Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 15:40:46 (2467)

1996-12-19 15:40:46# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[15:40]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu snertir þetta frv. mörg ráðuneyti, flestar nefndir þingsins og fjölmarga lagabálka. Frv. á fyrst og fremst að taka á nauðsynlegum lagabreytingum vegna afgreiðslu fjárlaga en eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns fylgir ýmislegt smyglgóss með.

Efh.- og viðskn. þingsins hefur farið með forræði málsins en hefur jafnframt leitað umsagna frá fagnefndum vegna þeirra mála sem varða þeirra fagsvið. Stjórnarandstaðan á Alþingi stendur saman að minnihlutaáliti efh.- og viðskn., þar með taldar við kvennalistakonur.

Ég vil byrja á því, herra forseti, að taka undir þá hörðu gagnrýni sem hefur komið fram í ræðum ýmissa hv. þingmanna, gagnrýni á að skerða framlög til menningarbygginga, þ.e. að 150 millj. af lögbundnum tekjustofni sem ætlað er í þetta viðfangsefni eiga samkvæmt frv. að renna í ríkissjóð. Ef þarna eru í raun töluverðir afgangsfjármunir, þá er ég sammála öðrum sem hafa tjáð sig um þetta mál því að þá væri auðvitað eðlilegt að þeir mundu renna til endurbygginga á menningarstofnunum, þ.e. mundu þá a.m.k. renna til menningarmála. En svo er ekki. Þetta á að fara beint í ríkissjóð, en kannski er það erfitt miðað við hvernig lögin eru að láta þetta renna í hvað sem er. Það er athyglisverð hugmynd sem kom fram áðan hjá síðasta ræðumanni að flokka handritin okkar sem menningarstofnanir. Væntanlega þyrfti lagabreytingu til þess, en vissulega er það skilgreiningaratriði. Það er reyndar til skammar að handritin skuli liggja undir skemmdum án þess að þar komi til nægilegt fjármagn.

Eitt umdeildasta atriði þessa frv. er án efa fallskattur Björns Bjarnasonar. Sú sem hér talar og á aðild að menntmn. þingsins skilaði ásamt minni hlutanum áliti til efh.- og viðskn. þar sem varað er við því að 2. gr. þessa frv. verði samþykkt, en hún á við nýsett lög um framhaldsskóla. Umsögn okkar í minni hlutanum var um upphaflega gerð frv. en hún á efnislega enn þá við þó meiri hlutinn hafi nú flutt brtt. við greinina en það er augljóst mál að eftirfarandi umsögn á enn við. Ég vil leyfa mér að vitna aðeins til hennar, herra forseti, en í umsögninni segir:

,,Þetta [þ.e. endurinnritunargjaldið, sem gengur undir öðru nafni fallskattur] er rökstutt með því að gjaldtakan leiði til markvissari innritunar og skipulagningar kennslu. Þetta gjald á að gefa 32 millj. kr. í ríkissjóð. Ef um skipulagsvanda í einstaka skólum er að ræða telja undirritaðar að taka eigi á honum með viðunandi hætti en ekki láta nemendur greiða viðbótargjald. Aukin ráðgjöf og eftirlit væri mun virkari leið til skilvirkara skólastarfs.

Enda þótt tekið verði tillit til fötlunar einstakra nemenda er ljóst að jaðartilvik verða fjölmörg og innheimta því flókin og erfið, ef ekki óframkvæmanleg.

Þá er líklegt að þetta gjald auki enn frekar á brottfall nemenda, ekki síst þeirra sem erfiðast eiga uppdráttar í skólunum og koma frá efnalitlum heimilum. Þessum hópi er hvorki boðið nám við hæfi, atvinna né atvinnuleysisbætur.``

[15:45]

Í hverju felast þá þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til núna? Er verið að draga eitthvað úr þessum fyrirhugaða fallskatti? Nei, aldeilis ekki. Í stað þess að tala um 1.500 kr. sem eiga að greiðast vegna endurinnritunar í áfanga eða próf í upphaflegu gerð frv., er nú talað um 500 kr. á hverja ólokna einingu. Langflestir áfangar í framhaldsskólum eru þrjár einingar þannig að að verulegu leyti er verið að orða sama hlutinn öðruvísi. En breytingartillagan nær til fleiri þátta sem þýðir í raun meiri álögur á framhaldsskólanema. Það er verið að íþyngja framhaldsskólanemum. Það er verið að koma á meiri og meiri skólagjöldum undir öðrum nöfnum af því að skólagjöld eru ekki heimil.

