Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:06:32 (2468)

1996-12-19 16:06:32# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Til umræðu er árvisst frv. sem hefur gengið undir nafninu bandormur og fylgir fjárlagagerðinni og er til að auðvelda þá smíð alla. Eins og fram hefur komið erum við að fjalla um breytingar á 18 lagabálkum og meiri hlutinn af þeim eru varanlegar breytingar. Venjan hefur verið að frumvörp sem þessi hafi falið í sér tímabundnar breytingar á lögum en því miður hefur þróunin orðið sú að tímabundnar breytingar eru fáar en meiri hlutinn af þeim breytingum sem lagðar eru til í frv. eru varanlegar. Það er erfitt og nánast óþolandi að þurfa að ræða breytingar á lögum samfara fjárlögum í mörgum köflum eins og við þurfum að gera nú. Hér erum við að fjalla um bandorm og það er boðað að enn séu á leiðinni inn í þingið frekari lagabreytingar vegna fjárlaganna, svokallaður skröltormur.

Einnig hefur okkur verið boðið upp á að ræða fjárlögin í þinginu án þess að stórir og veigamikilir þættir hafi komið fram, eins og stór hluti heilbrigðismálanna sem eru fjármál sjúkrahúsanna og sömuleiðis tillögur vegna niðurskurðar í samgöngumálum svo eitthvað sé nefnt. Er þinginu ætlað að fjalla um þessa þætti í síðustu umræðunni um málið áður en það verður afgreitt úr þinginu.

En ég vil fara nokkrum orðum um þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frv. og byrja á því að gagnrýna hinn svokallaða fallskatt sem hæstv. menntmrh. hefur lagt til en um er að ræða mjög ósanngjarnt og ómannúðlegt gjald sem lagt er á nemendur sem hafa ekki náð að ljúka námi á tilsettum tíma. Ég hafði vonað að í meðförum hv. efh.- og viðskn. yrði tekið á þessu máli og þar yrði farið vægar í sakirnar og jafnvel að þetta yrði fellt út, en því miður, hér eru lagðar til smábreytingar á orðalagi sem þýða í rauninni það sama og upprunalegt orðalag á þessum fallskatti. Í upphafi voru það 1.500 kr. sem menn skyldu greiða ef þeir næðu ekki tilskildum prófum, en nú á að borga 500 kr. fyrir hverja einingu en að jafnaði eru 2--3 einingar á hverri önn. Þetta er skattur sem er lagður á þá sem eiga erfitt, þá sem eiga við námsörðugleika að etja og hefði ég talið eðlilegra að brugðist verði við brottfalli úr skóla á annan hátt, t.d. með auknum stuðningi við þá nemendur og aukinni ráðgjöf en ekki að taka á þeim málum með því að innheimta fé af þessu fólki sem oft er í vinnu með námi og þarf að leggja hart að sér til að geta leyft sér að stunda nám.

Einnig er lagt til að hærra innritunargjald verði innheimt í skóla, 25% hærra fyrir þá sem ekki innrita sig á tilskildum tíma, á þeim tíma sem auglýstur er. Hér er enn verið að gera framhaldsskólanemum erfiðara fyrir og verið að þrengja að námsmönnum. Í raun er með þessum tillögum verið að festa í sessi gjaldtöku í framhaldsskólakerfinu sem ég vil mótmæla.

Í 1. gr. frv., svo ég fari aðeins framar í frv., er verið að taka fé af mörkuðum tekjustofnum af framlögum til menningarbygginga. Það er markaður tekjustofn sem var settur í lög 1989 til að fjármagna byggingu Þjóðarbókhlöðu og nú á að taka af þessum tekjustofni 150 millj. kr. sem eiga að renna í ríkissjóð. Ég vil taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt þetta og hafa lagt til að nær væri að setja þessa peninga í að varðveita menningarverðmæti. Við höfum heyrt af því hvernig handrit okkar eru að eyðileggjast vegna þess að þeim hefur ekki verið sinnt. Því hefur ekki verið sinnt að gera við þau og halda þeim við þó svo að aðstæður til slíks séu fyrir hendi. Ég vil taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt þetta og tel að það hefði verið ráðlegra að setja þá peninga í að laga þessi menningarverðmæti okkar heldur en taka peningana og setja þá í ríkissjóð.

