Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:01:16 (2478)

1996-12-19 17:01:16# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég bað um orðið í tilefni af fyrirspurnum hv. þm. vegna þess að ég taldi að það tæki mig lengri tíma en tvær mínútur að gera grein fyrir og svara þeim spurningum sem hann lagði fyrir og því væri æskilegt að þingmaðurinn fylgdist með þegar spurningunum er svarað.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. hvaða mat ég hefði á þróun Endurbótasjóðs og þeirra bygginga sem fjármagni úr honum er ætlað að standa straum af þegar litið er til endurbyggingar á þessum húsum eða viðgerða á ákveðnum húsum. Í fyrsta lagi má segja að samdrátturinn í útgjöldum Endurbótasjóðs tekur mið af þeirri almennu stefnumótun að ekki beri að auka þenslu og ekki beri sérstaklega að auka þenslu hér í þessum landshluta og þær byggingar allar sem hér er um að ræða eru í Reykjavík. Það fellur þannig að því almenna stefnumiði að það beri að draga úr þennslu á þessum slóðum og þess vegna er sparnaður á þessum lið til þess fallinn að skapa hér jafnvægi með tilliti til þróunar efnahagsmálanna almennt.

Að því er varðar hitt sem hv. þm. nefndi, þær byggingar sem um er að ræða, þá er það vissulega mikið áhyggjuefni hvernig komið er fyrir þeim mörgum. Nauðsynlegt er að gera markvissar áætlanir um uppbyggingu þeirra og vissulega hefur það verið gert. Það hefur smátt og smátt verið unnið að því að bæta húsakostinn og koma í veg fyrir frekari eyðileggingu á þessum húsum.

Hv. þm. nefndi sérstaklega Þjóðminjasafnið. Það er ljóst að miðað við þær fjárveitingar sem nú er um að ræða úr Endurbótasjóði þá rennur stærstur hlutinn til Þjóðminjasafns og hefur gert um nokkurt skeið. Á hinn bóginn er það svo að þegar rætt er um endurbætur á Þjóðminjasafnshúsinu þá kemur fleira til heldur en viðgerð á húsinu sjálfu. Það er spurningin um framtíðaraðsetur safnsins. Menn hafa varpað fram ýmsum spurningum og velt fyrir sér kostum í því efni. Rökin fyrir því að flytja Þjóðminjasafnið frá þeim stað þar sem það er nú eru mjög sterk. Það er margt sem mælir með því, eins og fram hefur komið hjá áhugamönnum um safnið og einnig öðrum sem bera hag þess fyrir brjósti, að það kunni að vera skynsamlegt að velja því annan stað en þann sem það er núna vegna þrengsla og vegna þeirrar aðstöðu sem safninu er búin á þessum stað. Þetta er eitt af þeim álitamálum sem hafa komið upp og menn þurfa að taka afstöðu til þegar rætt er um viðgerðir á Þjóðminjasafnshúsinu sem eru brýnar en hljóta að haldast í hendur við mat manna á því hvar safnið eigi að vera til frambúðar.

Fjármunum verður varið til viðgerða á Þjóðleikhúsinu. Unnt verður að ráðast í brýnustu viðgerðir þar. En þar þarf meira fé og þarf að leggja betur niður fyrir sér hvernig staðið skuli að framtíðarviðgerðum á Þjóðleikhúsinu. En fyrir þá fjármuni sem ráðstafað verður á næsta ári samkvæmt þeim tillögum sem fyrir liggja verður unnt að ráðast í brýnustu viðgerðir í framhaldi af því sem gert hefur verið á undanförnum árum og halda því starfi áfram þótt vissulega hefði verið æskilegt að fá til þess meira fé eins og ætíð er.

Jafnt og þétt er haldið áfram að búa Þjóðskjalasafninu hæfilegt starfsumhverfi á þeim stað sem það er.

