Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:50:59 (2471)

1996-12-19 16:50:59# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:50]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Auðvitað er mér ljóst að hluti af þessu getur orðið eingreiðslur og svo geta þetta orðið misjafnar prósentur og það getur orðið krónutala kannski oft á samningstíma. Að sjálfsögðu er ekki hægt að svara því alveg í smáatriðum hvernig þetta muni líta út, það dettur mér ekki í hug. Það sem ég er í raun og veru að inna eftir er þetta:

Gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir að aldraðir og öryrkjar fái að jafnaði svipaðar launahækkanir og samið verður um á almennum markaði?

Á bak við þessa spurningu mína er t.d. orðalag bráðabirgðaákvæðisins sem mig minnir að við höfum að lokum náð samkomulagi um í fyrra. Þar var tekið tillit til ýmissa annarra þátta heldur en launa, m.a. þjóðhagsstærða, sem ég held að séu hagstæðar núna og gætu þar af leiðandi heldur ýtt undir að bætur almannatrygginga lagist á næsta ári frekar en hitt. Þess vegna spyr ég:

Stendur vilji hans til þess að bætur almannatrygginga breytist að jafnaði svipað og samið verður um á hinum almenna launamarkaði á næsta ári?