Skipulagslög

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 13:37:30 (2455)

1996-12-19 13:37:30# 121. lþ. 50.9 fundur 240. mál: #A skipulagslög# (skipan skipulagsstjórnar) frv. 159/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að tefja framgang þingmála hér þegar svo stutt lifir þingsins. En mér finnst þetta skjóta dálítið skökku við þann raunveruleika sem blasir við. Raunveruleikinn er sá að þessi skipulagsstjórn á ekkert hlutverk lengur. Það á að leggja hana af og það er ekki hægt, eins og hv. formaður umhvn. gerir, að tala um tímabundið ástand þegar við erum að ræða um embætti húsameistara ríkisins vegna þess að það er ekki lengur til. Það er ekki til neitt sem heitir tímabundinn dauði. Annaðhvort hverfa stofnanir að fullu af yfirborði jarðar endanlega eða þær eru til. Embætti húsameistara ríkisins verður ekki til eftir áramótin þannig að það er ekki hægt að tala um neitt tímabundið ástand í lífsferli þeirrar stofnunar. Það er farið og farið hefur fé betra. Ég gæti af því tilefni farið hér með lítið ljóð eftir ágætt skáld, Stein Steinarr, sem endar svo: ,,Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir.`` Og ég fæ engin rök úr máli hv. þm. sem réttlæta það að forsrh., sem við vitum að vísu að hefur mikið vit á stórum og miklum húsbyggingum og hefur reist sér og Reykvíkingum marga góða minnisvarða, eigi í framtíðinni, meðan þessi tímabundni dauði embættis húsameistara ríkisins varir, að leggja til sérstakan mann í þessa stjórn. Það liggur fyrir í mjög skeleggu máli hæstv. umhvrh. að eins og hann, og ég hygg þingið, vill skipa málum sem lúta að skipulagi til framtíðar, þá á ekki að vera nein skipulagsstjórn og þá eigum við bara að stíga hálft skref núna og fækka í þessari stjórn, minnka hana fremur en að samþykkja þennan hortitt.