Skipulagslög

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 14:04:53 (2460)

1996-12-19 14:04:53# 121. lþ. 51.4 fundur 240. mál: #A skipulagslög# (skipan skipulagsstjórnar) frv. 159/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[14:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breytingu á skipulagslögum frá umhvn. Þetta er ekki stórt mál sem hér er flutt og meira vegna formbreytinga varðandi skipulagsstjórn ríkisins. Ég vil geta þess hér, sem ég náði ekki að koma á framfæri við 1. umr., að ég var ekki viðstaddur afgreiðslu þessa máls úr nefndinni og tók ekki afstöðu til þess og var ekki eftir henni leitað. Ég vildi bara að það lægi fyrir. Ég tek það fram að það hefði komið til greina að mínu mati að fara þá leið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að reifa við 1. umr., a.m.k. varðandi fulltrúa í stað húsameistara ríkisins, en það embætti er lagt niður frá áramótum og er kannski aðaltilefni þess að þetta mál er flutt. Eins er í umhvn. til umfjöllunar frv. til skipulags- og byggingarlaga þar sem tekið verður á þessum málum til frambúðar. Hér er því væntanlega um að ræða skammtímabreytingu á lögum að þessu leyti og ætla ég ekki að gera þetta frekar að umtalsefni.