförnum árum í heilbrigðisþjónustunni þó ég viðurkenni fúslega að mikil hagræðing var nauðsyn. Það er nefnilega svo að um tíma hefur verið laust prófessorsembætti í röntgenlækningum á Landspítalanum og það hefur ekki fengist neinn til þess starfa. Þetta virðist vera ákveðin þróun sem er að gerast, að þeir sem fara til útlanda til að læra bera saman aðstöðu hér og aðstöðu þar sem þeir starfa nú, þeir eru kvíðnir og vilja heldur koma fyrst til reynslu hingað heim áður en þeir taka endanlega ákvörðun um hvar þeir ætla að dvelja.

Í þriðja lagi tel ég vafasamt að á sama tíma og rætt er um að veita sveitarstjórnum ábyrgð á heilsugæslu í viðkomandi héraði þá verði heilsugæslan sameinuð sjúkrahúsunum sem ríkið ber líklega áfram, að ég tel, rekstrarlega ábyrgð á. Það verður ekki auðvelt að snúa til baka og skipta rekstrinum upp í heilsugæslueiningu annars vegar á vegum sveitarfélaga og sjúkrahús hins vegar á vegum ríkis þegar þar að kemur. Í því sambandi vil ég minna á þann leik sem leikinn var á sínum tíma þegar heilsugæsla og sjúkrahús voru rekin hlið við hlið, það eru nú ekki nema um 15--20 ár síðan (Gripið fram í: 8--9 ár) já, kannski 8--9 ár síðan, að sjúkrahúsin voru látin bera stóran hluta heilsugæslunnar. Það var oft þannig að rekstrarvörur voru nýttar úr sjúkrahúsinu yfir í heilsugæsluna þannig að sveitarfélögin spöruðu sinn hluta af rekstrarkostnaðinum og lögðu hann á ríkið. Því miður þá er þetta sannleikur sem fólk hefur ekki þorað að viðurkenna. Hætta gæti nefnilega orðið á því að það sama gerðist við umsnúning í þessum málum.

Í fjórða lagi vil ég ræða aðeins tryggingamálin. Ég vil geta þess að bráðabirgðaákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, um skipun bráðabirgðastjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur, mun samkvæmt þessu frv. falla úr gildi. Að vísu er mér kunnugt um að önnur eldri lög sem áður voru við lýði munu taka við en þetta er ekki tekið fram í frv. og þykir mér rétt að það sé tekið fram svo þessi breyting verði almenningi skiljanleg og fólk velkist ekki í vafa um hvað við taki. Því nóg er komið af óvissu í skipulagi bæði í heilbrigðis- og tryggingamálum. Þetta var um heilbrigðismál.

[12:15]

Ég ætla í fimmta lagi að tala um elli- og örorkulaun. Í frv. er talað um að þau skuli hækka um 2%. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið voru forsendur fyrir þessum 2% spár um almennar launahækkanir á næsta ári frá stofnunum sem gera slíkar spár en þær spár námu 1,5--2%. Þessar forsendur eru þó ekki tilteknar í skýringum með frv. og tel ég nauðsynlegt að fram komi í textanum við 3. umr. að elli- og örorkulífeyrir skuli fylgja almennum launahækkunum eins og ætlast var til eða hugsunin var við samningu frv.

Að lokum tel ég vafasamt að fela ráðherra, að vísu í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, að nánast móta framtíðarstefnu í heilbrigðisþjónustu fyrir landið í bitum frekar en sem heildstæða stefnu. Minni málaflokkar en heilbrigðis- og tryggingamál, sem taka um 40% af útgjöldum ríkisins, eins og fólki er kunnugt, hafa átt erindi inn á Alþingi til umræðu um mótun heildarstefnu þeirra og meira hefur verið rætt um þá málaflokka en nokkurn tíma heilbrigðismál. Mér þykir því vafasamt að framselja svo mikið vald til heilbr.- og trmrh. með allri virðingu fyrir okkar ágæta hæstv. núv. heilbrrh. Of mikið er í húfi fyrir þennan stóra og mikilvæga málaflokk.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, en ég vildi óska að tekið yrði tillit til þessara athugasemda minna við 3. umr. og þeim komið inn í skýringar sem ég hef beðið um og að sömuleiðis verði tekið tillit til þeirrar gagnrýni og þeirrar áhættu sem ég veit að getur orðið að sameiningu stjórnar heilsugæslunnar í Reykjavík og það að koma með loðin ákvæði sem leitt gætu til þess að hvenær sem er væri unnt að snúa þeim aðilum í hag sem vilja sameina tvö stærstu sjúkrahúsin í Reykjavík.