Ég vil líka gagnrýna það hvernig í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum er sífellt verið að taka af mörkuðum tekjustofnum og setja þá í ríkissjóð. Hér eru sett á ýmis gjöld og ýmsir skattar. Þeir eru sjaldan aflagðir en iðulega teknir og látnir falla beint í ríkissjóð í stað þess að láta þá falla til þeirra verkefna sem þeir voru upprunalega ætlaðir til.

Herra forseti. Í þessu frv. er enn einu sinni verið að skerða framlög til fatlaðra. Þar eru einnig markaðir tekjustofnar sem hafa verið ætlaðir til málefna fatlaðra. Þeir eru skertir enn á ný og vil ég vitna í minnihlutaálit efh.- og viðskn. þar sem fjallað er um þá skerðingu og bent er á að samkvæmt 29. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, er fimm ára átak í gangi vegna byggingar sambýla fyrir geðfatlaða. Engar upplýsingar er að finna um fimmtu og síðustu greiðslu til þessarar uppbyggingar fyrir geðfatlaða sem Alþingi ákvað fyrir fimm árum. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 var sérstaklega tilgreind 20 millj. kr. fjárveiting úr ríkissjóði og að hún væri sú fjórða af fimm. Hér á sem sagt ekki að koma til fimmta greiðslan vegna slíkrar uppbyggingar. Mig langar til að minnast á það af þessu tilefni að svo hefur verið skorið niður fé til fatlaðra og þá sérstaklega geðfatlaða, að foreldrar einhverfra barna hafa nánast enga þjónustu fengið á þessu ári frá því í byrjun þessa árs eftir að börn þeirra hafa verið greind einhverf. Þau hafa fengið greininguna en síðan hefur engin þjónusta verið fyrir hendi til handa þessum börnum og foreldrum þeirra sem er geysilega mikilvægt atriði til að takast á við slíkan sjúkdóm. Þetta gagnrýni ég og hefði talið að þarna hefði mátt koma til fjárveiting af þeim fjármunum sem eiga að renna í ríkissjóð af hinum markaða tekjustofni til málefna fatlaðra, því að ég minnist þess að hér var til umræðu málefni einhverfra á sl. vetri og man ég ekki betur en bæði hæstv. heilbrrh. og hæstv. félmrh. hafi þá lofað að tekið yrði á í þessum málaflokki og þeir ætluðu í sameiningu að ráða bót á þeirri þjónustu sem hefur verið skert. En hvergi er hægt að sjá að nein áform séu uppi um slíkt og eru liðnir margir mánuðir frá því að þau orð féllu í þinginu.

[16:15]

Ég vil einnig koma inn á málefni heilbrrh. Þessar lagabreytingar sem heyra undir heilbrigðismálin eru breytingar á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Þar er verið að veita hæstv. heilbrrh. nánast alræðisvald til þess að ráðskast með málefni sjúkrahúsa og heilsugæslu. Þetta er heimild til ráðherra til að sameina stofnanir og breyta heilsugæsluumdæmum og starfssvæðum heilsugæslustöðva og getur ráðherra með reglugerðum ráðskast með þennan málaflokki eins og honum sýnist. Þetta eru fullkomlega óeðlilegar lagabreytingar, sérstaklega inni í lagabálki eins og þeim sem hér er til umræðu, þ.e. ráðstafanir í ríkisfjármálum, því að eins og kemur fram í umfjöllun um þessar lagagreinar frá fjmrn. hefur þetta nánast ekkert með fjármál að gera og fjmrn. bendir á að a.m.k. 18. og 20. gr. frv. hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs árið 1997 en gefi ráðherra kost á að fylgja betur eftir stefnu í heilbrigðismálum og ákvörðunum fjárlaga. Og ég gagnrýni það að ákvæði eins og þessi komi inn í frv. sem þetta um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ef menn vilja breyta lögunum um heilbrigðisþjónustu, þá á að koma sérstakt frv. fram um það og það á að ræða það undir þeim lið. Ég vil minna á að í meðförum heilbr.- og trn. eru nánast engin mál frá hæstv. ríkisstjórn. Það er eitt lítið mál þannig að heilbr.- og trn. hefði ekki verið skotaskuld úr því að taka þessi mál til umræðu. Heilbrigðismálin á auðvitað að ræða sérstaklega í þinginu ef menn vilja breyta einhverju í þeim málaflokki.

Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., Láru Margréti Ragnarsdóttur. Hún hélt fyrr í dag mjög skelegga og ábyrga ræðu um það hvaða annmarkar væru á þessum lagabreytingum sem varða heilbrigðisþjónustuna og ég deili mörgum af þeim áhyggjum sem hún lýsti úr þessum ræðustóli með henni því þarna er margt mjög óljóst sem ekki hafa verið gefnar neinar skýringar á í meðförum heilbr.- og trn.

Það er einnig tekið til þess að það eigi að ná 160 millj. kr. sparnaði með þessu frv. vegna sjúkrahúsa úti á landi, en nú hefur komið fram í fjölmiðlum og reyndar borist óljósar fregnir af því úr fjárlaganefndinni að hæstv. ráðherra sé fallinn frá þessum 160 millj. kr. sparnaði og hann eigi að deilast á næstu þrjú ár. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra --- ég geri fastlega ráð fyrir að hún sé í húsinu --- hvort þessi ákvæði í frv. séu ekki í raun óþörf úr því að hæstv. ráðherra hefur breytt þarna um áform.

Ég vil einnig koma aðeins inn á áhyggjur mínar af fjármálum stóru sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og þeim fréttum sem hafa borist úr fjárln., þó að það sé ekki komið inn í þingið, af því hver staða þeirra er. Þar hefur verið skorið mjög mikið niður, starfsfólk býr við mikið álag. Það er farið að bera á atgervisflótta fagfólks úr heilbrigðisstéttum sem starfa á sjúkrahúsunum og nú lítur út fyrir að heildarskuldir Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna verði hátt í milljarð á næsta ári. Ég tel þetta mikið áhyggjuefni og hefði talið að þarna hefðu þurft að koma frekari fjárveitingar en þær sem menn eru að ræða þessa dagana úti í fjárln.

Herra forseti. Í umræðum um fjárlögin hefur mönnum verið tíðrætt um þá þenslu sem talið er að muni fylgja álvers- og virkjanaframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru og hefur mér þótt menn tala heldur frjálslega um þá hluti því að margir hverjir tala eins og þegar sé búið að ákveða þessar framkvæmdir og jafnvel að þær séu hafnar. Ég vil gagnrýna hvernig varaformaður fjárln. hefur verið að senda sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu tóninn og nánast skilaboð um það hvernig þeir eigi að haga sínum rekstri og finnst það mjög sérkennilegt að fulltrúi Sjálfstfl. í þinginu, varaformaður fjárln., skuli tala til sveitarfélaganna eins og hann hefur gert og sérstaklega til borgarstjórnar Reykjavíkur og nánast talið að það eigi að draga úr framkvæmdum, komið með skilaboð um hvernig þau eigi að haga atvinnuuppbyggingu á meðan borgarfulltrúar sama flokks hafa verið að kvarta undan því að ekki sé nóg að gert í atvinnumálum. Það er nú orðið tímabært að Sjálfstfl. geri það upp við sig hvaða stefnu hann hefur í atvinnumálum höfuðborgarinnar, því stefna hans á þingi og stefna hans í borgarstjórn hér í Reykjavík stangast illilega á.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem maður hefur úr dagblöðum nú í morgun hefur ríkisstjórnin ákveðið að bregðast við þessari yfirvofandi þenslu með því að draga mjög úr samgönguframkvæmdum og skera þær niður og vil ég við þessa umræðu lýsa áhyggjum mínum sérstaklega vegna niðurskurðarins á Reykjavíkurflugvelli. Þar hefur nánast verið lýst yfir hættuástandi. Flugráð hefur lýst yfir áhyggjum sínum yfir ástandi flugvallarins og nú á að skera niður um 100 millj. í þeim framkvæmdum á næsta ári og ég vil mótmæla slíkum vinnubrögðum.

