Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:56:04 (2474)

1996-12-19 16:56:04# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:56]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. beindi nokkrum spurningum til mín og mun ég svara þeim hér. Hann vill meina að þær breytingar sem boðaðar eru í bandormi tengist ekki fjárlögum. Ég vil í stuttu máli svara því þannig að hvert einasta atriði tengist á einhvern hátt fjárlögum. Ég tek í fyrsta lagi stjórn yfir heilsugæslunni í Reykjavík. Ein stjórn í stað fjögurra mun spara.

Í öðru lagi var spurt hvort ekki væri eðlilegt að heilbrrn. eigi einn fulltrúa í stjórnum sjúkrastofnana sem velta um 16 milljörðum á ári.

Það er mitt mat að svo sé. Um þessar mundir er mikil vinna lögð í að samræma störf sjúkrahúsanna bæði í Reykjavík og úti á landi. Þessi samræming getur leitt til þess að menn telji rétt að sameina stofnanir náist um það samkomulag. Til þess þarf þessar lagabreytingar. Ég tel rétt að við reynum að spara eins og mögulegt er í yfirstjórn þessara stofnana allra til að hlífa þjónustunni og helst bæta hana.