Samkvæmt þessari brtt. sem liggur fyrir og meiri hlutinn stendur að á að vera heimilt að taka 25% hærra innritunargjald af þeim sem innrita sig utan auglýsts innritunartíma og síðast en ekki síst er verið að heimila auknar gjaldtökur vegna efniskostnaðar í verknámi í framhaldsskólum.

Það er ekkert launungarmál að skólameistarar, einkum í iðnskólum og verkmenntaskólum, hafa bent á að skólarnir geti ekki starfað við þau skilyrði sem þeim eru búin í fjárlagafrv. vegna skertra fjárframlaga og vegna þess að bæði innritunargjöld og efnisgjöld hafa verið fest við ákveðna upphæð í framhaldsskólalögunum frá því í vor. Eðlilega átti að hlusta á þessar raddir skólameistaranna en eðlilegra hefði verið að leggja meira fjármagn til þessara skóla, til framhaldsskólanna, iðnskólanna og verkmenntaskólanna, þannig að þeir geti í raun starfað eftir settum lögum. Nei, í staðinn er valin sú leið að heimila skólum að innheimta meira fé af nemendum í verklegu námi í gegnum efnisgjöld. Þessi gjöld voru bundin í lögunum við 1/3 af raunverulegum kostnaði með 25 þús. kr. þaki, en nú á að taka mið af raunverulegum efniskostnaði þó að vísu eigi að halda sig við 25 þús. kr. þakið. Þetta er aðferð ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntmrh., Björns Bjarnasonar, til að efla verkmenntun í landinu. Í fyrsta lagi eru engar nýjar brautir lagðar til eða aukið fjármagn til verkmenntunar eins og ætla hefði mátt að kæmi í framhaldi af nýsettum framhaldsskólalögum í vor og í öðru lagi á að láta þá nema sem þó komast í þessar fáu verknámsbrautir sem til staðar eru, standa straum af öllum efniskostnaði sjálfa.

Vissulega þurfa nemar í bóknámi að leggja út fyrir námsbókum en það þurfa langflestir nemar í verknámi einnig að gera. Með þessu er verið að gera verknám enn óaðgengilegra en áður þrátt fyrir öll fögru orðin frá því í vor um hið gagnstæða.

Almennt vil ég taka undir það, herra forseti, að einn stærsti ókostur þessa fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu og tengist frv. sem hér er til umræðu, er þetta gífurlega skilningsleysi sem birtist þar gagnvart menntun og menntamálum almennt. Það er hneisa að mínu mati að ekki skuli vera lagt neitt fé til átaks í framhaldi af margnefndri rannsókn á árangri nemenda í raungreinum og við kvennalistakonur munum leggja fram breytingartillögur í þá veru við 3. umr. fjárlaga. Menntun er fjárfesting til framtíðar og það eru svik við komandi kynslóðir sem draga mun langan dilk á eftir sér að standa ekki að menntun ungviðisins og menntun á öllum skólastigum með sóma. Það er alveg sama við hvern er rætt, við hvaða framtíðarspekinga, hvort það eru hagfræðingar, stjórnmálafræðingar, menntunarfræðingar eða hvað, allir eru sammála um að ef fjárfest er í menntun þá er það ein öruggasta fjárfestingin sem til er. En núna á gósentímum og þenslutímum og miklum hagvaxtartímum á Íslandi, hvað er það fyrsta sem á að gera? Það á að draga saman í menntamálum.

Þegar sambærilegt frv. og þetta var afgreitt fyrir síðustu jól var gagnrýnt mjög af okkur stjórnarandstæðingum að í stað þess að breyta ákvæðum laga fyrir eitt ár í senn með hinum svokölluðu ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum, þá var sá háttur tekinn upp á sl. ári að farið var að verulegu leyti út í varanlegar lagabreytingar. Og það virðist sem sami hátturinn sé hafður á nú að verulegu leyti því miður, þ.e. að áðurnefnd breyting á 7. gr. laga um framhaldsskólann, þ.e. ákvörðunin um fallskattinn og hækkuð efnisgjöld vegna verknáms er varanleg en ekki einungis tillaga um breytingu sem á að gilda eitt ár. Þetta er að mínu mati ein meginskýringin á því að þó að þessi bandormur sé ansi langur nú og nógu langur, þá hefur hann sést lengri. Og það er bara vegna þess að í fyrra voru afnumin varnalega mjög mörg ákvæði um sérstaka tekjustofna í tengslum við sérlög.