Sömuleiðis hef ég verulegar áhyggjur af niðurskurði í vegaframkvæmdum á suðvesturhorninu, á Vesturlandsveginum. Ég bendi á að niðurskurðurinn í samgöngumálunum og frestun framkvæmda verður aðeins til þess að auka útgjöldin því að hann eykur slysahættuna. Ég bendi á vegakerfið í kringum höfuðborgina, úr borginni milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og úr borginni um Vesturlandsveginn. Eigi framkvæmdir að dragast enn á langinn, þá mun það auka útgjöldin í heilbrigðiskerfinu og annars staðar í velferðarkerfinu.

Ég vil einnig gagnrýna þau áform sem virðast vera uppi og komu fram í umræðunni fyrr í dag að enn eigi að fara að skerða tekjur, þ.e. skerða kjör almennings með því að lækka í raun barnabætur með því að láta þær standa í stað og frysta persónuafsláttinn og þar með lækka skattleysismörkin. Þessi vinnubrögð eru eru óþolandi, þ.e. að ætla taka réttindi af launafólki og síðan semja við það í kjarasamningum um hvort það fái réttindin aftur. Þetta er slík della að ég mótmæli þessu. Mér finnst nóg komið af skerðingum hjá þessari ríkisstjórn.

Þá vil ég koma að almannatryggingabótunum. Eins og menn muna úr fjárlagaumræðunni og umræðunni um bandorm við síðustu fjárlagagerð, þ.e. um frv. ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá því á síðasta ári, þá var samþykkt af meiri hluta Alþingis að aftengja bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur launaþróun í landinu og kveðið á um að bætur skyldu hækka um 2%. Þetta er gjörsamlega óviðunandi ákvæði og hefur stjórnarandstaðan ákveðið að leggja til að tekinn verði upp sami háttur og var fyrir þá breytingu þannig að almannatryggingabætur og atvinnuleysisbætur fylgi launarþróun. Það er réttlætismál og á auðvitað að vera í lögum.

Nú hefur komið fram í spám að laun muni að líkindum hækka meira en um 2% og það er ekki hægt að búa við það að enn eigi að skerða hlut þess fólks sem er á tryggingabótum, fær greiðslur úr almannatryggingunum. Það er búið að sauma svo að þessum hópum á fjárlögum síðasta árs og með aðgerðum þessarar ríkisstjórnar á þessu ári að ekki verður búið við það lengur. Einnig er þessi hópur með hvað hæsta jaðarskattana og álögum á þessa hópa, aldraða og öryrkja, verður að linna. Ég veit að margir eru mjög fátækir í þessum hópi. Margir aldraðir og öryrkjar hafa komið að máli við mig. Þeir kvíða mikið þeim tíma sem nú fer í hönd vegna þess hve pyngjan er létt og þeir óttast að þeir geti ekki haldið jól eins og aðrir. Það hefur einnig komið fram í fréttum frá líknarfélögum, Mæðrastyrksnefnd o.fl., sem aðstoða fólk um jólin að aldrei hafi fátæktin verið meiri. Þess vegna krefst ég þess að frv. og fjárlögin verði ekki afgreidd öðruvísi en að lífeyrisþegar haldi sínum hlut óskertum miðað við launþega. Það verður að ganga frá því áður en við höldum í jólafrí, að þetta fólk búi ekki áfram við skertan hlut. Það er gjörsamlega óviðunandi.

Herra forseti. Ég held ég hafi nokkurn veginn farið yfir þá þætti sem ég hugðist nefna vegna þessa frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1997, en ég mun koma inn á þessi mál frekar við umræðu um fjárlögin þegar tillögur ríkisstjórnarinnar, sem enn er verið að smíða, verða komnar á borð okkar og vonast ég til þess að menn þurfi ekki, herra forseti, að frétta af því í fjölmiðlum hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst gera í þessum málaflokki heldur berist upplýsingar til þingmanna áður þannig að við þurfum ekki að lesa um þetta í fjölmiðlum.