Síðan er á liðnum: Safnahúsið, 22 millj. kr., ef ég man rétt. Það er upphafið á viðgerðum á Safnahúsinu að utan sem verður skipt á nokkur ár. Það verður ráðist í að gera það hús þannig úr garði að til sóma sé. Vafalaust mun það kosta hærri fjárhæðir heldur en þær sem hugmyndir eru um núna og það þarf að endurskoða áætlanir um það, en ætlunin er að gert verði við Safnahúsið með fé úr Endurbótasjóði.

Þá er einnig Listasafn Einars Jónssonar með 21 millj. kr., ef ég man rétt. Það verður unnt að gera við það að utan fyrir þessa fjárhæð að meginhluta og veita þá væntanlega á árinu 1998 lokafjárveitingu til þess verkefnis.

Þarna eru verkefni sem unnið er að misjafnlega hratt eftir því hvað fjármunirnir duga. En ég tek undir það með hv. þm. að þarna er mikið verk óunnið og vissulega hefði verið æskilegra að fá meiri fjármuni til þess. Það er ávallt æskilegt að hafa sem mest fé milli handa. En í þessu tilviki var sú ákvörðun tekin að skerða þennan sjóð, m.a. með hliðsjón af því markmiði að auka ekki þensluna um of í þessum landshluta.

Að því hvað spurningarnar um endurinnritunargjaldið varðar þá vil ég fyrst árétta að þetta heiti sem menn hafa valið því ,,fallskattur`` er algjörlega rangnefni. (ÖS: Fallskattur Björns Bjarnasonar.) Það er algjört rangnefni því þá mun enginn nokkurn tíma skilja um hvað menn eru að tala ef þeir ætla að halda fast í það. Það mun verða til vitnis um að stjórnarandstaðan fer algjörlega vill vega ef hún heldur sig við þetta hugtak og það mun enginn nokkurn tímann skilja neitt af þeim þingskjölum eða ræðum sem menn hafa flutt um þetta mál þegar fram líða stundir og verður mjög sérkennilegt rannsóknarefni fyrir menn að átta sig á því um hvað í ósköpunum blessuð stjórnarandstaðan hafi verið að fjalla þegar hún var að ræða þetta mál í þinginu. (GGuðbj: Af hverju er þá fólk að endurinnrita sig?) Þannig er mál með vexti að hér er um endurinnritunargjald að ræða en alls ekki neinn fallskatt. (Gripið fram í.) Það getur verið af mörgum ástæðum sem menn ná ekki því markmiði í sínu námi sem þeir stefna að en ef þeir endurinnrita sig í áfanga eða bekkjardeildir þá ber þeim að greiða þetta gjald eins og mælt er fyrir um í lögunum. (Gripið fram í.) Það er ekki tekið fram ef ég má, herra forseti, ljúka máli mínu.

(Forseti (GÁ): Ég bið hv. þm. að hafa hljóð í salnum.)

Það er von að hv. þm. komist í uppnám þegar ég ræði þetta mál því þeir hafa auðvitað verið að fjalla um annað mál heldur en ég hér allan tímann. Ég hef hlustað á ræður þeirra í mikilli forundran og raunar hafa þeir verið að lesa upp úr nál. sem voru gefin út áður en lokatillagan í málinu kom fram eins og hún liggur fyrir nú í þeim texta sem við erum að fjalla um. Þar er hvergi talað um að menn hafi fallið á prófum eða annað slíkt heldur er rætt um að innheimta megi sérstakt endurinnritunargjald af nemendum sem endurinnritast í bekkjardeild eða áfanga og skal upphæð gjaldsins miðast við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu frá síðustu önn sem áfangi er metinn á. Menntmrh. á að setja með reglugerð nánari ákvæði um gjaldtökuna, m.a. um viðmiðun gjaldtökunnar um mat á bekkjardeildum til eininga, tilhögun innheimtu og undanþágur frá greiðslu gjaldsins.