Ég ætla, herra forseti, ekki að fara í öll atriði þessa frv. en það eru þó nokkur atriði í viðbót sem ég vil koma sérstaklega að. Ég vil byrja á því að taka undir álit minni hluta efh.- og viðskn. og fordæma skerðingu á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þó skal viðurkennt að þetta ákvæði er skárra en ákvæðið um menningarbyggingarnar sem ég talaði um áðan að því leyti að viðkomandi tekjustofni er áfram varið til málefna fatlaðra, til rekstrarkostnaðar að vísu, en mér finnst það síður gagnrýni vert að svona lagað sé gert ef fjármagninu er haldið innan málaflokksins og það séu þá frekar ákvarðanir innan hans sem ráða hvernig skynsamlegast sé að veita fjármagnið. Þetta ákvæði er líka skárra en áðurnefnt ákvæði um framhaldsskólann vegna þess að það er tímabundið og á eingöngu við árið 1997.

Ekki verður komist hjá því að vekja athygli á því, herra forseti, sem á að gera samkvæmt 10. og 12. gr. þessa frv. og varðar starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna. Í því sambandi ætla ég að lesa úr áliti minni hluta félmn., sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir er formaður fyrir og undirritar ásamt öðrum fulltrúum úr stjórnarandstöðunni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn leggst gegn því að Starfsmenntasjóður og starfsmenntun í atvinnulífinu séu sett undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Starfsmenntun í atvinnulífinu er afar mikilvægt úrræði fyrir fólk á vinnumarkaði og Starfsmenntasjóður hefur veitt þúsundum manna stuðning. Starfsmenntun fólks á vinnumarkaði á alls ekki heima hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Minni hlutinn óttast að með þessari breytingu sé tekið fyrsta skrefið til þess að leggja af sjóðinn og stuðning vinnumálaráðuneytis við starfsmenntun í atvinnulífinu og varar eindregið við þessari breytingu.

Sama gagnrýni á við um framlög til atvinnumála kvenna. Sá litli sjóður hefur verið mjög þýðingarmikill. Hann hefur veitt mörgum konum tækifæri til að fara inn á nýjar brautir og þróa smáfyrirtæki sem hafa lítinn eða engan annan stuðning fengið. Staðan á vinnumarkaði og þróun hans sýna að mikil þörf er fyrir sérstakar aðgerðir í þágu kvenna. Mikilvægt er að til séu sjóðir í þágu kvenna sem veita lán eða styrki til nýsköpunar og stofnunar smáfyrirtækja eins og þekkist víða erlendis. Þeim sjóðum sem fella á undir Atvinnuleysistryggingasjóð á alls ekki að blanda saman við úrræði fyrir atvinnulausa þótt allar virkar leiðir sem styrkja fólk á vinnumarkaði hafi þýðingu fyrir atvinnu í landinu. Um er að ræða samtals 67 millj. kr. framlag til starfsmenntunar í atvinnulífinu og atvinnumála kvenna. Minni hlutinn mótmælir harðlega þessum tilflutningi. Að hans dómi er verið að blanda saman alls óskyldum málum því að styrkir Atvinnuleysistryggingasjóðs við verkefni fyrir atvinnulausa og átaksverkefni sveitarfélaga eru allt annars eðlis en almenn starfsmenntun, endurmenntun og símenntun fyrir vinnandi fólk.``

Í þessu sambandi, herra forseti, vil ég minna á orð hv. þm. sem var frsm. fyrir minni hlutann frá efh.- og viðskn., Ágústs Einarssonar, en hann tiltók nokkrar nýjar rannsóknir sem benda til að helstu vaxtarbroddar í atvinnulífinu víða um lönd eru fyrirtæki sem eru rekin af konum, eru í eigu kvenna, og það eru einmitt slík fyrirtæki sem þessir sjóðir hafa styrkt og nú á að taka þann litla vaxtarbrodd í burtu.

Þá vil ég, herra forseti, koma aðeins inn á heilbrigðiskafla þessa frv. sem að mínu mati er mjög furðulegur eins og hér kom ítarlega fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og einnig fyrr í dag í máli Láru Margrétar Ragnarsdóttur. Þarna er ég fyrst og fremst að vísa til opinna heimilda heilbrrh. til að sameina stofnanir og breyta skiptingu heilsugæsluumdæma og starfssvæða heilsugæslustöðva og heimilda til þess að setja reglugerðir um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið, svo og sameiningu sjúkrastofnana. Þetta er mjög erfiður geiri, ég geri mér vel grein fyrir því og það má vel vera að einhverjar breytingar í þá veru sem hæstv. heilbrrh. hefur í huga geti leitt til hagkvæmni. En þá á auðvitað að flytja um slíkar fyrirhugaðar breytingar frv. á Alþingi í stað þess að Alþingi afsali sér þessu valdi til ráðherra, þetta er jafnvel vald sem nú er hjá sveitarstjórnum. Enn skal minnt á nýlega dóma í Hæstarétti þar sem löggjafinn er varaður við því að framselja of mikið vald til ráðherra og framkvæmdarvaldsins. Ég tel að hér sé farið út á mjög hættulega braut og vona svo sannarlega að ríkisstjórnin sjái möguleika annaðhvort að útfæra þetta nákvæmar í þessum lögum eða hreinlega koma með sérstakt frv. inn í þingið sem allra fyrst.

