Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:16:58 (2479)

1996-12-19 17:16:58# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:16]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og sérstaklega fyrir þessa ítarlegu greinargerð sem hann flutti um endurbætur menningarbygginga sem var fróðlegt að heyra. Út af fyrir sig ekki er tími til að ræða hana hér, en ég vil bæta því við svona af minni hálfu að ég tel að þörf sé á því að málið sé rætt hér þannig að þingmenn geri sér allir ljóst hvað þetta er risavaxið verkefni. Hér er um að ræða verkefni upp á marga milljarða kr. og það er nauðsynlegt að þessi sjóður sé til og að hann sé virkur.

Mér fannst það hins vegar beinlínis spaugilegt þegar hæstv. ráðherra reyndi að réttlæta niðurskurðinn á sjóðnum með þenslunni í Reykjavík og sannast þar hið fornkveðna að hæstv. núv. menntmrh. er eini andstæðingur borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík og kýs að kallast á við þann meiri hluta úr þessum sölum með alveg ótrúlegum hætti eins og þeim að hann hafi skorið niður framlögin til menningarstofnana af því að þær eru flestar í Reykjavík. En svo vill til, hæstv. forseti, að samkvæmt lögunum um sjóðinn er gert ráð fyrir því að hann geti endurbætt menningarbyggingar um allt land þannig að þessar röksemdir ráðherrans eru fjarstæða og auðvitað var þessi sjóður bara skorinn tilviljanakennt niður, en árásin á Reykjavík er athyglisverð.

Hann nefndi Safnahúsið og það er merkilegt og hefur ekki komið fram í þessari umræðu og ég get spurt hann núna eins og á morgun í fjárlagaumræðunni: Hvað er með þessa þjóðmenningarstofnun sem ku eiga að vera þar í því húsi og hefur aldrei verið greint formlega frá í þessari stofnun? Það væri fróðlegt að fara yfir það. Og að lokum: Fallskattur er auðvitað fallskattur af því að menn endurinnrita sig ekki nema af því að þeir hafa fallið. Oftast er það a.m.k. svo.