Ég get svo sem tekið undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að það sé óheppilegt þegar jafnmikilvægt mál og þetta er til umræðu að það fari í gegnum efh.- og viðskn. og hv. nefndarmenn í menntmn. hafi ekki nægilega góð tök á að kynna sér um hvað málið snýst og flytji síðan ræður um allt annað mál en lagatextinn mælir í raun fyrir um.

Ég fór yfir það fyrr í umræðunum hvernig þetta gjald verður reiknað út, hvaða kosti menn hafa. Það verður ákveðinn einingafjöldi, tólf einingar í áfanga í áfangaskólunum og 15 einingar í áfanga í bekkjarkerfisskólunum sem menn eiga alltaf inni. Menn geta því farið í gegnum skólana án þess að þurfa að hafa áhyggjur af þessu gjaldi ef þeir taka mið af þessum einingafjölda. Þess vegna er rökrétt að segja sem svo að gjaldið sé til þess fallið að auðvelda skipulag skólastarfsins, stuðla að hagræðingu og nýta þá fjármuni betur sem við höfum til ráðstöfunar fyrir framhaldsskólana heldur en áður hefur verið. Það er alrangt og ég bið hv. þm. að átta sig á því nú á lokastigum þessa máls ef þeir vilja leiðrétta fyrri ræður sínar með hliðsjón af því um hvað þetta mál snýst í raun og veru þá hafa þeir enn tök á því.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði: Verður þetta gjald þess eðlis að einstakir skólar geti nýtt sér það? Að það renni til einstakra skóla? Það er að sjálfsögðu þannig þar sem hér er um endurinnritun í viðkomandi skóla að ræða. Þess vegna fær hver og einn skóli þetta gjald til sín þegar nemandinn endurinnritast.

Hv. þm. vék einnig að nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um skólasjóðina. Ég vil af því tilefni, herra forseti, fá leyfi hæstv. forseta til að lesa úr bréfi sem menntmrn. ritaði skólameisturum framhaldsskólanna 26. nóvember og varðar þetta mál. Það varðar athugasemdir Ríkisendurskoðunar við meðferð á skólagjöldum og hvernig skólarnir hafa ráðstafað hluta skólagjalda eða innritunargjalda til skólasjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá á grundvelli laga nr. 19/1988. Í bréfinu til skólameistaranna, sem er dags. 26. nóv. sl., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Menntmrn. hefur nú svarað Ríkisendurskoðun á þá leið að ráðuneytið tekur undir þá afstöðu Ríkisendurskoðunar að ekki sé lagaheimild til að ráðstafa hluta þeirra innritunargjalda sem nemendum er skylt að greiða á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, til skólasjóða. Afstaða ráðuneytisins byggist á því að við endanlega ákvörðun upphæðar gjaldanna ber að hafa hliðsjón af því meginsjónarmiði að þau séu ekki hærri en sá kostnaður sem rekja má til ýmiss konar kennsluefnis og pappírsvara sem skólinn lætur nemendum í té án sérstaks endurgjalds og nauðsynlegt er fyrir starfsemi skólans.

Við umfjöllun Alþingis um efni 2. mgr. 7. gr. kom skýrt fram að af innheimtum innritunargjöldum sé miðað við að skólinn greiði kostnað af ýmiss konar þjónustu við nemendur svo sem útgáfu námsvísis, gerð stundaskráa, gerð tilkynninga, dreifibréfa og annarra pappírsgagna sem dreift er innan skólans. Teljast innritunargjöld því hluti af fjárreiðum skólans.