[16:00]

Ekki er hægt, herra forseti, að ljúka umræðu um málið án þess að koma inn á þá óhæfu sem átti sér stað á sl. ári þegar afnumin var tengingin á milli greiðslu bóta úr almannatryggingakerfinu við laun. Minni hlutinn varaði við því þá að þetta mundi smátt og smátt leiða til þess að bótagreiðslur mundu lækka og mundu ekki halda í við laun. Samkvæmt frv. nú er gert ráð fyrir að bætur til ellilífeyrisþega, atvinnuleysistryggingabætur og aðrar bætur almannatrygginga hækki um 2% á næsta ári. Þó að samningar við verkalýðsfélögin liggi enn ekki fyrir þá þykir nokkuð ljóst að þar muni verða samið um meiri hækkanir en 2% og því er alveg ljóst að mínu mati að spár okkar í stjórnarandstöðunni reyndust réttar. Þetta bil á milli bóta og launa mun fara vaxandi.

Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart að sú hægri stjórn sem nú situr skuli níðast á þeim sem eru minni máttar í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að þeir sem bera minna úr býtum, fatlaðir, aldraðir og sjúkir eiga alls ekki að fá að njóta þess góðæris sem allir eru sammála um að nú ríki hér og jafnvel sé von á einhverju meira á næsta ári, jafnvel svo miklu meira að grípa þurfi til aðgerða til að sporna gegn þenslu. En samtímis því að skerða bæturnar bólar ekkert á aðgerðum gegn hinum illræmdu jaðarsköttum þannig að barnafólk á litla möguleika til að bæta kjör sín vegna hinna óréttlátu jaðarskatta sem allir viðurkenna að hér séu. Í þessu sambandi er rétt að benda á þær upplýsingar, sem fram komu fyrr í umræðunni, að nú standi til að frysta persónufrádrátt og frysta barnabótaauka þannig að í raun á að gera hlut láglaunafólksins jafnvel enn verri en almannabótaþeganna sem þó fá 2% hækkun á sínar bætur, þ.e. þarna er beinlínis ráðist að þeim sem síst skyldi.

Stefna ríkisstjórnarinnar opinberast sem sagt mjög vel að mínu mati í fjárlagafrv. og í fylgifrv. þess, m.a. því frv. sem hér er til umræðu og af öllum skattafrv. sem eru afgreidd á færibandi þessa dagana. Stefna hæstv. ríkisstjórnar eykur misréttið í þjóðfélaginu, sem virðist því miður vera það sem meiri hluti landsmanna vill ef marka má kjörfylgi þessarar ríkisstjórnar. Er ríkisstjórnin einungis að gera það sem hún var kosin til að gera? Og í því sambandi er verulega umhugsunarvert hvað er í rauninni að gerast í þjóðfélaginu. Svo virðist sem umburðarlyndi, umhyggja og samhjálp gagnvart náunganum sé á undanhaldi en sérhagsmunir hópanna, sem betur hafa það í þjóðfélaginu, eru festir æ betur í sessi. Það er kannski ekki við öðru að búast af Sjálfstfl. En að Framsfl. skuli skrifa upp á þá stefnu er verulega umhugsunarvert að mínu mati. En hvað er ekki gert fyrir ráðherrastólana á þeim bæ?

Góðærið er viðurkennt og mikið er rætt um það í blöðum og annars staðar að þörf sé á að spyrna gegn þenslu en aðgerðir ríkisstjórnarinnar í því sambandi eru ekki trúverðugar. Í þessu frv. beinast þær að því að herða sultarólarnar á þeim sem minnst mega sín, draga úr fjárframlögum til menntakerfisins eins og frv. gerir ráð fyrir og í þriðja lagi get ég ekki orða bundist og nefnt það einnig að stjórnarherra agnúast út í framkvæmdir Reykjavíkurborgar. Hafa þeir, þessir herramenn í hæstv. ríkisstjórn, ekki nóg með sig? Þetta er ótrúverðug stefna og mjög ámælisverðar aðgerðir sem við í stjórnarandstöðunni erum mjög andvíg.