Skipulagslög

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 13:33:50 (2453)

1996-12-19 13:33:50# 121. lþ. 50.9 fundur 240. mál: #A skipulagslög# (skipan skipulagsstjórnar) frv. 159/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er dálítið hissa á þessu frv. sem lagt er fyrir núna þegar skammt lifir eftir af þingi. Ég skil það hins vegar svo af máli hv. formanns umhvn. að það sé nauðsynlegt að gera breytingar á þeim lögum sem lúta að skipulagsstjórn vegna þess að aðrar breytingar hafa áhrif á skipulagsstjórnina. Hér liggur fyrir ágætt frv. sem hefur hlotið mikið lof hjá þingheimi, lagt fram af hæstv. umhvrh., sem gerir ráð fyrir því að skipulagsstjórn verði lögð niður Ég tel það í sjálfu sér hið besta mál. Nú sýnist mér að hér sé verið að leggja til að hún lifi áfram, vegna þess að það á að fara þá leið að skipa nýja menn þar þótt tveimur embættum, sem hafa lagt til fulltrúa í skipulagsstjórnina, verði annaðhvort breytt eða þau lögð af, eins og í tilviki húsameistara ríkisins. Ég hefði talið að það væri þá eðlilegast, miklu betra og farsælla og í rökréttu samhengi við frv. hæstv. umhvrh. um skipulagsmál, að það yrði þá einungis fækkað í nefninni og ekki yrðu skipaðir þessir tveir fulltrúar og lögunum breytt í þá veru. Ég sé til að mynda ekki rökin fyrir því að forsrh. eigi að skipa sérstaklega eða tilnefna fulltrúa í skipulagsstjórn, vegna þess að búið er að leggja niður embætti húsameistara ríkisins. Ef það embætti verður lagt niður um áramót, þá þýðir það einfaldlega að það embætti getur ekki lagt til mann. Þá eru engin rök fyrir því að forsrh. tilnefni mann í þessa skipulagsstjórn. Ég held að það sé miklu æskilegra að skipulagsstjórn, ef hún þarf að vera áfram við lýði, verði þá minnkuð og fulltrúum í henni fækkað sem nemur þessum tveimur sem hv. þm. nefndi hérna. Úr stjórninni hverfi annars vegar sá fulltrúi sem áður var tilnefndur af Vita- og hafnamálastofnun, sem ekki er lengur til, og hins vegar fulltrúi húsameistara ríkisins og þetta verði þriggja manna stjórn. Ég tel að það séu góð rök fyrir þessu, herra forseti, vegna þess að það liggur fyrir að það er almennur vilji að skipulagsstjórn hverfi. Og við eigum þá frekar að stíga hálft skref í þá átt heldur en að taka upp þann hátt sem hér er lagður til.