Það er því niðurstaða ráðuneytisins að óheimilt sé að láta innritunargjöldin renna öll eða að hluta til skólasjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá á grundvelli laga nr. 19/1988, eða til þess að mæta annars konar kostnaði eða útgjöldum en þeim er ætlað lögum samkvæmt.``

Síðan segir í bréfinu:

,,Skólameistarafélag Íslands hefur lagt til við menntmrh. að hann beiti sér fyrir því að breyting verði gerð á 2. mgr. 7. gr. laga um framhaldsskóla þannig að lagaheimild fáist til innheimtu á sérstökum þjónustugjöldum af nemendum. Ráðuneytið hefur skýrt félaginu frá því að það muni ekki fallast á tillögur um frekari gjaldtöku af nemendum vegna þjónustu sem veitt er í skólum og telst nauðsynlegur hluti náms samkvæmt námskrá og ríkissjóði ber að greiða samkvæmt ákvæðum framhaldsskólalaga.

Ef ekki er um slíka þjónustu að ræða telur ráðuneytið að skólayfirvöldum sé heimilt að innheimta gjöld vegna þjónustunnar jafnóðum og hún er veitt án sérstakrar lagaheimildar, enda sé nemendum í sjálfsvald sett hvort þeir hagnýti sér slíka þjónustu eða ekki. Hér er átt við afnot af tækjum, t.d. síma, ljósritunarvélum, tölvubúnaði, þýðingu skírteina, o.s.frv.

Um leið og skólameisturum framhaldsskóla er skýrt frá þessari niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og ráðuneytisins er þeim tilmælum jafnframt beint til skólameistara að þeir beiti sér fyrir endurskoðun á gildandi skipulagsskrám fyrir skólasjóði viðkomandi framhaldsskóla ef um er að ræða að starfsemi þeirra standist ekki að þessu leyti 7. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla.``

Þetta bréf var ritað 26. nóvember sl. og er alveg skýr afstaða ráðuneytisins til þess hvernig skólunum ber með að fara í þeim tilvikum sem um ræðir. Hið sama á við um endurinnritunargjaldið. Því má ekki verja til skólasjóðsins heldur er það hluti af þeim kostnaði sem fer í almennan rekstur skólans. Það fer ekki í skólasjóðina og þess vegna lýtur það ekki að þeirri gagnrýni sem Ríkisendurskoðun hafði uppi og varðaði meðferð á fjármunum í skólasjóði. Það er hins vegar tekið fram í brtt. sem efh.- og viðskn. flytur að það sé heimilt að verja af þeim fjármunum sem er hækkun á innritunargjaldinu ef menn skrá sig ekki á réttum tíma í skólann, 25% af innritunargjaldinu, í skólasjóðina. Þar er því skólunum gert kleift að fá fjármuni í skólasjóðina með sérstakri lagaheimild af þessum fjármunum sem nemendur þurfa ekki að greiða nema svo beri við að þeir skrái sig ekki á réttum tíma sem er að sjálfsögðu auglýstur og vel tilgreindur þannig að það á ekki að vera neinum ofraun að greiða það gjald á réttum tíma.

[17:15]

Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna, herra forseti, í þessu samhengi því að ég tel að málflutningur stjórnarandstöðunnar um þessi mál á undanförnum sólarhringum hafi byggst á miklum misskilningi og taki ekki mið af því sem um er að ræða þegar lagatextinn er lesinn eða þær tillögur sem settar hafa verið fram um þetta mál.

Ég vil einnig geta þess að tillögurnar eins og þær liggja fyrir núna taka m.a. mið af þeim umræðum sem fóru fram á Alþingi við 1. umr. þessa máls. Síðan hafa verið miklar viðræður af hálfu ráðuneytisins við Skólameistarafélagið um einstaka þætti þessara mála og jafnframt hafa fulltrúar frá Félagi framhaldsskólanema komið að málinu án þess að í sjálfu sér hafi verið um samþykki þessara aðila að ræða. Þeir vita nákvæmlega hvað felst í þessum tillögum (Gripið fram í.) en stjórnarandstaðan hefur greinilega ekki vitað það. Vonandi upplýsir þessi ræða hana um það um hvað þetta mál snýst í raun og veru.